10.01.21

Við vitum ekki hvort hún ætlaði að éta drenginn. Við vitum bara að það átti að fita hann og Gréta hlýtur að hafa orðið samviskubitin þegar öskrin í þeirri gömlu fuðruðu upp í eldinum. 

Hvernig gat hún verið svona viss? Djöfull þurfti hún að vera viss. 

Ekki nema hún hafi verið siðblind.

 

09.01.12

Í bústað.

Það verður einhver harmurinn þegar Hvolpasveitin klárast og ég þarf að útskýra línulega dagskrá fyrir syni mínum eins og hann sé þriggja ára og ég fjörutíu og fimm.

Ég kláraði einn kexpakka klukkan hálf tvö í nótt. Var andvaka. Mér leið eins og ég væri lifandi þegar hjartsláttartruflanirnar hófust.

 

08.01.21

Áttundi janúar. Elvis Presley hefði orðið áttatíu og eitthvað hefði hann lifað. Sallaður niður af hnetusmjörssamloku og verkjalyfjum á miðjum diskótímanum. 

Faðir minn heitinn var Presleymaður. Svo langt sem það nær. Vil ekki gera hann að einhverjum sérstökum tónlistarunnanda eftir á því það væri einfaldlega ekki rétt. Hann var fremur hlutlaus þegar kom að tónlist en hann hlustaði þó eins og margir ungir menn á Elvis.

Keypti sjötommur í Grimsby, Hull og Cuxhaven, sem geymdar voru í möppu, prýddri mynd af síungu og síbrosandi andliti söngvarans. Löngu týnd eins og gerist oft með svona hluti því það er glingrið sem lifir af flutninga og erfðaskipti. Ekki sjaldgæfar hljómplötur frá sokkabandsárum rokksins. Þær enda á haugunum eða í Góða hirðinum.  

En já. Svo fór Elvis að syngja „fyrir kellingar“, eins og pabbi minn sagði, og þá var hann afskrifaður. Hann fílaði ekki heldur Bítlana eftir ’66 svo það komi fram. Hann vildi, með öðrum orðum, ekkert kjaftæði þegar kom að tónlist. Enga tilgerð. Vildi eitthvað raunverulegt. Stál og hníf. Ekki glimmer og varalit. Lét ekki ímyndunaraflið fara með sig útí einhverja vitleysu. Fast land undir fæturna, takk fyrir. 

… 

Fyrir mína kynslóð er enginn munur á Elvis og Elvis-eftirhermu og þar af leiðandi erfitt að taka tónlistina hans alvarlega. Maður sér bara fyrir sér einhvern „að taka Elvis“ þegar lögin hans heyrast, sem er ekkert alltof oft, og þá er erfitt að sjá hann fyrir sér sem byltingarmann sem hann svo sannarlega var.

Þetta setur hlutina í ákveðið perspektív vilji maður það. En annað var það ekki í bili.

 

 

 

07.01.21

Ég horfi á þetta svona: 

Hvað kom fyrir manneskju sem gert hefur Donald John Trump að leiðtoga lífs síns? Hvað kom fyrir foreldra hennar? Afa? Ömmu? 

Það er eitthvað að og það verður ekki lagað með nýjum forseta sama hversu forsetalegur hann er. Þetta snýst um aðra hluti. Um grundvallaratriðin. Gildismatið. 

Og manni líður eins og einhvers konar endalok séu að nálgast. 

Kvíðnir tímar. 

En hvað getur maður gert?

Maður er góður við börnin sín.

Allt annað er húmbúkk og tilgerð þegar maður býr órafjarri skálmöldinni.

Í búbblunni fyrir austan drekkum við nefnilega kakó og borðum loftkökur. Leyfum kanillhúðuðum hljóðheimi Taylor Swift, sem betrekkir setustofuna, að gleypa okkur eins og vanillubúðing. Það leggur fágaðan skógarilm frá kertinu, birtan hlý líkt og tilgengin Álafosspeysa, þegar við drögum fram spilin. 

Ritstíflustokkurinn biður mig um svonefndan bucketlista. 

Það er einfalt mál. Það sem mig langar að gera áður en ég dey er að strunsa niðrí bæ, í sjálft Sesambakaríið, og biðja um vandræði. Grímulaus.  

– Ha? Hvað áttu við?

– Nú, bakið þið ekki vandræði?

– Nei, það held ég ekki.

– Þú hlýtur að vera nýbyrjuð. Leyfðu mér að tala við Val bakara eins og skot!

Svo ætla ég bara að bíða í rólegheitunum eftir lögreglubílnum og leyfa hlutunum að hafa sinn gang.

 

 

 

06.01.21

Það er auðvelt verk að sitja hér á friðarstóli og hafa skoðun á hinu og þessu. Ekkert mál að setja sig á háan hest. Horfa á heiminn í gegnum skjá og fella dóma. Einfalt. Létt. 

Bý á Reyðarfirði. Á konu, börn, einbýlishús og Subaru. Ég er karlmaður að skríða inn á miðjan aldur, rétt yfir kjörþyngd, ístrunni enn haldið í skefjum en við vitum alveg hvernig það fer að lokum. Enn með hár, meira að segja með lit, en við vitum líka hvernig það endar. Tennurnar upprunalegar fyrir utan þessa einu en verður það þannig í kistulagningunni minni?

Eða munu börn og barnabörn geta fjarlægt góminn í laumi og átt hann til minningar? Stillt honum upp á hillunni í stofunni við hliðina á framandi pottablómi? 

(Þetta eru nú restarnar af honum karli föður mínum)  

Það er ekki gott að segja en ég get gengið um bæinn nokkurn veginn daglega án þess að skammast mín.

Án þess að svo mikið sem roðna. 

„Það var ekki eðlilegt hvað þeir fiskuðu,“ sagði gamli maðurinn þegar hann fékk fréttirnar. Fyrirvaralaust hafði báturinn sokkið og tveir synir fóru í sjóinn. Eru ófundnir enn.

Hugsa stundum um þetta og ekki laust við að það fari geigur um mig.

Enda hef ég ekki verið neitt eðlilega fengsæll.

 

05.01.21

Ég hef skrifað svo að segja upp á dag í heilan mánuð. Ég veit ekki hvers vegna ég geri þetta. Ég held bara að hinn valkosturinn, að skrifa ekki neitt, sé síðri. 

Þetta átti að vera dagbók, eins persónuleg og opinber birting leyfir. Var nýbúinn að lesa dagbókina hans Óskars Árna, sem kom út fyrir jólin, var undir áhrifum en svo sleppir maður tökum á formi og þetta verður bara það sem þetta verður. 

Svo er það ekki leyndarmál (les: það var s.s. leyndarmál en ekki lengur greinilega) að ég fór á ritlistarnámskeið í haust. Er að reyna koma mér út úr skápnum í annað sinn. Það dugar ekkert minna. Líður svo vel í honum. Kósíheit og Birkenstock.

Ég kom úr honum fyrir nokkrum árum og skrifaði bók en fljótlega eftir útgáfu hennar fann ég að hjartað var ekki lengur með í för og áhuginn fór dvínandi. Hafnaði þessu alfarið og kom mér þægilega fyrir í skápnum að nýju. Um þetta gæti ég skrifað nokkuð langt mál. Trúið mér. 

Hætti líka að lesa fagurbókmenntir, las bara facebook og innihaldslýsingar á barnamat. Einu skapandi skrifin fóru fram á samfélagsmiðlum og ég mældi árangur þeirra í lækum. Átti bæði góða og slæma daga. 

En hér er annað uppi á teningnum. Þetta er strictly anti-commercial.

Mitt helsta vandamál í gegnum tíðina – þegar kemur að skrifum – er hvað mér hættir til að taka þau alvarlega og kannski, bara kannski, er ég að reyna venja mig af því núna. Að það sé tilgangur í sjálfu sér að skrifa. 

Ég er meira að segja byrjaður að skrifa í moleskine-bækurnar mínar, svipaðar þeim sem Hemingway gekk með í rassvasanum, sem ég tímdi ekki að nota því þær voru eingöngu fyrir þýðingarmikil skrif. Eitthvað merkilegt. Eitthvað sem stæðist tímans tönn. Klassík sem gæti ratað í næstu bók. Þessi þankagangur hlýtur að vera breytast því í gær skrifaði ég:

Dósir: 467

Plast: 45

Gler: 9

Það kveður greinilega við nýjan tón, heyri ég Egil Helgason segja.

 

 

04.01.21

What event in your life has shaped your world view the most?

En hvaða sýn hef ég á heiminn? Um það er ég ekki alltaf viss og það er lykilatriði. Ég er sjaldan viss. 

Hef áður skrifað einhvers staðar að ekkert hafi haft jafn mikil áhrif á mig og Simpsons-þættirnir sem ég byrjaði að horfa á einhvern tímann um ’90 og það er ekki verri hugmynd en hver önnur. Fyrir það fyrsta horfði ég Simpsons daglega því ég tók þá upp og horfði svo á hvern þátt aftur og aftur og aftur eða þar til ég kunni þá bókstaflega utanbókar. Þetta gerði ég í nokkur ár.

(Svo það sé sagt hef ég ekki séð þátt með Simpsons nokkuð lengi. Frétti bara nýlega að það væri enn verið að framleiða þá. Horfði á einn og hálfan þátt og var svona temmilega hrifinn.) 

Og þetta voru auðvitað engir venjulegir þættir. Maður hafði aldrei séð neitt í líkingu við þetta, maður fór úr Fyrirmyndarfjölskyldu Bill Cosbys (almáttugur…) yfir í þessa disfúnksjónal fjölskyldu þar sem allir karakterar bæjarins voru einhvers konar andhetjur: Drykkjusjúklingar, siðblindingjar, heimskingjar, ofsatrúarfólk og aumingjar af allskonar tagi. Allir nema Lísa og Marge. Konurnar. 

Þjóðfélagsrýnin var skörp en var hvorki til hægri eða vinstri. Þarna var eitthvað annað á ferðinni. Erfitt að festa fingur á það en ég held að það sé ekki tilviljun að Simpsons hafi verið hleypt af stokkunum sama ár og múrinn hrundi. 

Og í þessu lá maður. Maríneraðist í þessum fabríkeraða heimi þar sem sannleikurinn var á reiki og maður beið þess aldrei bætur. Kompásinn laskaður varanlega.

Þannig að: Svarið við spurningunni er fall múrsins. Þetta vissi ég ekki fyrir korteri síðan. Takk kærlega, minn kæri ritstíflustokkur.

 

 

03.01.21

Síðasti dagur frísins. Á morgun vinna og rútína. Þetta hafa verið góðir dagar. Mikið lesið og leikið og við sem fjölskylda erum orðin miklu flinkari en við vorum að slaka á. Leyfum okkur að vera löt og sjáum orðið sífellt meira gildi í að gera ekki neitt. 

What historic moment do you wish you could have attended and why?

Það skömm frá því að segja, verandi fyrrum blaðamaður, að þá hef ég aldrei sóst í að vera á staðnum þegar merkilegir hlutir eru að gerast. Mig hefur stundum langað suður til að taka þátt í mótmælum en ekki nógu mikið greinilega eða verið of blankur. Eða eitthvað. Hef ekki neina afsökun.

Það bara hefur ekki hentað að taka þátt í byltingum! Hef bara verið of upptekinn við að baka súrdeigsbrauð og setja hvítt í vél!

Ég gæti sagt Woodstock. Tónlist hefur verið mitt helsta áhugamál frá táningsaldri og hví ekki að fara með tíma- og ferðavélinni þangað? Er þetta ekki sjálf móðir rokkhátíða?

Fyrst yrði ég hissa. Ekki nokkur spurning. Agndofa yfir umhverfi mínu. Myndi stara á alla nöktu hippana og glápa úr mér augun þegar Hendrix kæmi á sviðið. Ég myndi örugglega skynja orkuna – hvað sem það þýðir – og hvur veit? Kannski færi ég úr lopapeysunni. Hvur veit?

En ég þekki mig. Mér færi að leiðast hávaðinn. Á ég að vera í stuði vegna þess að allir aðrir eru í stuði? Hvaða helvítis stuðfasismi er þetta? Á ég að gapa af því að allir aðrir eru að gapa? Hitinn. Bleytan. Allt of mikið líkamlegt áreiti. Sjónræn mengun alls staðar! Gargandi hippar, leðjugir upp fyrir haus, finnandi sjálfa sig á sýru!

Ég myndi flýja af hólmi, hrökklast í burtu. Fengi mér göngutúr einhvers staðar í skóginum, einhvers staðar fjarri sögulegum viðburðum.

Fari þeir norður og niður. 

Um kvöldið fyndi ég klúbb og nyti tónlistar í litlum hópi þar sem fólk sæti, drykki og japlaði á salthnetum eins og siðmenntaðar manneskjur. Miles Davis á sviðinu og með honum a.m.k. Ron Carter og Tony Williams. Já, og auðvitað Herbie. Hvernig gat ég gleymt honum? Það má reykja og það finnst mér notaleg tilhugsun þótt ég fengi mér ekki sjálfur.

Fengi mér aftur á móti sæti hjá einhverju pari og í pásunni myndi ég spjalla við það. Því það er það sem ég, þessi ímyndaði og bláedrú ég, geri. Sest hjá ókunnugu fólki og spjalla við það. Eitthvað þarf jú að gerast í þessari fantasíu. 

Þetta væru frjálslyndir Ameríkanar á þrítugsaldri. Síðhærð og klædd tískufötum þessa tíma. Þau myndu spyrja mig út í hreiminn en væru engu nær þegar ég segðist vera frá Íslandi. Fyrir tíma Bjarkar og Bláa lónsins, skiljiði. Enginn veit neitt í sinn haus. Nálægt Danmörku, segi ég til útskýringar og þau væru aðeins nær. Þekkja til Evrópu að minnsta kosti og langar til Ítalíu í brúðkaupsferðina sína. Ef þau ætla að gifta sig. Eru enn að gera upp hug sinn. Finnst þetta eitthvað svo square eins og þau segja. Of borgaralegt (þau skilgreina sig sem Maóista). Þau vita auðvitað ekki að þau verða gift fyrir áramót og skilin fyrir 1980 þegar hún yngir upp enda vonlaust að búa með honum. Maðurinn gengur í eitthvað költ og til hans hefur ekki spurst síðan. 

Ég myndi benda á hálsmenin þeirra sem væru samstæð. Litlir, rúnaðir steinar. Grænir. Sennilega jaspís. Þau fengu þetta á verndarsvæðum indiána í Arizóna er þau óku Route 66 eftir útskrift. Og viti menn: Það læknar psoriasis! 

Maðurinn tæki af sér hálsmenið og rétti mér. Útrétt höndin væri öll útí útbrotum og í andartak kæmi yfir mig löngun til að kroppa í hrúðrið.

Svo myndi ég skála við hippana í vatni og sítrónu og legði við hlustir þegar bandið teldi í Round Midnight.

Allt gerðist þetta fjarri sögulega hávaðanum á Woodstock.

 

02.01.21

Describe what yout life would be like if you were 100 years earlier?

Ég gef mér að ég hefði orðið Norðfirðingur. Fæddur árið 1875 og ég væri af sömu stétt og stöðu og forfeður mínir. 

  • Ég hefði búið í torfbæ. Það eru ekki nema þrjár kynslóðir á milli einbýlishússins við Sunnugerði á Reyðarfirði og torfbæjarins í Naustahvammi þar sem langamma mín, Færeyingurinn Kristjana Jacobsen, átti heima. 
  • Hefði ég ekki lent í einhverju slysi sem barn og tapað heilsu hefði ég orðið verkamaður til sjós og lands. Ég er kominn af fátæku fólki.
  • Ég hefði borðað meiri fisk. Gleymi því ekki hvað Siggi afi (var afabróðir svo það komi fram) varð hneykslaður þegar ég, sirka tíu ára, neitaði að borða steinbít. Hafði engan húmor fyrir því.
  • Ég hefði orðið sannfærður kommúnisti eftir miðjan aldur. Ekki annað hægt í Neskaupstað. Það vantar ekki mikið upp á þetta hjá mér svosem en sökum velsældar hefur Skarfakynið (jújú, einn leggur ættarinnar er með þetta fína ættarnafn) færst til hægri. En ég er svag fyrir sósíalisma. Viðurkenni það. 
  • Ég hefði gifst ungur stelpunni í næsta húsi, byrjað fyrr að eignast börn og átt fleiri. Hefði hrúgað þeim niður en sökum þreytu og tímaskorts hefði ég ekki kynnst þeim almennilega. 
  • Mögulega hefði ég átt mér tómstundir en nokkrir forfeður mínir áttu sér áhugamál, merkilegt nokk. Einn þeirra málaði og tók myndir. Hef séð þær og þær eru bara nokkuð fínar. 
  • Svo er það spurning hvaða legg föðurfólksins ég hefði tilheyrt. Færeyski leggurinn er langlífur og hraustur. Þegar Siggi afi fór á hjúkrunarheimili á tíræðisaldri tók hann engin lyf og starfsfólkið hélt að hann væri að ljúga. Ég hefði getað orðið eins og hann, hundrað ára gamall. Upplifað nokkrar styrjaldir og dáið trúlaus í kringum 1980. Ekki annað hægt þegar Brunaliðið trónir á toppi vinsældarlistans. Mín síðustu orð hefðu orðið: Hvað varð eiginlega um Inga T. andskotinn hafi það? Já, ég hugsa að ég hefði orðið mússíksnobb í öllum lífum. Ímynduðum og raunverulegum. 

Kúkurogpiss-húmorinn er í algleymi hér á heimilinu og Elías hefur tekið við kyndlinum. Saman eru þau deadly duo. Ég ákvað að nýta þetta sem tækifæri í tónlistaruppeldinu og spurði Iðunni hvort hún hefði heyrt í hljómsveitinni Rass. Hún svaraði: 

– Nei, en ég hef heyrt talað um hljómsveitina Kiss.

 

01.01.21

Það er runninn upp nýársdagur og ég er fyrstur á fætur. Það heyrist enn í flugeldum hér nálægt mér. Einhver hress sem situr einn að flugeldapokanum. Leikur að eldi, segi ég. Leikur að eldi. Hann gæti átt verulega geðvondan og timbraðan nágranna. 

Ég hafði einu sinni trú á áramótum sem tímamótum. Að maður gæti notað þau sem tækifæri til að gera breytingar. Í gegnum tíðina hafa þetta verið, í mínu tilviki, hlutir eins og tóbaksnotkun og líkamsþyngd. Þetta dæmigerða.

En þegar upp er staðið er þetta bara eins og hver annar venjulegur dagur. Auðvitað er hægt að gera breytingar. Hætta einhverju eða byrja á einhverju og þá getur þessi dagur verið jafn góður og hver annar til að hefjast handa en hlutirnir verða hversdagslegir eftir fáeina daga og gamlir vanar eru seigir. Þetta vitum við. 

Hef því meiri trú á hamförum og tækifærunum sem í þeim felast. Krísunum sem allir ganga í gegnum. Eitthvað sem hristir upp í manni og fær mann til að stokka spilin. Einhver atburður sem hendir mann, getur verið snjóskriða, gæti verið slys, skilnaður, skandall á þorrablóti, veikindi, veira eða dauði. Getur verið hvað sem er svo lengi sem það sjokkerar þig og jafnvel misbýður þér – hver ertu eiginlega, maður!?

Eitthvað sem veitir almennilega viðspyrnu svo þú getir tekið stökkið (jújú, þetta er nátengt myndlíkingunni um botninn úr alkafræðunum.)

En þetta er auðvitað ekki nóg heldur. Þetta er bara tækifærið í hörmungunum og síðan byrjar vinnan fyrir alvöru. Þá hefst lestur góðra bóka og öll litlu skrefin sem þarf  að taka sem virka hundómerkileg. Í það minnsta ómerkilegri en að fara í búð annan janúar og kaupa sér göngufatnað upp á hundrað þúsund krónur. Ég er meira að hugsa um hluti eins og:

Í dag ætla ég að búa um rúmið mitt. Eða: Í kvöld ætla ég að kyssa börnin mín góða nótt. 

Og ég er auðvitað ekki að segja ykkur neitt nýtt. Þetta er klisja og þetta er tepokaspeki.

Þetta meikar bara sens. Í minni sjálfshjálparbók í það minnsta. 

Gleðilegt ár!