Mánudagsmorgunn
Börnin vilja ekki vakna og ég vil ekki vekja þau.
Hinn fullkomni díll.
…
Mamma átti synina sína á fjórum árum: 1971, 1972 og 1975. Árin sem fylgdu voru bestu árin í lífi hennar, sagði hún mér einhvern tímann en þegar ég bið hana um að rifja upp hluti sem gerðust á fyrstu árum ævi minnar gríp ég í tómt. Hún ber við minnisleysi.
Það sama átti við um pabba minn sem gat ekki rifjað upp bernskubrekin mín í brúðkaupsveislunni.
„Jón minn,“ sagði hann við mig eftir veisluna, afsakandi. „Ég man eftir Halldóri bróður þínum en svo rennur þetta allt saman í einn graut. Ég man ekki hver ykkar gerði hvað.“
Þetta voru bestu árin í lífi þeirra en þau mundu ekki eftir þeim.
Þetta voru bestu árin í lífi þeirra enda mundu þau ekki eftir þeim.
…
Allt í einu varð mér hugsað til verkstjóra sem ég hafði í einhverri sumarvinnunni á síðustu öld.
Góður kall en gat verið skapvondur og sveiflurnar voru ekki alltaf fyrirséðar, hann gat rokið upp formálalaust og látið mann heyra það en augnabliki síðar var hann ljúfur sem lamb. Þurfti bara rétt að bregða sér afsíðis og ná andanum. Kom aftur sem nýr maður.
…
Eitt sinn vorum við úti að vinna í blíðskaparveðri. Stóðum þarna nokkrir í grænu vinnusloppunum okkar á bæjarbryggjunni að rimpa saman loðnunót. Hann gekk á milli manna og tók út verkið en eitthvað leist honum illa á saumaskapinn minn. Reif af mér nálina og stuggaði mér úr stað þar sem ég stóð við búkka. Ekki harkalega en ekki vingjarnlega heldur. Svo sagði hann afundinn:
– Hvernig er það, læra menn ekkert gagnlegt í háskólanum þarna í Reykjavík?
Mér datt nokkur hnyttin svör í hug en þagði. Það var ekki minn stíll að svara yfirmanni og ég horfði á hann, svolítið niðurlægður, klára verkið sem mér hafði verið treyst fyrir. Það fór ekki framhjá mér að vinnufélagarnir glottu til mín.
Svo þreif hann netið af búkkanum, nýsaumað og fínt, og lét það falla á bryggjuna. Það vildi hinsvegar ekki betur til en svo að einn möskvinn rataði beint á netanál sem hann geymdi í vasa vinnusloppsins, kræktist í hana með þeim afleiðingum að innihald vasans tæmdist fyrir framan okkur. Einir tíu sígarettustubbar eða svo.
Sem hefði svosem ekki verið neitt tiltökumál nema fyrir það að hann var fyrir lifandis löngu hættur að reykja og hafði verið með allskyns yfirlýsingar á kaffistofunni fyrr um daginn þegar óhófleg nettóbaksneysla yngri starfsmanna ofbauð honum.
Hann horfði í kringum sig, væntanlega til að athuga hvort einhver hefði veitt þessu athygli, og svo á mig. Við litum á hvorn annan, augliti til auglitis, í þýðingarmikið brot úr sekúndu áður en við hjálpuðumst að og týndum upp stubbana. Vitandi báðir að staðan var gjörbreytt.