Kannski var það til að hækka spennustigið einn hversdagslegan þriðjudag en þegar ég sá manninn, svo felulitaðan frá toppi til táar að það er með nokkrum ólíkindum að ég hafi rekið augun í hann, ákvað ég að ná ljósmynd af honum.
Og þegar ég segi felulitaðan þá var hann s.s. í camo eins og sagt er. Þekktur veiðimaður hér um slóðir og svo mikið að gera hjá honum við að leiðsegja uppá fjöllum að það tekur því ekki fyrir hann að skipta yfir í borgaralegan klæðnað. Líf hans er orðið eitt samfellt veiðitímabil og það má segja með nokkurri vissu að hann sé að lifa drauminn. Einn af þeim heppnu í þeim skilningi.
Talandi um draum. Ég hélt mig hlyti að vera dreyma þegar ég sá hann eins og skæruliða að skoða kexúrvalið í Krónunni. Eitthvað svo súrrealískt og ég vissi undireins að ég þyrfti að eiga mynd af þessu. Þetta yrði að öllum líkindum hápunktur dagsins.
…
Ég þurfti að læðast nær og það var mikilvægt að hann ræki ekki augun í mig því við þekkjumst frá fornu fari. Unnum saman sem blaðamenn í nokkrar vikur fyrr á öldinni og vorum um tíma ágætir kunningjar. Ég vildi ekki uppstillta mynd. Vildi hafa þetta náttúrulegt. Felulitaður maður í ónáttúrulegu umhverfi. Ég áætlaði í huganum að ég væri með mynd í höndunum sem gæfi fimmtíu like á insta og sennilega yfir hundrað á face.
…
Ég laumaði mér inní eþnísku deildina og skaut mér síðan leiftursnöggt á bak við stæðu á miðju gólfi þar sem raðað hafði verið upp Pepsi Max-rútum í sirka eins og hálfs meters hæð. Með því að færa til nokkrar rútur, endurraða eins og legói, var hægt að útbúa einskonar skotbyrgi og svo skildi ég eftir op þar sem ég gat athafnað mig. Jújú, það var hlaupinn smá Oswald í mig á þessu stigi málsins. Skal ekki neita því.
Hann var hættur að skoða kexið. Hafði fært sig og var núna að skoða krydd og hélt á tveimur pökkum af kjötkrafti. Mér sýndist þetta vera nautakraftur og eitthvað annað. Mögulega fiskikraftur en það gæti þó hafa verið missýn því flestir sveitamenn sem ég þekki borða ekki fisk. Finnst það ekki vera matur.
Ég var kominn með hann í sigtið en tímdi ekki að hleypa af. Horfði bara á hann og mér fannst svo merkilegt að þarna væri hann, algerlega í sínum heimi að skoða krydd, ekki með nokkra einustu hugmynd um að hann væri skotmark. Að veiðimaðurinn yrði brátt veiddur. Hversu hversdagsleg síðustu andartökin í lífi mannsins geta verið, skoðandi súpukraft í meðalstórri matvöruverslun á Reyðarfirði þegar allt í einu…
En það var þarna sem verslunarstjórinn bankaði harkalega í öxlina á mér og spurði mig hvern andskotann ég væri að gera, að það væri STRANGLEGA bannað að taka myndir í versluninni og þar fyrir utan væri ég greinilega að mynda aðra viðskiptavini og hvort þá ég hefði aldrei heyrt talað um persónuvernd.
Ég hafði ekki verið skammaður nákvæmlega svona í nokkra áratugi, sennilega ekki síðan Binni í bókabúðinni gómaði mig við að hnupla skopparabolta og hótaði að hringja í lögregluna. Ég margbaðst afsökunar en gaf engar útskýringar enda hafði ég ekki hugsað útí það hvernig ég gæti logið mig útúr þessu yrði ég gómaður. Var ekki með neitt plan B sem var svolítið amatöralegt eftir á að hyggja.
Nokkrir viðskiptavinir veittu þessu athygli, þar á meðal veiðimaðurinn sem vinkaði mér vinalega og þar með var útilokað að ná náttúrulegri mynd af honum. Hefði ég haldið þessu til streitu, sem ég gerði vitaskuld ekki, hefði hann staðið brosmildur fyrir framan kryddrekkann, hendur í vösum, og það var nákvæmlega þannig mynd sem mig langaði ekki að eiga. Myndin mín átti að vera eðlileg. Í anda Attenborough. Úthugsað listaverk.
Ég yfirgaf verslunina vonsvikinn en hafði þó fengið mitt kikk. Svo langt sem það nær.