What were you afraid of as a child?
Ég var hræddur við gömlu konuna í íbúðinni við hliðina á okkar. Við bjuggum í raðhúsi og ég lék mér oft, einhverra hluta vegna, í garðinum hennar.
Ein af mínum fyrstu minningum er svona:
Ég er hluti af hóp. Man eftir okkur bræðrum og strákunum í næstu íbúð. Líka þrír bræður og sá yngsti þeirra ári yngri en ég. Það er milt veður, skýjað, og við erum léttklæddir. Vor ef ekki sumar. Boltinn okkar hefur lent upp á svalirnar hjá henni og hún er ekki heima. Eldri bræðurnir í hópnum eru að lyfta þeim yngsta upp á svalirnar. Þetta hefði getað endað illa en endar bara þannig að við sjáum gömlu konuna nálgast eftir götunni. Hún er að flýta sér, hefur örugglega séð okkur og talið okkur vera að brjótast inn. Sem við vorum að vissu leyti að gera. Við hverfum í einum hvelli og þetta var í minningunni eftirmálalaust.
Samt er ég hræddur við þessa konu og það endist öll þau ár sem ég bý í raðhúsinu.
…
Svo batnar fjárhagur fjölskyldunnar og ég flyt í nýbyggt einbýli. Ég gleymi óttanum.
…
Hann rifjast upp nokkrum árum síðar þegar ég geng í hús og sel fólki bæjarblaðið. Ber að dyrum á húsi einu við Þiljuvelli og viti menn: Gamla konan kemur til dyra. Hún kaupir blað, brosir til mín og biður kærlega að heilsa foreldrum mínum.
Ég tek skjálfhentur við fimmtíu kallinum.
…
Börnin biðja um hund
eiginkonan biður um hund
er viðbætandi
fleiri
biðjandi augum?