19.01.21

Sykurhúðað bjartsýniskast í janúar

Nóttin líflaus eins og staðið kók í glasi

vindurinn gnauðar og bréf utan af súkkulaði strýkst eftir götunni

tekur loks stökkið á haf út

það eru fyrirheit um Egils-Appelsínugulan morgun ef veðurspá gærkvöldsins rætist

og hvur veit nema dagurinn verði límonaðibjartur?

Á kaffihúsi tregans, einhvers staðar á Austfjörðum, settust niður fjórir menn að sunnan og báðu um matseðilinn. Veitingamanninum var brugðið enda ekki vanur að fá gesti um þetta leyti dags, eða gesti yfirleitt, og sagði þeim þurrlega að það væri enginn matseðill, hann gæti hinsvegar boðið þeim piparsteik eða plokkfisk. „Og ef það er ykkur ekki að skapi gæti ég svosem rætt við kokkinn,“ bætti hann við og ræskti sig.  

„Viltu þá athuga með grænan kost fyrir mig?“ spurði sá yngsti í hópnum, mildur í rómnum. 

Veitingamanninum varð aftur brugðið. Horfði stíft á spyrjandann og sleppti ekki augnsambandinu þegar hann kallaði fram í eldhús: 

„Sigríður! Hingað eru komnir þrír menn og ein grænmetisæta. Útbúðu eitthvað handa þeim!”

 

jonknutur