16.01.21

In what ways do you procrastinate and how do you justify it to yourself?

Úff…þarna fórstu með það, kæri stokkur. 

Það tók mig t.d. tíu ár að klæða bílskúrinn. Eða s.s. níu ár og tíu mánuði. Flotun og klæðning tók tvo mánuði. 

Nokkur verkefni hér innanhús hafa heltekið mig. Sólpallasmíðin, svo dæmi sé tekið. Það verkefni hófst í byrjun júlí 2013 og síðasti naglinn var rekinn í byrjun september. Sama ár. Tek það fram því mér leið eins og verkið væri endalaust. Tek það líka fram að ég var ekki einn.

Bróðir tengdamömmu minnar, bátasmiður, var yfirverkstjóri og tók út verkið með reglulegu millibili. Leit yfir smíðina, með tannstöngul í munnvikinu og gaf frá sér hljóð sem gátu þýtt hitt og þetta. Stundum benti hann á eitthvað og spurði:

– Jájá, þú ætlar semsagt að gera þetta svona? Jájá…

Svo gekk hann um dekkið og röntgenskoðaði eitthvað annað. Um leið og hann var farinn skrúfaði ég í sundur það honum leist greinilega ekkert á og byrjaði upp á nýtt. 

Svo var tengdafaðir minn hér öllum stundum og ég hefði ekki getað klárað þetta án hans. Og svo Jón Hafliði, vinur minn, guð blessi þig… 

(Ég er uppi á sviði núna, skiljiði, stend við ræðupúltið og þetta er löngu tímabær þakkarræða sem ég held fyrir tómum sal. Ég er klæddur í smóking og tárfelli lítið eitt. Við það að fara hágrenja.)

Og loks hann pabbi heitinn. Hann mætti á seinni stigum og puðaði með mér við að klæða dekkið. Á hnjánun, svitadropar á nefinu og alveg eins og ég:

Vildi ekki fara í pásur. Bara klára þetta helvíti svo hægt sé að gera eitthvað annað. Setja fætur upp í loft og opna bók. Var mættur hér um áttaleytið og það var unnið stanslaust til fjögur. Tekið eitt stutt hádegishlé svo hann gæti skotist í Krónuna og keypt kartöflur. 

Drífum þetta helvíti af. Lífsmóttó föður míns. 

Þetta gerðum við þrjá daga: Smíðuðum, smíðuðum, smíðuðum. Svitnuðum, svitnuðum, svitnuðum. Stundum, stundum, stundum.

Svo fór hann í frí til útlanda í nokkrar vikur og svo kom hann heim. Já, og svo dó hann. 

Rétt áður en það gerðist komu hann og mamma í heimsókn og hann skoðaði fullgerðan sólpallinn. Skjólveggurinn minnti á skipsskrokk og dekkið á þilfar skútu. Allt var tipptopp. Þetta var, þó ég segi sjálfur frá, glæsilegur pallur.

Og pabbi minn var stoltur af stráknum sínum. Það fór ekkert á milli mála og ég varð hissa á sjálfum mér, hvað ég varð innilega ánægður með að pabbi minn skyldi vera ánægður með mig. 

Sú hugsun ásótti mig eftir andlátið að hann hefði mögulega getað dáið hér á pallinum. Ég get eiginlega ekki hugsað það til enda, ykkur að segja. 

En það gerðist ekki. Sem betur fer. Fyrir mig.

Og kannski er þetta góð ástæða til að fresta. Lífið liggur alltaf við. Ég gæti dáið ef ég byrja á þessari skýrslu. Vil ég það? Eða þá einhver annar og ég vil það ekki heldur.

Nei, segi ég. Ég geri þetta á morgun. Eða hinn.

(Andvarp.)

 

jonknutur