Einstaka sinnum, afar sjaldan, les ég eitthvað á samfélagsmiðlum sem hlægir mig. Ég er nefnilega yfir þetta hafinn, sjáiði til.
Á Norðfirði komst kvittur á kreik um sóttarvarnarbrot sem reyndist svo enginn fótur fyrir. Þá sagði virkur í athugasemdum:
Þú rekur við inní sveit og þá ertu búinn að skíta á þig útá vita. Held að fólk sé að verða geðbilað þarna.
Kjarnyrt íslenska er svo hressandi! Og ef þú hrifsar þetta úr samhenginu ertu kominn með þetta fínasta ljóð. Myndi breyta þarna í hérna. Meiri innilokunarkennd þannig. Meiri noja.
…
Describe 5 easy ways to free up some bandwidth in your life.
Ég hef nú þegar gripið til nokkurra ráðstafana sem losa um nokkrar mínútur á hverjum degi.
- Ég er minna í símanum en þegar ég er of mikið í símanum tengist það minni eigin virkni á samfélagsmiðlum. Ég set eitthvað inn og bíð svo eftir viðbrögðum og bregst við þegar þau (loksins) koma. Því minna sem ég set inn þeim mun minna er ég í símanum. Því að hanga á netinu er eins og að borða sig saddan á veitingastað en halda samt áfram að skoða matseðilinn, eins og einhver orðaði það.
- Nú, ég hef áður sagt frá því að ég drekk ekki lengur áfengi. Það sparar tíma. Alveg böns af tíma. Segir sig sjálft.
Talandi um það. Ég hitti mann í gær í vinnunni sem sagði mér frá plönum sínum um að verða sommelier eins og það er kallað eða kjallarameistari líkt og það útleggst á íslensku. Hann á nokkur ár eftir á vinnumarkaði og ætlaði að nýta tímann sem eftir væri í að kenna fólki að drekka vín.
Áhuginn hafði kviknað í Ástralíu fyrir tuttugu árum. Hann var búsettur þar og hafði lítið fyrir stafni eftir vinnu þegar hann fór að venja komur sínar á vínkynningar í bænum á þriðjudagskvöldum. Og þannig kviknaði áhuginn smám saman og ágerðist hægt og rólega með tilheyrandi vínsöfnun, lestri vínbóka, kaupum á allskyns aukahlutum og öllu öðru sem fylgir svona áhugamáli.
Nú þetta finnst mér ekki vera tímasóun. Þetta er til fyrirmyndar. Allar ástríður eru það.
Ég spurði hann talsvert útí þetta enda fannst mér þetta í raun og veru áhugavert. Vín eru forvitnileg, þau eru eins og kaffi (sem ég er alls ekki hættur að drekka). Þau eru kúltur, heimur út af fyrir sig, og það má endalaust spá og spekúlera í hlutum sem hvíla á einhverjum raunveruleika: Vinna, pælingar, veðurfar, jarðvegur og svo framvegis og framvegis. Svo ekki sé minnst á viðtakandann sjálfan sem skynjar vínið ekkert síður en drekkur. Notar tunguna og munninn, augun og nefið.
(Í glasinu dumbrauður sannleikur
sólvermdra hlíða)
Að bragða vín og drekka það er ekki sami hluturinn. Á þessu er eðlismunur.
Allavega. Hvað um það.
Maðurinn bauðst til að gera mig að meðlimi einhvers leynihóps á netinu þar sem menn spá og spekúlera í víni. Hann sá í mér einhvern sálufélaga (drykkjufélaga?) og ég sagði, eiginlega í fljótfærni, að ég drykki ekki áfengi, gaf mér sumsé að það væri forsenda þess að taka þátt í svona félagsstarfi. Ég bætti um betur og sagðist vera hættur að drekka áfengi og það er ekki það sama og að segja: Ég drekk ekki áfengi.
Þá sagði hann:
– Það er sennilega best að ég hlífi þér við þessu þá.
Það var einmitt það.
…
Sko. Ég skil hann. Skil hann mjög vel. Þetta er nefnilega einhvern veginn svona:
Líkt og ofdrykkjumenn eru þeir sem drekka ekki og hafa aldrei drukkið varhugaverðir. Mögulega siðblindir. Allavega eitthvað bilaðir. Kannski ekki mikið en bilaðir samt. Í hverju bilunin er fólgin er ekki gott að segja en það er ástæða til að óttast þá. Því hvað ætla þessir menn að gera þegar aðrir liggja brennivínsdauðir á gólfinu allt í kringum þá? Hvað ætla þeir að gera?
Nú og svo hitt. Sá sem er hættur að drekka á sér fortíð. Og það getur nú þýtt ýmislegt skal ég segja ykkur. Mögulega drakk ég frá mér eiginkonu og börn eða kannski sveik ég undan skatti, rændi starfsmannasjóðinn, já eða kúkaði á mig uppá sviði í miðjum þorrablótsannál. Drap mann með skóflu. Júneimit.
Og það var nákvæmlega sá svipur sem ég sá bregða fyrir í andliti mannsins þegar ég missti þetta útúr mér.
Í hans huga á ég mér fortíð og ef ég væri hann myndi ég grennslast fyrir um mig.
Áður en stofnað er til frekari kynna.