Skipt um peru

Þegar ég gleymi því að setja heddfón á höfuðið á leið minni í vinnuna get ég séð að það er lágskýjað og fjörðurinn blýgrár. Norðaustan, hugsa ég, án þess að vita það. Ég hef ekki hlustað á veðurfréttir og ætla ekki að hlusta á þær en þetta er allt saman mjög svo kunnuglegt. Elritréð í garðinum mínum veit þetta líka og felldi lauf í nótt. Böns af þeim.

Það er að koma haust. 

Klukkan er tíu mínútur í sjö að morgni og fólk er farið að tínast í vinnu. Stundum týnist það líka í vinnu.

Umferðarniður á Reyðarfirði: Væri ég blindur gæti ég samt dregið þá ályktun að það hafi rignt í nótt. Veghljóðin eru þannig. Ekki að ég þurfi að beita neinni ályktunarhæfni. Ég sé ágætlega og sé það til dæmis á hnakknum á hjóli dóttur minnar að það hefur rignt í nótt.

Þá þarf ég ekki að vökva. Þá þarf ég ekki að þrífa bílinn. 

Ég geng áleiðis niður bæ með tölvutöskuna á bakinu og mér datt í hug að skrifa eitthvað í vasabókina mína en innblásturinn er skammvinnur og hugsanir um eitthvað sem gerast þarf í vinnunni, eins og skot, kæfa þessa tilraun í fæðingu. Innblásturinn rann sitt skeið á sirkabát sjö sekúndum. 

Ég heyri fólk tala saman þegar ég geng fram hjá húsi sem liggur við aðalgötuna. Mér heyrist þetta vera pólska og ég velti fyrir mér í andartak, áður en næsta skynjun og næsta hugsun tekur við, um hvað þau séu að tala. Mér dettur ekkert sniðugt í hug. Þau eru eflaust bara að tala um þetta venjulega, að það þurfi að fara í búð, “ekki gleyma hleðslutækinu eins og þú gerðir í gær”, hver ætlar að skutla í afmælið. Já, og hver kláraði eiginlega AB-mjólkina? Og var búið að losa stífluna inni í þvottahúsi eins og búið er að marglofa? 

Við brúnna slær bakaríslykt fyrir vitinn. Fyrir utan ilminn af kaffinu og sýrlensku handsápunni sem ég notaði í morgun er þetta fyrsti ilmur dagsins og sá besti til þessa.

Allt í einu langar mig að byrja reykja pípu aftur.   

Þegar ég gleymi því að setja heddfón á höfuðið sé ég ljósaperu blikka inni í vöruskemmu handan við bakaríið og hugsa með sjálfum mér hvort hún hafi verið biluð lengi, hvort ég hafi hreinlega ekki tekið eftir henni og hvort menn ætli í alvörunni ekki að fara skipta um peru.

 

 

 

Í Mjóafirði

Inni í Sólbrekku les ég um forfeður mína í gamalli bók. Þau bjuggu á Krossi um tíma, hér hinum megin í firðinum, bæ sem fyrir löngu er farinn í eyði og einungis tóftirnar eftir. Skilst mér. Þangað hef ég aldrei komið þótt það hafi lengi verið á langtímaplaninu. 

Þetta var fátækt fólk með öllu sem því tilheyrir á gamla Íslandi og það sem ég les er frásögn af ekta íslenskum barningi.

Kuldi og hungur. Og svo framvegis.   

Nútímamenn segja að geðheilsan sé manns einkamál, þú þurfir bara að temja þér jákvætt hugarfar, stunda innhverfa íhugun, jóga, borða kolvetnasnautt fæði og gera tilraunir með ayahuasca.

Segðu þetta við fátækt fólk. Segðu þetta við fólk sem lætur börnin frá sér. 

Langalangafi minn, Jónas Þorsteinsson, endaði á Norðfirði og bjó þar í húsi sem kallaðist hinu kaldranalega nafni “Harðangur”. Þar stundaði hann grasalækningar meðfram sjómennsku og öðrum tilfallandi verkastörfum í landi. Og hann orti líka og fékk viðurnefnið Skáldi. 

Það kemur fram í bókinni sem Villi á Brekku skrifar um Mjófirðinga að langalangafi minn hafi sjaldnast gefið sér tíma til að yrkja. Þið vitið: vinnan og baslið, svo maður gleymi ekki þunglyndinu sem hrjáði hann og ég, verandi yfirmáta sjálfhverfur, hugsa um mína eigin stöðu á meðan ég sötra kaffi inni í Sólbrekku.

Af svona fólki ertu kominn. Fátækt fólk sem þraukaði. 

Mundu þetta.

Mundu þetta þegar þegar þér finnst þú vera ættsmár og einn.  

 

Minnisbrot héraðsfréttamanns

Stundum hef ég enga lyst á að skrifa en geri það samt. Kalli Th., minn fyrsti ritstjóri, orðaði þetta svona:

“Stundum verður maður að míga þótt manni sé ekki mál.”

Við unnum saman á vikublaðinu Austurlandi frá janúar 2000 og fram á sumarið þegar hann hætti og fór aftur suður eftir einhvers konar hvíldarinnlögn fyrir austan. Við kláruðum blaðið á þriðjudagskvöldi, stundum var komið fram yfir miðnætti þegar við ræstum prentarann út og réttum honum diskettu með árangri dagsins. 

Og iðulega var síðasta verk ritstjórans að skrifa leiðara og eðlilega var maðurinn andlaus eftir heilan dag af héraðsfréttaskrifum. Ekki alltaf mest gefandi starf í heimi verður að segjast, langoftast lítið í fréttum og það sem var að frétta var sjaldnast mjög spennandi. Þá lærði maður að harka en mín skilgreining á harki er þessi: Að gera sér mat úr öllu. Að búa t.d. til “æsifrétt” úr bilaðri neyðardyr í íþróttahúsinu eða eitthvað í þeim dúr.   

En á þriðjudagskvöldi, eftir kvöldmat (oftast harðfiskur minnir mig), dæsti Kalli, opnaði bjór, kveikti sér í sígarettu, fann einhvern þráð til að rekja og vélritaði sirkabát fimm hundruð orð. Fór heim til sín á Stöðvarfjörð, slökkti á símanum og svo hittumst við aftur á mánudagskvöldi tæpri viku síðar og endurtókum leikinn, “hræktum” einu stk. héraðsfréttablaði úr okkur á sólarhring eða svo. Í millitíðinni tókum við Erla Trausta við símtölum frá lesendum og eigendum blaðsins. Kalli var nefnilega gæddur þeirri náðargáfu, leyfi ég mér að segja, að móðga fólk svona eiginlega alltaf alveg óvart. Honum virtist ekki detta það til hugar að fólk tæki skrifin hans nærri sér. Held að hann hafi hreinlega reiknað með að fólki fyndist jafn leiðinlegt að lesa leiðarana og honum fannst að skrifa þá.

Það var misskilningur því fólk var vant því að lesa “hefðbundið” héraðsfréttablað þar sem tíðinda- og tilveruleysið var oftast nær algert. Lesandinn tekinn á flug yfir skýin, útsýnið laust við alla tilbreytingu og þú varst skilinn eftir með þá tilfinningu (þegar þú lagðir blaðið frá þér í ruslafötuna) að engar fréttir væru góðar fréttir. Að það væri deginum ljósara, svo ég vitni í fræga bók, að við lifðum í hinum besta heimi hugsanlegra heima og allt sem gerðist miðaði til góðs! 

Ekki misskilja mig: Ég hef lært að meta “venjuleg” héraðsfréttablöð og les Austurgluggann minn upp til agna en þarna, veturinn ’99-´00, var allt í einu kominn maður við ritvélina sem hafði skoðun á þorrablóti Alþýðubandalagsins í Neskaupstað. Þetta var óheyrt. Og náttúrulega óheyrilega spennandi! Ég segi það og meina: Þarna, nákvæmlega þarna, kviknaði áhugi minn á því “að dvelja í félagsskap orða” eins og skáldið sagði og þið bara verðið að afsaka tilgerðina, takk fyrir.  

Það var frábær skóli að vinna með Kalla þótt vinnan hafi ekki alltaf verið skemmtileg. Ég mun hvetja bæði börnin mín til að prófa blaðamennsku því þú lærir tvennt sem mun alltaf gagnast þér:

  1. Að harka – þ.e. búa til eitthvað úr nánast engu. 
  2. Þú lærir að hringja í fólk. Merkilega mörgum finnst það erfitt en í starfi þar sem þú hringir tuttugu símtöl á dag venst það furðu fljótt. Í dag finnst mér bara erfitt að hringja í iðnaðarmenn!

Jæja. Mér var ekki mál en alltaf tekst manni að kreista úr sér nokkra dropa. Manni leggst alltaf eitthvað til, sjáðu til, þökk sé þessu hálfa ári á vikublaðinu Austurlandi, þarna um aldamótin þegar við notuðum enn þá diskettur og blaðamenn fengu sér bjór og sígó á vinnutíma.     

 

Þú baðst um iphone en ég sagði nei

Því ég vil ekki að þú gangir niður bæ með hvítan tappa í eyranu og missir af niðnum í Búðaránni. Þú gætir haldið að lífið væri grípandi viðlag með Harry Styles.

En það, elsku barn, er bara allskostar ekki rétt.

Já, barnið mitt, pabbi þinn passar vel að leggja innskóna, þessa sem tók tíu ár að þróa á tilraunastofu í Massachusetts, á hilluna eftir klukkan þrjú á daginn og hann gengur berfættur á flísunum fram að háttatíma. Þreytan í iljunum er bara áminning um léttinn þegar hann rennir sér í þá aftur klukkan fimm að morgni.

Því lífið, elsku barn, getur verið hart og fyrirgefur ekki alltaf bylturnar.

Það er líka súrt eins og skyrið sem pabbi þinn borðar og þess vegna sagði hann nei við iphone og skyri sem bragðast eins og ostakaka. Lífið er ekki alltaf dísætur eftirréttur. Stundum er það niðursaltað og pæklað. Eins og bútungur.

Og sængin hans er þunn og sjampóið ilmar ekki og vekjaraklukkan hans er hliðræn og kaffið hans er svart og sykurlaust. Þessu má líka líkja við lífið en pabbi þinn ætlar ekki að gera það. Þú getur notað þitt eigið ímyndunarafl.

Já, hann pabbi þinn veit ósköp vel að hann er óþolandi og sennilega á hann heima á einhversslags stofnun.

En það er hollt fyrir þig líka.

 

Ítalía

Fór til Ítalíu á dögunum og oft hef ég verið duglegri að punkta hjá mér. En þetta var vinnuferð og nóg að gera. Lítið næði til marínerast í eigin hugsunum, reflekta á upplifanir og svo framvegis. Ég get svosem sagt núna, eftir á að hyggja, að Ítalía var næs og stóðst væntingar og raunar rúmlega það. Hef nefnilega verið, skömm frá því að segja, með fordóma gagnvart Ítalíu og Ítölum. Það er eitthvað sálrænt og kannski uppeldislegt. Sálrænt vegna þess að ég, sem norrænn maður, er á varðbergi fyrir ítölskum – suðrænum – sjarmörum sem heilla konurnar “okkar” með mannasiðum og brúnum augum. Þetta er djúpstæður félagssálfræðilegur komplex sem hrjáir eflaust margan barbarann. Þeir voru jú að reisa flúraðar kirkjur syðra á meðan við bjuggum í hellum á Suðurlandi. Og já, svo hef ég aldrei almennilega geta fyrirgefið sigur Ítala á Vestur-Þjóðverjum á Spáni 1982.

En þetta var auðvitað bara rugl eins og við var að búast. Ítalirnir heilluðu auðvitað en þeir heilluðu líka mig. Svo laga þeir gott kaffi og búa til góðan mat. Goes without saying. 

Í vasabókinni minni eru nokkrar setningar:

  • Keypti Kafka í fríhöfninni. Vil ekki að sjórekið lík mitt finnist á Atlantshafi með neitt ómerkilegra en sjóvelkt eintak af Réttarhöldunum. Gæti ekki fyrirgefið mér að finnast með Arnald eða eitthvað svoleiðis dót. Muna að setja þessa pælingu á feis. 20 læka status amk. 
  • Þegar ég var í háskólanum fór ég til nuddara og ákvað að það væri góð hugmynd að fara til hans í sokkum með gati. Hann var á sextugsaldri og með sítt hvítt hár í tagli og frænka mín, sem hafði óbilandi trú á hómópatíu, mælti með honum. Gamall hippi, trúði ég, sem aldrei kvikaði af braut. Sokkar með gati og ég myndi nálgast hann “kúlturelt”, hugsaði ég, og yrði þal mögulega ekki rukkaður um fullt verð. En ég hafði rangt fyrir mér. Never trust a hippie. 
  • Vinur minn þræðir hönnunarbúðir þegar hann er í Reykjavík og kaupir allskonar dót sem hann skreytir sig með. Þegar ég bendi á hálsmenn eða eitthvað skraut sem hann hengir á líkama sinn og spyr hvort þetta séu “trúarleg” tákn svarar hann: “Já, þannig lagað. Þetta er úr Epal.”
  • Æfing í praktískri stóuspeki: Að sitja við hlið mannsins í flugvélinni sem ætlar ekki að nota tækifærið og zóna út með heddfóninum sínum. Að spjalla við hann og sýna honum áhuga. Möo: kill him with kindness. Reynslan af barnauppeldi hefur kennt mér að fái fólk alla þá athygli sem það biður um og vel rúmlega það sofnar það værum blundi. 
  • “Konuhendur koma miklu í verk í kyrrþey” – Réttarhöldin, Kafka.
  • Í flugvélinni er allt til alls: Bíómyndir til að horfa á, poddköst, bækur, tímarit. Gulltryggt að ég þurfi ekki að vera einn með hugsunum mínum. 
  • Í lok flugsins átta ég mig á því að ég hef verið með sætið í öftustu stillingu allan tímann, hlustandi á Brothers in arms með Dire Straits. Ég horfi í augu manneskjunnar fyrir aftan mig í brot úr sekúndu og bið hana afsökunar í huganum. Með augunum hafnar hún beiðninni. 

Annað markvert fann ég ekki í bókinni. Síðasta færslan er svona:

Ál: 156

Plast: 18

Gler: 6

 

 

 

Kanarí F

Svalur vindgustur síðdegis á eyjunni. Nokkrir sóldýrkendur liggja áfram á appelsínugulu bekkjunum við sundlaugina með tunguna lafandi úti. Ég geng framhjá manni og ég fæ ekki betur séð en að hann sé að klára allar þúsund blaðsíðurnar í Stríð og friði.

Sundlaugarsoðnir fingur, blautt hár, gleðiískur í börnum, þvöl handklæði, þytur í gúmmítrjám, sandur á milli táa, freknur á nefi og roði í kinnum.

Sumarfrí í febrúar.

Ég er umkringdur eldri borgurum alla daga og kannski var það þess vegna sem ég leyfði börnunum að jarða mig niður á strönd í fyrradag.

Sandurinn var þungur og mér fannst þetta fremur óhuggulegt. Líkt og þau væru að grafa mig lifandi. Þau gáfust að vísu upp fyrir fótunum mínum og sögðu að ekki væri hægt að jarða þá sökum stærðar.

Á torgi í miðbænum fylgdumst við með nokkrum fimleikamönnum sýna listir sínar. Einn þéttvaxinn eyjaskeggi tók nokkur heljarstökk aftur fyrir sig beint fyrir framan nefið á okkur og virtist sveigt sig og beygt eins og köttur. Börnin dáðust að því hvernig hann ögraði þyngdaraflinu hvað eftir annað og ég, verandi þessi risaeðla sem ég er og fullur af allskyns sleggjudómum, gat ekki annað en tekið eftir því að þarna „fór ekki saman hljóð og mynd“ eins og fólk segir. Þetta var stór og mikill maður að framkvæma hluti sem manni finnst eingöngu vera á færi ungra og nettra vöðvabúnta. Ég ætti auðvitað að vita betur en var í þessum þönkum þegar við heyrðum fyrir aftan okkur á hinu ástkæra ylhýra:

„Hann er nú bara helvíti liðugur þótt hann sé svona feitur, hmmm?“

Þær sátu þarna tvær við barinn, eitursvalar vampírur; beinaberar og hvíthærðar, í litríkum sumarkjólum og sandölum. Supu sína blóðrauðu sangríu og settu hugsanir í orð. Ótjóðraðar af velsemisreglunum heima.

 

Kanarí E

Niður við ströndina ganga menn og selja „Rolex-úr“, leðurveski, belti og alls kyns apparöt sem eiga að létta manni lífið en það er bara ekkert hægt að létta manni lífið meira en nú þegar. Eftir tíu daga á svona stað, sem gerir engar kröfur til manns, líður maður áfram, með engar þarfir, eins og gufa. Ég nenni varla að drekka kaffi, hvað þá að skoða símann en samt er nóg að frétta að heiman: Verkföll, verkbönn og bæjarstjóraskipti í heimabænum. Maður skoðar þetta hér á ströndinni, rýnir í símann, rembist við að halda athyglinni en hugurinn fer eitthvert annað. Slúðrið og kjaftagangurinn bíður síns tíma.

Mér finnst stundum eins og fréttir eigi sér alltaf stað á þeim stöðum sem ég er ekki á. Ætli það sé ekki lukka mín í lífinu?

Hér skammt frá er kaffihús sem selur ís. Já, eða öllu heldur „ísrétti“ og ef eitthvað kallar fram minningar um ferðalög æskunnar eru það ísréttir. Rólexúr ísréttanna var svokallað Banana-splitti. Í því er náttúrulega einn banani, þrjár ískúlur, rjómi og súkkulaðisósa. Oft skreytt með kokteilsólhlífum sem maður síðan tók heim sem minjagrip.

Ég er mannlegur og gef stundum eftir þáþránni. Raunar ekki oft ef út í það er farið. Horfi t.a.m. sjaldan á kvikmyndir sem ég elskaði sem barn eða unglingur. Með nokkrum mjög mikilvægum undantekningum finnst mér þær flestar barn síns tíma og er almennt þeirrar skoðunar að sumt eigi bara að gleymast. Það er engin ástæða til að halda Naked Gun með Leslie Nielsen á lofti. Eða Rocky IV. Eða Hefnd busanna. Það þarf ekki að láta eins og Duran Duran sé besta hljómsveit allra tíma. Írafár var ekki skemmtileg hljómsveit.

Það var ekki allt gott í gamla daga en það virðist ekki vera hægt að jarða sumt í dag. Við lifum á tímum fortíðarþráhyggju. Make America Great Again og allt það. Þetta er eðlilegt viðbragð í menningu þar sem allt er á fleygiferð. Við höfum ekki undan að taka við stórfréttum og upplýsingatæknibyltingum. Svampurinn er gegnblautur og við finnum fótfestu í gömlu góðu dögunum þegar allt var svo einfalt og næs og analóg. Heimurinn í mesta lagi tvískiptur: CCCP vs. USA, Duran vs. Wham, KK vs. KVK.

Í einhverju ferðalaginu í Þýskalandi um árið, með bræðrum mínum og foreldrum, var bananasplittið einn af hápunktunum ferðarinnar. Eitthvað sem maður sagði frá er heim var komið, til marks um að allt hefði verið látið undan manni. Og ég lét það eftir mér á ískaffihúsinu París hér steinsnar frá hótelinu. Málað röndótt að utan eins og vera ber, sjálf gleðin uppmáluð, og við fengum borð innandyra þar sem við sátum í loftkældum svalanum, þögðum og smjöttuðum á ís. Í loftinu hékk áklæði í fjólubláum lit með alls kyns blúndum og rykkingum, þjónustufólkið var á „besta aldri“ eins og við segjum og það finnst manni athyglisvert komandi frá landi þar sem unglingar sinna svona störfum.

Bananasplittið var það sem það var: Banani með ís, rjóma og súkkulaðisósu. Ekki kombó þar sem heildin er stærri en summa hlutanna. Sumsé, bara alveg eins og mig grunaði og auðvitað ætti bananasplittið að rata á ruslahauga sögunnar eins og kvikmyndirnar Porky´s og Hvítir mávar. Ég gerði því samt skil, át það upp til agna og var ekki í neinni stöðu til að gagnrýna eitt né neitt. Hafði rétt lokið við að þurrka mér um munninn þegar tengdó spurði hvað okkur fyndist eiginlega um þennan frágang á loftinu, um áklæðið, um allar þessar rykkingar og blúndur. Ég yppti öxlum, hef aldrei haft skoðun á áklæðum í lofti eða blúndum og þess háttar.

„Finnst ykkur ekki eins og þið séuð inni í líkkistu?“ spurði hún svo og skipti ekki um svip.

Ég kunni ekki við að svara þessu játandi. Ekki fyrir framan börnin a.m.k. og sat bara þarna og þagði á meðan þau kláruðu ísinn sinn. Í einhverskonar grafarþögn mætti kannski segja því í huganum jarðaði ég endanlega bananasplittið.

 

Kanarí D

Ég var ekki fyrr sestur út á veröndina til að hugleiða hér í morgun en einn starfsmaðurinn var mættur með öskubakka handa mér og í beinu framhaldi byrjaði hann að ryksuga fyrir aftan mig. Eðlishvötin sagði mér að gera eitthvað. Svona eins og þegar nágrannar manns byrja að slá grasið, þrífa bílinn o.þ.h. þannig að hálft í hvoru langaði mig til að hjálpa honum. Í það minnsta bjóðast til að fara í uppvaskið á eftir. Samviskustreitan yfirtók líkamann og ég þurfti að beita mig hörku til loka augunun, draga andann djúpt og hverfa á vit hinnar tæru vitundar. Og viti menn: hljóðin í ryksugunni hurfu smám saman.

Ég fór bara með möntruna mína eins og forréttindaplebbinn sem ég er og vaknaði ekki til meðvitundar fyrr en ég heyrði einhvern einkennilegan slátt fyrir aftan og ofan mig. Hélt fyrst að dúfurnar væru að halda veislu í þakrennunum, eins og í einhverju ljóði sem ég las, en þetta var eitthvað annað. Eins og taktur, framkallaður með burstum og mér datt strax í hug eitthvað lag með Björk og fór að telja í huganum eins og trommara er háttur. En það var auðvitað engin glóra í þessu svo ég freistaðist til að gá: 

Starfsmaðurinn var að sópa flóttastigann. 

Ég þurfti andartak til að meðtaka þetta. Ljá þessu einhverskonar merkingu.

Hvers konar manneskja tæki eftir því, á öskrandi flóttanum, með eldtungurnar sleikjandi hnakkann, hvort stiginn væri ekki örugglega fullkomlega skínandi hreinn? 

Mér datt í hug ein eða tvær.   

 

Kanarí C

Ég sit hér í lobbíinu á meðan ég skrifa. Ég er eini gesturinn. Eini morgunhaninn eins og venjulega. Starfsfólkið er auðvitað glaðvaknað og mér finnst stundum eins og það byrji að ryksuga um leið og það sér mig. Eins og mamma gerði í gamla daga.

Kannski eru eyjaskeggjar ekki vanir því að gestirnir séu morgunfólk og skilur ekki þennan mann – jafnvel tortryggir – sem sest hér í lobbíið og lokar augunum í tuttugu mínútur áður en hann tekur upp tölvuna sína og byrjar að skrifa. Ætli hann sé einhverskonar úttektaraðili?

Í gærmorgun sat ég hér og hugleiddi þegar einn byrjaði að ryksuga í kringum mig. Sennilega haldið að ég væri bara sofandi. Já, eða kannski bara brennivínsdauður.

Hefði hann bara vitað. Stundum held ég að ég ætti bara að taka upp símann minn, strjúka honum með vísifingri og haga mér eins og maður. 

Í gær hitti ég fólk frá Belgíu á leikvellinum. Maður um sjötugt, kona um fertugt, barn á aldri við dóttur mína. Ég hélt á plastboltanum hans Elíasar og var í bláum íþróttabol og stuttbuxum. Sá sjötugi dró samstundis þá ályktun að ég væri „allur í boltanum“ en sonur minn, fimm ára, var hvergi nærri til að bjarga mér úr klípunni.

Sá gamli var ekki sleipur í enskunni og sökum meðfædds fæðingargalla tekur færni mín í ensku alltaf mið af enskufærni þess sem ég tala við. Þannig gæti ég sennilega bjargað mér í spjalli um póststrúkúralisma við enskan háskólaprófessor en við Belginn þurftum að nota táknmál og þegar hann áttaði sig á því að ég var Íslendingur veðraðist hann upp og fór að tala um „Arnór“ og „Eið“ og ég brosti og tók undir eins og um gamla vini mína væri að ræða.

Hefði hann bara vitað! Fótbolti fyrir syni mínum er bræðingur af handbolta og einhverjum stjörnustríðsleik sem hann spinnur jafnóðum og það eina sem ég hefði mögulega getað rætt við hann af einhverri þekkingu væri #metoo hreinsunin á íslenska karlalandsliðinu og helvítis fylleríið á honum Eið. Semsagt, eitthvað eins og „did you hear about, Gylfi?“

Dagarnir eru byrjaðir renna saman hér á hótelinu. Tölvan segir mér að það sé nítjándi febrúar en ekki hvaða vikudagur. Með örlítilli einbeitingu get ég áttað mig: Ég er á hóteli á Kanaríeyjum og það er sunnudagur. Ég ímynda mér að svona gæti þetta orðið á elliheimilinu eftir þrjátíu ár eða svo. Jafnvel fyrr. Fer eftir því hversu lengi ég nenni að hreyfa mig og passa mataræðið. Þá mun þessi elliversjón af mér einmitt hugsa: Hvar er ég? Hvert er árið? Who cares? Færið mér graut! Þykkan!

Ég sofnaði við óminn af laugardagsskemmtuninni en á kvöldin setja starfsmennirnir upp karíókípartí fyrir gráa herinn. Í fyrrakvöld komum við heim úr mínigolfi og rákum inn nefið á kvöldvökuna. Uppi á sviði var ungur maður í rauðum bol merktum hótelinu að syngja Proud Mary í útgáfu Tinu Turner. Hann söng textann af skjá og á honum var líka mynd af Tinu í 80s-múnderingunni sinni með þetta stóra og eftirminnilega 80s-hár, sveiflandi míkrafón með snúru. Tek fram þetta með „snúruna“ því dóttir mín, níu ára, spurði okkur hvers vegna það væri mynd af „kúreka“ uppi á sviði og ég, eins og fífl, fór að útskýra fyrirbærið Tinu Turner eins og dóttir mín væri geimvera frá annarri vetrarbraut, nýlent: „Tina Turner var sú alflottasta í mínu ungdæmi,“ ýkti ég og tók svo danssveifluna hennar í Proud Mary af bestu getu. Allt í einu varð ég áttræður og fyrirbærið Tina Turner jafnvel óskiljanlegra í huga níu ára barns.  

En ég þekki þessa útgáfu af laginu vel. Spilaði hana þúsund sinnum á dansleikjunum í gamla daga og þetta var bara nokkuð frambærilegur söngur hjá drengnum. Allskyns fléttur og flækjur í lok hverrar sönglínu eins og hátturinn er hjá fólki sem elst upp við þætti eins og Idol-ið og Voice, já, og svo virtist hann bara hafa gaman af þessu. Kannski besta giggið á hótelinu? Skemmtilegra en að ryksuga í kringum úttektaraðila eins og mig á morgnana?  

Þegar stuðið loksins byrjaði og lagið fór á fullt klöppuðu áhorfendur með á einum og þremur eins og vera ber og héldu út fram yfir fyrsta viðlag. Þessir kokteilar drekka sig jú ekki sjálfir og athyglin fór eitthvert allt annað.

Jamm. Svona er þetta. Lífið er lag og við klöppum með á einum og þremur fram yfir fyrsta viðlag. Svo vöxum við upp úr þessu. Því það þarf að borga þessar skuldir og skipta um þessar kransæðar.   

Segisona.  

 

Kanarí B

Áður en ég segi ykkur frá nakta manninum sem ég sá teygja úr sér á svölunum skáhallt á móti mér langar mig til að koma öðru að fyrst. Nefnilega að fyrsta fólkið sem ég hitti í lobbíi hótelsins voru sveitungar mínir frá Norðfirði. Þau eru tengdaforeldrar vinar míns og eins gamalgrónir Nobbarar og fólk getur orðið, kunningjar foreldra minna. Og auðvitað hitti ég þau strax á fyrsta hálftímanum okkar á eyjunni syðra!

Við segjum þetta stundum, við Íslendingar, að við séum alls staðar og stundum held ég að það sé rétt. Skrýtnast fannst mér að rekast á íslenska stelpu á einhverri pínulítilli eyju í Halong-flóa í Víetnam fyrir þrettán árum síðan. Við Esther vorum á ferðalagi, höfðum verið á Indlandi nokkrum dögum fyrr og leið á allan hátt eins og einu Íslendingunum í heiminum en svo var okkur bara heilsað á ströndinni eins og við værum stödd á Stöðvarfirði! Sem er kannski ekki vel orðað því maður heilsar sjaldnast ókunnugum á heimaslóðum svona bara afþvíbara. Við viðurkennum tilvist fólks með augngotu. Kinkum kannski kolli, ekkert sérstaklega kumpánlega, en ekki dónalega heldur. Jafnvel dulbúum við hreyfinguna þannig að hún geti þýtt nánast hvað sem er. Við getum jú ekki verið viss um að viðkomandi taki undir kveðjuna og þá getum við orðið vandræðaleg og við viljum fyrir alla muni komast hjá því. Þá getum við bjargað andlitinu með því að þykjast hafa verið að gera eitthvað allt annað, liðka hálsinn, jafnvel gerum við okkur upp væg tourette-einkenni eða bara eitthvað. Við notum ímyndunaraflið.

En hann stóð þarna, bísperrtur, með grjótharða og vel sólbakaða ístru, húðin svo brún, sjötug og bökuð að hún minnti á gamla snjáða leðurjakkann sem ég átti á blaðamannaárunum mínum. Hann var með hvítt sítt hár, þykkt yfirvaraskegg og skeggstubb undir neðri vörinni, svona eins og Frank heitinn Zappa. Heilabúið gat móttekið þessar sjónrænu upplýsingar hratt og örugglega því ég kannast við gamla hippa þegar ég sé þá. Hann var – ég endurtek – nakinn svo ég gat séð restina en góndi ekki á hana þannig að ég gæti lýst öðrum líkamshlutum jafn nákvæmlega, þið vitið, líkt þeim við útlitseinkenni annarra dauðra rokkstjarna og þess háttar. 

Og svo leit ég auðvitað hratt undan. Blygðunarkenndin var ekki særð eða neitt slíkt. Mér er alveg sama hvernig fólk vill vera. Það má vera berrassað ef það vill – ég er umburðarlyndið holdi klætt. Þetta voru meira svona ósjálfráð viðbrögð, svona eins og mér fyndist ég vera trufla hann. Svo ég leit undan, fór aftur inn og sagði krökkunum og eiginkonunni að ég hefði séð allsberan kall. Dóttir mín, níu ára, vildi gjarnan fá að sjá líka, svona eins og ég hefði sagt henni að ég hefði séð stórfenglega kanaríska eðlu þarna úti en hann var horfinn og þetta hljómaði í hennar eyrum eins og hvert annað pabbagabb.

En hann var þarna. Nódjók. Kannski sá hann mig og varð vandræðalegur fyrir mína hönd en ég held ekki. Allt í fari hans benti til mikils sjálfsöryggis. Hvernig hann stóð þarna gleiður og teygði út handleggina, einn í heiminum, vitandi fullvel að fólk eins og ég kemur og fer. Ég verð horfinn að eilífu eftir nokkra daga. Já, eða bara samstundis. Ég var aldrei til í hans augum. Ég var ekkert.

Þetta var borgarbúi. Fullyrði það. Þeir haga sér stundum eins og strandaglópar á eyðieyju jafn öfugsnúið og það hljómar. Í mannmergðinni er borgarfólkið ósýnilegt og það getur, sé það sæmilega illa uppalið, hagað sér að vild. Ekki í smábænum. Vér smábæjarmenn erum hinir einu sönnu diplómatar. Við erum upptekin af náunganum sýknt og heilagt og getum aldrei um frjálst höfuð strokið.

Maður velur sér ekki vini í smásamfélögum nema að litlu leyti. Þú fæðist í litlum firði fyrir austan og ef þú ákveður að setjast að verður þú að finna þér vini. Sameiginleg áhugamál, stjórnmálaskoðanir, kyngervi og svo framvegis verða aukaatriði. Það er bara ofgnótt, sem ég geri ekki lengur ráð fyrir, að hitta vinstrikrata niður í bæ sem fílar Sykurmolana. Smábærinn er ekki morgunverðarhlaðborð á hóteli við miðbaug þar sem þú getur á hverjum morgni sett saman hinn fullkomna dögurð eins og þú sért að púsla saman listsýningu í Metrópólítan NYC! Smábærinn er múslí og AB-mjólk! Sættu þig við það, maður!

Í smábænum finnur þú leiðir til að láta þér lynda við náungann því þú munt hitta hann fyrr eða síðar í eigin persónu. Þú getur ekkert blammerað manninn á Facebook bara sísona og reiknað með því að þú þurfir ekki að horfast í augu við hann framar. Þú munt gera það klukkustund síðar við mjólkurkælinn í Krónunni! Þurfir þú að fá útrás fyrir gremjuna þarftu að læra að tala undir rós og dulbúa meiningarnar. Felulita þær og vega úr launsátri.    

Hvað um það. Ég bara get ekki farið allsber út á svalir, hér suður við miðbaug, jafnvel þótt ég gjarnan vilji. Það er útilokað því ég er ekkert búinn að gleyma tengdaforeldrum vinar míns frá því í gærmorgun. Ég vil ekki gera þeim þetta, hitta þau svo bara í morgunmatnum, slafrandi í mig hráskinku og spældu eggi, eins og ekkert hafi í skorist. 

Eins og þeir segja:

Þótt þú farir úr firðinum fer fjörðurinn ekki úr þér.