Við vorum á Einarsstöðum á meðan óveðrið gekk yfir í logni og bjartviðri. Frostið svo þykkt í gærmorgun að það stíflaði nef mitt og sér ekki fyrir endann á því.
…
Ég stóð við pottinn á meðan hann tæmdist og horfði yfir fljótið. Heyrði ekkert nema suðið í borvél sonar míns sem hafði tekið á sig útlit birkihríslu. Pottlokið var eitthvað svo stíft og erfitt að lyfta því þannig að mér var ekki stætt á öðru en að biðja iðnaðarmanninn minn unga að kíkja á það.
Þrátt fyrir vélarsuðið var kyrrð á Einarsstöðum og auðvelt að tapa sér í landslaginu. Svo slétt, útsýni í allar áttir og ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta hafi áhrif á fólk. Eru Héraðsmenn ekki annars víðsýnni en gengur og gerist?
Ég týndi mér í nokkur andartök og hlustaði á kyrrðina á Héraði sem á fátt skylt við þögn. Komst ekki í leitirnar aftur fyrr en kallað var á okkur feðga í mat.
Elías drap á borvélinni og ég lokaði pottinum. Hlemmurinn var allur annar
Við klesstum hnefa.
…
What does the world need to know right now?
Stokkurinn vill að ég hafi skoðun á hinu og þessu en staðreyndin er sú að ég hef sífellt færri skoðanir. En ég má víst ekki alltaf gefast svona auðveldlega upp og mér er ekki stætt á öðru en að mynda mér skoðun:
Af fréttum að dæma hefðum við gott af að reyna ná tökum á lund okkar.
Fréttatíminn er fullur af reiðu fólki og maður kemst ekki hjá því að verða fyrir áhrifum. Maður sussar og sveiar og óafvitandi er maður að marka spor í óharðnaða huga barnanna á heimilinu.
Þannig varð dóttir mín reið þegar Trump birtist á skjánum um helgina og ég veit ekki hvort þetta sé góðs viti. Þetta kann að vera til merkis um réttlætiskennd í fæðingu en heimurinn er líka fullur af fólki sem rífst við sjónvarpið. Við vitum nefnilega líka að heimurinn snýst og við snúumst með honum. Við megum því ekki alltaf missa kúlið.
En hún hefur afsökun. Hún er sjö ára. Ég er ekki svo heppinn. Ég trompast í hvert sinn sem ég sé hann engum til gagns.