Ritstíflustokkurinn segir mér að skrifa um tíu fyrirtæki sem mig langar til að vinna fyrir og færa til bókar ástæður fyrir vali mínu.
Hann þekkir mig illa, stokkurinn.
Hann veit ekki að ég vil auðvitað ekkert vinna. Ég vil mæla göturnar og týna sjálfum mér í fánýtum hugsunum. Finnast svo rétt fyrir kvöldmat og snæða humarsamloku með sinnepi.
Endurtaka leikinn að morgni næsta dags.
…
Skrýtin spurning þótt vissulega sé örugglega gaman að vinna viss störf á ákveðnum vinnustöðum. Ég átti mér allskyns drauma fyrir nokkrum árum. Langaði til að vinna á Rás 1 lengi vel, bjó til þætti og þróaði mína útvarpsrödd, en svo fjara þessir hlutir bara út og áhuginn færist til.
Auðvitað ýki ég. Það er gott að hafa vinnu. Maður kemst að því þegar maður missir hana.
…
En þetta er hinsvegar dæmigerð spurning fyrir tímana. Samfélagið okkar er brandað í druslur og það sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.
Börnin manns eru útötuð í lógóskreyttum fatnaði, Bykóbuffum og hvaðeina, og bara á skrifborðinu mínu eru tuttugu stílhrein sjónræn skilaboð sem brenna sig inní heilabúið mitt og valda allskyns ófyrirséðum skaða. Ég tæki til á skrifborðinu ef ég bara nennti því.
…
Kapítalið er svo gróteskt, skiljiði. Það treður sér allsstaðar inn á skítugum skónum og virðir ekki nein mörk. Þegar menn breyttu Hlíðarenda á sínum tíma í Vodafone-höllina sannfærðist ég endanlega um að Nípunni yrði fljótlega breytt í Síldarvinnslufjallið, að lógó fyrirtækisins yrði hamrað inní klettinn að austanverðu og tæki á móti sjófarendum í stað Norðfjarðarvita.
En þetta gerðist ekki.
Ég fékk bara Toyotaskóg í bakgarðinn.
Og þú trítlar ekkert þangað í lautarferð með vínflösku og brauð. Í besta falli laumarðu þér þangað inn með eina Pepsi-Max og rafrettu.
Steinheldur kjafti svo úlfurinn finni þig ekki.