17.01.21

Trommusettið

Ég eignaðist fyrsta trommusettið mitt þrettán ára gamall. Það kostaði fimmtán þúsund kall en ég keypti það af frænda mínum sem hafði keypt það á tíu þúsund. Prýðileg ávöxtun það. Ég veit ekki af hvaða gerð það var og það skipti ekki máli vorið 1989. Trommusett var trommusett var trommusett.

Sjúskað settið stóð uppstillt í beituskúr í innbænum sem pabbi vinar míns átti. Því var lyft uppúr bleytunni með nokkrum pallettum og krossviðarplötu og bar sig þannig fínt inn á milli ryðgaðra beitustampa, grænna netatrossa og hvítra fiskikassa. 

Trommukjuðana hafði ég fundið fyrir ofan félagsheimilið eftir dansleik nokkrum árum áður. Það gæti alveg eins hafa verið nýársdagur og ég var nær örugglega að leita að rakettuprikum þegar ég fann þessi dularfullu prik í snjónum, inná milli sígarettustubba og bjórglers. Fór með þau heim og lappaði upp á með grænu teipi. Þá gat ég trommað með þeim á kodda, síðar potta og loks Makkintoss-dósir. 

Diskarnir voru gauðrifnir en þeir fylgdu settinu. Ég gerði engar athugasemdir við seljanda. Ég vissi ekki betur en að þeir ættu að vera svona.

Mörgum árum síðar, þegar trommurnar voru horfnar af yfirborði jarðar og hljómsveitin löngu hætt, er mér sögð saga af fyrri eiganda sem útskýrði ágætlega ástand þeirra. Hann hafði verið orkuríkur og handlaginn sveitastrákur, keypti settið án mikillar umhugsunar af frænda vinar síns og geymdi það í hlöðunni við hliðina á óuppgerðri bíldruslu.

Hann fékk útrás á settinu og tók sólóin með skiptilyklum. 

Ég beiti í næsta skúr við hliðina en heimsæki nýkeypt settið í pásum. Ég hef aldrei átt neitt sem vekur hjá mér jafn mikla eftirvæntingu og er skjálfhentur þegar ég lýk upp hurðinni. Loka á eftir mér og læsi. Tek af mér sloruga svuntuna. Og slímuga hanskana. Sest við settið. Tek kjuðana upp. Hendur kaldar. Trommurnar líka. 

Fyrir framan mig eru fjórar pákur.

Dreg andann djúpt.

Svo ber ég þær eins og harðfisk.

 

jonknutur