20.01.21

Keypti mér ljóðabækur í dag fyrir tíu þúsund krónur en ég hef aftur á móti ekki keypt mér hljómplötu síðan fyrir jól. Það mætti segja að ég hafi skipt út einni fíkn fyrir aðra, alveg nákvæmlega eins og þerapistinn sagði mér að gera.

Dylan söng: 

How many roads must a man walk down

Before you call him a man?

Fyrir mig er þetta meira svona: 

Hvursu margar bleiur þarf ég eiginlega að skipta um áður en ég get mig karlmann kallað? 

Ók sem leið lá upp í skóla og sótti dóttur mína. Smávægileg lækniserindi. Það snjóaði í nótt og svo fór að vinda í morgun og það var notalegt að keyra í gegnum snjófokið með Chet Baker í eyrunum. Þessi sólbakaði vesturstrandardjass var ekki í neinum vandræðum með íslenska veturinn.

 

19.01.21

Sykurhúðað bjartsýniskast í janúar

Nóttin líflaus eins og staðið kók í glasi

vindurinn gnauðar og bréf utan af súkkulaði strýkst eftir götunni

tekur loks stökkið á haf út

það eru fyrirheit um Egils-Appelsínugulan morgun ef veðurspá gærkvöldsins rætist

og hvur veit nema dagurinn verði límonaðibjartur?

Á kaffihúsi tregans, einhvers staðar á Austfjörðum, settust niður fjórir menn að sunnan og báðu um matseðilinn. Veitingamanninum var brugðið enda ekki vanur að fá gesti um þetta leyti dags, eða gesti yfirleitt, og sagði þeim þurrlega að það væri enginn matseðill, hann gæti hinsvegar boðið þeim piparsteik eða plokkfisk. „Og ef það er ykkur ekki að skapi gæti ég svosem rætt við kokkinn,“ bætti hann við og ræskti sig.  

„Viltu þá athuga með grænan kost fyrir mig?“ spurði sá yngsti í hópnum, mildur í rómnum. 

Veitingamanninum varð aftur brugðið. Horfði stíft á spyrjandann og sleppti ekki augnsambandinu þegar hann kallaði fram í eldhús: 

„Sigríður! Hingað eru komnir þrír menn og ein grænmetisæta. Útbúðu eitthvað handa þeim!”

 

18.01.21

Mánudagsmorgunn

Börnin vilja ekki vakna og ég vil ekki vekja þau. 

Hinn fullkomni díll.

Mamma átti synina sína á fjórum árum: 1971, 1972 og 1975. Árin sem fylgdu voru bestu árin í lífi hennar, sagði hún mér einhvern tímann en þegar ég bið hana um að rifja upp hluti sem gerðust á fyrstu árum ævi minnar gríp ég í tómt. Hún ber við minnisleysi. 

Það sama átti við um pabba minn sem gat ekki rifjað upp bernskubrekin mín í brúðkaupsveislunni. 

„Jón minn,“ sagði hann við mig eftir veisluna, afsakandi. „Ég man eftir Halldóri bróður þínum en svo rennur þetta allt saman í einn graut. Ég man ekki hver ykkar gerði hvað.“

Þetta voru bestu árin í lífi þeirra en þau mundu ekki eftir þeim.

Þetta voru bestu árin í lífi þeirra enda mundu þau ekki eftir þeim.  

Allt í einu varð mér hugsað til verkstjóra sem ég hafði í einhverri sumarvinnunni á síðustu öld.

Góður kall en gat verið skapvondur og sveiflurnar voru ekki alltaf fyrirséðar, hann gat rokið upp formálalaust og látið mann heyra það en augnabliki síðar var hann ljúfur sem lamb. Þurfti bara rétt að bregða sér afsíðis og ná andanum. Kom aftur sem nýr maður. 

… 

Eitt sinn vorum við úti að vinna í blíðskaparveðri. Stóðum þarna nokkrir í grænu vinnusloppunum okkar á bæjarbryggjunni að rimpa saman loðnunót. Hann gekk á milli manna og tók út verkið en eitthvað leist honum illa á saumaskapinn minn. Reif af mér nálina og stuggaði mér úr stað þar sem ég stóð við búkka. Ekki harkalega en ekki vingjarnlega heldur. Svo sagði hann afundinn:  

– Hvernig er það, læra menn ekkert gagnlegt í háskólanum þarna í Reykjavík?

Mér datt nokkur hnyttin svör í hug en þagði. Það var ekki minn stíll að svara yfirmanni og ég horfði á hann, svolítið niðurlægður, klára verkið sem mér hafði verið treyst fyrir. Það fór ekki framhjá mér að vinnufélagarnir glottu til mín.

Svo þreif hann netið af búkkanum, nýsaumað og fínt, og lét það falla á bryggjuna. Það vildi hinsvegar ekki betur til en svo að einn möskvinn rataði beint á netanál sem hann geymdi í vasa vinnusloppsins, kræktist í hana með þeim afleiðingum að innihald vasans tæmdist fyrir framan okkur. Einir tíu sígarettustubbar eða svo. 

Sem hefði svosem ekki verið neitt tiltökumál nema fyrir það að hann var fyrir lifandis löngu hættur að reykja og hafði verið með allskyns yfirlýsingar á kaffistofunni fyrr um daginn þegar óhófleg nettóbaksneysla yngri starfsmanna ofbauð honum.

Hann horfði í kringum sig, væntanlega til að athuga hvort einhver hefði veitt þessu athygli, og svo á mig. Við litum á hvorn annan, augliti til auglitis, í þýðingarmikið brot úr sekúndu áður en við hjálpuðumst að og týndum upp stubbana. Vitandi báðir að staðan var gjörbreytt.

 

17.01.21

Trommusettið

Ég eignaðist fyrsta trommusettið mitt þrettán ára gamall. Það kostaði fimmtán þúsund kall en ég keypti það af frænda mínum sem hafði keypt það á tíu þúsund. Prýðileg ávöxtun það. Ég veit ekki af hvaða gerð það var og það skipti ekki máli vorið 1989. Trommusett var trommusett var trommusett.

Sjúskað settið stóð uppstillt í beituskúr í innbænum sem pabbi vinar míns átti. Því var lyft uppúr bleytunni með nokkrum pallettum og krossviðarplötu og bar sig þannig fínt inn á milli ryðgaðra beitustampa, grænna netatrossa og hvítra fiskikassa. 

Trommukjuðana hafði ég fundið fyrir ofan félagsheimilið eftir dansleik nokkrum árum áður. Það gæti alveg eins hafa verið nýársdagur og ég var nær örugglega að leita að rakettuprikum þegar ég fann þessi dularfullu prik í snjónum, inná milli sígarettustubba og bjórglers. Fór með þau heim og lappaði upp á með grænu teipi. Þá gat ég trommað með þeim á kodda, síðar potta og loks Makkintoss-dósir. 

Diskarnir voru gauðrifnir en þeir fylgdu settinu. Ég gerði engar athugasemdir við seljanda. Ég vissi ekki betur en að þeir ættu að vera svona.

Mörgum árum síðar, þegar trommurnar voru horfnar af yfirborði jarðar og hljómsveitin löngu hætt, er mér sögð saga af fyrri eiganda sem útskýrði ágætlega ástand þeirra. Hann hafði verið orkuríkur og handlaginn sveitastrákur, keypti settið án mikillar umhugsunar af frænda vinar síns og geymdi það í hlöðunni við hliðina á óuppgerðri bíldruslu.

Hann fékk útrás á settinu og tók sólóin með skiptilyklum. 

Ég beiti í næsta skúr við hliðina en heimsæki nýkeypt settið í pásum. Ég hef aldrei átt neitt sem vekur hjá mér jafn mikla eftirvæntingu og er skjálfhentur þegar ég lýk upp hurðinni. Loka á eftir mér og læsi. Tek af mér sloruga svuntuna. Og slímuga hanskana. Sest við settið. Tek kjuðana upp. Hendur kaldar. Trommurnar líka. 

Fyrir framan mig eru fjórar pákur.

Dreg andann djúpt.

Svo ber ég þær eins og harðfisk.

 

16.01.21

In what ways do you procrastinate and how do you justify it to yourself?

Úff…þarna fórstu með það, kæri stokkur. 

Það tók mig t.d. tíu ár að klæða bílskúrinn. Eða s.s. níu ár og tíu mánuði. Flotun og klæðning tók tvo mánuði. 

Nokkur verkefni hér innanhús hafa heltekið mig. Sólpallasmíðin, svo dæmi sé tekið. Það verkefni hófst í byrjun júlí 2013 og síðasti naglinn var rekinn í byrjun september. Sama ár. Tek það fram því mér leið eins og verkið væri endalaust. Tek það líka fram að ég var ekki einn.

Bróðir tengdamömmu minnar, bátasmiður, var yfirverkstjóri og tók út verkið með reglulegu millibili. Leit yfir smíðina, með tannstöngul í munnvikinu og gaf frá sér hljóð sem gátu þýtt hitt og þetta. Stundum benti hann á eitthvað og spurði:

– Jájá, þú ætlar semsagt að gera þetta svona? Jájá…

Svo gekk hann um dekkið og röntgenskoðaði eitthvað annað. Um leið og hann var farinn skrúfaði ég í sundur það honum leist greinilega ekkert á og byrjaði upp á nýtt. 

Svo var tengdafaðir minn hér öllum stundum og ég hefði ekki getað klárað þetta án hans. Og svo Jón Hafliði, vinur minn, guð blessi þig… 

(Ég er uppi á sviði núna, skiljiði, stend við ræðupúltið og þetta er löngu tímabær þakkarræða sem ég held fyrir tómum sal. Ég er klæddur í smóking og tárfelli lítið eitt. Við það að fara hágrenja.)

Og loks hann pabbi heitinn. Hann mætti á seinni stigum og puðaði með mér við að klæða dekkið. Á hnjánun, svitadropar á nefinu og alveg eins og ég:

Vildi ekki fara í pásur. Bara klára þetta helvíti svo hægt sé að gera eitthvað annað. Setja fætur upp í loft og opna bók. Var mættur hér um áttaleytið og það var unnið stanslaust til fjögur. Tekið eitt stutt hádegishlé svo hann gæti skotist í Krónuna og keypt kartöflur. 

Drífum þetta helvíti af. Lífsmóttó föður míns. 

Þetta gerðum við þrjá daga: Smíðuðum, smíðuðum, smíðuðum. Svitnuðum, svitnuðum, svitnuðum. Stundum, stundum, stundum.

Svo fór hann í frí til útlanda í nokkrar vikur og svo kom hann heim. Já, og svo dó hann. 

Rétt áður en það gerðist komu hann og mamma í heimsókn og hann skoðaði fullgerðan sólpallinn. Skjólveggurinn minnti á skipsskrokk og dekkið á þilfar skútu. Allt var tipptopp. Þetta var, þó ég segi sjálfur frá, glæsilegur pallur.

Og pabbi minn var stoltur af stráknum sínum. Það fór ekkert á milli mála og ég varð hissa á sjálfum mér, hvað ég varð innilega ánægður með að pabbi minn skyldi vera ánægður með mig. 

Sú hugsun ásótti mig eftir andlátið að hann hefði mögulega getað dáið hér á pallinum. Ég get eiginlega ekki hugsað það til enda, ykkur að segja. 

En það gerðist ekki. Sem betur fer. Fyrir mig.

Og kannski er þetta góð ástæða til að fresta. Lífið liggur alltaf við. Ég gæti dáið ef ég byrja á þessari skýrslu. Vil ég það? Eða þá einhver annar og ég vil það ekki heldur.

Nei, segi ég. Ég geri þetta á morgun. Eða hinn.

(Andvarp.)

 

15.01.21

Ritstíflustokkurinn segir mér að skrifa um tíu fyrirtæki sem mig langar til að vinna fyrir og færa til bókar ástæður fyrir vali mínu. 

Hann þekkir mig illa, stokkurinn. 

Hann veit ekki að ég vil auðvitað ekkert vinna. Ég vil mæla göturnar og týna sjálfum mér í fánýtum hugsunum. Finnast svo rétt fyrir kvöldmat og snæða humarsamloku með sinnepi. 

Endurtaka leikinn að morgni næsta dags.

Skrýtin spurning þótt vissulega sé örugglega gaman að vinna viss störf á ákveðnum vinnustöðum. Ég átti mér allskyns drauma fyrir nokkrum árum. Langaði til að vinna á Rás 1 lengi vel, bjó til þætti og þróaði mína útvarpsrödd, en svo fjara þessir hlutir bara út og áhuginn færist til. 

Auðvitað ýki ég. Það er gott að hafa vinnu. Maður kemst að því þegar maður missir hana.

En þetta er hinsvegar dæmigerð spurning fyrir tímana. Samfélagið okkar er brandað í druslur og það sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.

Börnin manns eru útötuð í lógóskreyttum fatnaði, Bykóbuffum og hvaðeina, og bara á skrifborðinu mínu eru tuttugu stílhrein sjónræn skilaboð sem brenna sig inní heilabúið mitt og valda allskyns ófyrirséðum skaða. Ég tæki til á skrifborðinu ef ég bara nennti því. 

Kapítalið er svo gróteskt, skiljiði. Það treður sér allsstaðar inn á skítugum skónum og virðir ekki nein mörk. Þegar menn breyttu Hlíðarenda á sínum tíma í Vodafone-höllina sannfærðist ég endanlega um að Nípunni yrði fljótlega breytt í Síldarvinnslufjallið, að lógó fyrirtækisins yrði hamrað inní klettinn að austanverðu og tæki á móti sjófarendum í stað Norðfjarðarvita.

En þetta gerðist ekki.

Ég fékk bara Toyotaskóg í bakgarðinn.

Og þú trítlar ekkert þangað í lautarferð með vínflösku og brauð. Í besta falli laumarðu þér þangað inn með eina Pepsi-Max og rafrettu.

Steinheldur kjafti svo úlfurinn finni þig ekki.

 

14.01.21

What were you afraid of as a child?

Ég var hræddur við gömlu konuna í íbúðinni við hliðina á okkar. Við bjuggum í raðhúsi og ég lék mér oft, einhverra hluta vegna, í garðinum hennar.

Ein af mínum fyrstu minningum er svona:

Ég er hluti af hóp. Man eftir okkur bræðrum og strákunum í næstu íbúð. Líka þrír bræður og sá yngsti þeirra ári yngri en ég. Það er milt veður, skýjað, og við erum léttklæddir. Vor ef ekki sumar. Boltinn okkar hefur lent upp á svalirnar hjá henni og hún er ekki heima. Eldri bræðurnir í hópnum eru að lyfta þeim yngsta upp á svalirnar. Þetta hefði getað endað illa en endar bara þannig að við sjáum gömlu konuna nálgast eftir götunni. Hún er að flýta sér, hefur örugglega séð okkur og talið okkur vera að brjótast inn. Sem við vorum að vissu leyti að gera. Við hverfum í einum hvelli og þetta var í minningunni eftirmálalaust. 

Samt er ég hræddur við þessa konu og það endist öll þau ár sem ég bý í raðhúsinu.

Svo batnar fjárhagur fjölskyldunnar og ég flyt í nýbyggt einbýli. Ég gleymi óttanum. 

Hann rifjast upp nokkrum árum síðar þegar ég geng í hús og sel fólki bæjarblaðið. Ber að dyrum á húsi einu við Þiljuvelli og viti menn: Gamla konan kemur til dyra. Hún kaupir blað, brosir til mín og biður kærlega að heilsa foreldrum mínum.

Ég tek skjálfhentur við fimmtíu kallinum. 

Börnin biðja um hund

eiginkonan biður um hund

er viðbætandi

fleiri

biðjandi augum?

 

13.01.21

Einstaka sinnum, afar sjaldan, les ég eitthvað á samfélagsmiðlum sem hlægir mig. Ég er nefnilega yfir þetta hafinn, sjáiði til.

Á Norðfirði komst kvittur á kreik um sóttarvarnarbrot sem reyndist svo enginn fótur fyrir. Þá sagði virkur í athugasemdum: 

Þú rekur við inní sveit og þá ertu búinn að skíta á þig útá vita. Held að fólk sé að verða geðbilað þarna.

Kjarnyrt íslenska er svo hressandi! Og ef þú hrifsar þetta úr samhenginu ertu kominn með þetta fínasta ljóð. Myndi breyta þarna í hérna. Meiri innilokunarkennd þannig. Meiri noja. 

Describe 5 easy ways to free up some bandwidth in your life.

Ég hef nú þegar gripið til nokkurra ráðstafana sem losa um nokkrar mínútur á hverjum degi. 

  1. Ég er minna í símanum en þegar ég er of mikið í símanum tengist það minni eigin virkni á samfélagsmiðlum. Ég set eitthvað inn og bíð svo eftir viðbrögðum og bregst við þegar þau (loksins) koma. Því minna sem ég set inn þeim mun minna er ég í símanum. Því að hanga á netinu er eins og að borða sig saddan á veitingastað en halda samt áfram að skoða matseðilinn, eins og einhver orðaði það. 
  2. Nú, ég hef áður sagt frá því að ég drekk ekki lengur áfengi. Það sparar tíma. Alveg böns af tíma. Segir sig sjálft. 

Talandi um það. Ég hitti mann í gær í vinnunni sem sagði mér frá plönum sínum um að verða sommelier eins og það er kallað eða kjallarameistari líkt og það útleggst á íslensku. Hann á nokkur ár eftir á vinnumarkaði og ætlaði að nýta tímann sem eftir væri í að kenna fólki að drekka vín. 

Áhuginn hafði kviknað í Ástralíu fyrir tuttugu árum. Hann var búsettur þar og hafði lítið fyrir stafni eftir vinnu þegar hann fór að venja komur sínar á vínkynningar í bænum á þriðjudagskvöldum. Og þannig kviknaði áhuginn smám saman og ágerðist hægt og rólega með tilheyrandi vínsöfnun, lestri vínbóka, kaupum á allskyns aukahlutum og öllu öðru sem fylgir svona áhugamáli.

Nú þetta finnst mér ekki vera tímasóun. Þetta er til fyrirmyndar. Allar ástríður eru það. 

Ég spurði hann talsvert útí þetta enda fannst mér þetta í raun og veru áhugavert. Vín eru forvitnileg, þau eru eins og kaffi (sem ég er alls ekki hættur að drekka). Þau eru kúltur, heimur út af fyrir sig, og það má endalaust spá og spekúlera í hlutum sem hvíla á einhverjum raunveruleika: Vinna, pælingar, veðurfar, jarðvegur og svo framvegis og framvegis. Svo ekki sé minnst á viðtakandann sjálfan sem skynjar vínið ekkert síður en drekkur. Notar tunguna og munninn, augun og nefið.  

(Í glasinu dumbrauður sannleikur

sólvermdra hlíða)

Að bragða vín og drekka það er ekki sami hluturinn. Á þessu er eðlismunur. 

Allavega. Hvað um það. 

Maðurinn bauðst til að gera mig að meðlimi einhvers leynihóps á netinu þar sem menn spá og spekúlera í víni. Hann sá í mér einhvern sálufélaga (drykkjufélaga?) og ég sagði, eiginlega í fljótfærni, að ég drykki ekki áfengi, gaf mér sumsé að það væri forsenda þess að taka þátt í svona félagsstarfi. Ég bætti um betur og sagðist vera hættur að drekka áfengi og það er ekki það sama og að segja: Ég drekk ekki áfengi. 

Þá sagði hann: 

– Það er sennilega best að ég hlífi þér við þessu þá.

Það var einmitt það.

Sko. Ég skil hann. Skil hann mjög vel. Þetta er nefnilega einhvern veginn svona: 

Líkt og ofdrykkjumenn eru þeir sem drekka ekki og hafa aldrei drukkið varhugaverðir. Mögulega siðblindir. Allavega eitthvað bilaðir. Kannski ekki mikið en bilaðir samt. Í hverju bilunin er fólgin er ekki gott að segja en það er ástæða til að óttast þá. Því hvað ætla þessir menn að gera þegar aðrir liggja brennivínsdauðir á gólfinu allt í kringum þá? Hvað ætla þeir að gera?

Nú og svo hitt. Sá sem er hættur að drekka á sér fortíð. Og það getur nú þýtt ýmislegt skal ég segja ykkur. Mögulega drakk ég frá mér eiginkonu og börn eða kannski sveik ég undan skatti, rændi starfsmannasjóðinn, já eða kúkaði á mig uppá sviði í miðjum þorrablótsannál. Drap mann með skóflu. Júneimit.

Og það var nákvæmlega sá svipur sem ég sá bregða fyrir í andliti mannsins þegar ég missti þetta útúr mér.

Í hans huga á ég mér fortíð og ef ég væri hann myndi ég grennslast fyrir um mig.

Áður en stofnað er til frekari kynna.

 

 

12.01.21

Kannski var það til að hækka spennustigið einn hversdagslegan þriðjudag en þegar ég sá manninn, svo felulitaðan frá toppi til táar að það er með nokkrum ólíkindum að ég hafi rekið augun í hann, ákvað ég að ná ljósmynd af honum.

Og þegar ég segi felulitaðan þá var hann s.s. í camo eins og sagt er. Þekktur veiðimaður hér um slóðir og svo mikið að gera hjá honum við að leiðsegja uppá fjöllum að það tekur því ekki fyrir hann að skipta yfir í borgaralegan klæðnað. Líf hans er orðið eitt samfellt veiðitímabil og það má segja með nokkurri vissu að hann sé að lifa drauminn. Einn af þeim heppnu í þeim skilningi. 

Talandi um draum. Ég hélt mig hlyti að vera dreyma þegar ég sá hann eins og skæruliða að skoða kexúrvalið í Krónunni. Eitthvað svo súrrealískt og ég vissi undireins að ég þyrfti að eiga mynd af þessu. Þetta yrði að öllum líkindum hápunktur dagsins.

Ég þurfti að læðast nær og það var mikilvægt að hann ræki ekki augun í mig því við þekkjumst frá fornu fari. Unnum saman sem blaðamenn í nokkrar vikur fyrr á öldinni og vorum um tíma ágætir kunningjar. Ég vildi ekki uppstillta mynd. Vildi hafa þetta náttúrulegt. Felulitaður maður í ónáttúrulegu umhverfi. Ég áætlaði í huganum að ég væri með mynd í höndunum sem gæfi fimmtíu like á insta og sennilega yfir hundrað á face. 

Ég laumaði mér inní eþnísku deildina og skaut mér síðan leiftursnöggt á bak við stæðu á miðju gólfi þar sem raðað hafði verið upp Pepsi Max-rútum í sirka eins og hálfs meters hæð. Með því að færa til nokkrar rútur, endurraða eins og legói, var hægt að útbúa einskonar skotbyrgi og svo skildi ég eftir op þar sem ég gat athafnað mig. Jújú, það var hlaupinn smá Oswald í mig á þessu stigi málsins. Skal ekki neita því. 

Hann var hættur að skoða kexið. Hafði fært sig og var núna að skoða krydd og hélt á tveimur pökkum af kjötkrafti. Mér sýndist þetta vera nautakraftur og eitthvað annað. Mögulega fiskikraftur en það gæti þó hafa verið missýn því flestir sveitamenn sem ég þekki borða ekki fisk. Finnst það ekki vera matur.

Ég var kominn með hann í sigtið en tímdi ekki að hleypa af. Horfði bara á hann og mér fannst svo merkilegt að þarna væri hann, algerlega í sínum heimi að skoða krydd, ekki með nokkra einustu hugmynd um að hann væri skotmark. Að veiðimaðurinn yrði brátt veiddur. Hversu hversdagsleg síðustu andartökin í lífi mannsins geta verið, skoðandi súpukraft í meðalstórri matvöruverslun á Reyðarfirði þegar allt í einu…

En það var þarna sem verslunarstjórinn bankaði harkalega í öxlina á mér og spurði mig hvern andskotann ég væri að gera, að það væri STRANGLEGA bannað að taka myndir í versluninni og þar fyrir utan væri ég greinilega að mynda aðra viðskiptavini og hvort þá ég hefði aldrei heyrt talað um persónuvernd. 

Ég hafði ekki verið skammaður nákvæmlega svona í nokkra áratugi, sennilega ekki síðan Binni í bókabúðinni gómaði mig við að hnupla skopparabolta og hótaði að hringja í lögregluna. Ég margbaðst afsökunar en gaf engar útskýringar enda hafði ég ekki hugsað útí það hvernig ég gæti logið mig útúr þessu yrði ég gómaður. Var ekki með neitt plan B sem var svolítið amatöralegt eftir á að hyggja. 

Nokkrir viðskiptavinir veittu þessu athygli, þar á meðal veiðimaðurinn sem vinkaði mér vinalega og þar með var útilokað að ná náttúrulegri mynd af honum. Hefði ég haldið þessu til streitu, sem ég gerði vitaskuld ekki, hefði hann staðið brosmildur fyrir framan kryddrekkann, hendur í vösum, og það var nákvæmlega þannig mynd sem mig langaði ekki að eiga. Myndin mín átti að vera eðlileg. Í anda Attenborough. Úthugsað listaverk.

Ég yfirgaf verslunina vonsvikinn en hafði þó fengið mitt kikk. Svo langt sem það nær.

 

 

11.01.21

Við vorum á Einarsstöðum á meðan óveðrið gekk yfir í logni og bjartviðri. Frostið svo þykkt í gærmorgun að það stíflaði nef mitt og sér ekki fyrir endann á því. 

Ég stóð við pottinn á meðan hann tæmdist og horfði yfir fljótið. Heyrði ekkert nema suðið í borvél sonar míns sem hafði tekið á sig útlit birkihríslu. Pottlokið var eitthvað svo stíft og erfitt að lyfta því þannig að mér var ekki stætt á öðru en að biðja iðnaðarmanninn minn unga að kíkja á það. 

Þrátt fyrir vélarsuðið var kyrrð á Einarsstöðum og auðvelt að tapa sér í landslaginu. Svo slétt, útsýni í allar áttir og ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta hafi áhrif á fólk. Eru Héraðsmenn ekki annars víðsýnni en gengur og gerist?

Ég týndi mér í nokkur andartök og hlustaði á kyrrðina á Héraði sem á fátt skylt við þögn. Komst ekki í leitirnar aftur fyrr en kallað var á okkur feðga í mat.

Elías drap á borvélinni og ég lokaði pottinum. Hlemmurinn var allur annar

Við klesstum hnefa. 

What does the world need to know right now?

Stokkurinn vill að ég hafi skoðun á hinu og þessu en staðreyndin er sú að ég hef sífellt færri skoðanir. En ég má víst ekki alltaf gefast svona auðveldlega upp og mér er ekki stætt á öðru en að mynda mér skoðun:  

Af fréttum að dæma hefðum við gott af að reyna ná tökum á lund okkar.

Fréttatíminn er fullur af reiðu fólki og maður kemst ekki hjá því að verða fyrir áhrifum. Maður sussar og sveiar og óafvitandi er maður að marka spor í óharðnaða huga barnanna á heimilinu. 

Þannig varð dóttir mín reið þegar Trump birtist á skjánum um helgina og ég veit ekki hvort þetta sé góðs viti. Þetta kann að vera til merkis um réttlætiskennd í fæðingu en heimurinn er líka fullur af fólki sem rífst við sjónvarpið. Við vitum nefnilega líka að heimurinn snýst og við snúumst með honum. Við megum því ekki alltaf missa kúlið.

En hún hefur afsökun. Hún er sjö ára. Ég er ekki svo heppinn. Ég trompast í hvert sinn sem ég sé hann engum til gagns.