21.01.21

Það snjóar og það snjóar og það er kærkomið. Birtir til og svo er þessi suddi eitthvað svo leiðingjarn til lengdar. Svo lítið sjarmerandi eitthvað.  

Fagna snjónum. It is tremendous, svo ég grípi til orðfæris DJT.

Innritaði mig á annað ritlistarnámskeið í EHÍ og núna hjá Kristjáni Hreinssyni. Fyrsti tími var í gærkvöldi og ég peppaðist allur upp. Veit ekki hvers vegna ég er ekki fyrir lifandis löngu byrjaður að sækja mér aðstoð í þessu. 

Eða jú. Ég veit það alveg. Ég er í skápnum, enn að brjótast út. Og þar fyrir utan hef ég tilhneigingu til að flækjast fyrir sjálfum mér, eins og góður vinur sagði eitt sinn við mig. 

Er að hlusta á kanadísku söngkonuna kd lang í vinnunni. Hlustaði mikið á hana fyrir tuttugu árum eða svo, þegar ég var að læra í Englandi, og það var notalegt að heyra röddina hennar aftur. Ingénue er nú sennilega með betri poppplötum þótt ég gleymi því stundum. 

Trump er hættur og farinn. Hvenær ætli maður byrji að sakna hans? Það er ávanabindandi að hneykslast og fyllast réttlátri reiði. Það lætur manni líða vel með sjálfan sig. Þetta eru bara vísindi, gott fólk. Bara vísindi.

 

jonknutur