11.02.21

Ég hef verið á námskeiði í ritlist og ekki gefið mér tíma til að blogga. Þetta er algeng afsökun manna sem vilja skrifa en gera það ekki. Þá er hún reyndar þannig að menn segjast ekki hafa tíma. Ég passaði mig og orðaði þetta öðruvísi: Ég GEF mér ekki tíma í bloggskrif. Ég gef mér hinsvegar tíma til að leysa verkefnin sem kennarinn útdeilir miskunnarlaust.

Ég skipti deginum mínum upp í hálftíma og flestum er varið í fjölskyldu, vinnu og þessar helstu skuldbindingar. Þetta er hið daglega líf sem ég lifi. 

Svo gef ég mér einn eða tvo hálftíma í áhugamál eins og þetta ef ég er ekki úrvinda. Og þá þarf ég að velja og hafna. 

Ég var í Reykjvík með dóttur minni um helgina. Gistum hjá mömmu sem hefur komið sér vel fyrir í Kópavogi með útsýni yfir Smáralindina. Sérstök kennileitin syðra: Ávöl og sanseruð. Ólík þessum heima sem urðu til í annars konar umbrotum. 

Fórum á kaffihús og það var frískandi að sjá hópa af fólki sem ég mundi ekki eftir að hafa séð áður. Stóð mig að því nokkrum sinnum að góna á fólk, taka það út, velta fyrir mér nefjum og munnsvipum á meðan dóttir mín var niðursokkinn í tölvuleik sem ég kalla tölvuspil því mér finnst gaman að þykjast vera eldri en ég er. Það gleður hana. Þegar ég verð aðeins eldri og skeggið grárra ætla ég að segja henni frá bernsku minni í baðstofunni, hvar við lásum kvæði og prjónuðum ullarsokka. 

Skynfærin höfðu ekki undan að meðtaka skilaboðin. Sjálf miðborgarhljóðin:

Látlaust skraf og skvaldur sem brotið er upp með kalli kaffiþjónsins: Jón! Tvöfaldur latte, barnakakó og gulrótarmöffins! Angan af brenndu brauði, kaffi og ilmvötnum fólks sem ég þekki ekki. Kaffivél ræskir sig og maður í hnésíðum frakka, með vel snyrt skegg og tískugleraugu, spyr hvort hægt sé að fá ábót.

 

 

jonknutur