23. mars 2021 – Reyðarfjörður

Ég fletti í gegnum gamalt albúm og horfi á löngu liðna ættingja. Þessar myndir hafa ekki merkingu fyrir neinn á heimilinu nema mig sem veit að minnsta kosti hvað þeir heita en varla það. En þær hafa enga lögun eða form, enga merkingu, eru bara svipmyndir af atburðum sem gerðust fyrir löngu og enginn man hvað svo.

Það kemur stundum yfir mig löngun til að vita meira um þetta fólk. Hvernig var göngulagið þeirra, hvernig bar það sig þegar það kveikti á sígarettu (því það reyktu allir í gamla daga), hvernig tók það vonbrigðum. Eða sigri í Kasínu? Eða hvað ætli því hafi fundist um naflaló? Hafði það yfirleitt einhverja skoðun á henni?

Ég fletti albúmum og læt hugann reika en í morgun, þennan morgun akkúrat núna, rétt um sjö, fannst mér ég beintengjast liðnum ættingja, valinn af handahófi, þegar ég tæmdi bleiudall sonar míns í svörtu ruslafötuna. Ég lifði mig svo inní þetta að í eitt brot úr andartaki, ekki lengur (sennilega skemur) breyttist ég í þennan fótkalda ættingja sem fer líka út á morgnana og losar úr náttpottinum. Fyrir áttatíu árum síðan. Pælið í því. Beint á bæjarhelluna ef því er að skipta.

Um þetta væri hægt að skrifa ljóð. Ég er viss um það.

 

jonknutur