Það eru tvær mögulegar pásur á leiðinni til Borgarfjarðar. Kjarvals-hvammur og sjálfsalinn hans Kidda Vídjóflugu. Börnin ráða og þá vitiði hvor staðurinn verður fyrir valinu.
Þau fá fjóra gullpeninga frá ömmu sinni og biðja mig um að annast innkaupin. Mér líst ekki á þetta. Var snuðaður um Kitkat á nákvæmlega þessum stað fyrir um ári síðan en um leið hef ég svo fjandi gaman af að versla við svona græjur. Örugglega einhverjar sálrænar skýringar á því eins og á öllu öðru. Þið vitið, enginn afgreiðslumaður sem fellir neina dóma, já, eða óuppfyllt og óskilgreinanleg þörf frá barnæsku sem á einhvern pervískan hátt er fullnægt með viðskiptum við sjálfsala.
Um leið og fyrsta hlunknum er þrýst inn um raufina veit ég að helvítis draslið er bilað. En það stoppar mig ekki. Ég læt þann næsta og þann næsta og loks þann síðasta. Þetta er ekki græðgi. Mig langar ekkert í neitt andskotans nammi enda þarf ég að passa upp á kolvetnin og fituna (má ekki rugla macro-ið mitt svo snemma dags). Ég vil bara að draslið virki og þess vegna vel ég númerið á Kitkatinu (24), ýti á innkaupatakkann, vit-andi fullvel að ekkert mun gerast. Nákvæmlega ekkert. Ég lít inn um rauf-ina og sé gullið liggjandi þarna, skínandi fínt. Vantar bara eitt stykki lyngorm.
Eftir á að hyggja eru viðbrögð mín fyrirsjáanleg. Í fyrsta lagi púlla ég auðvitað hálffimmtugaSagaProétandiplebbann og gef draslinu einn þéttingsfastan löðrung á vinstri kinn en það kallar ekki fram nein viðbrögð. Draslið sýnir engin svipbrigði og gersamlega gengur frá mér með ískaldri þögninni. Í öðru lagi bölva ég upphátt og spyr eiginkonu mína hvers vegna þessi svikamylla fái að standa þarna óáreitt. Eins og hún viti svarið en svona er maður víst á ögurstundu og það getur verið gagnlegt að vita það.
„Hringdu þá í manninn,“ segir hún og ég lýg því að ég sé að „sjálfsögðu að fara gera það.“
Og svo fer ég að hugsa um börnin. Um blessuðu börnin. Svikin um súkkulaðið sitt. Hvernig á ég að útskýra þetta fyrir þeim?
En þau heyra ekki í mér þegar ég kalla. Sé þau hlaupandi einhvers staðar útí móa. Eflaust að eltast við fiðrildi.