Ég gleymdi mér ekki í gærmorgun og ég skrifaði heilan helvítis helling en það fór beint í skúffuna. Fannst það ekki eiga heima hér. Ég trúi ekki blogginu fyrir öllu enda hefur það á sér áru dagbókar og þar með sannleika. Reynslan hefur kennt mér að ég get ekki bullað að vild hérna og ég ber persónulega ábyrgð á öllu sem er skrifað á þessa síðu.
Nú heldur lesandi að ég hafi verið að skrifa eitthvað agalega djúsí en svo er ekki.
…
Það bar til tíðinda í gær því vettlingar sem Esther prjónaði á mig voru til umfjöllunar í Fréttablaðinu. Ástæðan sú að þeir eru nokkurn veginn nákvæmlega eins og vettlingarnir sem Bernie Sanders var með í kuldanum á vígsluathöfninni um daginn. Þetta var svokölluð furðufrétt en í þau fáu skipti sem ég kemst í kast við fjölmiðla er það venjulega vegna einhvers furðugangs: Líkfundur í Neskaupstað, deilur við Útvarp Sögu, prjónavettlingar Bernie Sanders. You get the picture.
Hvaða ályktanir munu stafrænir fornleifafræðingar draga um þennan mann sem um voru skrifaðar svona undarlegar fréttir?
Ekki gott að segja en líklega engar.
…
Fékk pakka af árituðum ljóðabókum í gær frá mínum uppáhalds höfundi: Óskari Árna Óskarssyni. Ákvað á dögunum að ég yrði að eiga allar bækurnar hans. Þegar ég lagði inn á hann sá ég að höfundurinn deilir afmælisdegi með syni mínum og ég fann mig knúinn til að segja honum það. Það var ekki fyrr en ég var búinn að ýta á send að á mig komu vöflur. Var ég í alvörunni að segja honum þetta? Hef ég s.s. þennan mann að geyma þegar upp er staðið? En Óskar tók því vel og sendi mér vinalega kveðju til baka.