24.01.21

Tvö ljóð:

Neskaupstaður (65° 08’ 47” N  13° 40’ 41” V)

„Virðist vera gæddur öllum þeim kostum sem verstöðvar þurfa að hafa.“

Ólafur Olavius, stúdent og áhugamaður um hagnýt náttúruvísindi, 1776.  

46 ára

Þú festir barnið í bílstólinn um leið og þú óttast að klemma taug í bakinu. 

What’s something you disagree with about the way you were raised?

Allir hafa sínar ástæður. Það er hinn bitri sannleikur sem rennur upp fyrir manni þegar maður elur upp sín eigin börn. 

Aðstæður mínar eru aðrar. Fyrir það fyrsta hef ég meiri tíma fyrir börnin mín. Foreldrar mínar unnu mikið, meira en mig grunar held ég stundum og svo byggðu þau sér hús með öllu því veseni sem því fylgir.

Minning:

Pabbi minn kemur heim klukkan fjögur á á aðfangadag í nýþrifið húsið og allir búnir í jólabaðinu. Hann er í vinnufötunum, á að vera kominn í jólafrí en á allt eins von á símtali frá útgerðarstjóranum. Hann angar af olíu. 

Olía, sjampó og Ajax: ein leið af mörgum til að lýsa æskujólunum.

Ég vinn mínar þrjátíu og eitthvað klukkustundir á viku og get ákveðið hvernig ég ráðstafa tímanum mínum eftir fjögur. Ég nota hann með krökkunum. 

Hljómar eins og ég sé hinn fullkomni faðir en ég er það að sjálfsögðu ekki. Ég get verið víðsfjarri þótt ég sé á staðnum. Eitt af mínum helstu persónueinkennum myndi konan mín sennilega segja.  

Eins og flestir sem komnir eru yfir fertugt hef ég gengið í gegnum tímabil þar sem ég hef verið argur útí foreldra mína, fundist þau hafa gert mistök t.d. í uppeldi.

Þau voru áhugalaus um áhugamálin mín og þau gáfu mér ekki páskaegg og ég fékk ekki í skóinn fyrr en ég grenjaði. 

Ekkert af þessu hefur skaðað mig og ég nýt þess í dag að segja fólki frá þessu s.s. þessu með páskana og jólin og ég er kominn með svona shtick sem gæti kallast Harmsagan. Hún fjallar um hvernig ég var snuðaður um ýmislegt sem önnur börn fengu að njóta, hvernig mér var mismunað, beittur órétti og ranglæti. 

Tímarnir eru breyttir. Maður æfði fótbolta í einrúmi, kannski einn eða tveir pabbar á hliðarlínunni, gargandi eitthvað á dómarann eða á börnin í liði andstæðinganna en fyrst og fremst á sín eigin börn eins og normið er í dag (mömmur láta ekki einu sinni sitt eftir liggja núorðið). Ég held ég hafi ekki einu sinni þurft ár og þroska til að sjá hvað þetta var hallærislegt og ég vorkenndi þessum strákum sem gátu ekki bara spilað sinn fótbolta í friði.

Ég stundaði mín áhugamál og foreldrum mínum var sama hvað ég gerði svo lengi sem ég var ekki að sniffa lím eða leggja önnur börn í einelti. Fyrir vikið þurfti ég ekki hvatningu til að leika mér.

Og ég held ég búi að því enn í dag.

(Ég sný útúr öllum spurningunum þínum, kæri stokkur. Sorrí)

 

jonknutur