23.01.21

What’s one conversation that transformed yout life?

Soldið bíómyndaleg spurning er það ekki, kæri stokkur? Eitt samtal og líf þitt er breytt. Eitt spjall. Vendipunkturinn kominn og þú verður fullorðinn.

Krass, búmm, bæng.

Er þetta ekki svolítil einföldun? Ertu ekki pínu amerískur núna? 

Almáttugur, þú ert svo yfirborðskenndur, kæri stokkur! Svo mikill frasakall.

… 

Það eru óþægilegu samtölin sem breyta lífi manns. Þegar fólk sem þekkir mann spyr, já og jafnvel yfirheyrir um hegðun manns og atferli. Eins og þegar móðir mín beið eftir mér um miðnætti eitthvert haustkvöldið ’89 og spurði mig: 

– Hvað í andskotanum varstu að gera og með hverjum?

Hún hafði fengið símhringingu frá eiganda Shell-sjoppunnar þar sem ég hafði brotist inn um klukkustund áður ásamt félögum mínum í hljómsveitinni Sabotage. Fórum inn á lagerinn og stálum fimm flöskum af appelsíni og Prins Póló. Litlum. Ég hugsaði mig um í fáeinar sekúndur, nógu margar til að mamma endurtæki spurninguna, enn hvassari í rómnum, og svo ældi ég útúr mér sannleikanum, sagði frá öllu og sagði til vina minna. 

Þetta var pretty fokking lærdómsríkt og ég er enn að súpa seyðið af þessu. Því alltaf, af og til, hugsa ég um það hvernig ég myndi bregðast við í hinum og þessum aðstæðum. Þetta er að sjálfsögðu ekki sambærilegt en hvernig myndi ég bregðast við ef hómófóbískir nasistar næðu völdum á Íslandi? Yrði ég jafn hrikalega frjálslyndur og ég þykist vera? Myndi ég þora því? 

Það er ekkert mál að vera róttæklingur og pönkari á Íslandi. Það er ekkert mál að vera ferlega liberal þegar alvöru afleiðingar eru nánast engar. Það er meira afrek að verða vegan í villimannasamfélaginu á Austurlandi og ég dáist að fólkinu sem lætur bara vaða og gefur skít í liðið sem ætlar sko barasta að borða hefðbundinn íslenskan heimilismat! 

Ég dáist sumsé að þessu fólki um leið og ég graðga í mig skinkusamloku.

 

jonknutur