Í Mjóafirði

Inni í Sólbrekku les ég um forfeður mína í gamalli bók. Þau bjuggu á Krossi um tíma, hér hinum megin í firðinum, bæ sem fyrir löngu er farinn í eyði og einungis tóftirnar eftir. Skilst mér. Þangað hef ég aldrei komið þótt það hafi lengi verið á langtímaplaninu. 

Þetta var fátækt fólk með öllu sem því tilheyrir á gamla Íslandi og það sem ég les er frásögn af ekta íslenskum barningi.

Kuldi og hungur. Og svo framvegis.   

Nútímamenn segja að geðheilsan sé manns einkamál, þú þurfir bara að temja þér jákvætt hugarfar, stunda innhverfa íhugun, jóga, borða kolvetnasnautt fæði og gera tilraunir með ayahuasca.

Segðu þetta við fátækt fólk. Segðu þetta við fólk sem lætur börnin frá sér. 

Langalangafi minn, Jónas Þorsteinsson, endaði á Norðfirði og bjó þar í húsi sem kallaðist hinu kaldranalega nafni “Harðangur”. Þar stundaði hann grasalækningar meðfram sjómennsku og öðrum tilfallandi verkastörfum í landi. Og hann orti líka og fékk viðurnefnið Skáldi. 

Það kemur fram í bókinni sem Villi á Brekku skrifar um Mjófirðinga að langalangafi minn hafi sjaldnast gefið sér tíma til að yrkja. Þið vitið: vinnan og baslið, svo maður gleymi ekki þunglyndinu sem hrjáði hann og ég, verandi yfirmáta sjálfhverfur, hugsa um mína eigin stöðu á meðan ég sötra kaffi inni í Sólbrekku.

Af svona fólki ertu kominn. Fátækt fólk sem þraukaði. 

Mundu þetta.

Mundu þetta þegar þegar þér finnst þú vera ættsmár og einn.  

 

jonknutur