Þú baðst um iphone en ég sagði nei

Því ég vil ekki að þú gangir niður bæ með hvítan tappa í eyranu og missir af niðnum í Búðaránni. Þú gætir haldið að lífið væri grípandi viðlag með Harry Styles.

En það, elsku barn, er bara allskostar ekki rétt.

Já, barnið mitt, pabbi þinn passar vel að leggja innskóna, þessa sem tók tíu ár að þróa á tilraunastofu í Massachusetts, á hilluna eftir klukkan þrjú á daginn og hann gengur berfættur á flísunum fram að háttatíma. Þreytan í iljunum er bara áminning um léttinn þegar hann rennir sér í þá aftur klukkan fimm að morgni.

Því lífið, elsku barn, getur verið hart og fyrirgefur ekki alltaf bylturnar.

Það er líka súrt eins og skyrið sem pabbi þinn borðar og þess vegna sagði hann nei við iphone og skyri sem bragðast eins og ostakaka. Lífið er ekki alltaf dísætur eftirréttur. Stundum er það niðursaltað og pæklað. Eins og bútungur.

Og sængin hans er þunn og sjampóið ilmar ekki og vekjaraklukkan hans er hliðræn og kaffið hans er svart og sykurlaust. Þessu má líka líkja við lífið en pabbi þinn ætlar ekki að gera það. Þú getur notað þitt eigið ímyndunarafl.

Já, hann pabbi þinn veit ósköp vel að hann er óþolandi og sennilega á hann heima á einhversslags stofnun.

En það er hollt fyrir þig líka.

 

jonknutur