Skipt um peru

Þegar ég gleymi því að setja heddfón á höfuðið á leið minni í vinnuna get ég séð að það er lágskýjað og fjörðurinn blýgrár. Norðaustan, hugsa ég, án þess að vita það. Ég hef ekki hlustað á veðurfréttir og ætla ekki að hlusta á þær en þetta er allt saman mjög svo kunnuglegt. Elritréð í garðinum mínum veit þetta líka og felldi lauf í nótt. Böns af þeim.

Það er að koma haust. 

Klukkan er tíu mínútur í sjö að morgni og fólk er farið að tínast í vinnu. Stundum týnist það líka í vinnu.

Umferðarniður á Reyðarfirði: Væri ég blindur gæti ég samt dregið þá ályktun að það hafi rignt í nótt. Veghljóðin eru þannig. Ekki að ég þurfi að beita neinni ályktunarhæfni. Ég sé ágætlega og sé það til dæmis á hnakknum á hjóli dóttur minnar að það hefur rignt í nótt.

Þá þarf ég ekki að vökva. Þá þarf ég ekki að þrífa bílinn. 

Ég geng áleiðis niður bæ með tölvutöskuna á bakinu og mér datt í hug að skrifa eitthvað í vasabókina mína en innblásturinn er skammvinnur og hugsanir um eitthvað sem gerast þarf í vinnunni, eins og skot, kæfa þessa tilraun í fæðingu. Innblásturinn rann sitt skeið á sirkabát sjö sekúndum. 

Ég heyri fólk tala saman þegar ég geng fram hjá húsi sem liggur við aðalgötuna. Mér heyrist þetta vera pólska og ég velti fyrir mér í andartak, áður en næsta skynjun og næsta hugsun tekur við, um hvað þau séu að tala. Mér dettur ekkert sniðugt í hug. Þau eru eflaust bara að tala um þetta venjulega, að það þurfi að fara í búð, “ekki gleyma hleðslutækinu eins og þú gerðir í gær”, hver ætlar að skutla í afmælið. Já, og hver kláraði eiginlega AB-mjólkina? Og var búið að losa stífluna inni í þvottahúsi eins og búið er að marglofa? 

Við brúnna slær bakaríslykt fyrir vitinn. Fyrir utan ilminn af kaffinu og sýrlensku handsápunni sem ég notaði í morgun er þetta fyrsti ilmur dagsins og sá besti til þessa.

Allt í einu langar mig að byrja reykja pípu aftur.   

Þegar ég gleymi því að setja heddfón á höfuðið sé ég ljósaperu blikka inni í vöruskemmu handan við bakaríið og hugsa með sjálfum mér hvort hún hafi verið biluð lengi, hvort ég hafi hreinlega ekki tekið eftir henni og hvort menn ætli í alvörunni ekki að fara skipta um peru.

 

 

 

jonknutur