Ég er andlaus. Fæ ekki hugmyndir, að minnsta kosti ekki góðar, og þegar mér finnst ég vera fá flugu í höfuðið fyllist ég eftirvæntingu sem fjarar út á sama augnabliki og ég opna tölvuna. Ég loka henni aftur og opna Facebook og skrolla þar til ég hef náð tilætluðu sjálfshatri. Þá legg ég símann frá mér og stelst í nammiskápinn.
En hugmyndin sem ég hafði fengið var hvorteðer of afhjúpandi. Nothing to write home about. Sem hluti af fjölskyldu, sem hluti af smábæjarsamfélagi, getur verið snúið að átta sig hversu langt maður getur gengið. Jafnvel gagnvart sjálfum sér. Því gangi maður of nærri sjálfum sér er hætt við að maður særi börnin. Ef ekki núna þá í framtíðinni þegar ég verð dauður og börnin hafa komist að því að faðir þeirra bloggaði langt fram á fullorðinsár og lét allt flakka.
…
Ég læt þetta blogg að mestu í friði en ég gríp stundum í það þegar ég er eitthvað „lost“. Það er dagbókarára bloggsíðunnar sem skýrir þetta. Þú segir henni sannleikann. Innan skynsemismarka því þessum „sannleika“ er deilt með öðrum.
Ég hef oftast ekki tíma til að skrifa langa texta. Eða ég tel mér trú um það. Sannleikurinn sennilega sá að ég nenni því ekki. Við erum í sumarfríi og lífið snýst um börnin. Og hvolpinn sem er stjórnlaust grey og engu tauti við hann komið en náttúrulega svo mikið krútt að maður fyrirgefur honum allt.
Í fyrradag gengum við t.d. í Stapavík og Hnota, viðþolslaus af hungri, slapp frá okkur (hún var laus) á leiðinni til baka og stal samloku af göngufólki sem var að nesta sig í einni víkinni í fullkomnu austfirsku logni.
Fólkið tók þessu vel. Eða eins vel og hægt er að taka því þegar stjórnlaus hundur hoppar á mann og rænir bæði sálarfriði og samlokum. Okkur var sagt að „þjálfa hundinn betur“ og við reyndum ekki að afsaka hann. Sögðumst ætla að passa þetta næst. Prísuðum okkur sæl að hafa bara fengið smotterís umvandanir en ekki hótanir um kæru eða eitthvað álíka sem hefði verið svo dæmigert á þessum tímum dómhörku og opinberrar smánunar.
Við virðumst nefnilega öll vera að breytast í Ameríkana. Öll með lögfræðing á okkar snærum. Öll með þerapista. Verði manni á má alltaf reikna með kæru. Að minnsta kosti smánun á Facebook. Algert lágmark.
Eftir á að hyggja er ég viss um að það hafði úrslitaáhrif að við þekktum fólkið lítillega. Rétt tæplega málkunnug. Næ augnkontakti við manninn þegar ég hitti hann í Bónus og við kinkum báðir kolli. Og það breytir öllu.
Það er, minn kæri lesandi, lykillinn að heimsfriðnum.
…
En það má alltaf læra eitthvað af svona uppákomum. Ég náði samlokunni af Hnotu, hálfétinni, og hún var með pestóskinku og sætu sinnepi. Kombó sem virkar vel en ég man aldrei eftir því að nota þessi álegg þótt oftast séu þau til í ísskápnum okkar. Sjálfur hefði ég mögulega bætt við hráum lauk og kannski súrum gúrkum. Já, og notað heimabakað súrdeigsbrauð en ekki samlokubrauð úr búðinni.
Og svo náttúrulega að hafa hundinn í bandi. Það mætti læra það líka.
…
Þegar ég er „lost“ eins og ég er þessar vikurnar á ég ekki við að ég sé þunglyndur. Mér líður vel. Ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur á ævinni og ég hef verið síðustu árin. Ég er ástfanginn af konunni minni og börnunum. Og ég er að verða fimmtugur. Pínu útjaskaður. Og það hefur sína kosti.
Þegar ég segist vera „lost“ er ég eingöngu að hugsa um þessa „skapandi hlið“ á sjálfum mér sem ég reyni að viðhalda þrátt fyrir áreiti og tímaleysi.
Áreitið kemur úr öllum áttum en það er alveg með ólíkindum hvað maður getur orðið stressaður í jafn litlum bæ og Reyðarfirði „þar sem ekkert gerist mörg þúsund sinnum á dag.“ Ég er á miðjum aldri (rúmlega), í vinnu og með fjölskyldu. Fólk treystir á mig og ég þarf að vera til staðar. Ég skipti máli. Í augnablikinu allavega. Ég hef talið mér trú um þetta. Og þetta getur verið „þjakandi“ og stundum dagdreymi ég um að börnin séu flutt að heiman og hundurinn orðinn að ösku. Að ég hafi allan tímann í heiminum til að lesa, skrifa og pæla. Ferðast með Esther og koma henni til að hlæja.
Ég er full meðvitaður um það að telja sig hafa „skapandi hlið“ er þerapíu- og sjálfshjálparbókarhjal, soldið mikið „Sirrý“ eða „Halla Tóm“ eða „Bono“, og að krefjast þess að fá næði og frið til að uppfylla þessar „þarfir“ er bæði frekt og sjálfmiðað. Það vill bara svo til að þetta eru lýsingarorð sem bæði eiga ágætlega við um mig.
Því ég get ekki afneitað þessu eðli mínu. Ég þarf að búa eitthvað til. Eitthvað sem kemur frá hjartanu. Eitthvað heiðarlegt. Eitthvað sem enginn borgar mér fyrir að gera. Stundum eitthvað svona, hvað sem má kalla þetta.
Blogg?
Autofiction?
(Rólegur kúreki, þú ert enginn Knausgård)
Ég hef samt val. Skulum hafa það alveg á hreinu. Ég þarf ekkert að sitja hér og skrifa.
Ég get líka alveg gengið niðrí fjöru.
Og svo áfram.
Í sjóinn.