Stundum hef ég enga lyst á að skrifa en geri það samt. Kalli Th., minn fyrsti ritstjóri, orðaði þetta svona:
“Stundum verður maður að míga þótt manni sé ekki mál.”
Við unnum saman á vikublaðinu Austurlandi frá janúar 2000 og fram á sumarið þegar hann hætti og fór aftur suður eftir einhvers konar hvíldarinnlögn fyrir austan. Við kláruðum blaðið á þriðjudagskvöldi, stundum var komið fram yfir miðnætti þegar við ræstum prentarann út og réttum honum diskettu með árangri dagsins.
Og iðulega var síðasta verk ritstjórans að skrifa leiðara og eðlilega var maðurinn andlaus eftir heilan dag af héraðsfréttaskrifum. Ekki alltaf mest gefandi starf í heimi verður að segjast, langoftast lítið í fréttum og það sem var að frétta var sjaldnast mjög spennandi. Þá lærði maður að harka en mín skilgreining á harki er þessi: Að gera sér mat úr öllu. Að búa t.d. til “æsifrétt” úr bilaðri neyðardyr í íþróttahúsinu eða eitthvað í þeim dúr.
En á þriðjudagskvöldi, eftir kvöldmat (oftast harðfiskur minnir mig), dæsti Kalli, opnaði bjór, kveikti sér í sígarettu, fann einhvern þráð til að rekja og vélritaði sirkabát fimm hundruð orð. Fór heim til sín á Stöðvarfjörð, slökkti á símanum og svo hittumst við aftur á mánudagskvöldi tæpri viku síðar og endurtókum leikinn, “hræktum” einu stk. héraðsfréttablaði úr okkur á sólarhring eða svo. Í millitíðinni tókum við Erla Trausta við símtölum frá lesendum og eigendum blaðsins. Kalli var nefnilega gæddur þeirri náðargáfu, leyfi ég mér að segja, að móðga fólk svona eiginlega alltaf alveg óvart. Honum virtist ekki detta það til hugar að fólk tæki skrifin hans nærri sér. Held að hann hafi hreinlega reiknað með að fólki fyndist jafn leiðinlegt að lesa leiðarana og honum fannst að skrifa þá.
Það var misskilningur því fólk var vant því að lesa “hefðbundið” héraðsfréttablað þar sem tíðinda- og tilveruleysið var oftast nær algert. Lesandinn tekinn á flug yfir skýin, útsýnið laust við alla tilbreytingu og þú varst skilinn eftir með þá tilfinningu (þegar þú lagðir blaðið frá þér í ruslafötuna) að engar fréttir væru góðar fréttir. Að það væri deginum ljósara, svo ég vitni í fræga bók, að við lifðum í hinum besta heimi hugsanlegra heima og allt sem gerðist miðaði til góðs!
Ekki misskilja mig: Ég hef lært að meta “venjuleg” héraðsfréttablöð og les Austurgluggann minn upp til agna en þarna, veturinn ’99-´00, var allt í einu kominn maður við ritvélina sem hafði skoðun á þorrablóti Alþýðubandalagsins í Neskaupstað. Þetta var óheyrt. Og náttúrulega óheyrilega spennandi! Ég segi það og meina: Þarna, nákvæmlega þarna, kviknaði áhugi minn á því “að dvelja í félagsskap orða” eins og skáldið sagði og þið bara verðið að afsaka tilgerðina, takk fyrir.
Það var frábær skóli að vinna með Kalla þótt vinnan hafi ekki alltaf verið skemmtileg. Ég mun hvetja bæði börnin mín til að prófa blaðamennsku því þú lærir tvennt sem mun alltaf gagnast þér:
- Að harka – þ.e. búa til eitthvað úr nánast engu.
- Þú lærir að hringja í fólk. Merkilega mörgum finnst það erfitt en í starfi þar sem þú hringir tuttugu símtöl á dag venst það furðu fljótt. Í dag finnst mér bara erfitt að hringja í iðnaðarmenn!
Jæja. Mér var ekki mál en alltaf tekst manni að kreista úr sér nokkra dropa. Manni leggst alltaf eitthvað til, sjáðu til, þökk sé þessu hálfa ári á vikublaðinu Austurlandi, þarna um aldamótin þegar við notuðum enn þá diskettur og blaðamenn fengu sér bjór og sígó á vinnutíma.