Fór til Ítalíu á dögunum og oft hef ég verið duglegri að punkta hjá mér. En þetta var vinnuferð og nóg að gera. Lítið næði til marínerast í eigin hugsunum, reflekta á upplifanir og svo framvegis. Ég get svosem sagt núna, eftir á að hyggja, að Ítalía var næs og stóðst væntingar og raunar rúmlega það. Hef nefnilega verið, skömm frá því að segja, með fordóma gagnvart Ítalíu og Ítölum. Það er eitthvað sálrænt og kannski uppeldislegt. Sálrænt vegna þess að ég, sem norrænn maður, er á varðbergi fyrir ítölskum – suðrænum – sjarmörum sem heilla konurnar “okkar” með mannasiðum og brúnum augum. Þetta er djúpstæður félagssálfræðilegur komplex sem hrjáir eflaust margan barbarann. Þeir voru jú að reisa flúraðar kirkjur syðra á meðan við bjuggum í hellum á Suðurlandi. Og já, svo hef ég aldrei almennilega geta fyrirgefið sigur Ítala á Vestur-Þjóðverjum á Spáni 1982.
En þetta var auðvitað bara rugl eins og við var að búast. Ítalirnir heilluðu auðvitað en þeir heilluðu líka mig. Svo laga þeir gott kaffi og búa til góðan mat. Goes without saying.
Í vasabókinni minni eru nokkrar setningar:
- Keypti Kafka í fríhöfninni. Vil ekki að sjórekið lík mitt finnist á Atlantshafi með neitt ómerkilegra en sjóvelkt eintak af Réttarhöldunum. Gæti ekki fyrirgefið mér að finnast með Arnald eða eitthvað svoleiðis dót. Muna að setja þessa pælingu á feis. 20 læka status amk.
- Þegar ég var í háskólanum fór ég til nuddara og ákvað að það væri góð hugmynd að fara til hans í sokkum með gati. Hann var á sextugsaldri og með sítt hvítt hár í tagli og frænka mín, sem hafði óbilandi trú á hómópatíu, mælti með honum. Gamall hippi, trúði ég, sem aldrei kvikaði af braut. Sokkar með gati og ég myndi nálgast hann “kúlturelt”, hugsaði ég, og yrði þal mögulega ekki rukkaður um fullt verð. En ég hafði rangt fyrir mér. Never trust a hippie.
- Vinur minn þræðir hönnunarbúðir þegar hann er í Reykjavík og kaupir allskonar dót sem hann skreytir sig með. Þegar ég bendi á hálsmenn eða eitthvað skraut sem hann hengir á líkama sinn og spyr hvort þetta séu “trúarleg” tákn svarar hann: “Já, þannig lagað. Þetta er úr Epal.”
- Æfing í praktískri stóuspeki: Að sitja við hlið mannsins í flugvélinni sem ætlar ekki að nota tækifærið og zóna út með heddfóninum sínum. Að spjalla við hann og sýna honum áhuga. Möo: kill him with kindness. Reynslan af barnauppeldi hefur kennt mér að fái fólk alla þá athygli sem það biður um og vel rúmlega það sofnar það værum blundi.
- “Konuhendur koma miklu í verk í kyrrþey” – Réttarhöldin, Kafka.
- Í flugvélinni er allt til alls: Bíómyndir til að horfa á, poddköst, bækur, tímarit. Gulltryggt að ég þurfi ekki að vera einn með hugsunum mínum.
- Í lok flugsins átta ég mig á því að ég hef verið með sætið í öftustu stillingu allan tímann, hlustandi á Brothers in arms með Dire Straits. Ég horfi í augu manneskjunnar fyrir aftan mig í brot úr sekúndu og bið hana afsökunar í huganum. Með augunum hafnar hún beiðninni.
Annað markvert fann ég ekki í bókinni. Síðasta færslan er svona:
Ál: 156
Plast: 18
Gler: 6