Kanarí F

Svalur vindgustur síðdegis á eyjunni. Nokkrir sóldýrkendur liggja áfram á appelsínugulu bekkjunum við sundlaugina með tunguna lafandi úti. Ég geng framhjá manni og ég fæ ekki betur séð en að hann sé að klára allar þúsund blaðsíðurnar í Stríð og friði.

Sundlaugarsoðnir fingur, blautt hár, gleðiískur í börnum, þvöl handklæði, þytur í gúmmítrjám, sandur á milli táa, freknur á nefi og roði í kinnum.

Sumarfrí í febrúar.

Ég er umkringdur eldri borgurum alla daga og kannski var það þess vegna sem ég leyfði börnunum að jarða mig niður á strönd í fyrradag.

Sandurinn var þungur og mér fannst þetta fremur óhuggulegt. Líkt og þau væru að grafa mig lifandi. Þau gáfust að vísu upp fyrir fótunum mínum og sögðu að ekki væri hægt að jarða þá sökum stærðar.

Á torgi í miðbænum fylgdumst við með nokkrum fimleikamönnum sýna listir sínar. Einn þéttvaxinn eyjaskeggi tók nokkur heljarstökk aftur fyrir sig beint fyrir framan nefið á okkur og virtist sveigt sig og beygt eins og köttur. Börnin dáðust að því hvernig hann ögraði þyngdaraflinu hvað eftir annað og ég, verandi þessi risaeðla sem ég er og fullur af allskyns sleggjudómum, gat ekki annað en tekið eftir því að þarna „fór ekki saman hljóð og mynd“ eins og fólk segir. Þetta var stór og mikill maður að framkvæma hluti sem manni finnst eingöngu vera á færi ungra og nettra vöðvabúnta. Ég ætti auðvitað að vita betur en var í þessum þönkum þegar við heyrðum fyrir aftan okkur á hinu ástkæra ylhýra:

„Hann er nú bara helvíti liðugur þótt hann sé svona feitur, hmmm?“

Þær sátu þarna tvær við barinn, eitursvalar vampírur; beinaberar og hvíthærðar, í litríkum sumarkjólum og sandölum. Supu sína blóðrauðu sangríu og settu hugsanir í orð. Ótjóðraðar af velsemisreglunum heima.

 

jonknutur