Minnispunktar frá Kanarí – A

Furðulegt hvernig hugurinn virkar, hugsa ég.

Rútan er full af gráu hári á leið sinni á „all you can eat/drink“ einhvers staðar á Kanarí og svo okkur Esther og börnunum, tengdamömmu og Margréti, vinkonu okkar.

Við sitjum aftast. Ég horfi yfir hópinn. Fólk af sömu kynslóð og gerði stjórnlausan hárvöxt vinsælan fyrir 1970. Grátt hár og skallar. Ágætis hreyfigeta en hjarta- og æðakerfið mögulega ekki í toppstandi ef marka má gönguna frá flugvél að farangursfæribandinu. Tíu mínútna spölur og tvisvar sinnum sé ég eiginkonu stumra yfir eiginmanni. „Svonasvona, Eyjólfur minn,“ gætu þær hafa sagt til að hressa þá við, klappandi þeim létt á bakið. Margrét er menntaður læknir og ég sé á augnaráði hennar að hún á von á hverju sem er.

Fararstjórinn réttir mér umslag. Ég opna það og það fyrsta sem ég dreg upp er blað með símanúmeri heilsugæslunnar. Right.

„Þeir voru að hleypa úlföldunum út í Sahara,“ segir fararstjórinn. Þannig útskýrir hún mistrið á eyjunni og í rútu fullri af eldri borgunum gerir enginn athugasemd. Enginn hlær. Kannski er hún að segja satt, hugsa ég, og fólk er bara búið að heyra þennan brandara of oft. Því þetta er fólk í sinni tíundu ferð til Kanarí.  Þegar fólk hættir að vinna kemur það aftur og aftur og aftur til eyjunnar og svona ferðalag er bara eins og hver önnur hjartaþræðing. Fararstjórinn nefnir nokkra með nafni í kallkerfið í rútunni: „Jón og Gunna? Þið eruð á Turboclub eins og venjulega er það ekki?“

Esther horfir á mig og ég les upphrópunarmerkið á vörum hennar. „Turboclub!“. Við hugsum það sama: Enn hvað þetta er skrýtið val hjá eldri borgunum og ég gúggla hótelið, eða klúbbinn, strax. Túrbóclub fær toppeinkunn á TripAdvisor og þess er sérstaklega getið hversu þrifið starfsfólkið er. Ég er engu nær um þessa nafngift og hún virðist jafn tilviljanakennd og útíhött og þetta með úlfaldana.
´
Það er svo merkilegt að eftir því sem maður eldist fer maður að kunna meta svona hluti. Ég þekki það sjálfur. Maður kann orðið betur að meta vel þrifið anddyri á hóteli en „all you can drink“ barinn aðeins innar. Maður strýkur vaskinn á hótelherberginu og tekur út fingurgóminn, virðir hann fyrir sér, rannsakar hann með pírðum augum. Hvers konar skán er þetta sem ég greini? Storkið hreinsiefni eða hvur fjandinn? Ég vil ekki vita það og hringi í móttökuna. Ég vil aukaþrif á herbergið mitt á meðan ég fer í kvöldmat. Takk.

Svolitlar ýkjur en ekki miklar. Ég á t.d. einn félaga, aðeins fjórum árum eldri en ég, sem fullyrðir að fólk sem býr ekki um rúmið sitt sé í raun og veru „lifandi dautt“. Hann er ekkert að grínast. Hann segir það „lifandi dautt“ og ég veit að honum er alvara því þegar ég spyr hvort hann meini þetta svarar hann: „Já, ég meina þetta.“

Það hlýtur að vera erfitt að vera aldraður maður og eiga þennan félaga minn fyrir son. Hvernig haldiði að það sé að fá hann í heimsókn? Þú ert kannski í gúddí fíling, búinn að sofa út til hálf ellefu, situr við eldhúsborðið með kaffibollann þinn og lest blaðið. Þetta eru laun erfiðisins en allt í einu er hann mættur út á mitt gólf því auðvitað krefst hann þess að vera með lykla að húsinu þínu, strunsar beint inn í herbergi og sjá: Gamli kall! Þú hefur gleymt að búa um rúmið þitt!

Þú lítur sakbitinn undan augnaráði hans. Lifandi dauður. Þú ert ekki lengur eldri maður að livva og njódda með engum kvöðum eða skuldbindingum. Þú ert gamall og roskinn kall. Sötrandi þitt lapþunna kaffisull með sleftauminn útum hægra munnvikið. Varla sjálfbjarga. Lifandi dauður.

Ég horfi út um gluggann. Við keyrum framhjá vindmyllugarði. Sumar eru nálægt okkur og þá loksins áttar maður sig á því hvað þetta drasl er risavaxið. Ekki frekar en maður gerði sér grein fyrir því hvað álverið á Reyðarfirði var stórt fyrr en maður ók í fyrsta sinn fram hjá því. Það tók dágóða stund minnir mig.

Ég horfi á þær. Vindmyllurnar. Sumar eru á hægri hreyfingu en aðrar eru stopp og þær standa þarna eins og uppgefnar og minna mig á einhvern fjandann. Ég þarf hugsa til að átta mig. Einn spaðinn vísar upp á meðan hinir standa út á hlið og síga örlítið. Lafa líkt og handleggir. Á hvað minnir þetta mig eiginlega?

Jú, svei mér þá. Þær minna mig á frægustu ljósmyndina frá Abu Ghraib-fangelsinu. Þessari af fanganum með hettuna.

Vindmyllur – orkuframleiðsla – íslenskt álver – amerísk heimsvaldastefna

Furðulegt hvernig hugurinn virkar.

 

Kanarí

Við erum farin til Kanarí.

Stutt stopp í Reykjavík og við fórum með börnin og tengdamömmu rakleitt í IKEA. Ekki til að versla heldur til að fara út að borða. Á matseðlinum var hægt að fá kjúklingahamborgara, ýsu í orly, veganbollur, kjötbollur og plokkfisk. Já, ég man þetta. Við fengum okkur ýsuna, plokkfiskinn, brauð með hangikjöti fyrir tengdó og kjötbollur fyrir börnin, tvær rjómabollur og kladdköku, gos og kaffi til skiptana. Fyrir þetta borgaði ég rétt rúmar 5400 kr. og mér til undrunar varð ég gripinn einhvers konar ofsakæti. Ég bara réð ekki við mig, hló að öllu og lék á alls oddi. Sagði m.a. söguna af manninum sem ég kallaði afa sem var svo þrjóskur að þegar hann fékk kíghósta sem barn neitaði hann að hósta og náði fullri heilsu á undraskömmum tíma. 

Svona er ég svag fyrir góðum díl. Eða kannski er ég bara nískur. Það gæti allt eins verið. Nískutaugina má alveg finna í fjölskyldunni minni. Ætla ekkert að neita því. 

Það verður auðvelt að gera mér til geðs. Gemmér bara góðan díl á kjötbollum og ég verð ljúfur sem lamb.

Jess! Við erum farin til Kanarí.  

 

Lærdómar

What lessons did you learn this past year – how have you grown and improved?

Sko…

Það er ekki mitt að segja, kæri stokkur. Ekki þegar öllu er á botninn hvolft. Því skynjun manns á eigin gjörðum og hugsunum er brengluð. Mér finnst ég vera hvers manns hugljúfi alveg þangað til eiginkonan spyr mig:

Hvers vegna ertu þá svona æstur? 

Nú og þá spyr ég á móti:

Hví gaslýsir þú mig, kona?

o.s.frv.

Ég gaf út ljóðabók í vor. Ég ætlaði ekki að gefa hana út. Ætlaði að prenta hana í nokkrum eintökum og gefa vinum og ættingjum. Egill Arnaldur, vinur minn og gúrú, las hana yfir og sagði mér að láta prenta hundrað eintök. Hann orðaði það sem svo að það væri eitthvað svo kynferðislega bælt við skúffuskáldskaparlistina. Ertu eitthvað bældur, Jón minn? Svarið var já. Ég er yngsti sonurinn í geðveikri fjölskyldu og ég er alltaf með grín og glens á vörunum. Halda fólki góðu. PR er mitt fag!

Að fara deila einhverjum sorgarvaðli með fólki sem ég þekki ekki…það þurfti að sannfæra mig um að það væri góð hugmynd.

Þessi bók varð til á löngum tíma. Það söfnuðust saman textar á tæpum tíu árum og einhvern laugardagsmorguninn í heimsfaraldrinum sá ég að þarna var mögulega komið efni í bók. Ég hafði í nokkur ár sest niður í þeim tilgangi að skrifa bók en jafnan gefist upp eftir svona þrjá mánuði, já eða þrjá daga. Þrjár mínútur?

Þessi var öðruvísi. Hún skrifaði sig eiginlega sjálf því ég leiddi aldrei hugann að bók. Það var ekkert markmið með þessum skrifum annað en að skrifa. Hrækja þessu úr mér og sjá svo bara til. Þetta var eins og lag sem varð til upp úr löngu djammi. 

Markmiðið er að skrifa. Helst daglega sé hægt að koma því fyrir. Tilgangurinn er að gleyma sér, týna sér, nálgast sig og kannski finna eitthvað nothæft þegar best lætur. 

Ég hef sjaldan verið jafn iðinn við skrifin. Megnið ratar í skúffuna en hver veit. 

Þetta lærði ég á árinu. Já, og ég lærði að baka franska súkkulaðiköku.

That’s it.  

 

Tilfinningarakur

Ritstíflustokkurinn biður mig um að segja frá hvenær eitthvað kom mér „ánægjulega“ á óvart.

Það hætti að rigna í síðustu viku, skýin voru dregin frá og tunglið elti okkur Elías heim úr skólanum á föstudaginn. Þetta fyllti mig fölskvalausri og nánast klisjukenndri gleði sem entist fram á kvöld. Og það út af fyrir sig kom mér nokkuð ánægjulega á óvart. Sumsé, viðbrögð mín en ekki veðurfarsbreytingarnar sjálfar. Veðrinu er sama hvað mér finnst. En mér er greinilega ekki sama um veðrið. 

Veit ekki hvort þetta var svar. Ertu með eitthvað fleira, kæri stokkur?

What are the three major emotions that you’re carrying right now?

Í fyrsta lagi: Í augnablikinu einkennist lund mín af kvíðablandinni eftirvæntingu. Það er viðburður í dag á vegum vinnunnar þar sem ég á að sjá til þess að hlutirnir gangi sæmilega snuðrulaust fyrir sig. Þetta er eðlilegur sviðsskrekkur, tilfinning sem ég reyni ekki að ýta frá mér. Reynslan hefur kennt mér að hún heldur mér á tánum. Gæti líka verið áhrif koffíns en ég er búinn að drekka þrjá tvöfalda espresso síðan ég vaknaði. Jú, sennilega eru þetta áhrif koffíns. Svo margar samviskusamar konur að vinna með mér í dag að það getur ekkert klikkað.

Í öðru lagi: Við erum nýbúin að koma krökkunum í skólann. Þessi klukkustund milli sjö og átta er tími sem snýst um að gleyma engu. Ég er með þennan tékklista nokkurn veginn lærðan utanbókar hafandi átt börn í leikskóla í níu ár. Þið vitið: koma þeim á fætur, ýta og nuddast þar til þau eru burstuð, klædd og komin á ról. Þó gleymist alltaf eitthvað. Ein tónskólabók, ullarsokkar, heimaverkefnið etc. en aðallega gleymi ég einhverju sjálfur. Mæti ógreiddur í vinnuna, í mislitum sokkum, peysan á röngunni etc. Og á þessum níu árum hafa orðið nokkuð meltdown eins og þetta er kallað í dag (kallaðist brjálæðiskast í mínu ungdæmi). Þótt langt sé síðan síðast býst ég alltaf við því að einhver byrji að öskra á mig eða leggist í gólfið og fari svo að öskra á mig. Líklega er þetta einhversslags áfallastreituröskun. Þarf ég að fara í þerapíu eins og hver annar fyrrum hermaður í Írak? Veit ekki. Kannski ég prófi fyrst að draga úr kaffidrykkjunni.  

Í þriðja lagi: Ég upplifi stundum reiði sem foreldri. Þetta gerist t.d. þegar ég fer með yngra barnið í fimleika. Mér er skítsama um æfingarnar, hvort drengurinn geri þær réttar eða ekki. Who cares? Hann er ekki að fara á Ólympíuleika en ég fylgist með hvernig hann kemur fram við önnur börn og hvernig önnur börn koma fram við hann. Finnist mér hann órétti beittur langar mig til að ganga að sökudólgnum, öskra á hann og trámatísera for life. Fara svo til foreldranna og húðstrýkja þau með svipu sem ég geng að sjálfsögðu ekki með. Ég ranka samt alltaf við mér áður en ég læt til skara skríða.

Þetta eru allt saman eðlilegar tilfinningar. Ekki reyna að halda öðru fram en jú, ég er ekki frá því, drekk sennilega aðeins of mikið kaffi. 

That’s it í bili. 

 

 

Jæja, dóttir sæl/sonur sæll

Ég hef ákveðið að leita aftur á náðir ritstíflustokksins sem konan mín gaf mér í jólagjöf í hittiðfyrra. Hann spyr:

What career advice would you give to your 16-year-old self?

Hvaða starfsráðgjöf hefði ég veitt sextán ára útgáfunni af sjálfum mér?

Right. 

Sko…

Við hjónin erum auðvitað að reyna ala börnin okkar þannig upp að þau hafi sjálfstraustið til að taka svona ákvarðanir sjálf og þau þori að fylgja hjartanu. Ef sonur minn vill verða ljósmóðir vona ég að hann láti engar fyrirframgefnar hugmyndir um starfið (svosem eins og að konur eigi að sinna því) hindra sig. Og sömuleiðis vilji dóttir mín verða vörubílstjóri þá bara go for it. Ef það er það sem þú vilt, ástin mín. 

Ég vona að þau verði hugrökk. Að óttinn stjórni þeim ekki. 

Og þetta er beisíklí það sem ég myndi segja við sextán ára útgáfuna af sjálfum mér.

Ég var að vísu svo barnalegur að ég spáði ekkert í svona hluti þegar ég var sextán ára. Í minningunni lifði maður bara í núinu og fylgdi vinunum. Ég fór í menntaskóla vegna þess að þeir fóru í menntaskóla.

Síðustu önnina mína þurfti ég að leiða hugann að þessu og sótti um í FÍH. Alvaran á bak við ákvörðunina var samt ekki meiri en sú að ég fór ekki suður í inntökupróf. Sendi þeim þess í stað kassettu með trommusólói! Veit ekki hvort það var ofmat á sjálfum mér eða bara hrein leti. Sittlítið af hvoru hugsa ég en whatever…ég komst ekki inn. 

Í minningunni finnst mér eins og foreldrum mínum hafi ekkert litist á þetta. Pabbi minn rennismiðurinn var eins og biluð plata að því leyti að hann var sífellt að benda mér á rafeindavirkjun. Það væri framtíð í henni og ég þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Auðvitað hafði hann rétt fyrir sér en ég var aldrei týpan sem fílaði Legó. Ég fór nú samt í rafvirkjun hjá Hjalla en vegna verkfalls kennara hætti ég eftir sex vikur og fór lóðbeint í netagerðina. Því atvinnuleysi var ekki option á mínu heimili. Vinnan gerir okkur frjáls. 

Og mömmu minni ljósmóðurinni hugnaðist vel að ég lærði eitthvað sem tryggði vinnu hjá hinu opinbera. Lífeyrisréttindin sjáiði til.

Það sem þau voru í raun að segja var þetta: Gerðu eins og við og þér mun allavega ekki farnast mikið verr. 

Þriðja manneskjan til að hafa skoðun á þessu var svo námsráðgjafinn í menntaskólanum sem lagði fyrir mig áhugasviðspróf og sagði augljóst að ég yrði flottur enskukennari.

Ég er sennilega ekki mjög ráðþægur því ég fór ekki eftir neinum ráðum. Í háskólanum lærði ég bara eitthvað. Skráði mig í sálfræði, svo í hagfræði en endaði í sagnfræði. Skipti í miðjum klíðum yfir í félagsfræði vegna þess að besti vinurinn var í henni. 

Það var ekki fyrr en ég hóf störf sem blaðamaður hjá Austurlandi að ég ákvað að blaðamennska væri sennilega sniðug fyrir mann eins og mig. Sem hún var að mörgu leyti og í dag er ég upplýsingafulltrúi hjá opinberri stofnun. 

Ég meikaði það, mútta mín. 

Ef börnin verða eins og ég og vita ekkert í sinn haus mun ég segja þeim að það sé ekkert að óttast. Ég veit ekki enn hvað mig langar að verða þegar ég verð stór og það er líka til vinna fyrir þannig fólk. Og þess utan segði ég þeim að vinna sé ekki allt. Að lífið utan vinnu sé það sem gefur því gildi.  

Sumsé, finnið ykkur góðan maka og eignist börn. Ef einhver tími er aflögu, lesið heimspeki og bakið brauð.

Möo: Gerið eins og ég. 

 

Tveir heimar

Sonur minn er Boba Fett
og ég kyssi hann föðurlega á kinnina

hvísla í eyru hans að jafnvel
alræmdir hausaveiðarar
frá fjarlægum vetrarbrautum
þurfi að vera góðir strákar

hann slítur sig frá mér
og er horfinn
inn í annan heim
þar sem leðurblökukarlinn
tekur á móti honum
fagnandi

ég held áfram
sem leið liggur
niður í bæ
og yfir brúnna
með tölvupoka á öxlinni
og töflur gegn brjóstsviða í hliðarvasa
er ég skrifstofumaður á Reyðarfirði

 

 

Stundum

Upplýsingabylting
búsáhaldabylting
heimsfaraldur
og ég er örugglega
að gleyma einhverju
en man enn
danskt klámblaðið
sem við vinirnir
fundum niðurrignt
neðan við franska mel

rifið í sundur
í mesta bróðerni
fimm velktar síður á mann
restin ónothæf

ekki fimmtugur en stundum
að verða níræður

 

Veiðisaga

i

Eftir bankahrunið ´08
keypti ég haglabyssu
ekki til að skjóta bankamenn
og þaðan af síður
sjálfan mig

ég ætlaði að gerast
veiðimaður
eins og forfeður mínir
og héðan í frá yrðu
teknir upp nýir siðir
í nýrri
og sjálfbærri veröld
án
peningamarkaðssjóða

ii

Ég var léleg gæsaskytta
og í þau fáu skipti
sem ég hæfði
skaut ég
af þessum greyjum
væng
annan fótinn
eða framan af goggi
og þurfti að elta þær uppi
limlestar
og snúa úr hálslið
með berum
blóðugum
höndum

og það brást ekki
að í hvert skipti
horfðumst við í augu
fórnarlambið og ég
og mér leið eins og
morðingja
en ekki veiðimanni

á þessu er munur
skilurðu það?

Gísli Marteinn

iii

Svo ég hætti þessu

bersýnilega
of mjúk
týpa

en hafði
gaman af gæsaflautunni
enda allur í mússíkinni
og þegar ég gekk
meðfram ánni
inn við Grænafell
spilaði ég hvern
flautukonsertinn
á fætur öðrum
og smám saman
tók ég eftir
að „tónlistin“ mín
hafði áhrif
og það er
skal ég segja þér
óuppfylltur draumur hjá
langflestum tónlistarmönnum

og einn daginn tókst mér
svo vel upp
að ég ruglaði flugtaktinn hjá
einni
svo hún
flaug beint á rafmagnsvír
og féll
vinaleg til augnanna
en þung eins og blý
steindauð

til jarðar

 

Heimsendi nálgast: 14 ráð

– Drekktu stundum staðið og vont kaffi í vinnunni þótt þér standi til boða það allra besta frá Nespresso. Lúxus gerir þig linan.

– Láttu það eiga sig að fara til augn- og/eða eyrnalækna. Smámunasemi borgar sig ekki. 

– Reyndu að ná persónulegu sambandi við laghentan sveitunga. Þeir munu pluma sig fínt á óbyggilegri jörðu.

– Hugsaðu stundum um verklegar framkvæmdir. Þær geta verið sniðugar er það ekki?

– Afþakkaðu nýja dúnsæng og notaðu þessa gömlu úr gerviefninu, þú veist, þessari sem lyktar annarlega og minnir eiginkonuna á lík.

– Slökktu á Rás 1 á þriðjudögum og fimmtudögum og stilltu á Útvarp Sögu. Heimur án siðmenningar er það sem koma skal. Get used to it. 

– Ekki þrífa bílinn þinn. Það þrífur enginn bílinn sinn eftir heimsenda. 

– Ekki losa þig við haglabyssuna sem þú keyptir eftir bankahrunið vegna þess að þú ætlaðir að stunda sjálfsþurftarbúskap í þessum nýja og bjarta peningamarkaðssjóðalausa heimi.

– Bækur fremur en sjónvarp.

– Hlustaðu á nýja plötu með Bubba til enda. 

– Gakktu á fjallstind í Kínaskóm.

– Hreyfðu þig! Þú gætir þurft að grafa þína eigin gröf.

– Ekki fleiri en þrjú blöð af salernispappír. Fimm í neyð.

– Haltu barnaafmæli.

 

Hugsað um og í Svíþjóð

IKEA
ABBA
Europe
ljóshært
hlutlaust
kjötbollur
fæðingarorlof
kæst Eystrasaltssíld
Stokkhólmsheilkenni
fyrirmyndarvelferðarríki
skemmtilegri en Norðmenn
og/eða Danir (á pari við Finna)
sænski kokkurinn (samt amerískur)
þægilegir og vandaðir bílar (Volvo)
vörubílar æsku minnar (Scania)
áreiðanlegar herþotur (SAAB)
Bróðir minn Ljónshjarta
„Jag ringer på fredag“
herðabreiðar konur
hávaxnir karlmenn
Pelle sigurvegari
Olof Palme
varsågod!
Stenmark
Astrid L.
Ingrid
tack

Bíð spenntur eftir því að komast á kaffihús með nýju óútfylltu vasabókina mína. Nú verður skrifað! Panta kaffi, finn mér borð, eftirvæntingin fjarar út í lok þriðju línu. Þvílík leiðindi og kaffið er volgt. Mér dettur ekkert í hug. Tek ekki eftir neinu áhugaverðu. Sennilega er ég þurrausinn. Hef ekkert meira að segja. 

Tack för mig. 

Í mig vantar dómhörkuna. Er í hlutlausu skapi í Svíþjóð og hugsanirnar elta lundina.

Hvernig væri nú að slaka bara aðeins á, ha? Kíkja í bók? Spjalla við konuna sína? Lifa og njóta? Hvur veit, kannski dettur þér eitthvað snjallræði í hug?   

Ég heimsæki kennslustofu og hitti sænskunemendur. Vinka þeim eins og bjáni og leik hressa Íslendinginn af talsverðri kunnáttusemi þótt ég segi sjálfur frá. 

Einn nemendanna er frá Kabúl. Hefur verið í landinu í átta mánuði með fjölskyldunni sinni og á í erfiðleikum með sænskuna. En hitt sé aftur verra, segir hann, að hann hafi gleymt þeirri litlu ensku sem hann kunni áður en hann kom. Það eru ýkjur og við spjöllum saman í tíu mínútur, eins og við séum á hraðstefnumóti. Hann var blaðamaður og kominn yfir alsæluna sem fylgdi því að sleppa lifandi frá heimalandinu. Í dag er hann atvinnulaus flóttamaður á sænskunámskeiði fyrir útlendinga. 

Ég veit ekki hvað ég á að segja. Langar hálft í hvoru til að knúsa hann en það væri óviðeigandi. Hvet hann til að skrifa dagbók, blogga, búa til hlaðvarp, bara eitthvað! Jafnóðum finnst mér ég hljóma svo sjálfumglaður og sé eftir því að hafa sagt nokkuð. Hefði átt að þegja og hlusta. Kannski spyrja hann út í börnin hans, svona eins og fullorðið fólk gerir. Og það er einmitt það sem ég geri og viti menn! Yfir hann færist bros því börnin eru glöð í Svíþjóð.      

Skrifa í vasabókina mína á leiðinni heim á hótel að líklega gleymi ég ekki þessu spjalli. Þessar tíu mínútur reyndust ansi drjúgar. 

Hvernig myndi ég pluma mig í Stokkhólmi?

Hvernig myndi ég pluma mig í Kabúl?

Heilræði fyrir nærri fimmtugan mann í japanskri tískuskyrtu

Borðir þú mikið af þurrkuðum ávöxtum er óumflýjanlegt að leysa talsvert af vindi. Sértu í neyð stattu þá nálægt börnum eða gamalmennum og láttu vaða. Sökum aldurs, kyns og klæðaburðar er ólíklegt að þú liggir undir grun.