Kanarí E

Niður við ströndina ganga menn og selja „Rolex-úr“, leðurveski, belti og alls kyns apparöt sem eiga að létta manni lífið en það er bara ekkert hægt að létta manni lífið meira en nú þegar. Eftir tíu daga á svona stað, sem gerir engar kröfur til manns, líður maður áfram, með engar þarfir, eins og gufa. Ég nenni varla að drekka kaffi, hvað þá að skoða símann en samt er nóg að frétta að heiman: Verkföll, verkbönn og bæjarstjóraskipti í heimabænum. Maður skoðar þetta hér á ströndinni, rýnir í símann, rembist við að halda athyglinni en hugurinn fer eitthvert annað. Slúðrið og kjaftagangurinn bíður síns tíma.

Mér finnst stundum eins og fréttir eigi sér alltaf stað á þeim stöðum sem ég er ekki á. Ætli það sé ekki lukka mín í lífinu?

Hér skammt frá er kaffihús sem selur ís. Já, eða öllu heldur „ísrétti“ og ef eitthvað kallar fram minningar um ferðalög æskunnar eru það ísréttir. Rólexúr ísréttanna var svokallað Banana-splitti. Í því er náttúrulega einn banani, þrjár ískúlur, rjómi og súkkulaðisósa. Oft skreytt með kokteilsólhlífum sem maður síðan tók heim sem minjagrip.

Ég er mannlegur og gef stundum eftir þáþránni. Raunar ekki oft ef út í það er farið. Horfi t.a.m. sjaldan á kvikmyndir sem ég elskaði sem barn eða unglingur. Með nokkrum mjög mikilvægum undantekningum finnst mér þær flestar barn síns tíma og er almennt þeirrar skoðunar að sumt eigi bara að gleymast. Það er engin ástæða til að halda Naked Gun með Leslie Nielsen á lofti. Eða Rocky IV. Eða Hefnd busanna. Það þarf ekki að láta eins og Duran Duran sé besta hljómsveit allra tíma. Írafár var ekki skemmtileg hljómsveit.

Það var ekki allt gott í gamla daga en það virðist ekki vera hægt að jarða sumt í dag. Við lifum á tímum fortíðarþráhyggju. Make America Great Again og allt það. Þetta er eðlilegt viðbragð í menningu þar sem allt er á fleygiferð. Við höfum ekki undan að taka við stórfréttum og upplýsingatæknibyltingum. Svampurinn er gegnblautur og við finnum fótfestu í gömlu góðu dögunum þegar allt var svo einfalt og næs og analóg. Heimurinn í mesta lagi tvískiptur: CCCP vs. USA, Duran vs. Wham, KK vs. KVK.

Í einhverju ferðalaginu í Þýskalandi um árið, með bræðrum mínum og foreldrum, var bananasplittið einn af hápunktunum ferðarinnar. Eitthvað sem maður sagði frá er heim var komið, til marks um að allt hefði verið látið undan manni. Og ég lét það eftir mér á ískaffihúsinu París hér steinsnar frá hótelinu. Málað röndótt að utan eins og vera ber, sjálf gleðin uppmáluð, og við fengum borð innandyra þar sem við sátum í loftkældum svalanum, þögðum og smjöttuðum á ís. Í loftinu hékk áklæði í fjólubláum lit með alls kyns blúndum og rykkingum, þjónustufólkið var á „besta aldri“ eins og við segjum og það finnst manni athyglisvert komandi frá landi þar sem unglingar sinna svona störfum.

Bananasplittið var það sem það var: Banani með ís, rjóma og súkkulaðisósu. Ekki kombó þar sem heildin er stærri en summa hlutanna. Sumsé, bara alveg eins og mig grunaði og auðvitað ætti bananasplittið að rata á ruslahauga sögunnar eins og kvikmyndirnar Porky´s og Hvítir mávar. Ég gerði því samt skil, át það upp til agna og var ekki í neinni stöðu til að gagnrýna eitt né neitt. Hafði rétt lokið við að þurrka mér um munninn þegar tengdó spurði hvað okkur fyndist eiginlega um þennan frágang á loftinu, um áklæðið, um allar þessar rykkingar og blúndur. Ég yppti öxlum, hef aldrei haft skoðun á áklæðum í lofti eða blúndum og þess háttar.

„Finnst ykkur ekki eins og þið séuð inni í líkkistu?“ spurði hún svo og skipti ekki um svip.

Ég kunni ekki við að svara þessu játandi. Ekki fyrir framan börnin a.m.k. og sat bara þarna og þagði á meðan þau kláruðu ísinn sinn. Í einhverskonar grafarþögn mætti kannski segja því í huganum jarðaði ég endanlega bananasplittið.

 

jonknutur