Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 21:30

Er kominn í trússarahúsið og er einsamall. Elías vildi sofa hjá mömmu sinni og systur fremur en pabba sínum. Ég er svo vanur því að vera „seinni kostur“ barnanna minna að ég tek þessu ekki persónulega.

A kid should be with his mother
Everybody knows that
What can a father do but baby-sit sometimes?

… söng Sting einu sinni. Ég er ekki bitur eins og Sting samt. Við Iðunn og Hnota stukkum í hyl áðan og ég var um tíma aðaltöffarinn. Súper-pabbi. Esther átti ekki breik.

Kamma og Georg komu síðdegis með allskyns dót fyrir skálann, pressukönnur, fægiskóflur og ýmislegt fleira. Mér brá í augnablik þegar þau birtust allt í einu og fann hjá mér þörf til að fara sópa gólfin í skálanum. Ég hafði ómeðvitað yfirfært einhvern yfirmannastatus á Kömmu frænku mína sem er formaður Ferðafélagsins en þessi skömmustutilfinning rann af mér. Kamma var bara í góðum gír og ekki mætt til að taka út störf yfirskálavarðar. Það vildi þannig til að við vorum að græja kaffi og gátum tekið almennilega á móti þeim. Átum svo nýbakaðar pönnsur með rjóma og sultu og spjölluðum.

Og maður er manns gaman, maður minn! Ég þurfti svo á þessu að halda. Þurfti að hitta fólk utan fjölskyldunnar. Láta segja mér eitthvað og segja frá einhverju sjálfur, vera fyndinn og láta hlæja að mér. Er alls ekki eins einrænn og ég þykist vera í þessari dagbók. Get verið „stemmningsmaður“, get sóst eftir athygli og get fílað mig í botn í góðu partíi. Bara eiginlega alveg þangað til einhver dregur fram gítar og fer syngja íslensk útilegulög. Þá deyr eitthvað inn í mér, eitthvað fallegt og náttúrulegt, og ég læt mig hverfa.

Ég gat sagt sögur sem Esther hefur heyrt milljón sinnum. Þau voru nýtt audience fyrir mig. Svo spjölluðum við aðeins um pólitík. Mér fannst eins og við færum öll að hvísla þegar við byrjuðum að tala um jarðgangagerð á Austurlandi. Þau eru „viðkvæmt mál“ fyrir austan og maður veit auðvitað aldrei hvort einhver liggi á hleri. Meira að segja í Vöðlavík. Það eru eyru alls staðar í smábæjunum. 

„Við höfum aldrei átt samgönguráðherra,“ sagði Georg til að rökstyðja hvers vegna okkur gengi svona hægt að fá jarðgöng til að hringtengja landshlutann og þess vegna eru vegirnir á Suðurlandi svona helvíti góðir, malbikað upp að öllum sveitabæjum og júneimit. Ég fíla svona háðskar pólitískar greiningar. Það eru ætíð brögð í tafli. „Hvaðan er nýi samgönguráðherrann,“ spurði Kamma en ekkert okkar mundi það. „Bíddu, hvað heitir hann aftur,“ spurði Esther. Ekkert okkar mundi það heldur. „Já, það mætti halda að Suðurland væri í ESB, vegirnir eru svo góðir,“ sagði ég og uppskar hlátur. Vá, hvað það var gott. Fann hvernig ég lyftist allur, stækkaði. Eins og dauðþyrst planta í eyðimörk sem fær yfir sig vatnsskvettu. Skelfing get ég verið átakanlegur stundum.

Stukkum í hyl áðan. Það var hressandi og vatnið ekki of kalt. Enda lítið í ánni eftir gott sumar. Hnota stökk á eftir okkur, eins og Seifur í Hvolpasveit, og synti með okkur að bakkanum. Vakti mikla lukku hjá krökkunum. Var svo gíraður eftir þetta að ég tók nokkur Stuðmannadanspor allsber á bakkanum áður en ég klæddi mig í fötin. Börnin veltust um af hlátri. Ég var skora feitt.

Hugsa núna í fletinu, kæra dagbók, að það gæti verið óheppilegt ef þetta stönt mitt ratar í sögur barnanna minna þegar kennarinn spyr í upphafi skólaárs hvernig sumarið hafi verið. Ætli Iðunn teikni þá mynd af pabba sínum dansandi nakinn í Vöðlavík?

Ætli kennarinn hugsi þá: Drukkinn?

Nóterar þetta svo í minnisbók og tekur upp á kennarafundi. Skulum ekki grípa til aðgerða strax, segði skólastjórinn, en fylgjumst með börnunum. Allar transgressjónir í hegðun þeirra yrðu þaðan í frá túlkuð út frá þessum díteil úr sögum barnanna frá dvölinni í Vöðlavík sumarið 2025. Dansandi fimmtugur fjölskyldufaðir. Án fata. Um miðjan dag.

Var hann á einhverju?

Það verður líkast til aldrei hægt að sanna það en efasemdirnar duga. Fræjum hefur verið sáð og tortryggni getur af sér meiri tortryggni. Það er segin saga í smábæjum.

Fökk, ég mun ekki rísa til æðstu metorða í þessum bæ. 

Esther tók annars skemmtilegar myndir af sundinu sem ég veit að munu ylja þessari fjölskyldu um ókominn ár. Skvamp og brosandi andlit og blautur hundur með lafandi tungu. Fjölskyldulíf í allri sinni sumarlegu dýrð.

Staldraði samt við eina þegar ég fletti í gegnum þær. Myndin var af mér, standandi á bakkanum í stuttbuxum og það leynir sér ekki: Ég er að breytast í Feitan-Elvis. Aftur. Eftir nokkur mögur ár þá leyna þau sér ekki, manboobs-in. Og síðuspikið. Sístækkandi björgunarhringurinn.

Verð að fara í megrun, hugsa ég í fletinu mínu, skrifandi í bókina. Maulandi kremkex frá Frón sem ég borða bara í útilegum. Skolað niður með Appelsíni. Lifi lífinu lifandi í Vöðlavík. 

 

Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 15

Kl. 15:00

Sit uppréttur í fletinu mínu í skálavarðakofanum og skrifa. Esther prjónar, Elías spilar í Nintendo-spilinu sem mamma og pabbi gáfu mér í ágúst 1988 á leiðinni til Parísar. Kofinn fullur af retró digital-hljóðum, þetta er skjátíminn okkar og ég á metið. Til marks um breytt eðli þessara tækja þá nennir enginn að spila lengur en í tuttugu mínútur/hálffíma.

Iðunn teiknar. Mér finnst gaman að horfa á hana teikna. Hún er svo flink. Gerir mig stoltan. Eins og þetta sé á einhvern hátt mér að þakka sem það er ekki. Stend mig oft að því að langa til að sýna fólki myndirnar hennar. „Sjáðu, hún er bara ellefu ára. Hvernig myndir teiknar barnið þitt? Ó, er hún enn í tvívíðum myndum. Úbbs. Þetta kemur hjá henni/honum. Eða ekki.“

Það pælir enginn í því lengur þótt ég taki upp minnisbók og fari að skrifa. Ég held að ég hafi byrjað á þessu vorið 2001. Ég á allavega minningu af sjálfum mér með minnisbók bíðandi eftir lest í London. Þetta var ein af þessum úthverfastöðvum, fáir á ferli, og ég lá á bekk, með tölvutöskuna undir höfðinu, lesandi The Great Shark Hunt eftir Hunter S. og punktaði í minnisbók. Það var aldrei neitt skipulag. Ætlaði alltaf að gera eitthvað við nóteringarnar en ég fyllti bara bækurnar, gekk frá þeim einhvers staðar og týndi svo. Nema Moleskine-bókin sem Esther gaf mér í afmælisgjöf einu sinni. Ég tímdi ekki að skrifa í hana. Eða, það yrði þá að vera fullkomið því hún var svo dýr.

Börnin eru þ.a.l. alin upp við að pabbi þeirra punkti hjá sér og konan mín er löngu hætt að taka eftir þessu. Þetta er bara ég. Maðurinn hennar, hann punktar hjá sér. Ég þarf ekki að læsa minnisbækurnar mínar í skáp, það kíkir enginn í þær. Ekki mér vitanlega allavega.

Og jafnvel þótt ég kæmi að einhverjum að skoða þær – og þetta eru í raun einhversslags dagbækur, mjög persónulegar á köflum – þá væri mér bara slétt sama. Kannski bara soldið upp með mér. Sennilega myndi ég yfirheyra viðkomandi: „Hérna, hvernig fannst þér þetta sem ég skrifaði um kvöldið sem ég missti sveindóminn? Hefði ég kannski átt að fara úr fyrstu persónu yfir í aðra persónu, svona eins og Jay McInerney í Bright Lights? Súmma út, skapa fjarlægð við sjálfið? Hefurðu lesið hana? Ekki? Séð myndina þá? Með Michael J. Fox? Hvernig fannst þér paragraphusinn (myndi segja paragraphus) um sáðlátið? Too much?“

Tæki viðkomandi á taugum. Myndi drekkja honum í viðbragðaþörf hins skrifandi manns. Myndi gera kröfur til hans. „Heyrðu, engin pressa sko, en værir þú til í að renna yfir handrit sem ég er að vinna að? Mátt alveg segja nei (en ég fyrirgef þér aldrei).“

Hann – þessi svonefndi „viðkomandi“ – myndi gera þessi mistök einu sinni og bara einu sinni. Hann þyrði aldrei að opna þessa bók framar. Tæki ekki sénsinn.

Ég hef auðvitað verið spurður, þegar ég sit og skrifa í minnisbók, um hvað ég sé að skrifa. Átti til að taka það nærri mér, fannst þetta truflun, varð sjálfsmeðvitaður og það er einmitt það sem maður vill alls ekki þegar maður situr einhvers staðar og párar: Hér situr hann á Mokka, hann Jón Knútur Ásmundsson, og skrifar í minnisbók.

Hver í andskotanum þykist ég vera? Steinn Steinarr?

Ég hafði áhyggjur af því að fólk hefði skoðun á þessu. Fyndist ég tilgerðarlegur. Því hver skrifar eiginlega í minnisbók á ofanverðri 21. öld?!

Ég fór einu sinni í ferðalag með manni sem tók eftir því að ég skrifaði í minnisbók. Hann sagðist líka skrifa í minnisbók, teygði sig í innanávasann og rétti mér bókina sína. Og já, var það ekki bara Moleskine! Rándýr andskotans Moleskine. Hann sagðist vera með fulla tösku af þeim. Skrifaði víst svo mikið á ferðalögum. „Strax í fríhöfninni kemur frelsið yfir mig,“ sagði hann. „Þá fyrst losna ég úr viðjum vanans.“ Ég varð vandræðalegur þegar hann sagði þetta því þetta var ætlað mér persónulega. Hann var að reyna að tengjast en mér fannst þetta bara tilgerðarlegt. Sagði samt: „Já, ég veit nákvæmlega hvað þú meinar.“ Helvítis meðvirknin alltaf hreint.

Ég keypti mínar minnisbækur í Tiger og já, ég var pínu öfundsjúkur því mig langaði líka í Moleskine. Bókin hans var myntugræn sem mér fannst svolítið skrýtið val á lit. Óvenju kvenlegt eða eitthvað. Hefði sjálfur valið svarta eða brúna. Eins og Hemmingway. En ókei. Whatever. Ég tímdi sumsé ekki að kaupa Moleskine. Alltaf blankur. Eyddi öllum peningunum mínum í geisladiska, kiljur, smávindla, bjór, núðlur og örbylgjumat. Neyslan svo einföld og fyrirsjáanleg að einn vinur minn kallaði mig „geimfarann“ sem mér fannst soldið fyndið. En ég sannfærði mig um að það væri kannski bara skáldlegt að kaupa minnisbækur í Tiger og að ég þyrfti ekki á Moleskine að halda. Það væru bara hinir nýríku í vesturbænum sem keyptu Moleskine hvorteðer og þá ekki til að skrifa í þær nema náttúrulega uppskriftir að grænkeraréttum og/eða innkaupalista í Farmer’s Market.

Þessi maður hafði aukinheldur mikla þörf til að segja mér frá öllu sem hann skrifaði í bókina. Þetta voru allskonar punktar og drög, hendingar, myndlíkingar, hugmyndir að útvarpspistlum, hugmyndir að kvikmyndahandritum. Oft eitthvað svona „ljóðrænt“ stöff. Hann las upphátt og horfði svo á mig. Hvernig leist mér á? Vildi viðbrögð, svo að segja jafnóðum. Líktist þetta einhverju? Tók ég eftir þessum díteil um hvernig rykið settist á silfrið í kvöldsólinni? („Þetta er metafóra, skilurðu.“)

Eftir nokkra daga á ferðalagi leið mér eins og ég væri í vinnu hjá honum. Var farinn að forðast hann og vildi alls ekki vera einn með honum því þá var hann hvað ákafastur. Man t.d. eftir mér einn morguninn að fylgjast með útum hótelgluggann. Beið eftir því að ég sæi hann fara út en þá fyrst treysti ég mér til að fara niður í morgunmat.

Hann hafði sumsé fengið þá flugu í höfuðið að við værum „bandamenn í ljóðinu“ eins og hann sagði. Værum eitt og hið sama. Þetta slapp til við þriðja mann. Þá hélt hann sig á mottunni því þá gat hann náttúrulega ekki farið á trúnó, blessaður maðurinn. Tough luck.

Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ástæðan fyrir því að hann fór í taugarnar á mér – sem er vægt til orða tekið – var sú að sumt af því sem hann skrifaði var mjög flott. Hann var miklu liprari penni en ég. Gat leikið sér með orð, tvöfaldar merkingar, vel tímasettar klifanir og svo framvegis. Með stílbrögðin upp á tíu. Þetta var ljóðrænt – hvað sem það nú þýðir – en ég var bara að skrifa dagbækur í blaðamannastíl enda kann ég ekkert annað. Sæi ég fallegt ský á himni punktaði ég hjá mér:

„Ég sá fallegt ský á himni.“

Engar flottar líkingar, engin tækni, beisíklí engin ritlist í gangi. Bara hversdagslegar athuganir og svo ályktanir:

Maðurinn Konan með síða gráa metalíska (það er kúl) hárið sem situr við borðið hægra vinstramegin við barinn, snýr baki í mig, var að panta þriðja fjórða bjórinn á korteri hálftíma. Sennilega Pottþétt alki.“

Einu sinni, þegar við sátum tveir saman í morgunmat, ákvað ég að sýna honum bókina mína. Ég ætlaði að opna mig. Sýna honum „inn í mig“.

„Minnsta málið,“ sagði hann og opnaði minnisbókina mína. Tók svo upp pennann sinn, pírði augun og virti textann fyrir sér í nokkur augnablik, stakk honum svo inn á sig aftur og sótti annan. Rauðan. Og síðan las þessi drullusokkur dagbókina mína og lagfærði stafsetningu. Hann breytti t.d. „tína“ í „týna“ og skrifaði á spássíuna: „Þetta er ekki sama sögnin. Að tína er eins og að tína ber. Týna, eins og þú notar það í þessari setningu, er með ufsiloni, sögnin dregin af nafnorðinu tjón.“

Ég skalf af bræði þegar ég fór upp á herbergi aftur og hugsaði um allt sem mig langaði að gera honum og fjölskyldunni hans. Hvernig ég gæti hrint honum niður stiga, hent honum fyrir leigubíl, eitrað fyrir honum, eitrað fyrir börnunum hans. Kúkað á hann sofandi, kólumbískt hálstau o.s.frv. M.ö.o.: Die motherfucker, die!

Og svo var ég barasta bænheyrður í lok ferðalagsins. Á fremur skáldlegan hátt verður að segjast, svona eftir á að hyggja.

Á heimleiðinni, í þrjátíu og fimm þúsund feta hæð, fór penninn hans, væntanlega sökum loftþrýstings, allt í einu að freyða. Það var blek útum allt. Blek á gólfinu, á skyrtunni, á fingrum, andliti og hári. Blek í buxum og símanum og matnum. Blek, blek, blek. Og mikill vandræðagangur náttúrulega, þrjár flugfreyjur komnar til að hjálpa, hann fórnandi höndum, skildi ekki hvað í ósköpunum var eiginlega að gerast og eiginkonan hans orðin óróleg enda erfitt að ná svörtu bleki úr fatnaði. Hvað þá rauðu.

Ég sat aftur á móti pollrólegur í bekkjarröðinni fyrir aftan hann. Eins og konungur í sæti mínu og glotti lymskulega við tönn. Fannst ég bera ábyrgð á þessu einhvern veginn með mínum illgjörnu og smásálarlegu þönkum. Var Óðinn almáttugur, sá síplottandi leikjahönnuður. Sjaldan liðið betur.

Ja, hérna. Magnað hvað maður man í þessum dagbókarskrifum. Hafði ekki hugsað um þetta ferðalag í mörg ár.

Hvað ætli hafi orðið um þennan kall? Ætli hann sé orðinn útgefinn höfundur? Altso, ekki sjálfsútgefinn eins og ég? Það kæmi mér ekki á óvart.

Hvað hét hann aftur?

Ögmundur? Örlygur?

Eða var það Ófeigur?

Nei, eitthvað með Ö-i minnir mig.

Finn úr út því og sendi honum vinabeiðni á feis þegar við komum heim.

 

Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 11

Kl. 11:00

Þetta sem ég skrifaði í morgun var einskonar hugarleikfimi. Hvað gerist í lífi manns, símafíkils, þegar hann lendir í aðstæðum sem þessum?

Í óbyggðum. Í mínu eigin Overlook Hotel. Hér ætti ég að skrifa skáldsögu einhvern tímann sem væri í sjálfu sér bara dagbók. Hugsanir mínar eru alveg nógu hræðilegar til að bera uppi svona Blair Witch prójekt í Vöðlavík.

Tíminn hreyfist svo hægt í Víkinni. Iðunn spurði áðan hvað klukkan væri. Ég sagði að hún væri að byrja að ganga níu.

„Í alvöru?“ sagði hún. „Ég hélt að það væri að koma hádegi.“

Ég sagðist hafa haldið það líka.

Hér er ekkert sem gleypir tímann. Ekkert Facebook. Ekkert Netflix. Engar ferðir í búðina. Ef það vantar ost þá bara vantar ost. Ef það vantar pestó þá bara vantar pestó. Við erum eins og vitaverðir á Dalatanga. Engar vinaheimsóknir. Bara túristaheimsóknir. Enginn sem hringir. Ekkert hópspjall milli vina á messenger.

Það eru bara nokkur einföld verkefni skálavarðar sem bíða mín (ætla að reita lúpínu í dag – ég ÆTLA að reita lúpínu í dag) og löng, löng, löng bók eftir þunglyndan norskan rithöfund. Það gerist ekkert í henni heldur.

Þegar ég var laus úr viðjum hræðslunnar, eða hvað sem þetta nú var sem kom yfir mig í gærkvöldi á ströndinni, stóð ég upp, stirður, og fór að leika við Hnotu. Eða, ég hugsa raunar að þetta hafi gerst í öfugri röð. Það bráði af mér þegar ég fór að leika við hundinn. Fór að hugsa um eitthvað annað. Það er lógískt. Færði til þungamiðjuna og voilà!

Nýr og betri maður!

Þess vegna eru nýjustu sjálfshjálparbækurnar uppfullar af þeirri hugmynd að maður eigi að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Þegar maður hjálpar öðrum hjálpar maður sjálfum sér, segja þær. En alltaf skal þetta vera spurning um mann sjálfan. Ég hjálpa öðrum því þá hjálpa ég MÉR, MÉR, MÉR.

Kannski samviskujöfnun sé hugtak eins og kolefnisjöfnun. Ó, mér líður svo illa! Ég hefði ekki átt að ræna hússjóðinn! Ég hefði ekki átt að daðra við barnapíuna!

Ekkert mál, vinur. Taktu að þér ABC-barn og samviskujafnaðu þig.

Ég myndi gúggla þetta orð ef ég gæti.

Krakkarnir voru í stuði, í eigin heimi, alveg eins og þau áttu að vera í Vöðlavík, í eltingarleik við öldur. Ó, hvað þetta er heilbrigt allt saman! Eitthvað svo, eitthvað svo, norskt!

Hnota hljóp til mín, sannur labrador, ofandandi með lafandi tungu, drullug upp fyrir haus. Ég hafði rifið upp hvönn þar sem ég hímdi áhyggjurfullur undir kletti nokkrum mínútum áður sem ég kastaði í brimið. Hundurinn lóðbeint á eftir. Beint í brimið. Fékk yfir sig sjó og hvarf í nokkur andartök. Iðunn fór að skellihlæja, loksins stuð, en svo varð mér litið á son minn. Sá skelfingu. Hann hélt að síðasta stund Hnotu væri að renna upp.

Ég þekki þennan svip.

Ó, hvað ég þekki þennan svip.

Ég þurfti að hugga strákinn minn. Segja honum að ég hefði farið út í brimið og sótt Hnotu hefði hún lent í vandræðum og ég meinti það. Ég hefði gert það. Við gerðum málið upp og ég lofaði að kasta ekki fleiri sprekum í ölduna. 

Drengurinn minn er viðkvæm týpa. Hefur verið það frá degi eitt. Minnir á föður sín sennilega. Ætli það séu ekki pínu sensítívar týpur sem halda dagbók í óbyggðum og skrifa um börnin sín. Sitja á steini upp í fjalli og skrifa um hvað þeir séu sensítívar týpur.

Þetta kom fljótt í ljós og allir sem umgangast EO taka eftir þessu. Hann er sensítív týpa. Finnur til með fólki og dýrum. Skammar vini sem drepa grasmaðka. Sem hann hefur gefið nöfn. 

Og hvað get ég sagt?

Ég er stoltur af þessu. Stoltur af því að strákurinn minn finni til. Hafi samkennd. Geti sett sig í spor annarra en svo ég sé heiðarlegur, kæra dagbók, þá hef ég stundum áhyggjur af þessu. Því samfélagið er ekki alltaf hannað fyrir okkur sensítívu týpurnar. Sem fara á bömmer eftir erfiða fréttatíma. Taka gagnrýni illa, einkum þegar hún snýr að persónu manns. Því ekki þykir þetta alltaf mikill mannkostur, að vera sensítívur. Eða hvað ætli börn fái oft að heyra frá fullorðnu fólki að þau séu „grenjuskjóður“?

Þegar maður horfir á svona uppákomur, t.d. sem hlutlaus observant á leikvöllum, sér maður það sem þetta er í raun og veru. Barnið hagar sér eins og barn. Stundum grætur það. What else is new? En það er sá fullorðni sem fer á taugum og þá þarf að beita öllum brögðum til að stöðva „helvítis vælið“ og áhrifaríkast og fljótlegast er auðvitað að smána barnið til hlýðni:

„Hva, ertu að skæla?“

„Hættu þessu væli!“

„Ertu smástelpa!“

Og svona búum við til harðhausana. Pabbana sem geta ekki grátið.

Ég á minningu af pabba mínum að tala við einhvern í síma daginn sem mamma hans, amma mín, dó. Ég held að þetta hafi verið Dóri bróðir hans. Þeir voru að gera erfiðan dag upp og pabbi var að segja hluti sem ég hafði aldrei heyrt hann segja. Hann var á persónulegu nótunum en hann var nú eiginlega bara skólabókardæmi um mann sem bar harm sinn í hljóði, hugsa ég.

„Jájá, og svo fór ég bara grenja eins og aumingi. Ég verð bara að viðurkenna það,“ sagði hann allt í einu.

Þetta var svo óvænt að ég gat ekki gleymt þessu en ég vissi ekki hvers vegna mér fannst þetta merkilegt fyrr ég varð nokkrum árum eldri. Lengi vel fannst mér þetta til marks um hörkuna, að það væri aðfinnsluvert að gráta „eins og aumingi“ þegar mamma manns deyr en núna finnst mér merkilegt að hann skuli hafa sagt þetta upphátt. Það var soldið sensítívt hjá manni sem kunni ekki að gráta var það ekki?

Hann var kannski mýkri en ég hélt en hann þurfti smá skjól og kallaði þetta „aumingjaskap“.

Töffarar sem gráta ekki klæðast allskonar leðurjökkum. 

Ég man eftir einni vökunótt fyrir nokkrum árum. Þegar Esther var gengin nokkra mánuði með E og við vissum ekki hvort við áttum von á stelpu eða strák. Við höfðum átt samtal um kvöldið þar sem við vorum að fabúlera um þetta, pældum í mögulegum nöfnum og svo framvegis. Ég var alveg viss um að þetta yrði stelpa en ég komst að því þessa svefnlausu nótt að þetta var óskhyggja. Ég VILDI eignast aðra stelpu. Ég ímyndaði mér að það væri léttara fyrir barnið. Því ég taldi mig vita að ef við eignuðumst dreng þá væri líklegra en ekki að hann líktist mér og þá væri eins gott að hann fyndi sér einhvern tilgang með lífinu því hann myndi ekki að öllu leyti falla inn í normið.

Að vera sensítív stelpa, hugsaði ég, er ekki það sama og að vera sensítívur strákur.

Ég var hræddur. Var með hugann í öðrum tíma. Mínum tíma. Í mínu „í denn“. Mundi eftir sensítívu strákunum sem meikuðu þetta ekki. Létu sig hverfa áður en þeir urðu almennilega fullorðnir.

Ég fór að ímynda mér samtöl við þá, þessa svefnlausu nótt. Ímyndaði mér að ég gæti farið til baka í tímavél og talað við þá. Hefði sagt þeim að slaka á. Allir bömmerar, hefði ég sagt, þeir fjara út. Allir. Allir sem einn.

Sagt eins og pabbi sagði við mig þegar ég ætlaði, í minni fyrstu alvöru ástarsorg, að henda trúlofunarhring í klósettið heima í Víðimýri. Hann kom að mér og ég var bókstaflega á hnjánum fyrir framan skálina. Hann sá hvað ég hafði hugsað mér að gera enda hélt ég á hringnum og sló honum taktfast í postulínið.  

„Ekki gera þetta, Jón minn,“ sagði hann. „Eftir nokkur ár finnst þér þetta fyndið.“

Pabbi missti þetta út úr sér og það er eins og mig minni að hann hafi beðist afsökunar fyrir ónærgætnina.

Ég held núna, í alvöru talað, að þetta séu bestu ráð sem ég hef fengið.

En hefðu unglingarnir í fantasíunni tekið mark á manni eins og mér? Sitjandi fyrir framan þau, með aðra rasskinn á kennaraborði. Sjálfumglaður fimmtugur karl með góð ráð. Eins og fökking Bono í U2. Eins og Bubbi Morthens. 

Og já, munu börnin mín hlusta á svona „pepptalk“? 

Kannski ekki. Kannski meðtaka þau bara það sem þeim var ekki ætlað. Hlera án minnar vitundar og draga sínar eigin ályktanir. 

Stóð upp. Var búinn að skrifa í klukkutíma. Horfði yfir Víkina. Þurfti að míga. Sem og ég síðan gerði. Meig með þetta líka útsýnið fyrir framan mig! Þetta milda, stílhreina, útsýni yfir Vöðlavík sem römmuð er inn af tveimur austfirskum fjöllum. Múlinn til hægri og hitt sem ég man ekki hvað heitir til vinstri. Frá þessu sjónarhorni virðast þau ekki jafn hrikaleg og þau sum hver eru hér eystra. Þau eru eiginlega bara frekar settleg frá þessu sjónarhorni, úr þessari fjarlægð. Með mjúkar línur. Soldið curvy og glæsileg.

Lífið svo dásamlegt þegar maður léttir á sér, hugsaði ég og sprændi. Ég er svo glaður að vera hér. Hér og nú. 27unda eða 28unda júlí. Það er allavega árið 2025 og það er hásumar. Ég spræni án sársauka. Það er ekki sjálfgefið fyrir karl á mínum aldri.

Og ég veit, kæra dagbók, að þetta móment verður eftirminnilegt. Svokölluð „kjarnaminning“. Nýtt orð sem Esther kenndi mér í gær. Í öðru samhengi samt. 

(Teygði mig svo í minnisbókina til að tryggja að ég myndi þetta. Þetta gæti virkað sem niðurlag.)

 

Dagbók frá Vöðlavík – 27072025

Kl. 7:00

Sunnudagur runninn upp. Það er grenjandi rigning í Víkinni. Við EO sváfum saman í trússarahúsinu. Úrið gaf mér sex komma fimm í svefneinkunn.

EO fannst spennandi að sofa í kofanum með mér og svo var örugglega líka spennandi að sofa með Hnotu, hrjótandi í búri á gólfinu. Kannski spennandi að sofa með pabba líka. Veit ekki. Hann vildi allavega endilega sofa með mér í trússarahúsinu. Sem þýddi að ég gat ekki lesið áður en ég sofnaði. Það er mikill talþrýstingur hjá syni mínum. Og börnunum báðum raunar. Engir vinir. Engir skjáir. Bara foreldrarnir eftir. Back to basics. Við verðum að duga í bili.

Ég ætla ekki að ljúga að þér, kæra dagbók, en stundum fæ ég kvíðaeinkenni þegar þau byrja að mala og mala og mala. Þurfa áheyrn. Eru ekki að leita að samtali. Bara hrein og klár tjáningarþörf. Iðunn teiknaði fyrstu dagana en það hefur minnkað. Eirðarleysi sækir á. Of mikill tími aflögu.

Skil þetta mjög vel. Mig langar aldrei meira til að skrifa eða tromma eða lesa þegar mikið er að gera. Þá langar mig til að yfirgefa heimilið eða vinnustaðinn. Ganga upp með ánni. Setjast einhvers staðar niður upp í fjalli og lesa. Punkta í bók. Láta mig hverfa. Týna mér í bók og finnast aldrei, eins og skáldið sagði. Hafi ég aftur á móti nægan tíma gerist ekkert. Opna símann og doom-scrolla út í eitt.

Man allt í einu að ég vaknaði í nótt. Um tvöleytið. Ég hafði litið á klukkuna og hleypt frá mér djúpu andvarpi þegar ég sá hvað tímanum leið. Þvílík vonbrigði. Reyndi að aftengja mig hugsunum um að ég væri útsofinn – vissi að svo var ekki – og reyndi að sofna aftur. Heima hefði ég teygt mig í símann. Heima hefði ég ekki sofnað aftur en hér myndi ég nú sennilega sofna aftur, fyrr eða síðar. Það var ekkert annað að gera. 

Í svefnpoka, sveittur. Renndi honum niður og breytti í sæng. Fannst allt í einu að ég þyrfti að fara á klósettið. Er að verða eins og gamall maður. Sípissandi. Bældi þessa hugsun niður.

Þú þarft ekki að pissa.
Þú þarft ekki að pissa.
Þú þarft ekki að pissa.

Teygði úr mér. Stirður. Og stirðleikinn ýtti undir tilfinninguna um að ég væri að verða gamall.

Gamall og sípissandi.

Er ég í alvörunni að fara birta þessa þvælu á blogginu mínu?

Fann fyrir stirðleika í gærkvöldi líka. Höfðum skroppið út á sandinn og ég sat í skjóli af klettum og horfði á börnin eltast við öldurnar. Allt eins og barnabók, myndskreyttri af Norman „fuckin“ Rockwell. Eða Halldóri Péturssyni. Esther horfin. Að taka myndir einhvers staðar.

Og svo bara þyrmdi yfir mig. Fór að hugsa um aldurinn. Að ég væri búinn að toppa, hvernig sem á það er litið. Heilsu og kyngetu mun hraka héðan í frá. Ég nenni ekki lengur að skrifa ljóð. Mun ég einhvern tímann komast í viðtal hjá Agli Helga aftur og baða mig í svæðisbundinni frægð, með egóið í súrrandi botni?

Nenni ekki að tromma lengur. Nenni ekki að vera í hljómsveit. Nenni engu. Mig langar bara að lesa bækur. Það er það eina sem mig langar að gera. That’s it.

Almáttugur, hvað ég saknaði símans. Þá væri ég ekki að hugsa um þetta, hugsaði ég. Þá væri ég bara að skrolla. Lesandi nýjustu fréttir af dauða Ozzy Osbourne. Var hann dáinn í alvörunni? Overdose? Getur það verið? Nei, hann var hættur að djúsa. Hlýtur að hafa verið aldurinn. Var hann kannski með Parkinson? Las ég það ekki einhvers staðar? Alzheimer? Nei, menn deyja ekki úr Alzheimer er það? Eða var þetta gabb? Var hann að púlla Jim Morrison?

Já, eða skoðandi myndir af fjölskyldum Facebook-vina sem ég tala aldrei við og hef engan áhuga á að tala við.

Og ó mæ godd! Nei, andskotinn! Gömul skólasystkini úr Reykjavík eru á ferðalagi. Þau eru í Ásbyrgi en nálgast Austurland eins og blóðsjúgandi lúsmý.

Munu þau bjóða sér í heimsókn?

Ó sjitt.

Svara ég í símann þegar þau hringja á Fagradal eða sendi ég þeim skilaboð á messenger um að ég hafi verið með slökkt á hringingunni? Eða hafi jafnvel týnt símanum upp í fjalli? Við landsbyggðarliðið jú alltaf upp í fjalli, svo mikil náttúrubörn, svo mikil fökking lífsgæði hérna út um allt. Eða verð ég bara blákaldur og segi þeim að ég hafi greinst með hvítblæði í gær?

Nei, ég myndi alltaf svara, þekki mig nógu vel. Ég er svo fökking næs:

„Nehæ!“

„Hæhæ, við erum á Austurlandinu (alltaf skulu þeir segja „Austurlandinu“ eins og fábjánar). Megum við kíkja? Krakkarnir eru með. Þá langar svo að sjá hundinn!“

„Já, endilega! Við skellum í pönnsur!“

Og svo kvíðinn. Kvíðinn. Gestgjafakvíðinn.

Ó, sjitt.

Nei. Ég ætla ekki að svara.

Fuck them.

FUVKTHEM AKLKLT TO HELL!!!!

Jesús minn. Það var eins og eitthvað eitur væri að yfirgefa líkamann.

Svo reiður.

Svo ljótur í hugsun.

Halló!
Hvar ertu, Jón!?
Halló!
Ertu þarna?!
Er einhver þarna inni?!

Í fráhvörfum.

Akkúrat.

Ég var í bullandi tæknifráhvörfum.

Annað hvort það eða þá að ég var að verða einsetuskrýtinn.

Á fjórða degi! (Þriðja? Man það ekki.)

All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy

Það er öxi í verkfæraskúrnum. Gott að ég tók ekki með mér viskíflösku.

 

Dagbók frá Vöðlavík – 26072025

Kl. 6:45

Vaknaði sex. Dreifðum okkur á milli húsa. Iðunn fór í trússarahúsið ásamt Hnotu. Við hin í skálavarðarhúsinu. Hljótum öll að hafa sofið betur. Ég svaf að minnsta kosti betur.

Skrifa í bókina mína, sitjandi á sléttu gróti í sandinum útfrá. Þetta er hálftímagöngutúr frá Karlsskála og alveg upplagður til að koma sér í gang. Horfi á brimið, mig langar að vaða út í eins og ástralskur hippi en kaldur íslenskur sjór býður ekki upp á svoleiðis. Nema maður sé heljarmenni. Íslenskur sjór er fyrst og síðast augnaprýði.

Horfði á Hnotu leika sér á ströndinni, grafandi í sandinn, róta honum upp á milli afturlappa. Af og til lítur hún til mín eins og hún sé að spyrja hvort þetta sé ekki örugglega í lagi. Þetta er hið besta mál, fröken Hnota. Grafðu eins og þig lystir. Sjórinn bætir fyrir umhverfisslysið sem þú ert, elsku dýr. 

Milt veður. Hægur vindur, skýjað en hlýtt. Við sjóndeildarhringinn birtir til. Einhver eyja þarna fyrir sunnan og viti sýnist mér en ég er ekki með gleraugun. Hvað heitir hún aftur? Þessi eyja?

Ég man það ekki.

Gunnar sendi mér veðurskeyti í sms í gær. Útlitið gott næstu daga. Milt en hlýtt. Rignir á nóttinni.

Fantastic!!!

Fengum gesti í gær. Sigurbjörn hennar Díönu Mjallar kom með tvo túrista úr bænum. Þau voru að rúnta þessa vegi hérna, voru að spá í að fara í Viðfjörð og svo komu hjón frá Álftanesi líka. Spurðu mig talsvert út í svæðið og ég svaraði af bestu getu sem er nú ekki harla mikil. Ég þarf að endurlesa kaflann eftir Hjölla Gutt í Ferðafélagsbókinni. Minnir að ég hafi séð hana í skálavarðarhúsinu. Ég verð að virka aðeins gáfulegri þegar spurula gesti ber að garði.

Er ekki alveg í fíling. Nenni ekki að skrifa. Vantar kaffi. Og kex.

Kl. 11:00

Held ég hafi tekið ákvörðun um að birta þessa dagbók á blogginu mínu. Þeim ruslahaug sem ég er löngu hættur að sinna. Kíkti á síðuna um daginn og hún er öll í rugli. Sé að einhver drög eru farin að birtast án þess að ég hafi gefið skipun um það. Samhengislaus þvæla. Vona að þarna sé ekkert meiðandi. Þarf að laga þetta við tækifæri.

Ég henti út einhverjum færslum í vor eftir að grískur skólabróðir minn hafði samband við mig. Hafði séð einhver skrif um sig á síðunni minni og með hjálp gervigreindar fengið þau þýdd. Þetta var ljóðrænn texti um þennan gamla vin sem bjó með vinkonu minni. Skemmtilegur strákur, kúltíveraður, klár og fyndinn en glímdi við allskonar áhyggjur og kvíða. Doktorsnámið reyndist honum þungt og svo beið hans herskylda heima og sitthvað fleira. Kvennamálin flókin og þannig lagað. Ég skrifaði um þetta í þeirri vissu að hann sæi þetta aldrei. Núna er það bara gúggl og ChatGPT. Maður skrifar ekki í skjóli íslenskunnar lengur.

Hann sagðist hafa haft gaman af að lesa þetta og bað mig um að hafa ekki áhyggjur af þessu. Fannst þetta bara fyndið. Ég roðnaði samt af skömm og lokaði á færsluna. Renndi svo yfir fleiri færslur og henti einhverju út. T.d. textum um gamlar kærustur. Jesús minn. Sumt af þessu skrifað þegar ég var með Bukowski/Hunter Thompson-delluna. Lét vaða. Engin miskunn sýnd.

Johnny boy, þú ert nú meiri kallinn. Eins gott að þú farir ekki framboð. 

Síðasti pistillinn fór út á Rúv í gær. Eini pistillinn sem ég skrifaði eins og „fagmaður“. Hafði ekkert að segja. Fann eitthvað efni og breiddi úr því í tæpar átta mínútur. Kallaði hann „Kvíðastillandi fyrir fólkið í landinu.“ Pistill þar sem ég rakti tillögur að umbótum í byggðamálum – geisp. Þreytir mig að segja þér frá þessu, kæra dagbók.

Ég lagði hjarta og sál í hina pistlana sem voru lengri en um var beðið þannig að ég var ekki með samviskubit að skila einum „hundi“ með fullri virðingu fyrir þeirri dýrategund.

Vegna sambandsleysis hef ég ekki fengið nein viðbrögð nema frá Hjalta Stefáns sem rötuðu einhvern veginn hingað í Víkina. Þau voru jákvæð og það kom ekki á óvart enda lagði ég til að Rúv yrði eflt út á landi.

Við Hjalti syrgjum gamla vinnustaðinn okkar, RúvAust, sem lagt var niður fyrir allmörgum árum. Hjalti heldur sér í bransanum með allskyns verktöku enda getur hann ekki annað. Fæddur myndatökumaður. Að skjalfesta tilveruna með myndavél er erindi hans í þessu lífi. Ég gat hinsvegar farið í upplýsingagjöfina eins og hinir atvinnulausu blaðamennirnir.

Hjalti hefur eflaust oft verið spurður hvers vegna hann geri ekki bara eitthvað annað en þú gætir alveg eins skipað ketti að fljúga. Grimm bjartsýni er þetta víst kallað. Hvers vegna borða þau ekki bara kökur?

Ég var stundum spurður hvers vegna ég gerði ekki bara útvarpsþætti þegar búið var að segja mér upp. Ég lét á það reyna. Gerði nokkra þætti um hitt og þetta. Vann á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á daginn, tók viðtöl síðdegis, skrifaði handrit og klippti þætti á kvöldin. Stundum fram á nótt. Fyrir smáaura náttúrulega. Gat ekki réttlætt þetta þegar börnin komu til sögunnar. Hefði verið hugsjónavinna en stundum hefur maður ekki tíma fyrir þannig vinnu. Sem er synd og skömm því það er gjarnan það skemmtilegasta sem maður tekur sér fyrir hendur. Reynslan hefur kennt mér að ólaunuð – eða illa launuð vinna – er best.

Dagskrárgerð fyrir hagsmunasamtök er sennilega framtíðin í íslenskri fjölmiðlun. Mini-docs fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi: „Dagur í lífi skæruliðadeildar Samherja“ – feel-good efni um ofsóknir gagnvart blaðamönnum.

I can do that!!!

Göngugarpar komu síðdegis, já eða í gærkvöldi, réttara sagt. Vissi af komu þeirra en hélt að þeir myndu skila sér fyrr. Voru að ganga frá Sandvík. Það var komin þoka útfrá um kvöldmatarleytið og við létum Kömmu vita með sms-i. Tíu mínútum síðar sáum við þá koma arkandi. Þeir voru þreyttir en sprækir. Ánægðir með daginn. Geyma bílinn sinn einhvers staðar nálægt dysinni uppfrá og ætla að sækja hann í fyrramálið. Soldið labb og ég bauðst til að skutla þeim. Fann samt að ég sá strax eftir því.

Dæmigert fyrir mig. Alltaf að reyna að vera næs þótt ég nenni því ekki.

Meðvirknin á eftir að fara með mig í gröfina.

Róa sig.

Anda inn. Halda. Anda út.

Tæklaði EO soldið hressilega í fótbolta. Hann var svekktur út í mig.

Sá eftir því líka.

Eitthvað gerlavesen á vatninu og það þarf að sjóða það. Kamma frænka segir að það sé sennilega búið að redda þessu en að sýnatökufólkið sé í sumarfríi. Ég drakk soðna vatnið bara einu sinni en mér fannst það bragðvont. Soðið í pottum sem hafa verið notaðir tuttugu þúsund sinnum í kjötsúpugerð. Nei, þetta var ekki gott vatn, þetta soðna vatn. Eins og bragðdauft kjötsoð.

Drekk ískalt gerlamengað vatn úr krananum frekar og tek sénsinn. Set allt mitt traust meltingarkerfið. Veit ekki betur en að það sé í tipptopp-standi og auk þess minnugur þess sem Nietzche sagði:

Það sem ekki drepur mann o.s.frv.

En það sem drepur mann, tja, það drepur mann náttúrulega.

Hvað um það. Gerlavatn í glasið mitt. Já, takk. Berglind á Mjóeyri sagði auk þess í fyrradag að Sævar væri að drekka kranavatnið með bestu lyst og hún vissi ekki annað en að hann væri við hestaheilsu.

„Hann hefur allavega ekki hringt í mig enn og sagst vera dauður,“ sagði hún og Sævar er þyrstur þessa dagana, með hreindýrakalla í eftirdragi, sprangandi um brött austfirsk fjöll. 

En ég geng upp í á og sæki vatn í flösku fyrir konuna og börnin. Það er lágmark. Gekk upp á efstu klöpp meira að segja. Hefði geta sótt það neðar en sagan er betri ef ég segist hafa sótt það við uppsprettuna. Betra „sell“ fyrir börn og eiginkonu.

Og þar – upp á klöpp með útsýni yfir Víkina – sit ég einmitt og skrifa í dagbókina. Með nefið fullt af fjallailmi. Love it. 

Kl. 17:00

„Drifum okkur í fjöruferð áður en þið biðjið okkur um að gera eitthvað.“

Mér datt í hug að skilja þessa orðsendingu til göngugarpanna eftir í glugganum okkar og fara svo í fjöruferð með familíuna. Sagði Esther frá þessu, liggjandi í fletinu mínu, og henni fannst það fyndið. Ég teygði mig í dagbókina og punktaði þetta hjá mér s.s. að ég hefði sagt eitthvað og að konunni minni hefði þótt það fyndið.

Sit á sólpallinum. Konungur í ríki mínu. Hnota liggur í grasinu fyrir framan mig og hrýtur. Hún er sæt og fín enda alltaf í baði hér í Víkinni, þessi elska. Mér finnst hún svo flottur hundur en svo vaknar hún skyndilega og byrjar að sleikja sig. Þá vakna ég líka. Til meðvitundar um hina raunverulegu stöðu málanna:

Ég er maður. Hún er hundur.

Hún hætti ekki. Bara hætti ekki! Sleikti sig alla. Sleppti engu. Einkapartarnir alveg sérstaklega sleiktir. Þegar ég sá annan göngugarpinn koma arkandi til mín, biðjandi á svipinn, var ég næstum því búinn að biðja hana Hnotu mína um að hætta þessu eins og skot og haga sér.

Ég skammaðist mín fyrir hana.

Og ég skammaðist mín fyrir að skammast mín fyrir hana.

Nei, hættu nú alveg!

 

Dagbók frá Vöðlavík – 25072025

Kl. 6:15

Veður: Rigndi í nótt en hefur birt til. Spáir sól og blíðu.

Komum í Víkina síðdegis í gær. Hætti að líta á klukkuna um leið og við lögðum af stað þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvenær við komum. Sennilega um þrjú leytið. Hætti líka að líta á símann. Þetta gerist strax og sambandið rofnar. Allt í einu breytist tíminn í leir og allt líður hægar. Ég hef tíma til að sökkva mér ofan í þunglyndan norskan rithöfund og les hundrað blaðsíður á dag. Fimm sinnum meira en ég næði að gera heima.

Töfrum líkast.

Það var smá stress að koma sér af stað. Leigjum húsið á meðan dvöl okkar stendur í Vöðlavík svo við þurftum að pakka og þrífa samtímis. Þrífa almennilega. Jólahreingerning í júlí. Ég fór líka á Facebook-fyllerí. Skrifaði þrjá statusa á meðan ég pakkaði og tékkaði á viðbrögðum á tveggja mínútna fresti. Fyndni-Jón í essinu sínu. Skrifaði:

Ég er ekki að fara bjarga lífi þínu í Vöðlavík. Ekki vegna þess að ég vilji það ekki. Ég er bara ekki þannig týpa. En ég skal halda þér uppi á snakki. Á meðan við bíðum eftir prestinum.

Ég gæti mögulega breytt þessu í ljóð einhvern tímann en þetta var bara in the heat of the moment Facebook-glens. Ég er gíraður. Spenntur. Stressaður. Í stuði. Og þá kemur oft svona sprell. Fullt af lækum og athugasemdum. Fólk í stuði. Egóið mitt að springa. Gaman, gaman. Fölskvalaus Facebook-gleði. Svo hafði ég skrifað einhvern pistil á feisið fyrr um morguninn sem eftir á að hyggja var eins og réttlæting á því að lesa pistla í útvarpið í sumar.

Þessi pistlalestur var alveg að fara með mig. Vissi að ég myndi taka þessu alltof alvarlega. Vissi að ég hefði átt að segja nei við Helga. Benda honum á einhvern annan. Ásgrím Inga eða Ingunni Snædal. Þórunni Ólafs. Urði Gunnars. Bara einhvern annan. Fékk þráhyggju gagnvart mögulegum viðbrögðum alveg eins og ég fékk þegar ég var í fréttamennskunni.

Maður er nefnilega alltaf einn í þessum bransa út á landi. Ert ekki með hóp af fólki í kringum þig sem segir að þú sért æðislegur. Stappar í þig stálinu. Fólk segir ekki neitt. Bara eitthvað eins og: „Bíddu, ertu farinn að vinna hjá Rúv?“

Var aðallega að hugsa um pistilinn um veiðigjöldin. Hitamálið í sumar. Myndu góðir vinir fara í fýlu? Geta menn aðgreint félaga frá pistlahöfundi? Ræddi þetta á fílósófískum nótum við gervigreindina. Hún sagði ólíklegt að menn myndu hafna mér sem manneskju þótt ég viðri skoðanir sem eru á skjön við ríkjandi viðhorf.

Gerði þetta svo upp í einni færslu. Sagði eitthvað um að ég þyrfti að vera heiðarlegur við sjálfan mig. Engu logið þar. Leið aðeins betur. Svo hvíli ég þetta bara í viku. Pæli ekki í þessu. Þá verða allir orðnir góðir aftur. Nema þeir allra hörðustu auðvitað en mér er sama um það fólk. Það má fokka sér. Meiri áhyggjur af góða fólkinu. Góðu fólki sem sér fleiri en eina hlið á málinu en er samt á móti því. Reiknaði það með að ég hefði aðra skoðun á þessu? Var ég að valda þessu fólki vonbrigðum? Rúv réttir mér gjallarhorn og ég nýti það svona? Hver þykist ég eiginlega vera?

Smábæjarlíf. Smábæjarkvíði og sjálfsvorkunn. Stundum er ég mörkum þess að meika þetta. Hvernig ætli sé að búa í Kópavogi? Ætli það sé gott?

En ég er nógu mikill egóisti til að halda að ég eigi einmitt hvergi betur heima en fyrir austan. Að það sé gott fyrir Austurland að hafa líka fólk eins og mig hérna.

Esther segir að ég sé að ofmeta viðbrögðin. Pistlarnir hafi verið fínir og að fólk geti verið ósammála manni án þess að hata mann.

„Manstu ekki hvernig við töluðum um Ómar Ragnarsson fyrir tuttugu árum síðan?“ spurði ég og ók næstum því út af, stutt í geðhræringuna.

„Róa sig. Horfðu á veginn. Og þú ert ekki Ómar Ragnarsson.“

„Nei, ég veit það alveg en ég er einn af okkur. Það er verra. Það er miklu verra. Ég er föðurlandssvikari. Landráðamaður.“

Svo mætti ég bíl frá Vegagerðinni, þurfti að beygja út í kant. Vinkaði bílstjóranum sem ég þekkti. Gleymdi þessu spjalli og sagði við Esther að ég hefði verið að fatta að við myndum missa af úrslitaleiknum á Evrópumótinu.

Það er eitthvað við malarvegi sem er notalegt. Maður hægir á sér. Fer að horfa í kringum sig. Á mosann og lyngið. EO talaði mikið á leiðinni yfir. Það er trendið í dag. Segir ekki neitt í hálftíma og talar svo non-stop í annað eins. Um allt milli himins og jarðar en aðallega um Minecraft. Gaman en getur líka verið býsna intense. Einu sinni, þegar ég var á aldri við EO núna, talaði ég svo mikið – og af svo miklum ákafa – um hljómsveitina Kiss við pabba minn að hann bað mig um að hætta. Vinsamlega en líka af föðurlegri festu. Og var hann seinþreyttur til vandræða, blessaður karlinn.

Ég ætla ekki að gera syni mínum það. Hef aldrei gleymt þessu sussi hans pabba heitins. Ég heyri EO tala en hlusta kannski ekki alltaf af mikilli athygli.

Fer byr beggja.

Allt leit vel út í húsinu. Hreint og fínt eftir Bobbu og Kalla sem voru hérna á undan okkur. Nóg af eldivið. Hingað er mættur Jón Knútur, skálavörður, sem ætlar að reynast þér verri en enginn when the shit hits the fan.

Ég á ekki að vera tala sjálfan mig svona niður en græjur eru ekki minn styrkleiki og handlaginn er ég ekki. Get hanglangað og spjallað við handlagið fólk. Sótt verkfæri fyrir það. Haldið undir. Borið þung tæki á bakinu. Í gær fór ég t.d. að hugsa um gasofna og af hverju þeir virka aldrei. Af hverju það þarf alltaf að hafa „lag á þeim“ eins og menn segja.

Af hverju geta þeir ekki bara virkað? Þú ýtir á takka og það kemur notaleg hlýja? Er það til of mikils ætlast?

Ég prófaði síðan. Ýtti á takka og enginn þeirra virkaði.

Klikk, klikk, klikk, klikk.

Ekkert suð í gasi. Engin hlýja.

„Nei, sko, auðvitað virkar hann ekki,“ sagði ég þegar ég var búinn að snúa takkanum á ofninum í skálavarðarhúsinu. Esther stóð upp og ýtti á takkann. Og viti menn! Það kom hiti. „Ég skal kíkja á hina ofnana á eftir,“ sagði hún en ég sagði ekki neitt.

Svona er þetta. Af og til höfum við kynjaskipti.

Ég náði í bókina mína og las. Datt hratt inn í söguna og brá þegar Esther kom aftur inn í kofann okkar. Tók ekki eftir því þegar hún fór út. Hún hafði skroppið yfir í Karlsskála.

„Þeir virka. Þú þarft bara að skrúfa frá gasinu.“

„Ég gerði það.“

„Þá hefur sennilega verið skrúfað frá en þú hefur óvart skrúfað fyrir.“

„Nei,“ sagði ég. „Ég er skrúfaði frá.“

„Það er ólíklegt því þeir virka.“

„Ég man hvað ég gerði.“

„Ég er ekki að meina neitt með þessu, Jón.“

„Esther? Í alvöru?“

Ég var farinn að efast engu að síður. Skrúfaði ég í alvörunni fyrir? Er ég í alvörunni svona vitlaus? Eða er þetta það sem kallað er gaslýsing? Aldrei almennilega skilið það orð.

En ofnarnir virka. Get hætt að hafa áhyggjur af þeim.

Þá eru klósettin næst á dagskrá. Óþarfi að hafa ekki áhyggjur af þeim. Virka þau? Síðasta sumar var rotþróin full sem skapaði allskyns vandamál. Ég lagði frá mér bókina og fór á klósettið. Sturtaði niður. Gott og kraftmikið rennsli. Fann fyrir létti. Svona hlutir gleðja skálavörð í óbyggðum.

Því Vöðlavík er paradís. Um það leikur enginn vafi en það eru svona hlutir, grundvallarhlutir – sjálfir innviðirnir, sem geta gert veruna hérna erfiða séu þeir ekki í lagi. Þetta er annað árið mitt sem skálavörður og ég tala af reynslu. Og sem skálavörður finn ég til ábyrgðar. Stíflist klósettið munu gestir Karlsskála koma til mín, biðjandi á svip, og reikna með að ég sé með svör og góð ráð. Þeir munu koma biðjandi til mín og ég mun afsaka mig og fara biðjandi til Estherar. 

Vaknaði fimm í morgun. Hundurinn hristi sig. Vissi að ég myndi ekki sofna aftur og fór á fætur. Kveikti upp í Karlsskála, lagaði kaffi á „gamla mátann“, las í bókinni minni, næstsíðasta My struggle bókin eftir Karl Ove Knausgård. Sennilega bestu bækur sem ég hef lesið sem er soldið sérstök niðurstaða því þær eru ótrúlega leiðinlegar á köflum. Erfitt að útskýra galdurinn við þær og ég nenni því svo sannarlega ekki núna.

Las í klukkutíma og svo tók ég þig fram, kæra dagbók, og skrifa núna og skrifa og skrifa. Hnota hrýtur á gólfinu. Allt er undir kontról. Mér gæti ekki liðið betur. Klukkan sjö ætla ég að flagga fánanum og fylgja fánalögum í hvívetna. Hann mun ekki snerta jörð. Ég heiti því.

Jón Knútur Ásmundsson, yfirskálavörður í Vöðlavík, er mættur til skyldustarfa.

Reporting for duty.

Skálagæsla er líka show business og þar er ég sannarlega betri en enginn. 

Maður er fljótur að fá Víkina í sig. Í gærkvöldi hitaði ég kakó handa okkur á gashellu, spilaði svo sjóorrustu við börnin, Esther hlustaði á hljóðbók og prjónaði. Þegar ég lagðist upp í horfði ég á liðið mitt og yfir mig steyptist hamingjualda. Þau að spila spil. Venjuleg spil. Spil sem við höfum spilað um aldir (þá á ég við Ólsen, Ólsen). Klikk, klakk í prjónum og peysa verður smám saman til.

Mikið er þetta heimilislegt, hugsaði ég. Við ættum að eignast tvö börn til viðbótar. Að minnsta kosti. Kannski ættleiða þau.

„Hvað er svona fyndið?“ spurði Iðunn. Hún heyrði mig flissa.

„Ekkert,“ sagði pabbi hennar. Það gæti orðið flókið að útskýra þetta. 

 

 

Draugakúlur

“Má ég fá að sjá draugakúluna?”

Klukkan er tuttugu mínútur yfir sjö. Við erum aðeins of seint á ferðinni

 

Svefn

Mér er sagt að stuttur svefn muni á endanum drepa mig. Það eru einmitt svona fullyrðingar sem halda fyrir mér vöku og þess vegna er ég er kominn á fætur fyrir allar aldir. Einum og hálfum tíma síðar vek ég börnin og lífið hefst fyrir alvöru.

Þegar maður stofnar fjölskyldu er þetta eilíf togstreita fyrstu árin, hvað má maður nota mikinn tíma í sjálfan sig eða þetta sem ég geri einn í stofunni á morgnana. Hvar eru landamærin á milli sjálfselsku og sjálfsræktunar?

Það tók sinn tíma að finna jafnvægið og hægt og rólega sér maður að einvera er skemmtilegust ef hún er tilbreyting frá félagsskap við fjölskyldu, vini og ættingja. Og þessu er á hinn veginn farið líka. 

… 

Nú. Ég gæti notað þennan tíma til að setja í vél, athuga með bankið í ofnunum, undirbúa skattaskýrsluna og svo framvegis út í hið óendanlega en ég geri það ekki. Það veldur auðvitað kvíða og stundum sjálfshatri enda er maður afsprengi samfélags þar sem maður á ætíð að vera gera eitthvað og segja eitthvað. Sitji maður hljóður, með hendur tómar, er maður von bráðar spurður: Er ekki allt í lagi hjá þér? 

Maður á ætíð að vera koma að gagni. 

Og hvað geri ég eldsnemma á morgnana? Ég hugleiði, les bækur og hlusta á tónlist. Skrifa ef ég er í stuði. Stundum stunda ég líkamsrækt og stundum sest ég við trommusettið en það gerist æ sjaldnar. Maður á að þjálfa hugann á morgnana. Hitt getur beðið. 

 

 

 

Það

 

Hjartað

Við getum verið sæt eða ljót, rík eða fátæk en samt er ég nú bara hér á hjartadeildinni í félagsskap eldri manna.

Er yngstur sem er ekki endilega gott í þessu samhengi.

Hjúkrunarkona tekur lífsmörkin og ég hugsa um veturinn sem vann á geðdeild. Hugsa um Suður-Ameríkanann sem vann á vaktinni með mér á nýársnótt. Hræðileg nótt sem mig langar ekki til að segja frá. Ekki núna. Nema frá þessu fallega augnabliki þegar hann kveikti á sígarettu rétt eftir miðnætti útá svölum deildarinnar. Stranglega bannað náttúrulega en þessir Chilebúar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur borgaralegri óhlýðni.

“Vertu ekki svona hræddur,” segir hann við mig og býður mér. Ég kem sjálfum mér á óvart og þygg. Við reykjum saman og hann segir einhverjar sögur af sjálfum sér sem ég man ekki.

Mér leið vel. Held svei mér þá að ég hafi verið í hátíðarskapi.