Dagbók frá Vöðlavík – 29072025 – kl. 07:00

7:00

Það er óhjákvæmilegt að sannleikurinn rati upp á yfirborðið. Hann gerir það alltaf. Maður getur hafnað honum en aðeins tímabundið. Maður getur laumast út úr skápnum stöku sinnum en farið inn í hann jafnóðum. Sagt að þetta hafi allt verið í plati, að þetta hafi verið djók, að maður hafi verið fullur. En semsagt, ég hef aldrei getað svarað þessari spurningu:

Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?

Við afhjúpum okkur með gjörðum. Það er segin saga. Við erum það sem við gerum. Sitji ég hér og skrifa er ég maður sem situr og skrifar. Maður sem sækir í einveru svo hann fái frið. Til að skrifa. Til að gleyma sér. Tapa sér. Týna sér. Maður sem vaknar klukkan fimm á morgnana svo hann geti sest niður, opnað tölvu og skrifað. Maður sem sefur skemur en hann þarf svo hann geti leyft sér þennan munað. Mögulega stytt ævi sína fyrir vikið en þetta er þess virði.  

Ég þarf að skrifa smá. Ekkert mikið. Bara pínu. Til að róa taugarnar áður en ég gerist skrifstofumaður á Reyðarfirði. Slá á frelsiskvíðann hans Kierkegaard. Ég hef nefnilega val. Ég þarf ekki að skrifa. Þar deyr enginn þótt ég sleppi því. Gæti setið hér og strokið símanum í sátt við Guð og menn.

Þetta hljómar fremur napurt, kæra dagbók, eins og líf mitt sé eilíft ströggl, að ég þurfi að neita mér um grunnþarfir vegna þess að vinna og fjölskyldulíf sé svo íþyngjandi en ég vil fullvissa þig um að svo er ekki.

Endalaus tími er bölvun. Þá gerist ekkert. Spurðu bara þunglyndu gamalmennin.

Ég hef einn og hálfan tíma, að hámarki, til að gubba einhverju úr mér.

Níutíu mínútur þar sem enginn ætlast til neins af mér. Er utan þjónustusvæðis.

Níutíu mínútur. Þarf ekki meira. Meira væri verra.

Ég á minningu úr öðrum bekk, frá árinu 1983/4. Hún er dauf, meira eins og tilfinning, minnisleiftur eða glampi sem ég þarf að barna með ályktunum um það sem gerðist. Það sem ég man, með hundrað prósent vissu, er samviskubit. Vegna þess að ég laug. Ég sagði ósatt þegar Steinunn kennari bað okkur um að svara því hvað ætluðum að verða þegar við yrðum stór. Við sátum á gólfinu, hópurinn myndaði U og Steinunn sat á stól við endann, þar sem hringurinn opnaðist.

„Jæja, Jói minn. Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?“

„Kevin Keagan.“

„Flott hjá þér vinur. En þú, Matthildur, hvað ætlar þú að verða?“

„Hjúkrunarkona.“

„Það líst mér vel á. En þú, Friðjón?“

Og svo framvegis.

Flestir strákarnir ætluðu að verða feður sínir (sjómenn, iðnaðarmenn, kaupmenn) og stelpurnar ætluðu að verða mæður sínar (hárgreiðslukonur, hjúkrunarkonur, leikskólakennarar) en það voru nokkrar undantekningar. Jóhanna sagðist ætla að verða flugfreyja og þegar röðin kom að mér sagði ég, og hljómaði ákveðinn, eins og ég væri að segja satt:  

 „Ég ætla að verða flugmaður.“

„Já,“ sagði Steinunn og hló. „Ætlið þið Jóhanna að fljúga sömu flugvélinni?“

Hohoho.

Híhíhí.

Þetta fannst bekknum sniðugt. Kannski myndu einhverjir í bekknum halda að við værum kærustupar og það var mér alls ekki á móti skapi. Ég var mjög til í að mér yrði nú einu sinni spyrt saman við stelpu, að ég væri „player“ eins og Halldór og Jói.

En ég gat aftur á móti séð á Fjalari, besta vini mínum sem sat við hliðina á mér, að hann trúði mér ekki. Ég hafði aldrei orðað neitt í líkingu við þetta við hann og við gerðum fátt annað en leika okkur saman í hlutverkaleikjum með pleimókalla. Þetta var áður en við byrjuðum að leika okkur með He-man-kalla og/eða stjörnustríðskalla. Þá fengum við lánaða karaktera eða s.s. þegar ég var Hans Óli, hetjan sem Lilja prinsessa var skotin í, fékk „minn“ alla eiginleikana hans. Ég – eða „minn“ – var þannig mjög hugrakkur – eins og Hans Óli – en í pleimóinu þurftum við alfarið að treysta á ímyndunaraflið.

Náttúrulega, ef svo má að orði komast, ef maður eignaðist „landbúnaðarpleimó“, þú veist, kall og konu og síðan kannski dráttarvél, plóg og fóðurtæki, gat maður, ef maður vildi, sett sig í spor sauðfjárbónda. Það var aftur á móti af þeirri einföldu ástæðu að maður gat það sem meðlimur tegundarinnar homo sapien. Þetta er eitt af því sem við getum. Eitt af því sem aðgreinir okkur frá mörgum öðrum dýrategundum, ekki öllum, en nógu mörgum til að þetta geti talist sérstakt einkenni á mönnum. Mjög snemma á ævinni getum við sett okkur í spor annarra og þar með ímyndað okkur að við séum hitt og þetta. Að við séum t.d. bændur eða sjóræningjar eða kúrekar eða indjánar eða geimfarar eða slökkviliðsmenn.  

Þegar við Fjalar losuðum okkur við leikmunina í pleimó sem áttu að tengja okkur við ákveðnar starfsstéttir urðum við, merkilegt nokk, tónlistarmenn. Við fórum í hlutverk tónlistarmanna eins og við ímyndunum okkur þau níu eða tíu ára gamlir. Það var ekki til neitt popparapleimó árið 1984 enda heimurinn annar en hann er í dag. Þýski leikfangaframleiðandinn gerði ekki ráð fyrir því þá að börn vildu verða eitthvað annað en slökkviliðsmenn og/eða bændur. Kannski sjóræningjar eða kúrekar í sínum villtustu fantasíum en við Fjalar breyttum pleimóköllunum okkar í poppara. Notuðum „props“ frá öðrum starfsstéttum þannig að „minn“ var í kúrekabúningi og „hans“ í indjánabúningi. Þetta gat alveg virkað líka fyrir poppara. Svona Village People-væb, get ég sagt núna með allri minni poppvisku rúmum fjörutíu árum síðar.

Við spiluðum Rebel Yell með Billy Idol eða eitthvað með Duran Duran og létum minn og hans halda tónleika inni í herberginu mínu en það sem merkilegast er, hugsa ég núna hér í Vöðlavík, er sú staðreynd að við létum þá sofa hjá pleimókonunum.

„Minn“ var alger graðfoli, reið öllu sem hreyfðist. Og hans líka náttúrulega. Við skiptum þeim á milli okkar, sváfum hjá þeim saman, trekantar, fjórkantar, júneimit. Vorum algerlega óheftir þegar kom að lífstíl rokkarans. Minn var meira að segja oft drukkinn (það fylgdi bikar með einu pleimósettinu mínu). Nutum okkar í botn í díónýsísku stjórnleysi. En allt í pleimó.

Þegar ég hafði frjálsar hendur, í pleimó, ákvað ég að gerast poppstjarna og „ladiesman“. Músíkalskur melludólgur eða eitthvað þvíumlíkt. Og það var í þessu samhengi sem það var óskiljanlegt fyrir besta vin minn þegar ég sagðist ætla að verða flugmaður. Ég hafði engan áhuga á flugmennsku og hann vissi það og hann vissi að ég vissi það.

Pleimófantasíurnar höfðu afhjúpað mig.

En ég vissi líka að það var ekki við hæfi að segja sannleikann. Ekki þarna í U-inu í Nesk nítjánhundruðáttatíuogeitthvað. Því þótt það þyki ekkert tiltökumál í dag þegar börn segja kinnroðalaust að þau ætli sér að verða „YouTubers“ var þetta ekki svona einfalt þá. Ekki þarna í U-inu.

Það hefði kannski sloppið til að segjast vilja verða tónlistarkennari en í mínum huga var ekkert samband á milli tónlistarmanna og kennslu. Þetta voru tveir aðskildir heimar: Tónskólinn var blokkflauta, rykfallið nótnablað og lykt af kaffi. Að verða rokkstjarna var annað: Það voru gigg og kerlingar og vín drukkið úr bikar. Simon Le Bon í Girls on film myndbandinu (þaðan sem innblásturinn kom er ég nokkuð viss um) var mér á einhvern hátt nærri en menn sem bjuggu hér í bænum. Menn af holdi og blóði. Menn í gallabuxum og vinnuskyrtum. Menn með sorgarrendur. Menn sem ilmuðu af koppafeiti.

Ég var of mikill mömmustrákur til að verða fyrir nægilega sterkum áhrifum frá pabba mínum þegar kom að þessari spurningu. Ég lifði í heimi fantasíunnar sem þýddi að ég var lost þegar ég var vakinn til lífsins með þessari spurningu, sitjandi þarna í U-inu, í bláum Henson-galla og skítugum íþróttasokkum. Á meðan, í raunveruleikanum; kallarnir að bræða síld innfrá, veidd af öðrum köllum sem vinna á skipum sem aðrir kallar sinna viðgerðum á. Bræðslulykt berst inn um glugga á steinsteyptu húsi þar sem kona kennir börnum lestur, skrift og stærðfræði og spyr nemendur sína um framtíðaráform.  

„Ég ætla að verða flugmaður,“ laug ég.

Blákalt. En ég vissi að þetta myndi falla í kramið. Þetta slyppi til. Er mest hissa á því núna að ég hafi ekki sagst ætla að verða kennari en ég var ekki enn orðinn almennileg kennarasleikja.

 

Dagbók frá Vöðlavík – 29072025 – kl. 06:00

Kl. 6:00

Kuldalegt úti og lágskýjað. Rigndi í nótt og það blæs að austan. Eða ég held það. Miði ég við fánann sem ég er nýbúinn að draga við hún. Hann teygir sig útbreiddur inneftir. Samt er einhvern veginn ómögulegt að segja til um vindáttir í þessum fjörðum og víkum fyrir austan. Veðrið kastast á milli fjalla og ómögulegt að segja hvaða átt sé ríkjandi í raun og veru. Hvaða átt sé í háloftunum.

Ég er nýsestur. Skrapp upp í fjall með Hnotu um klukkan fimm og gekk upp með ánni. Leiðin stikuð af Einari Sveinsbjörns, veðurfræðingi, í fyrrasumar. Hann hafði verið vikuna á undan okkur. Skildi eftir minnisblað þar sem hann listaði upp allt sem hann hafði gert, varaði okkur við litlu rennsli í klósettinu og óskaði okkur góðs gengis. Ég var byrjaður að reita lúpínu stuttu síðar. Ætlaði að vera jafn duglegur og Einar.

Ég kallaði á Hnotu áðan. Ég var annars hugar og nafnið sem ég heyrði mig hrópa var ekki Hnota heldur „Pétur“!

Mér fannst það fyndið og hló upphátt.

Ég er enn með hugann við sumt af því sem ég skrifaði gærkvöldi enda skrifaði ég fram yfir miðnætti og ég er meira en hálfnaður með minnisbókina. Hef skrifað meira á fjórum dögum en ég hef gert síðustu fjóra/fimm mánuði. Mig langar til að segja að ég sé feginn því mér hefur fundist upp á síðkastið eins og ég hafi voðalega lítið að segja. Staðreyndin er samt sú að mér er eiginlega alveg sama og tel mig vita núorðið að hverfi þörfin til að skrifa þá er ekkert við því að gera. Þá geri ég bara eitthvað annað. Æfi fyrir maraþon eða eitthvað þvíumlíkt.

Ég veit að það er mjög óþroskað að tala svona, kæra dagbók, en sem betur fer hef ég þroskast aðeins. Eða æðruleysið hlýtur að benda til þess. Tjáningarþörfin, hún kemur og fer.

En það koma engin ljóð. Það er staðreynd. Hef ekki ort ljóð í marga mánuði. Þessi dagbók er það ærlegasta sem ég hef skrifað lengi. Ekki mjög falleg „textagerð“ kannski, svo ég beiti fagmáli, en þetta kemur þó frá hjartanu.

„Hvernig viltu láta titla þig,“ spurði pródúsentinn í Kiljunni í vor.

„Ég veit það ekki,“ sagði ég. Mig langaði til að vera fyndinn og biðja hana um að kalla mig „skrifstofumann á Reyðarfirði“ en sleppti því á síðustu stundu.

„Viltu að ég titli þig sem ljóðskáld?“

„Já, ætli það ekki bara.“

„Ertu búinn að gefa út margar ljóðabækur?“

„Tvær,“ sagði ég, „og mér var boðið í þáttinn til að tala um þær.“

„Ókei þá,“ sagði hún en mér fannst hún hálf efins. Sem var sennilega bara ég að vera ég. Fullur af komplexum. Skrýtið spjall, hugsaði ég samt. Hvers vegna ætti ég að vera kallaður eitthvað annað en ljóðskáld þegar ég mæti viðtal í Kiljuna til að tala um ljóðabækur sem ég skrifaði og við hjónin gáfum út?

Ég þurfti að HAM-a mig áður en upptakan hófst. Talaði sjálfan mig til:

„Þú ert ljóðskáld. Þú ert ljóðskáld. Þú ert ljóðskáld. Þú ert tungl í nærbuxum. Þú ert ljóðskáld“

„Ertu tilbúinn?“ spurði þáttastjórnandinn Egill.

Ég kinkaði kolli. Hafði umbreytt mér í ljóðskáld með hugrænni atferlismeðferð.

„Hingað er kominn Jón Knútur Ásmundsson, alla leið að austan. Hann segist vera ljóðskáld og …,“ heyrðist mér hann segja. 

En maður er bara það sem maður gerir, eins og Purrkur sagði. Og núna yrki ég ekki. Hef ekki ort í marga mánuði og hef enga löngun til að skrifa einhverjar svona settlegar ljóðlínur. Ég vil bara kasta upp. Æla. Engin miskunn. Sýndu fólki hvað þú ert ógeðslega vain og fullur af komplexum. Út með þetta! Út með þetta allt saman! Út! Út! Út! Það er eina leiðin. Amor fati! Áfram með þig!

Og núna hugsa ég um leikaraskap. Mér líður ekki kjánalega þótt einhver kalli mig skáld. Það er stundum gert í alvöru en oftar í djóki. „Og hvað segir skáldið svo gott í dag? Einhverjar rímur að fæðast?“ Hohoho.
I don’t give a fuck, eins og sagt er, en ég kynni mig ekki sem skáld nema ég standi fyrir framan hóp fólki og sé um það bil að fara lesa ljóð sem eru sannarlega mín. Lagði vinnu í þau. Bókstaflega svitnaði og fékk niðurgang við skrifin og endurskrifin. Ærðist af kvíða, af yfirgripsmikilli vantrú á sjálfum mér. Hver í andskotanum þykistu vera? Hvaða helvítis erindi átt þú upp á dekk?! Miðaldra karl utan af landi? Hverjum er ekki sama um þig og þína reynslu? Þinn tími er liðinn! Öllum er sama! Fökkaðu þér! Farðu aftur í sjónvarpshellinn þinn, drullusokkurinn þinn! Eða í Dressmann! Og drullastu inn í kjörklefann, læstu að þér, hentu lyklinum og settu x-ið við M-ið eins og þið gerið allir! Fökk, fökk, fökk! Í dag viljum við lesa ljóðabækur eftir flóttafólk, transfólk, homma og lesbíur! Og horað fólk úr hundrað og einum! Áhugavert fólk! Og þú ert ekki áhugaverður! Snáfaðu heim til þín í tvöhundruð og tuttugu fermetra einbýlishúsið þitt!

Að komast sæmilega heill í gegnum svona niðurrifstal hlýtur að veita manni ákveðin réttindi. Eins og t.d. að kalla sig skáld þegar tilefnið býður upp á það.

En núna yrki ég ekki og það sem furðulegra er að núna eru engar alvarlegar niðurrifshugsanir í gangi. Nema þær sem tengjast botnlausri vankunnáttu í skálavörslu en ég tek þær nú bara svona hæfilega alvarlega enda hefur skálavarslan ekkert með sjálfsmynd mína að gera. 

Kannski er ég kominn yfir þetta? Kannski er ég að verða fullorðinn?

O, ætli það, Johnny boy. Enn dreymir þig um að einhver útgefandinn hafi samband og gefi þig út, segi þér að þú sért „falin landsbyggðarperla“, óuppgötvaður útnárahöfundur, og þá fyrst máttu kalla þig rithöfund eða skáld. Og mögulega bara „útkjálkaskáld“ eða eitthvað álíka. Þangað til ertu sjálfsútgefinn amatör. Skrifstofumaður á Reyðarfirði sem skrifar í frístundum. Landsbyggðin er full af svona köllum eins og þér, veistu það ekki? Menn sem skrifa. Fyrst í laumi en svo sýna þeir konunni sinni og hún var yfir sig hrifinn, ekki satt? Því hún átti ekki von á þessu frá þér. Þú sem virtist ekki hafa áhuga á neinu nema á Downtown Abbey, indverskri eldamennku og Steely Dan. Gafst út indíhljómplötu með vinum þínum sem þig hafði dreymt um að gera í þrjátíu og fimm ár. Svo átakanlegt! Svo aumkunarvert! Svo ömurlegt! En fyrst og fremst bara eitthvað svo, eitthvað svo, eitthvað svo, sorglegt!

Nei, elsku dagbók, þú veist ekki hvað minnimáttarkennd er fyrr en almættið hefur breytt þér í hálfdrættings listaspíru út á landi. Ég hef sent handritin mín á útgefendur. Þeir sem svara bjóða upp á kurteisislega höfnun og þá er ég feginn að vera ekki tuttugu og fimm ára. Bara fimmtugur karl, byrjaður að grána, tíu kílóum of þungur, herðabreiður og stórbeinóttur, í skóstærð 47-48 eða sumsé, ekki beinlínis skáldlega vaxinn. Hef engu að tapa lengur. Nema kannski kúlinu og andlitinu stöku sinnum en ég veit ekki einu sinni hvort ég kann lengur að skammast mín almennilega. Ekki til fulls. Ekki þannig að ég verði eldrauður í framan og sveittur á enninu. Það vantar orðið alla ákefð í skömmina mína. Hún er orðin svo settleg. Orðin sífellt íronískari í seinni tíð. Póstmódernísk skömm? Ætli einhver hafi skrifað um hana?

Er þetta afleiðingin af því að afhjúpa sig? Eru þetta launin?

Frelsi.

Það skyldi þó ekki vera.

Segirðu núna.

Það kemur kannski í ljós á næsta þorrablóti. Þessi dagbókarskrif eru toppefni fyrir annálinn.

 

Dagbók frá Vöðlavík – 28072025 – kl. 21:30

21:30

Kominn í trússarahúsið. Setti Hnotu yfir í Karlsskála. Hún hrýtur orðið svo hátt, hærra en ég segir Esther, og okkur líst eiginlega ekki orðið á blikuna. Meira vesenið á þessum hundum alltaf hreint.

Er einn, krakkarnir hjá mömmu sinni. Voru að skrifa nöfnin á vinunum sínum niður á blað. Einskonar „þakklætisdagbók“ eins og er í tísku að halda. Ég ætti kannski gera það líka en mér virðist auðveldara að halda svona „vanþakklætisdagbók“ eins og ég geri þessa dagana. Iðunn fyllti heilt blað, skilyrðin fyrir vinskap ekkert mjög ströng, en Elías var bara með nokkur nöfn á listanum sínum. Hann virtist pínu skúffaður og þetta snerti aðeins við mér. Það er svo dapurlegt að eiga fáa vini. Ég asnaðist til að fara „leiðrétta“ hann, segja honum að hinn eða þessi væru nú líka vinir hans og svo ætti hann aukinheldur nokkrar vinkonur. Hann mætti ekki gleyma því.

En hann er bara einmana. Saknar vina. Það tekur á að vera í Vöðlavík. Tíminn svo lengi að líða, svo margar klukkustundir sem þarf að fylla. Það þarf að liggja fyrir „aðgerðaráætlun“, eins og vér embættismenn segjum. Við þyrftum kannski að undirbúa þau betur næst þ.e. ef það verður næst. Kannski fæ ég ekki að verða skálavörður aftur út af þessum dagbókarskrifum. Ég skrifa svo lítið um húsverkin. Skrifa bara um hugsanir. Um hugsanir sem fjalla um hugsanir. Hvaða gagn er af svona hugsuði í skálagæslu ef eitthvað kæmi upp á?

En ég geri samt hitt og þetta. Held húsinu hreinu, tala við gesti, segi þeim til eftir bestu getur og svo framvegis. Mér finnst þetta bara ekki í frásögur færandi. Kannski vegna þess að ég er liðtækur og rúmlega það í heimilisverkunum. Kann að elda mat. Kann að þrífa klósett. Kann að skrúbba og skúra. Þessi verk eru mér ekki framandi og stundum stend ég mig að því að öfunda karla á mínum aldri sem hafa aldrei þeytt rjóma. Karlana sem neituðu að skipta um bleiur því það vó að karlmennsku þeirra. Þá hefði ég kannski getað skrifað um hversdagslífið af einhverri ástríðu. Allavega af nákvæmni.

Það eru aðrir hlutir sem koma mér í opna skjöldu. Úrið segir mér að hvíldarpúlsinn sé kringum sextíu og sex að jafnaði. Nokkuð gott hefði ég haldið. Horfi ég á línuritið sé ég smá topp í morgun. Þá stressaðist ég aðeins upp því tetrastöðin í skálanum fór að blikka og ljósið var rautt. Það veit auðvitað aldrei á gott. Vakti hjá mér ugg, ef svo mætti segja, því ég kann ekkert á svona græjur og þótt líkurnar séu hverfandi þá getur auðvitað komið upp sú staða hér í einskismannslandi að það þurfi að ná sambandi við umheiminn án tafar. Það gæti komið ísbjörn, ekki satt? Kæra dagbók?

Ég prófaði að ýta á einhverja takka, kveikti og slökkti en það breytti engu. Þetta var ekki alveg nógu gott, hugsaði ég, og velti fyrir mér hvort ég ætti að láta vita af þessu. Ákvað að sjá til og gefa þessu séns á að reddast af sjálfu sér. Reynslan hefur kennt mér að stundum er eins og græjur lækni sig sjálfar. Eina sem maður þarf að gera er að gleyma þeim, hætta að veita þeim athygli og vandamálið hverfur af sjálfu sér.

Í gærkvöldi komu nokkrir hreindýrakarlar í heimsókn. Snorri mágur minn og nokkrir félagar hans. Þeir voru á sexhjóli, með allar græjur, hátæknisjónauka og ég veit hvað og hvað. Höfðu litið við fyrr um daginn, horft á fjallið, kortlagt atlöguna og svo fóru þeir á stjá. Komu svo aftur þegar við vorum nýbúin að þrífa eftir kvöldmatinn. Gáfum þeim kaffi og spjölluðum við þá frameftir kvöldi. Með þeim var leiðsögumaður sem Esther sagði mér, eftir að þeir voru farnir, að væri sonur Magnúsar Stef ljóðaútgefanda á Fásk. Það fannst mér áhugavert, einhverra hluta vegna.

Þetta var soldið fyndið. Ég hafði ekki þessar upplýsingar á meðan ég var að spjalla við hann og ein furðuleg hugsun hvarflaði að mér á meðan hann var hjá okkur: Mér fannst eins og hann beindi öllum spurningum sínum að Esther, leitaði eftir augnkontakti við hana. Og já, ég var örlítið hissa. Ekki hvumsa, alls ekki, en pínu hissa því ég hef tekið eftir því að gestirnir okkar beina yfirleitt öllum spurningum að mér, einkum og sér í lagi ef þær snúast um praktíska hluti, hvort það sé hægt að komast yfir ánna, hvernig veðurspáin sé o.s.frv. Vegna kyns er reiknað með að ég sé „yfirskálavörður“ og að Esther sé trygglynd eiginkona yfirskálavarðar. Eða eitthvað svoleiðis. En Frosti beindi máli sínu til hennar og á meðan var minn innri díalógur einhvern veginn svona:

„Hann sér í gegnum mig. Hann skynjar matríarkíuna á Karlsstöðum í Vöðlavík.“

En svo ávarpaði Esther hann með nafni og þá skildi ég að þau þekktust. Hann hlaut að vera Fáskrúðsfirðingur. Varla gamall skólabróðir því hann hlaut að vera talsvert eldri en konan mín en þó veit maður aldrei nú til dags með aldur. Aldur flestra á reiki þegar allir kaupa fötin sín í Dressman og H&M. Þetta er ekki eins og áður fyrr þegar menn skiptu yfir í fataverslun Guðsteins eftir þrítugt og klæddu sig eftir aldri. Núna getur maður séð sjötuga karla í eins fötum og einhver tuttugu og fimm ára og ef ekki væri fyrir gráa hárið og hrukkurnar (og Parkinson-skjálftann) væri auðvelt að fara í aldursvillt.

Hvað um það. Hann beindi orðum sínum að Esther vegna fyrri kynna. Þau voru sveitungar einsog ég komst að eftir að þeir voru farnir. Það er ástæðan fyrir því að ég skammast mín örlítið fyrir þessar hugsanir og einmitt þess vegna ætla ég að skrifa um þær hér, kæra dagbók. Ég er að nota þig eins og hugræna atferlismeðferð. Er þér sama?

Semsagt: Hvaða helvítis minnimáttarkennd er þetta alltaf hreint?

Ég veit að ég er með „imposter syndrome“ og það er náttúrulega eðlilegt. Ég er ekki skálavörður dags daglega. Ákvað bara að ganga inn í þetta hlutverk. Hefði alveg eins geta keypt mér hvítan slopp og þóst vera skurðlæknir.

En – hugsaði ég – af hverju ég á nálum en Esther svona kúl á því?

Af hverju tekur hún þessu ekki jafn alvarlega og ég?

Vegna þess að hún veit, hugsaði ég, að ábyrgðin liggur hjá mér, karlinum. Það reikna allir með að ég sé með allt á hreinu. Hún – konan – er stikkfrí og hún veit það. Ég snöggreiddist og ákvað að tala við hana við fyrsta tækifæri. Spyrja hana hvort hún ætlaði alltaf að vera einhver freerider hér í Vöðlavík og láta mig sjá um allt. Ætlaði hún bara að hlusta á hljóðbækur og prjóna í heila viku? Átti ég að sjá um rest? Plús eldamennsku og að hafa ofan af fyrir börnunum? Hvenær ætlaði hún að stökkva í hylinn? Af hverju getur hún ekki haldið gestum upp á snakki eins og ég geri? Ætlar hún bara að tala við gesti ef þeir eru sveitungar og ættingjar? Veit hún ekki hvað það útheimtir mikla orku fyrir intróvert eins og mig að tala við ókunnuga?

Allt í einu var ég farinn að gnísta tönnum en það veitti því enginn athygli. Þau voru að tala um einhverja andskotans Fáskrúðsfirðinga sem ég hafði aldrei hitt og aldrei heyrt talað um og ég hafði ekkert til málanna að leggja.

Ég afsakaði mig og fór yfir í skálann okkar og tók einn leik í Nintendo. Kom svo til baka talsvert skárri af gremjunni.

„Hvert fórstu?“ spurði Esther.

„Bara, hjó eldivið og svona,“ svaraði ég.

Seinna um kvöldið sagði Esther mér að Frosti væri sonur Magnúsar ljóðamanns og þetta varð kveikjan að síðasta spjalli dagsins.

Mér fannst þeir eins og svart og hvítt. Mér fannst það jafnvel þótt ég þekkti hvorugan mikið. Þetta voru yfirborðssamanburðarrannsóknir á feðgum en það er nú bara eins og það er. Við erum endalaust að fella dóma yfir fólki með afskaplega fábrotnum upplýsingum. Ég var að hitta Frosta í fyrsta sinn og svo þekki ég Magnús eingöngu sem ljóðamann. Kynntist honum fyrir tuttugu árum síðan þegar ég bað hann um að sjá um „vísnahornið“ í Austurglugganum, héraðsfréttablaðinu sem ég ritstýrði upp úr aldamótum. Hann tók verkefnið alvarlega og sendi mér engan leirburð eða klámfengnar vísur. Þetta var „hardcore“ stöff, mjög vandað og útpælt. Já og eiginlega of hátimbrað fyrir blaðið mitt. Blað sem ég hafði ákveðið að gera að fyrsta „tabloid“ blaði landsbyggðarinnar.

Magnús hefur verið mér mjög vinveittur og hrósað mér fyrir bækurnar mínar. Jafnvel fyrir framan annað fólk og þá hef ég gírast allur upp og þá endurgjaldað hrósið náttúrulega og hrósað Magnúsi í hástert fyrir bókaútgáfuna. Sem hann á auðvitað skilið en skjall kallar fram meira skjall. Það er bara lógískt.

Einn fyndinn útúrdúr áður en ég held áfram: Í fyrra bað Magnús mig um að sjá um ljóðahornið í austfirska átthagablaðinu Glettingi sem hann hefur tekið þátt í að ritstýra í nokkur ár. Ég sagði strax já. Sagði það mikinn heiður.

„Heiður?“ sagði Magnús þá í símann og ræskti sig. „Ég veit nú ekkert um það.“

Mér fannst þetta brilliant tilsvar. Hef haft þetta eftir honum hundrað sinnum, notað þetta til að gera mig fyndinn.

En ég spurði Esther út í Frosta um kvöldið, af hverju var hann ekki „kúlturbarn“, eins og sagt er, með hálsklút og allar græjur. Hún svaraði eftir bestu getu. Þekkti hann ekki persónulega, þekkti hann bara eins og Fáskrúðsfirðingur þekkir Fáskrúðsfirðing og Norðfirðingur þekkir Norðfirðing. Gaf honum toppmeðmæli og ég gerði það líka eftir þessi stuttu kynni.

Hann spurði mikið, var forvitinn um okkur (innan eðlilegra marka) og margþakkaði fyrir veitingarnar. Hann spurði mig hvers vegna ég drykki ekki kaffi á kvöldin sem reyndist fínt sprek á samræðubálið og allir tjáðu sig um kaffivenjur sínar. Frosti var alveg með þetta.

Ég þekki suma hreindýraleiðsögumenn sem eru hálfgerðir leikarar. Performa fyrir þetta lið sem kemur austur að skjóta hreindýr eða gæs. Bjóða upp „an authentic hunting experience“ þar sem þeir pósa sem svona „göfuga villimannatýpan“ sem við sjáum í annarri hverri íslenskri bíómynd, oftast leikin af Ingvari Sig. „An authentic hunting experience“ sem endar á ljósmynd af veiðimanni á hnjánum með fórnarlambinu, blóðrauðu og steindauðu. Fá hana svo senda í tölvupósti og þá búið að skala fyrir allar gerðir samfélagsmiðla.

Nei, Frosti var ekki sú týpa. Eða mér fannst ekki. Svaraði öllum mínum heimskulegu spurningum án þess að það vottaði fyrir hroka eða neinni þörf til að gera sig breiðan. Ég kann að meta það. Það virðist sem lögmál í mannlegum samskiptum að þeir sem hafa ekkert að sanna eru alltaf næs. Stjörnustælar og mannalæti plaga eingöngu þá sem eru fullir af efasemdum um sig. Þessu hef ég tekið eftir. Ekki bara hjá öðrum. Líka hjá sjálfum mér. Ég var einu sinni poppari í fjórðu deild og gat verið leiðinlegur við poppara í fimmtu deild en ekkert nema smeðjan þegar kom að poppurum í efri deildum.

Kræst, hræðilegt að hugsa um þetta. Man eftir sjálfum mér, blindfullum fyrir neðan Egilsbúð, að smjaðra fyrir Gumma Jóns í Sálinni (og ég þoli ekki Sálina hans Jóns míns!) eða, God forbid, Grétari Örvars í Stjórninni. Tíu mínútum síðar hreytti ég einhverjum ónotum í Jón Hafliða og Orra og þurfti svo að biðja þá afsökunar í þynnkunni.

Ég gæti ælt núna. Sem hlýtur að þýða að ég á einmitt að rifja þetta upp og skrifa um. Í smæstu smáatriðum.

Note to self!

Ég tók einn séns í samtalinu við hreindýrakallana og spurði hvort þetta væri ekki fyrir löngu orðið „ríkramannasport“ en mér fannst þeir allir taka undir það. Eða þeir sem voru að taka þátt í spjallinu gerðu það. Aðrir höfðu dregið sig í hlé og það heyrðust margfaldar hrotur berast úr herberginu við hlið borðsalarins. Þetta er dýrt sport, kostar nokkur hundruð þúsund krónur, allur pakkinn, og kostnaðurinn fljótur að hækka þegar menn þurfa að bíða þokuna af sér, drekkandi kaffi í Karlsskála, haldandi skálaverði upp á snakki.

„Það er lítið mál að láta svona túr nálgast milljónina,“ sagði einn þeirra sem ég hafði ekki náð nafninu á. Ég hlustaði á þá tala og dró mína eigin ályktun: Hið svokallaða „venjulega fólk“ gerir ráðstafanir. Það sameinast um eina skepnu og skiptir með sér kostnaði. En það breytir því ekki að þetta er enginn öreigamatur sem menn sækja hingað austur á land. Öreigarnir verða að gera sér að góðu grísahakk í frauðbakka á sérstöku tilboði í Bónus. Þetta er hvorki nýtt né frumlegt félagsfræðilegt innsæi en svona tekur misskipting á sig ýmsar myndir. Við getum ekki öll borðað hreindýrabollur.

Áður en félagarnir fóru spurði ég hvort þeir hefðu eitthvað vit á tetrastöðvum, að það væri rautt blikkandi ljós sem benti til þess að ekki væri allt með felldu. Ég lýg því ekki en þeir réttu allir upp hönd. Ég fékk Snorra til að skoða tækin með mér og hann prófaði að ýta á einhverja takka, að mér sýndist handahófskennt.

„Hvað ertu að gera?“ spurði ég.

„Ég veit það ekki,“ sagði hann. „Varstu búinn að prófa að kveikja og slökkva?“

„Já.“

„Ókei,“ sagði hann og tók kerfið úr sambandi. Stakk því svo aftur í samband og hálfri mínútu síðar var komið grænt ljós.

„Takk, Snorri minn.“

„Lítið.“

 

Dagbók frá Vöðlavík – 28072025, kl. sirka 17.

17:00 eða eitthvað.

Ég leit ekki á klukkuna þegar ég settist niður en það hefur verið gestkvæmt í dag. Hreindýrakallar. Þar á meðal Hreinn Sigmars, gamall kunningi og vinur vinar. Spjölluðum heillengi saman í skálanum en hann var þarna með hópi manna og Frosta leiðsögumanni sem Esther sagði mér að væri sonur Magnúsar ljóðamanns Stefánssonar á Fáskrúðsfirði. Voðalega fannst mér það merkilegar upplýsingar. Ég punktaði heilmargt niður eftir heimsóknina þeirra en ég verð að koma þessu frá mér með minningarathöfnina og haugsuguna.

Ég þarf að rifja upp laugardaginn 17. ágúst árið 2024 þegar Víkin fylltist af fólki.

Jóna hafði stoppað mig í Krónunni og spurt hvort við værum í alvörunni að fara gerast skálaverðir í Vöðlavík. Sagði að það væri sniðugt og að börnin myndu örugglega hafa gaman af að vera þarna. Hún sagði mér að hún og Siggi ætluðu einmitt að koma á laugardeginum vegna minningarathafnar um björgunarafrekin sem unnin voru þarna ’92 eða 3. Hún sá að ég kom af fjöllum og útskýrði fyrir mér hvað stæði til. Þetta var ekki alveg það sem ég hafði „signed up for“, eins og sagt er. Hugmyndin var fremur sú að þetta yrði tjaldútilega í húsi með öllum þægindum. Leið fyrir okkur Esther til að slá á samviskubitið gagnvart börnunum sem við höfum neitað um tjaldútilegu vegna þess að okkur finnst báðum óþægilegt að sofa í tjaldi. Þegar hún nefndi að Berglind og Sævar yrðu þarna að sjá um veitingar varð ég aðeins rólegri. Ég hvaddi Jónu og bað að heilsa Sigga. Spurði hvort hann væri enn að stunda köld böð. Hún sagði svo vera. Sagði að hann væri líka byrjaður að ganga í fjallinu í einhverskonar „tásuskóm“ sem eiga víst að auka ánægjuna af fjallgöngum. „Magnað,“ sagði ég og varð óvart litið á smokkarekkann í Krónunni. Þar voru einmitt til sölu örþunnir og latexfríir smokkar sem áttu líka að auka ánægju fólks. Í framhaldinu fór ég að hugsa um alla „filterarana“ sem við notum, eiginlega og óeiginlega, milli skynfæra og veruleika. Það getur ekki verið hollt fyrir okkur og var þá að hugsa um mannkynið í heild sinni.

Þegar ég sagði Esther frá þessu partíi virtist hún hafa þetta allt á tæru:

„Ég var búin að segja þér frá þessu,“ sagði hún. „Kamma lét okkur vita fyrir löngu.“

„Nú?“

„Já.“

„Varstu í alvörunni búin að segja mér frá þessu?“

„Já, að minnsta kosti tvisvar.“

„Sorrí, ég var búinn að gleyma þessu.“

„Jebb.“

Þetta „jebb“ sagði eftirfarandi: Ég, Esther Ösp, á ekki að þurfa að vera móðir þín, Jón Knútur. Viltu gera svo vel að fullorðnast og bera ábyrgð á lífi þínu.

Um tíuleytið á laugardagsmorgni stóðum við á pallinum við skálann, með Berglindi og móður hennar, og horfðum á strolluna keyra niður í Víkina. Bíll við bíl alla leiðina niður og ef þetta var ekki nægilega yfirþyrmandi þá birtist allt í einu þyrla sem flaug yfir hæðina og sveimaði yfir Víkinni nokkra hringi áður en hún lenti í nokkur hundruð metra fjarlægð frá Karlsskála. Yfir mig kom óraunveruleikatilfinning af þeirri tegund sem fólki tekst aldrei að lýsa öðruvísi en að aðstæðurnar séu eins og að vera staddur í einhverri bíómynd. Það var smá „Platoon“ fílingur í þessum aðstæðum.

„Snúðu þér við,“ kallaði Esther í gegnum þyrlugnýinn og tók af mér mynd með símanum sínum. Ég brá á leik og fórnaði höndum sem segir mér núna, kæra dagbók, að ég hafði að minnsta smá húmor fyrir stöðunni.

„Við þurfum allavega ekki að hafa neinar áhyggjur af öryggi fólks,“ sagði Esther.

„Hvað áttu við?“ Var hún búin að gleyma því að við vorum skálaverðir? Að við bárum ábyrgð á þessari eign Ferðafélags Fjarðamanna í heila viku?

„Bara, það eru hundrað og fimmtíu björgunarsveitarmenn á staðnum, reiðubúnir til þjónustu.“

Ég hafði ekki áttað mig á þessu og varð barnslega kátur í fáeinar sekúndur. Ég hafði aldrei skipt jafn litlu máli og það var góð tilfinning sem entist því miður stutt því það var komið upp vesen í Vöðlavík. Ég hafði ekki enn nefnt það við Berglindi sem var í þann veginn að fara rigga upp veislu fyrir allt þetta fólk. Ég leit til hennar, hún hafði staðið þarna við hliðina á mér og horft á þyrluna lenda og þrátt fyrir að henni hafi fundist þetta tilkomumikið, það getur ekki annað verið, er það mér til efs að hún hafi verið stödd í Platoon eins og ég.

„Berglind,“ sagði ég þegar þyrlan var þögnuð. „We’ve got a problem.“ Sagði þetta á ensku, mögulega til að gera vandamálið aðeins léttvægara.

„Hmmm …?“ sagði hún, spyrjandi en fremur áhugalaus að mér fannst.

„Klósettin eru stífluð og hafa verið síðan við komum í fyrradag. Ég hef verið að sturta niður með því að bera vatn í fötum í þau en ástandið hefur eiginlega bara versnað. Það er nánast ekkert rennerí lengur og klósettskálarnar eru orðnar barmafullar af vatni. Og núna eru tvö hundruð manns að fara drekka fimmtíu lítra af kaffi eða eitthvað. Skilurðu mig?“

„Jájá, bíðum bara eftir Sævari. Hann hlýtur að kunna á þetta,“ sagði hún, fór inn og ég heyrði hana gefa syni sínum og móður skipanir.

Ég var ánægður með þetta svar. Bíðum bara eftir Sævari.

Ráðagott fólk. Landsbyggðin er full af þannig fólki. Ekki bara körlum. Það eru til ráðagóðar konur líka. Berglind er þannig kona. Marsibil á Dalatanga. Já, og Esther er þannig kona.

Og svo er Sævar þannig karl. Maður sem deyr ekki ráðalaus. Gæti bjargað sér á eyðieyju með vasahníf og einn faðm af snæri. Þannig gæti hann byggt sér hús með salerni sem þrátt fyrir að vera frumstætt væri með prýðilegu vatnsrenneríi. Við erum ágætlega málkunnungir, við Sævar, þótt ekki séum við beinlínis vinir eða félagar. Bróðir hans er giftur Jóhönnu frænku og þannig tengjast hlutirnir bara eins og allt tengist hér fyrir austan því þetta er einn andskotans rembihnútur sem hnýtir okkur öll saman hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan keyrði hann hljómsveitina mína á ball á Hornafjörð í kolvitlausu veðri og erfiðri færð. Síðustu kílómetrana ók hann með höfuðið út um gluggann svo hann sæi hvort við værum nokkuð að húrra niður Almannaskarð sem mögulega hefði þó verið eini séns þessarar hljómsveitar til að rata í fréttirnar. Mögulega heimsfréttirnar. Þannig hefðum við hlotið íslensku útgáfuna af rokkdauða Buddy Holly, Ritchie Valens og The Big Bopper. Hinn íslenski rokkdauði: Að leggja á fjöllin svo halda megi dansleik og gleðja fólkið en verða svo bara úti. Íslenskir popparar eiga ekki að drekka sig í hel, segi ég. Þeir eiga, með réttu, að frjósa í hel. Í einhverju skarði sem enginn hefur einu sinni nennt að gefa nafn.  

En þetta var ástæðulaus ótti. Sævar var með allt á hreinu, kom okkur á leiðarenda og svo héldum við vel sótt ball í Sindrabæ. Fremur óeftirminnilegt ef frá er talið morðtilræði sem okkur var veitt rétt fyrir hlé þegar einhver reyndi að henda öskubakka í Hálfdan, eða ég reikna með að hann hafi verið skotmarkið því auðvitað var ekki sá karlmaður í Sindrabæ sem ekki stóð ógn af okkar fjallmyndarlega söngvara. Dáni, svellkaldur, tók náttúrulega ekki eftir þessu, alltaf með lokuð augu í góðum fíling, en öskubakkinn hélt leið sinni áfram í átt að mér, saklausum trommaranum sem engum stóð ógn af. Ég kom mér fimlega undan án þess að missa slag og það eina sem glöggur ballgestur hefði heyrt var örlítil áherslutilfærsla í lokaversi Long Train Running.

Í hvert sinn sem ég hitti Sævar man ég eftir þessari ballferð. Sé hann fyrir mér úr aftursætinu, við félagarnir fölir í framan með hjartslátt er við fylgdumst með þessum ráðagóða Eskfirðingi keyra í gegnum hríðina og skafrenningin á sunnanverðum Austfjörðum, með aðra hönd á stýri og höfuðið útum gluggann – ósýnilegt í sortanum. Leit aftur í til okkar af og til, andlitið freðið, og huggaði okkur:

„Eru ekki bara allir slakir?“

Já, bíðum bara eftir Sævari. Djöfull var það góð hugmynd. Ég elti Berglindi inn í skálann og reyndi að hljóma afslappaður þegar ég spurði hvort það væri langt í hann.

„Hann kemur bara á eftir,“ sagði hún, soldið ónákvæm að mér fannst. „Athöfnin niðrá strönd verður aldrei styttri en tveir tímar.“

Hún hélt sér að verki. Smurði flatbrauð með hangikjöti fyrir stærsta partí Vöðlavíkur, hitaði kaffi og kakó. Stífluð klósett voru kannski bara minniháttar vandamál í hennar huga. Og kannski var þetta minniháttar vandamál, hugsaði ég, og fór yfir í skálavarðahúsið, heilsaði upp á börnin sem höfðu örugglega skynjað óróleikann í höfði föðursins og forðað sér inn. Ég teygði mig í kojuna hans Elíasar og náði í gamla Nintendo-tölvuspilið, hlammaði mér í hornstólinn og spilaði. Náði fullkomnum fókus og sló metið mitt frá því í ágúst 1988. Esther kom inn á eftir mér og settist niður og tók upp prjónana sína. Hún vissi af áhyggjum mínum og hafði áhyggjur af því hvað ég hafði miklar áhyggjur.

Þegar Sævar kom – loksins! – dró ég hann með mér inn á klósett en það vildi svo heppilega til að stór kúkur flaut í vatninu sem var næstum því komið á yfirfall. Heppilega segi ég því ég var viss um að þessi sjón yrði til þess að hann tæki málið föstum tökum.

„Ó, sjitt,“ sagði hann. Ég vissi ekki hvort hann var að grínast. Ég missi alltaf skopskynið í erfiðum aðstæðum. Kúkurinn haggaðist ekki. Flaut bara þarna, hreyfingarlaus, í hrópandi mótsögn við hamaganginn í Vöðlavík. Hamaganginn í hjarta mínu. Staðföst áminning um að þetta vandamál hyrfi ekki af sjálfu sér.

„Heyrðu, það er ekkert sem við getum gert í þessu núna,“ sagði hann eftir drjúga stund en mér fannst eins og við hefðum staðið þarna saman í tíu mínútur, Sævar horfandi á kúkinn og ég horfandi á Sævar.

„Rotþróin hlýtur bara að vera full.“

„En hvað eigum við að gera? Við getum ekki leyft fólki að nota klósettin er það?“

„Neinei, þú verður bara að banna fólki að kúka. Getur kannski leyft konunum að nota klósettið en sagt þeim hver staðan sé. Aðrir gera bara þarfir sínar upp í fjalli. Einfalt mál.“

„Roger,“ sagði ég og fór rakleitt til Estherar til að tilkynna henni niðurstöðuna, að ég myndi sjá um að vísa körlunum upp í fjall en að hún yrði að sjá um konur og börn.

„Fyrirgefðu,“ heyrði ég kallað á eftir mér. „Ert þú ekki skálavörðurinn?“

Ég sneri mér við. Þetta var einn af hreindýraköllunum sem hafði verið í húsinu síðan við komum.

„Jú,“ sagði ég en mig langaði til að svara neitandi og segjast vera eiginmaður skálavarðarins. Þetta var einn af þessum eldri í hópnum sem þó var örugglega yngri en ég. Þannig líður mér þegar ég hef ekki fullkomna stjórn á hlutunum. Þá finnst mér allir vera eldri, lífsreyndari og á allan hátt betri en ég.

„Sko,“ sagði hann og nuddaði hökuna, hugsi. Ég leit yfir öxl hans og sá að fólk var farið að streyma til okkar og tínast inn í skálann. Partíið var að byrja. „Ég vil ekki vera með smámunasemi,“ hélt hann áfram, „en þegar svona flottir gestir eru væntanlegir, þú veist, Georg Lárusson og svona lið, þá máttu ekki vefja fánastrenginn svona í kringum stöngina. Strengurinn á að vera strekktur, alveg stífur.“

„Viltu ekki bara snáfa úr Vöðlavík, drullusokkurinn þinn, áður en ég drep þig með skóflu og gref þig í grunnri gröf við hliðina á hinum lífræna úrganginum?“ sagði ég náttúrulega ekki en sagði aftur á móti, eins vinsamlega og mér var unnt:

„Nú? Geturðu aðstoðað mig? Ég kann þetta ekki.“

„Ekkert mál.“

Og svo gengum við bara saman, við félagarnir, að flaggstönginni og fáninn var kominn í hátíðarskap á no time. Hann kenndi mér nýjan hnút meira að segja, sagðist hafa verið skáti í gamla daga. Ó, hvað mig langaði að kyssa hann.

Ég sé ekki ástæðu að hafa þetta neitt lengra, kæra dagbók. Það væri rembingur að teygja lopann meira en ég hef nú þegar gert, einhversslags „kúkogpiss-húmor“ sem er ekki minn stíll. En þetta verður minningin mín frá þessum annasamadegi í Vöðlavík, sú sem mun fylgja mér til dauðadags:

Það eru svartklæddir landhelgisgæslumenn í Vöðlavík að gera þarfir sínar; axlaskúfar, heiðursmerki, kaskeytur, hvítir hanskar. Þeir standa hlið við hlið í guðsgrænu berjalynginu og þeir snúa í mig baki, með hendur fyrir framan sig. Íslenski fáninn í forgrunni, blaktandi fallega í sunnangolunni, strengurinn pinnréttur að hætti skáta.

Já, og haldiði ekki bara að mófuglarnir séu að syngja öll sín frægustu lög!

 

Dagbók frá Vöðlavík – 28072025

Innskot frá deginum í dag, 30. ágúst, kl. 5:30:

Ég póstaði síðustu færslu í fyrradag. Fékk svona fremur „tempruð“ viðbrögð ef við metum þau í lækum. Innan við tuttugu, sem er rúmlega helmingi minna en fyrstu færslurnar fengu. Ég veit að þetta eru langir textar, svona hlutfallslega séð, þ.e. miðað við það sem fólk er vant að lesa á samfélagsmiðlum. Það krefst skuldbindingar af hálfu lesanda að fara í gegnum þúsund til fimmtán hundruð orð eftir einhvern eins og mig. Lesandinn veit ekki hvort hann uppskeri nokkurn skapaðan hlut. Hvort hann fái eitthvað fyrir sinn snúð. Ég er bara ekki þannig skríbent. Sorrí. 

Og svo veit ég ekki einu sinni hvort þetta er skemmtilegt. Vangaveltur um „listsköpun“ eða hvað sem þetta var. Átta mig ekki á því. Ég er bara að reyna að vera ærlegur í þessum skrifum. Set niður á blað það sem mér dettur í hug. Þetta var og er enn æfing í „frjálsum“ skrifum. Sjáum bara hvað gerist. Það er hið eiginlega raison d’etre.

En ég hafði semsagt neimdroppað persónu í síðustu dagbókarfærslu sem kallaðist „Axel í Skálateigi“. Ég gerði það snemma í kaflanum (já, köllum þetta kafla – það er bókmenntalegra). Það var óvart samt. Ég hafði ætlað mér að skrifa um það þegar persónan „Axel í Skálateigi“ kom niður í Vöðlavík í rigningu á miðvikudegi síðasta sumar, með haugsugu, og bjargaði málunum í Karlsskála. Bjargvættur með derhúfu, í bláum vinnugalla og svörtum stígvélum. Eða voru þau græn? Svo var hann líka með sígó (rauður Winston). Kveikti sér í nokkrum á meðan hann – eða græjurnar hans náttúrulega – sugu upp gumsið (gott val á orði þótt ég segi sjálfur frá!) úr rotþrónni, svo full að hún var við að bresta. Sjúgandi sígó á meðan gumsið var sogið upp! Fullkomið! Þvílíkt stöff sem ég er með í höndunum!

Svo hætti ég bara að hugsa um „Axel í Skálateigi“ og fór að hugsa um skáldsöguna sem ég skrifaði í byrjun árs og ákvað bara að segja frá þeim misheppanaða leiðangri í staðinn. Þetta er orðið mjög „meta“ allt saman. Sögur um sögu um sögu um sögu um sögu um sögu. 

Auðvitað vekur persónan „Axel í Skálateigi“ forvitni hjá sveitungum mínum sem taka sér kannski stund á kvöldin og lesa það sem ég hef skrifað. Ég hefði getað sagt mér það sjálfur og Gunnar vinur minn á Norðfirði Þorsteins skrifaði athugasemd við færsluna seint í fyrrakvöld:

„Axel bóndi í Skálateigi?“

Ég vissi ekki alveg hvert Gunni var að fara með þessari athugasemd en allavega tvær tilgátur urðu strax til í huga mínum þar sem ég lá í sófanum í Sunnugerði, með poppskál á maganum, að skrolla í gegnum feisið. Sú fyrsta var fremur beisik: Var ég að fara í nafnavillt? Er ekki til neinn maður sem heitir „Axel í Skálateigi?“ Var hann hann að benda mér á það? Nei, andskotinn. Ég er þá að verða heilabilaður ef það er ekki til „Axel í Skálateigi“. Ég man alveg eftir þessum manni. Man eftir honum sem lykilmanni í knattspyrnuliði Egils rauða snemma á níunda áratugnum, man eftir honum að smíða hús við Víðimýri 4 árið 1981. Ég man eftir honum haldandi á hamri! Man eftir því hvernig hvellirnir bárust um allt hverfið þegar hann negldi niður þakið á húsinu með pabba mínum. Man eftir honum með kúbein. Man eftir honum með sög.

Hann heitir þá að minnsta kosti „Alex í Skálateigi“ ef ekki „Axel í Skálateigi.“ Það er nær ómögulegt að það skeiki mikið umfram það.

Svo var það hin tilgátan, að þetta væri svona „smjattsmjattsmjatt“ hjá Gunna vini mínum. Semsagt, svona einskonar „Úúúú! Ertu með eitthvað djúsí um hann Axel í Skálateigi! Komdu með það, kallinn! Ég poppa og hringi í vini mína. Þetta verður veisla!“

Og svo fattaði ég þetta bara allt í einu. Bara akkúrat núna. Á meðan ég var að skrifa þetta, nákvæmlega þetta. Axel er frá Skorrastað. Ekki Skálateigi. Gunni var að leiðrétta mig.

[Er hann ekki örugglega frá Skorrastað? Á ég að fletta því upp? Hafa þetta rétt? Nei, það væri ekki heiðarlegt í þessu samhengi.]

Mér til varnar hef ég aldrei verið minnugur á nöfn. Sérstaklega þegar menn eru kenndir við eitthvað, staði eða foreldra. Ég vissi t.d. aldrei hver Nonni Sigga Hall var. Maðurinn hét bara Nonni í mínum huga og var pabbi vinar míns. Eins með Stjána Villa Brans. Hann hét bara Kristján hjá mér. Var líka pabbi vinar míns. Og Smelli? Hann hét Emil. 

Ég ætla aftur til Vöðlavíkur: Klukkan var sennilega að byrja að ganga átta. Ég sat enn í skálanum. Það var enginn vaknaður. Kaffið í bollanum mínum orðið kalt enda hafði ég ekki lyft pennanum frá blaðinu í klukkutíma. Hnota hraut og gjólan í víkinni smaug sér inn um glugga einhvers staðar með tilheyrandi blístri, draugalega ef það væri myrkur sem það var ekki. Það var hásumar. 28undi júlí. Snemma að morgni.

Ég var búinn að skrifa það sem ég birti síðast (þetta með misheppnuðu skáldsöguna sem ég skrifaði fyrr á árinu) og ég var að fara taka upp þráðinn með rótþróna og haugsuguna og þá þessa persónu sem kallaðist „Axel í Skálateigi“ og vegna þess að þetta á að vera ærlegt ætla ég ekki að breyta þessu. Þessi persóna hét „Axel“ og var frá Skálateigi, bæ innarlega í Norðfjarðarsveit. Sé þetta allt fyrir mér. 

Ég stóð upp og gerði einu jógaæfinguna sem ég kunni, held að hún heiti „sólarhyllingin“ eða eitthvað svoleiðis. Ég var orðinn þreyttur í rassinum á þessari setu en þau voru enn sofandi og ég stóðst ekki freistinguna að halda aðeins áfram og þetta var það sem ég skrifaði næst og þarna er ég s.s. um það bil að fara rifja upp þessa „senu“ með haugsuguna og þetta gerðst í fyrrasumar, í lok ágúst. Ég var – svo ég útskýri þetta nákvæmlega – að skrifa að morgni 28unda júlí 2025 um eitthvað sem gerðist í lok júlí 2024:

„Það var rigning. Við lágum í einni kös í stóra rúminu og lásum söguna um Rebba og Héru. Það hafði rignt meira og minna síðan á mánudag og lítil traffík niður í Víkina. Lægð yfir öllu, lægð yfir okkur – vorum sem dofin sökum skorts á áreiti. Ég las af lítilli athygli, var að sofna, farinn að þrugla, sleppa setningum, sleppa hljóðum í orðum. Dóttur minni fannst þetta fyndið og hvatti mig áfram. Henni hefur alltaf fundist gaman að hlusta á mig lesa í svefnrofunum.

„Heyriði þetta?“ sagði Esther allt í einu.

Ég hætti að lesa, hresstist aðeins (loksins gerðist eitthvað!) og lagði við hlustir. Það leyndi sér ekki. Það heyrðust einhverskonar drunur fyrir ofan okkur. Þetta var farartæki. Ég lagði frá mér bókina, klæddi mig í stígvélin, teygði mig í eina 7 Up, opnaði (tizz!) og fór út. Gleraugnalaus sá ég ekki neitt þannig að ég fór aftur inn í skálann.

„Hvað er í gangi?“ spurði Esther.

„Sé það ekki. Er ekki með gleraugun. Hvar eru þau? Hver tók þau?“ Elías var með útrétta hönd. „Takk, kallinn minn,“ sagði ég og fór aftur út. Horfði upp í fjallið, fylgdi veginum eftir með augunum þar til hann hvarf inn í þokuna. Þarna efst við þokubrúnina sá ég eitthvað. Eitthvað gult! Eitthvað rosalega gult! Og allt sem er gult í þessu landslagi, í svona sudda, verður svo ógeðslega gult. Og það gula hreyfðist. Ég pírði augun en gat ekki greint þetta. Hvað var þetta eiginlega? Tjaldvagn? Gulur? Það væri óvenjulegt!

„Hvað nú?“ tautaði ég, pínu þreytulega. Þótt það væri hressandi að fara út þá nennti ég ekki að fara gera eitthvað. Allavega ekki eitthvað sem var ekki á mínu styrkleikasviði sem var flest á verkefnalista skálavarðar í Vöðlavík. Fékk mér stóran sopa af 7 Up-inu en ég elska hvernig kolsýran springur í munninum og hvernig hún heldur áfram að springa niður vélindað og alla leið í maga. Þetta er svo hressandi. Á sama tíma hugsaði ég um Jón Hafliða vin minn sem er líka tannlæknirinn minn. Hann segir að ég drekki of mikið af gosi og að það skipti ekki máli þótt það sé sykurlaust. Það sé einhver sýra í því sem étur upp glerunginn. Hreinlega bara éti hann upp! 

Ég fór aftur inn. EO, þá sjö ára, var sá eini sem hafði vit á að taka með sér kíki.

„Jón, hvað er í gangi?“ spurði konan mín. Hún var farin að ókyrrast vegna þess að það komið stress í fasið mitt.

„Ég veit það ekki. Mig vantar kíkinn.“ Ég lék mann sem leitaði að kíki, lyfti púðum og bókum og lék mann sem horfði stíft í kringum sig í leit að einhverjum hlut sem hann þurfti nauðsynlega á að halda. Ég er góður leikari þótt ég segi sjálfur frá. Aftur var Elías með útrétta hönd. „Takk vinur, “ sagði ég og enn og aftur óð ég út í rigninguna. Nei, höfum það: „Ég strunsaði út.“ Það er betra.

Mér gekk illa að ná fókus, fiktaði eitthvað í stillingunum en farartækið var horfið á bakvið lúpínubreiðu. Ég heyrði bara hljóð í vél og þau færðust sífellt nær, drunndrunndrunnDRUNNDRUNNDRUNN, en þegar farartækið birtist loksins var það komið nokkuð nálægt okkur, var bara í síðustu beygjunum, og með þessum auknu skynrænu upplýsingum gat svefndrukkið heilabúið dregið betri ályktanir. Spálíkönin urðu nákvæmari, svo að segja, og allt í einu small eitthvað í höfðinu á mér. Ég skildi samhengið. Auðvitað. Þetta var maðurinn með haugsuguna.

Ég vissi að Kamma frænka – eða Georg – hafði pantað haugsugu eftir fíaskóið um helgina. Fíaskóið þegar við fengum tvö hundruð manns í heimsókn vegna minningarathafnar um Goðann, björgunarskipið sem strandaði hér í janúar ’93. Víkin hafði fyllst af björgunarsveitarmönnum, bæjarfulltrúum, landhelgisgæslumönnum í hátíðarbúningi, mökum, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Þetta var stærsta partí í Vöðlavík frá upphafi. Svona partí voru ekki einu sinni haldin þegar Vöðlavík var í byggð.“

Og þarna þurfti ég að standa upp. Rassinn var að drepa mig. Ég varð að koma með kodda úr trússarahúsinu og setja undir hann í næsta sessjóni. Þetta eru eins og kirkjubekkir hérna, grjóthart helvíti.

Svo var ég líka þreyttur í höndinni eftir skrifin enda óvanur því að skrifa með penna á blað. Þá vissi ég líka að áður en ég skrifaði um komu „Axels í Skálateigi“ yrði ég að segja frá þessari minningarathöfn, þegar allur þessi mannfjöldi kom til Vöðlavíkur. Mannfjöldi sem bjóða átti upp á flatbrauð með hangikjöti og kaffi. Svona fólk drekkur mikið kaffi, þarf mikið að pissa og klósettin voru stífluð. Þetta er djúsí stöff! Ég mátti ekki flýta mér og ég nennti þ.a.l. ekki að byrja á þessu. Langaði upp í fjall með hundinn. Sem og ég gerði.

 

Dagbók frá Vöðlavík – 28072025 – kl. 06:00

6:00

Sestur niður í Karlsskála eftir stuttan göngutúr með Hnotu. Hún gerði þarfir sínar út í móa. Hægðirnar orðnar linar og illa formaðar sem þýðir að ég hef verið að gauka að henni allskyns mat sem hentar henni ekki. Vegna þess að hún er hreinræktaður labrador. Vegna þess að allir hreinræktaðir hundar verða að vera á rándýru sérfóðri.

En hér í Víkinni eru útlínur allra reglna orðnar máðar. Það gildir um hundahald, barnauppeldi en ekki síst mig sjálfan. Borðandi kex frá Frón í öll mál.

Það rigndi í nótt og ég er blautur í fæturna. Sit við borð og horfi útum glugga: Sé litlu Astrid Lindgren-legu brúna yfir lækinn, trússarahúsið fagurgræna og salernið. Það er enn lágskýjað en útfrá glittir í bjartan himin og þokan orðin þunn fyrir ofan okkur. Fengi ég mér göngu upp í fjall er ekki ósennilegt að ég kæmist upp fyrir þokuna, gæti virt hana fyrir mér að ofanverðu, liggjandi yfir Víkinni eins og valsaður bómull. Hljóðeinangrandi getur þokan breytt fjörðum og víkum í einskonar hljóðver og fuglahljóðið sem þú heyrir gæti verið að berast til eyrna þinna úr mörg hundruð metra fjarlægð. 

Það vaknar enginn fyrr en eftir tvo klukkutíma í fyrsta lagi. Mér vitanlega erum við ein í Víkinni og verði þetta eins og í fyrrasumar hittum við engan fyrr en við komum heim á fimmtudag. Þetta gætu orðið bestu dagarnir í þessu úthaldi.

Eða hvað, Johnny boy? Ertu ekki að gleyma því þegar Axel bóndi í Skálateigi kom og tæmdi rotþróna á miðvikudegi!

Hvernig gat ég gleymt því? Það var einn af hápunktum síðasta sumars!

Ég er búinn að segja svo oft frá þessu en fæ mig varla til að skrifa þetta niður. Þannig hef ég aldrei sagt þér frá þessu, kæra dagbók, þótt þetta sé ein af „skemmtisögunum“ mínum sem alltaf virðist virka, einkum og sér í lagi ef fólk þekkir til.

En það er ástæða fyrir því auðvitað að maður skrifar ekki allt niður. Sérstaklega þegar maður virðist bara kunna að skrifa blogg, dagbækur og tölvupósta. Þessi skrif hafa á sér áru sannleika þótt þau séu oft á tíðum tóm della. En ég veit af reynslu að ætli ég að skrifa um fólk verð ég annað hvort að skrifa „alveg satt“ – og nota þá rétt nöfn – eða varpa jákvæðu ljósi á það. Draga fram kosti þess. M.ö.o.: Skrifa minningargreinar um lifandi um fólk. Eitthvað sem það getur prentað og geymt. 

Í þessum skrifum hér í Víkinni næ ég hinu margumtalaða „flæði“ en um leið og ég byrja að skálda meðvitað eða þykjast vera gáfaður fer allt í steik. Textinn minn verður stirður en aðallega tilgerðarlegur. Og þar með leiðinlegur. Það eru líkamleg viðbrögð sem koma upp um þetta fals. Mér fer að finnast leiðinlegt að skrifa, kvíði því jafnvel. Fæ kökk í hálsinn, þurr í munninum. Svitna óeðlilega mikið á bakinu. Bækurnar um skapandi skrif, sem ég hef lesið í bílförmum, segja að þetta sé eðlilegt „í ferlinu“ og að maður verði að komast yfir þetta en það hefur aldrei gerst hjá mér. Þannig skrifaði ég heila skáldsögu fyrr á þessu ári. Enn ein tilraunin til að skrifa „þroskasögu unglings í Neskaupstað“. Lítt dulbúin saga um árin heima í kringum ’90. Um rokkið í Neskaupstað, táningaástir og kannski dass af þunglyndi og sjálfsvígum, svona svo þetta gæti átt séns sem „raunsæ“ lýsing á lífinu út á landi. Það þarf jú að vera allavega einn haglabyssuhvellur svo einhver trúi þessu. 

Í augnablikinu man ég ekki hvað aðalsöguhetjan – eða ég sumsé – hét. Karl? Gummi? Eða var það bara Jón? Ketill? Ég man það ekki og það skiptir ekki máli. Ég barðist í gegnum þetta í þrjá mánuði. Settist fyrir framan tölvu klukkan fimm og skrifaði í tvo tíma eða þangað til ég vakti Esther og börnin. Skrifaði lengur um helgar. Stundum fram að hádegi. Markmiðið var að klára söguna, frá A til Ö. Upphaf, miðju og endi. Persónusköpun, söguþráður, átök og lausn. Allar græjur. Öll trixin í bókinni. Mér fannst það mikilvægt. Klára einu sinni eitthvað. En um leið og ég fór að skrifa um táningaástir kom líkaminn upp um mig. Ég roðnaði. Hvurn andskotann veit ég um táningaástir? Maður sem var barn langt fram eftir aldri og yrti ekki á stelpur. 

Hætti í apríl. Þurrausinn. Þá á ég ekki við að ég hafi „losað“ um nokkurn skapaðan hlut, ég var ekki búinn að klára úr „glasinu“, eða hvaða nafni sem við viljum gefa þessari iðju að skrifa. Ég var bara örmagna sökum leiðinda. Jesús minn, hvað þetta var leiðinlegt. Hver einasta málsgrein skrifuð af vilja. Ekki löngun. Hvað þá þörf! Ég bara gat þetta ekki. Vistaði allt draslið í möppu á Dropbox en tímdi ekki að henda þessu. (Skiptum í nútíð í augnablik því þetta er svo stutt síðan: Ég tími ekki að henda þessu. Drög að þroskasögu Jóns Knúts, aka Kalla eða Gumma eða Sigga, gæti seinna meir orðið fyndin.)

En það er annað með svona skrif eins og ég stunda hér í Víkinni. Einhverskonar dagbók. Skáldað inn á milli en í grófum dráttum er þetta sannleikanum samkvæmt. Í grófum dráttum. Svo það sé undirstrikað, svo ég gefi mér undankomuleið ef einhver gerir athugasemd um sannleiksgildi þess sem hér er skrifað. Sem væri þá helst Esther, börnin eða annað fólk sem ég hef nafngreint í þessari dagbók frá Vöðlavík. Dagbók sem ég hef ákveðið að birta eins og framhaldssögu í haust.

Allt sem ég hef skrifað síðustu daga er ósvikið og ekta en á sama tíma fölsun. Væri hægt að holdgerva þennan texta þá stæðu hér upp úr stílabókinni litlir karlar sem litu út eins og Bruce Springsteen og/eða Bubbi Morthens. Menn í rifnum gallabuxum, snjáðum leðurjökkum. Fabricated authenticity, eins og sagt var í menningarfræðinni í gamla daga. 

Sigg á fingurgómum.

Salt jarðar.

Maldonsalt jarðar, eins og Helgi vinur minn segir þegar hann vill vera fyndinn. 

Gleymi mér. Týni mér. Besta mögulega ástæða til að helga sig einhverju. Hrekk upp þegar vindur feykir upp glugga eða þegar hundurinn stendur upp og hristir sig eða þegar snarkar óvenju hátt í kabyssunni. Eða þegar vélardrunur berast úr fjallinu eða þegar þrír smyrlar hringsóla í kringum Karlsstaði í einhverskonar lífsbaráttu. Eða hvað nú það var sem þeir voru að sýsla í gærkvöldi. Átta mig ekki á því en mórallinn á milli þeirra virtist vera í algjöru fokki. Mikil aggressjón í gangi og við fylgdumst spennt með út um gluggann. Öll fjölskyldan. Skjátími í Vöðlavík.

Og það var ég, af öllum mönnum, sem bar kennsl á þá. Það var ég sem leit út um gluggann í gærkvöldi og sagði:

„Naunau, þetta eru smyrlar!“

Esther hélt að þetta væru fálkar en reynsla mín af gæsaveiðum – vissulega takmörkuð – og meðfylgjandi rúntum upp á Jökuldalssheiði með mági mínum skiluðu sér loksins. Ég var níutíuogníu prósent viss um að þetta væru smyrlar en sagði þetta eins og maður sem var hundrað prósent viss. Talaði eins menn gerðu fyrir tíma Google og ChatGPT, á gullöld besservisserana. Þegar upplýsingar voru á reiki og þekkingaruppsprettan voru háværir karlmenn – alltaf karlmenn – sem hétu nöfnum eins og Siddi eða Lúddi:

OG SVONA ER ÞETTA ER BARA OG HANANÚ!

Þessi tími er liðinn. Alls staðar nema í Vöðlavík. Og þessi kall var ég í gærkvöldi. Það var engin leið fyrir neinn til að rengja það sem ég sagði. Á þessu augnabliki – á þess mómenti í Vöðlavík – var ég – af öllum mönnum – það klárasta sem stóð á tveimur fótum. Eða já, mér vitanlega erum við ein í Vöðlavík.

 

Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 21:30

Er kominn í trússarahúsið og er einsamall. Elías vildi sofa hjá mömmu sinni og systur fremur en pabba sínum. Ég er svo vanur því að vera „seinni kostur“ barnanna minna að ég tek þessu ekki persónulega.

A kid should be with his mother
Everybody knows that
What can a father do but baby-sit sometimes?

… söng Sting einu sinni. Ég er ekki bitur eins og Sting samt. Við Iðunn og Hnota stukkum í hyl áðan og ég var um tíma aðaltöffarinn. Súper-pabbi. Esther átti ekki breik.

Kamma og Georg komu síðdegis með allskyns dót fyrir skálann, pressukönnur, fægiskóflur og ýmislegt fleira. Mér brá í augnablik þegar þau birtust allt í einu og fann hjá mér þörf til að fara sópa gólfin í skálanum. Ég hafði ómeðvitað yfirfært einhvern yfirmannastatus á Kömmu frænku mína sem er formaður Ferðafélagsins en þessi skömmustutilfinning rann af mér. Kamma var bara í góðum gír og ekki mætt til að taka út störf yfirskálavarðar. Það vildi þannig til að við vorum að græja kaffi og gátum tekið almennilega á móti þeim. Átum svo nýbakaðar pönnsur með rjóma og sultu og spjölluðum.

Og maður er manns gaman, maður minn! Ég þurfti svo á þessu að halda. Þurfti að hitta fólk utan fjölskyldunnar. Láta segja mér eitthvað og segja frá einhverju sjálfur, vera fyndinn og láta hlæja að mér. Er alls ekki eins einrænn og ég þykist vera í þessari dagbók. Get verið „stemmningsmaður“, get sóst eftir athygli og get fílað mig í botn í góðu partíi. Bara eiginlega alveg þangað til einhver dregur fram gítar og fer syngja íslensk útilegulög. Þá deyr eitthvað inn í mér, eitthvað fallegt og náttúrulegt, og ég læt mig hverfa.

Ég gat sagt sögur sem Esther hefur heyrt milljón sinnum. Þau voru nýtt audience fyrir mig. Svo spjölluðum við aðeins um pólitík. Mér fannst eins og við færum öll að hvísla þegar við byrjuðum að tala um jarðgangagerð á Austurlandi. Þau eru „viðkvæmt mál“ fyrir austan og maður veit auðvitað aldrei hvort einhver liggi á hleri. Meira að segja í Vöðlavík. Það eru eyru alls staðar í smábæjunum. 

„Við höfum aldrei átt samgönguráðherra,“ sagði Georg til að rökstyðja hvers vegna okkur gengi svona hægt að fá jarðgöng til að hringtengja landshlutann og þess vegna eru vegirnir á Suðurlandi svona helvíti góðir, malbikað upp að öllum sveitabæjum og júneimit. Ég fíla svona háðskar pólitískar greiningar. Það eru ætíð brögð í tafli. „Hvaðan er nýi samgönguráðherrann,“ spurði Kamma en ekkert okkar mundi það. „Bíddu, hvað heitir hann aftur,“ spurði Esther. Ekkert okkar mundi það heldur. „Já, það mætti halda að Suðurland væri í ESB, vegirnir eru svo góðir,“ sagði ég og uppskar hlátur. Vá, hvað það var gott. Fann hvernig ég lyftist allur, stækkaði. Eins og dauðþyrst planta í eyðimörk sem fær yfir sig vatnsskvettu. Skelfing get ég verið átakanlegur stundum.

Stukkum í hyl áðan. Það var hressandi og vatnið ekki of kalt. Enda lítið í ánni eftir gott sumar. Hnota stökk á eftir okkur, eins og Seifur í Hvolpasveit, og synti með okkur að bakkanum. Vakti mikla lukku hjá krökkunum. Var svo gíraður eftir þetta að ég tók nokkur Stuðmannadanspor allsber á bakkanum áður en ég klæddi mig í fötin. Börnin veltust um af hlátri. Ég var skora feitt.

Hugsa núna í fletinu, kæra dagbók, að það gæti verið óheppilegt ef þetta stönt mitt ratar í sögur barnanna minna þegar kennarinn spyr í upphafi skólaárs hvernig sumarið hafi verið. Ætli Iðunn teikni þá mynd af pabba sínum dansandi nakinn í Vöðlavík?

Ætli kennarinn hugsi þá: Drukkinn?

Nóterar þetta svo í minnisbók og tekur upp á kennarafundi. Skulum ekki grípa til aðgerða strax, segði skólastjórinn, en fylgjumst með börnunum. Allar transgressjónir í hegðun þeirra yrðu þaðan í frá túlkuð út frá þessum díteil úr sögum barnanna frá dvölinni í Vöðlavík sumarið 2025. Dansandi fimmtugur fjölskyldufaðir. Án fata. Um miðjan dag.

Var hann á einhverju?

Það verður líkast til aldrei hægt að sanna það en efasemdirnar duga. Fræjum hefur verið sáð og tortryggni getur af sér meiri tortryggni. Það er segin saga í smábæjum.

Fökk, ég mun ekki rísa til æðstu metorða í þessum bæ. 

Esther tók annars skemmtilegar myndir af sundinu sem ég veit að munu ylja þessari fjölskyldu um ókominn ár. Skvamp og brosandi andlit og blautur hundur með lafandi tungu. Fjölskyldulíf í allri sinni sumarlegu dýrð.

Staldraði samt við eina þegar ég fletti í gegnum þær. Myndin var af mér, standandi á bakkanum í stuttbuxum og það leynir sér ekki: Ég er að breytast í Feitan-Elvis. Aftur. Eftir nokkur mögur ár þá leyna þau sér ekki, manboobs-in. Og síðuspikið. Sístækkandi björgunarhringurinn.

Verð að fara í megrun, hugsa ég í fletinu mínu, skrifandi í bókina. Maulandi kremkex frá Frón sem ég borða bara í útilegum. Skolað niður með Appelsíni. Lifi lífinu lifandi í Vöðlavík. 

 

Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 15

Kl. 15:00

Sit uppréttur í fletinu mínu í skálavarðakofanum og skrifa. Esther prjónar, Elías spilar í Nintendo-spilinu sem mamma og pabbi gáfu mér í ágúst 1988 á leiðinni til Parísar. Kofinn fullur af retró digital-hljóðum, þetta er skjátíminn okkar og ég á metið. Til marks um breytt eðli þessara tækja þá nennir enginn að spila lengur en í tuttugu mínútur/hálffíma.

Iðunn teiknar. Mér finnst gaman að horfa á hana teikna. Hún er svo flink. Gerir mig stoltan. Eins og þetta sé á einhvern hátt mér að þakka sem það er ekki. Stend mig oft að því að langa til að sýna fólki myndirnar hennar. „Sjáðu, hún er bara ellefu ára. Hvernig myndir teiknar barnið þitt? Ó, er hún enn í tvívíðum myndum. Úbbs. Þetta kemur hjá henni/honum. Eða ekki.“

Það pælir enginn í því lengur þótt ég taki upp minnisbók og fari að skrifa. Ég held að ég hafi byrjað á þessu vorið 2001. Ég á allavega minningu af sjálfum mér með minnisbók bíðandi eftir lest í London. Þetta var ein af þessum úthverfastöðvum, fáir á ferli, og ég lá á bekk, með tölvutöskuna undir höfðinu, lesandi The Great Shark Hunt eftir Hunter S. og punktaði í minnisbók. Það var aldrei neitt skipulag. Ætlaði alltaf að gera eitthvað við nóteringarnar en ég fyllti bara bækurnar, gekk frá þeim einhvers staðar og týndi svo. Nema Moleskine-bókin sem Esther gaf mér í afmælisgjöf einu sinni. Ég tímdi ekki að skrifa í hana. Eða, það yrði þá að vera fullkomið því hún var svo dýr.

Börnin eru þ.a.l. alin upp við að pabbi þeirra punkti hjá sér og konan mín er löngu hætt að taka eftir þessu. Þetta er bara ég. Maðurinn hennar, hann punktar hjá sér. Ég þarf ekki að læsa minnisbækurnar mínar í skáp, það kíkir enginn í þær. Ekki mér vitanlega allavega.

Og jafnvel þótt ég kæmi að einhverjum að skoða þær – og þetta eru í raun einhversslags dagbækur, mjög persónulegar á köflum – þá væri mér bara slétt sama. Kannski bara soldið upp með mér. Sennilega myndi ég yfirheyra viðkomandi: „Hérna, hvernig fannst þér þetta sem ég skrifaði um kvöldið sem ég missti sveindóminn? Hefði ég kannski átt að fara úr fyrstu persónu yfir í aðra persónu, svona eins og Jay McInerney í Bright Lights? Súmma út, skapa fjarlægð við sjálfið? Hefurðu lesið hana? Ekki? Séð myndina þá? Með Michael J. Fox? Hvernig fannst þér paragraphusinn (myndi segja paragraphus) um sáðlátið? Too much?“

Tæki viðkomandi á taugum. Myndi drekkja honum í viðbragðaþörf hins skrifandi manns. Myndi gera kröfur til hans. „Heyrðu, engin pressa sko, en værir þú til í að renna yfir handrit sem ég er að vinna að? Mátt alveg segja nei (en ég fyrirgef þér aldrei).“

Hann – þessi svonefndi „viðkomandi“ – myndi gera þessi mistök einu sinni og bara einu sinni. Hann þyrði aldrei að opna þessa bók framar. Tæki ekki sénsinn.

Ég hef auðvitað verið spurður, þegar ég sit og skrifa í minnisbók, um hvað ég sé að skrifa. Átti til að taka það nærri mér, fannst þetta truflun, varð sjálfsmeðvitaður og það er einmitt það sem maður vill alls ekki þegar maður situr einhvers staðar og párar: Hér situr hann á Mokka, hann Jón Knútur Ásmundsson, og skrifar í minnisbók.

Hver í andskotanum þykist ég vera? Steinn Steinarr?

Ég hafði áhyggjur af því að fólk hefði skoðun á þessu. Fyndist ég tilgerðarlegur. Því hver skrifar eiginlega í minnisbók á ofanverðri 21. öld?!

Ég fór einu sinni í ferðalag með manni sem tók eftir því að ég skrifaði í minnisbók. Hann sagðist líka skrifa í minnisbók, teygði sig í innanávasann og rétti mér bókina sína. Og já, var það ekki bara Moleskine! Rándýr andskotans Moleskine. Hann sagðist vera með fulla tösku af þeim. Skrifaði víst svo mikið á ferðalögum. „Strax í fríhöfninni kemur frelsið yfir mig,“ sagði hann. „Þá fyrst losna ég úr viðjum vanans.“ Ég varð vandræðalegur þegar hann sagði þetta því þetta var ætlað mér persónulega. Hann var að reyna að tengjast en mér fannst þetta bara tilgerðarlegt. Sagði samt: „Já, ég veit nákvæmlega hvað þú meinar.“ Helvítis meðvirknin alltaf hreint.

Ég keypti mínar minnisbækur í Tiger og já, ég var pínu öfundsjúkur því mig langaði líka í Moleskine. Bókin hans var myntugræn sem mér fannst svolítið skrýtið val á lit. Óvenju kvenlegt eða eitthvað. Hefði sjálfur valið svarta eða brúna. Eins og Hemmingway. En ókei. Whatever. Ég tímdi sumsé ekki að kaupa Moleskine. Alltaf blankur. Eyddi öllum peningunum mínum í geisladiska, kiljur, smávindla, bjór, núðlur og örbylgjumat. Neyslan svo einföld og fyrirsjáanleg að einn vinur minn kallaði mig „geimfarann“ sem mér fannst soldið fyndið. En ég sannfærði mig um að það væri kannski bara skáldlegt að kaupa minnisbækur í Tiger og að ég þyrfti ekki á Moleskine að halda. Það væru bara hinir nýríku í vesturbænum sem keyptu Moleskine hvorteðer og þá ekki til að skrifa í þær nema náttúrulega uppskriftir að grænkeraréttum og/eða innkaupalista í Farmer’s Market.

Þessi maður hafði aukinheldur mikla þörf til að segja mér frá öllu sem hann skrifaði í bókina. Þetta voru allskonar punktar og drög, hendingar, myndlíkingar, hugmyndir að útvarpspistlum, hugmyndir að kvikmyndahandritum. Oft eitthvað svona „ljóðrænt“ stöff. Hann las upphátt og horfði svo á mig. Hvernig leist mér á? Vildi viðbrögð, svo að segja jafnóðum. Líktist þetta einhverju? Tók ég eftir þessum díteil um hvernig rykið settist á silfrið í kvöldsólinni? („Þetta er metafóra, skilurðu.“)

Eftir nokkra daga á ferðalagi leið mér eins og ég væri í vinnu hjá honum. Var farinn að forðast hann og vildi alls ekki vera einn með honum því þá var hann hvað ákafastur. Man t.d. eftir mér einn morguninn að fylgjast með útum hótelgluggann. Beið eftir því að ég sæi hann fara út en þá fyrst treysti ég mér til að fara niður í morgunmat.

Hann hafði sumsé fengið þá flugu í höfuðið að við værum „bandamenn í ljóðinu“ eins og hann sagði. Værum eitt og hið sama. Þetta slapp til við þriðja mann. Þá hélt hann sig á mottunni því þá gat hann náttúrulega ekki farið á trúnó, blessaður maðurinn. Tough luck.

Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ástæðan fyrir því að hann fór í taugarnar á mér – sem er vægt til orða tekið – var sú að sumt af því sem hann skrifaði var mjög flott. Hann var miklu liprari penni en ég. Gat leikið sér með orð, tvöfaldar merkingar, vel tímasettar klifanir og svo framvegis. Með stílbrögðin upp á tíu. Þetta var ljóðrænt – hvað sem það nú þýðir – en ég var bara að skrifa dagbækur í blaðamannastíl enda kann ég ekkert annað. Sæi ég fallegt ský á himni punktaði ég hjá mér:

„Ég sá fallegt ský á himni.“

Engar flottar líkingar, engin tækni, beisíklí engin ritlist í gangi. Bara hversdagslegar athuganir og svo ályktanir:

Maðurinn Konan með síða gráa metalíska (það er kúl) hárið sem situr við borðið hægra vinstramegin við barinn, snýr baki í mig, var að panta þriðja fjórða bjórinn á korteri hálftíma. Sennilega Pottþétt alki.“

Einu sinni, þegar við sátum tveir saman í morgunmat, ákvað ég að sýna honum bókina mína. Ég ætlaði að opna mig. Sýna honum „inn í mig“.

„Minnsta málið,“ sagði hann og opnaði minnisbókina mína. Tók svo upp pennann sinn, pírði augun og virti textann fyrir sér í nokkur augnablik, stakk honum svo inn á sig aftur og sótti annan. Rauðan. Og síðan las þessi drullusokkur dagbókina mína og lagfærði stafsetningu. Hann breytti t.d. „tína“ í „týna“ og skrifaði á spássíuna: „Þetta er ekki sama sögnin. Að tína er eins og að tína ber. Týna, eins og þú notar það í þessari setningu, er með ufsiloni, sögnin dregin af nafnorðinu tjón.“

Ég skalf af bræði þegar ég fór upp á herbergi aftur og hugsaði um allt sem mig langaði að gera honum og fjölskyldunni hans. Hvernig ég gæti hrint honum niður stiga, hent honum fyrir leigubíl, eitrað fyrir honum, eitrað fyrir börnunum hans. Kúkað á hann sofandi, kólumbískt hálstau o.s.frv. M.ö.o.: Die motherfucker, die!

Og svo var ég barasta bænheyrður í lok ferðalagsins. Á fremur skáldlegan hátt verður að segjast, svona eftir á að hyggja.

Á heimleiðinni, í þrjátíu og fimm þúsund feta hæð, fór penninn hans, væntanlega sökum loftþrýstings, allt í einu að freyða. Það var blek útum allt. Blek á gólfinu, á skyrtunni, á fingrum, andliti og hári. Blek í buxum og símanum og matnum. Blek, blek, blek. Og mikill vandræðagangur náttúrulega, þrjár flugfreyjur komnar til að hjálpa, hann fórnandi höndum, skildi ekki hvað í ósköpunum var eiginlega að gerast og eiginkonan hans orðin óróleg enda erfitt að ná svörtu bleki úr fatnaði. Hvað þá rauðu.

Ég sat aftur á móti pollrólegur í bekkjarröðinni fyrir aftan hann. Eins og konungur í sæti mínu og glotti lymskulega við tönn. Fannst ég bera ábyrgð á þessu einhvern veginn með mínum illgjörnu og smásálarlegu þönkum. Var Óðinn almáttugur, sá síplottandi leikjahönnuður. Sjaldan liðið betur.

Ja, hérna. Magnað hvað maður man í þessum dagbókarskrifum. Hafði ekki hugsað um þetta ferðalag í mörg ár.

Hvað ætli hafi orðið um þennan kall? Ætli hann sé orðinn útgefinn höfundur? Altso, ekki sjálfsútgefinn eins og ég? Það kæmi mér ekki á óvart.

Hvað hét hann aftur?

Ögmundur? Örlygur?

Eða var það Ófeigur?

Nei, eitthvað með Ö-i minnir mig.

Finn úr út því og sendi honum vinabeiðni á feis þegar við komum heim.

 

Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 11

Kl. 11:00

Þetta sem ég skrifaði í morgun var einskonar hugarleikfimi. Hvað gerist í lífi manns, símafíkils, þegar hann lendir í aðstæðum sem þessum?

Í óbyggðum. Í mínu eigin Overlook Hotel. Hér ætti ég að skrifa skáldsögu einhvern tímann sem væri í sjálfu sér bara dagbók. Hugsanir mínar eru alveg nógu hræðilegar til að bera uppi svona Blair Witch prójekt í Vöðlavík.

Tíminn hreyfist svo hægt í Víkinni. Iðunn spurði áðan hvað klukkan væri. Ég sagði að hún væri að byrja að ganga níu.

„Í alvöru?“ sagði hún. „Ég hélt að það væri að koma hádegi.“

Ég sagðist hafa haldið það líka.

Hér er ekkert sem gleypir tímann. Ekkert Facebook. Ekkert Netflix. Engar ferðir í búðina. Ef það vantar ost þá bara vantar ost. Ef það vantar pestó þá bara vantar pestó. Við erum eins og vitaverðir á Dalatanga. Engar vinaheimsóknir. Bara túristaheimsóknir. Enginn sem hringir. Ekkert hópspjall milli vina á messenger.

Það eru bara nokkur einföld verkefni skálavarðar sem bíða mín (ætla að reita lúpínu í dag – ég ÆTLA að reita lúpínu í dag) og löng, löng, löng bók eftir þunglyndan norskan rithöfund. Það gerist ekkert í henni heldur.

Þegar ég var laus úr viðjum hræðslunnar, eða hvað sem þetta nú var sem kom yfir mig í gærkvöldi á ströndinni, stóð ég upp, stirður, og fór að leika við Hnotu. Eða, ég hugsa raunar að þetta hafi gerst í öfugri röð. Það bráði af mér þegar ég fór að leika við hundinn. Fór að hugsa um eitthvað annað. Það er lógískt. Færði til þungamiðjuna og voilà!

Nýr og betri maður!

Þess vegna eru nýjustu sjálfshjálparbækurnar uppfullar af þeirri hugmynd að maður eigi að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Þegar maður hjálpar öðrum hjálpar maður sjálfum sér, segja þær. En alltaf skal þetta vera spurning um mann sjálfan. Ég hjálpa öðrum því þá hjálpa ég MÉR, MÉR, MÉR.

Kannski samviskujöfnun sé hugtak eins og kolefnisjöfnun. Ó, mér líður svo illa! Ég hefði ekki átt að ræna hússjóðinn! Ég hefði ekki átt að daðra við barnapíuna!

Ekkert mál, vinur. Taktu að þér ABC-barn og samviskujafnaðu þig.

Ég myndi gúggla þetta orð ef ég gæti.

Krakkarnir voru í stuði, í eigin heimi, alveg eins og þau áttu að vera í Vöðlavík, í eltingarleik við öldur. Ó, hvað þetta er heilbrigt allt saman! Eitthvað svo, eitthvað svo, norskt!

Hnota hljóp til mín, sannur labrador, ofandandi með lafandi tungu, drullug upp fyrir haus. Ég hafði rifið upp hvönn þar sem ég hímdi áhyggjurfullur undir kletti nokkrum mínútum áður sem ég kastaði í brimið. Hundurinn lóðbeint á eftir. Beint í brimið. Fékk yfir sig sjó og hvarf í nokkur andartök. Iðunn fór að skellihlæja, loksins stuð, en svo varð mér litið á son minn. Sá skelfingu. Hann hélt að síðasta stund Hnotu væri að renna upp.

Ég þekki þennan svip.

Ó, hvað ég þekki þennan svip.

Ég þurfti að hugga strákinn minn. Segja honum að ég hefði farið út í brimið og sótt Hnotu hefði hún lent í vandræðum og ég meinti það. Ég hefði gert það. Við gerðum málið upp og ég lofaði að kasta ekki fleiri sprekum í ölduna. 

Drengurinn minn er viðkvæm týpa. Hefur verið það frá degi eitt. Minnir á föður sín sennilega. Ætli það séu ekki pínu sensítívar týpur sem halda dagbók í óbyggðum og skrifa um börnin sín. Sitja á steini upp í fjalli og skrifa um hvað þeir séu sensítívar týpur.

Þetta kom fljótt í ljós og allir sem umgangast EO taka eftir þessu. Hann er sensítív týpa. Finnur til með fólki og dýrum. Skammar vini sem drepa grasmaðka. Sem hann hefur gefið nöfn. 

Og hvað get ég sagt?

Ég er stoltur af þessu. Stoltur af því að strákurinn minn finni til. Hafi samkennd. Geti sett sig í spor annarra en svo ég sé heiðarlegur, kæra dagbók, þá hef ég stundum áhyggjur af þessu. Því samfélagið er ekki alltaf hannað fyrir okkur sensítívu týpurnar. Sem fara á bömmer eftir erfiða fréttatíma. Taka gagnrýni illa, einkum þegar hún snýr að persónu manns. Því ekki þykir þetta alltaf mikill mannkostur, að vera sensítívur. Eða hvað ætli börn fái oft að heyra frá fullorðnu fólki að þau séu „grenjuskjóður“?

Þegar maður horfir á svona uppákomur, t.d. sem hlutlaus observant á leikvöllum, sér maður það sem þetta er í raun og veru. Barnið hagar sér eins og barn. Stundum grætur það. What else is new? En það er sá fullorðni sem fer á taugum og þá þarf að beita öllum brögðum til að stöðva „helvítis vælið“ og áhrifaríkast og fljótlegast er auðvitað að smána barnið til hlýðni:

„Hva, ertu að skæla?“

„Hættu þessu væli!“

„Ertu smástelpa!“

Og svona búum við til harðhausana. Pabbana sem geta ekki grátið.

Ég á minningu af pabba mínum að tala við einhvern í síma daginn sem mamma hans, amma mín, dó. Ég held að þetta hafi verið Dóri bróðir hans. Þeir voru að gera erfiðan dag upp og pabbi var að segja hluti sem ég hafði aldrei heyrt hann segja. Hann var á persónulegu nótunum en hann var nú eiginlega bara skólabókardæmi um mann sem bar harm sinn í hljóði, hugsa ég.

„Jájá, og svo fór ég bara grenja eins og aumingi. Ég verð bara að viðurkenna það,“ sagði hann allt í einu.

Þetta var svo óvænt að ég gat ekki gleymt þessu en ég vissi ekki hvers vegna mér fannst þetta merkilegt fyrr ég varð nokkrum árum eldri. Lengi vel fannst mér þetta til marks um hörkuna, að það væri aðfinnsluvert að gráta „eins og aumingi“ þegar mamma manns deyr en núna finnst mér merkilegt að hann skuli hafa sagt þetta upphátt. Það var soldið sensítívt hjá manni sem kunni ekki að gráta var það ekki?

Hann var kannski mýkri en ég hélt en hann þurfti smá skjól og kallaði þetta „aumingjaskap“.

Töffarar sem gráta ekki klæðast allskonar leðurjökkum. 

Ég man eftir einni vökunótt fyrir nokkrum árum. Þegar Esther var gengin nokkra mánuði með E og við vissum ekki hvort við áttum von á stelpu eða strák. Við höfðum átt samtal um kvöldið þar sem við vorum að fabúlera um þetta, pældum í mögulegum nöfnum og svo framvegis. Ég var alveg viss um að þetta yrði stelpa en ég komst að því þessa svefnlausu nótt að þetta var óskhyggja. Ég VILDI eignast aðra stelpu. Ég ímyndaði mér að það væri léttara fyrir barnið. Því ég taldi mig vita að ef við eignuðumst dreng þá væri líklegra en ekki að hann líktist mér og þá væri eins gott að hann fyndi sér einhvern tilgang með lífinu því hann myndi ekki að öllu leyti falla inn í normið.

Að vera sensítív stelpa, hugsaði ég, er ekki það sama og að vera sensítívur strákur.

Ég var hræddur. Var með hugann í öðrum tíma. Mínum tíma. Í mínu „í denn“. Mundi eftir sensítívu strákunum sem meikuðu þetta ekki. Létu sig hverfa áður en þeir urðu almennilega fullorðnir.

Ég fór að ímynda mér samtöl við þá, þessa svefnlausu nótt. Ímyndaði mér að ég gæti farið til baka í tímavél og talað við þá. Hefði sagt þeim að slaka á. Allir bömmerar, hefði ég sagt, þeir fjara út. Allir. Allir sem einn.

Sagt eins og pabbi sagði við mig þegar ég ætlaði, í minni fyrstu alvöru ástarsorg, að henda trúlofunarhring í klósettið heima í Víðimýri. Hann kom að mér og ég var bókstaflega á hnjánum fyrir framan skálina. Hann sá hvað ég hafði hugsað mér að gera enda hélt ég á hringnum og sló honum taktfast í postulínið.  

„Ekki gera þetta, Jón minn,“ sagði hann. „Eftir nokkur ár finnst þér þetta fyndið.“

Pabbi missti þetta út úr sér og það er eins og mig minni að hann hafi beðist afsökunar fyrir ónærgætnina.

Ég held núna, í alvöru talað, að þetta séu bestu ráð sem ég hef fengið.

En hefðu unglingarnir í fantasíunni tekið mark á manni eins og mér? Sitjandi fyrir framan þau, með aðra rasskinn á kennaraborði. Sjálfumglaður fimmtugur karl með góð ráð. Eins og fökking Bono í U2. Eins og Bubbi Morthens. 

Og já, munu börnin mín hlusta á svona „pepptalk“? 

Kannski ekki. Kannski meðtaka þau bara það sem þeim var ekki ætlað. Hlera án minnar vitundar og draga sínar eigin ályktanir. 

Stóð upp. Var búinn að skrifa í klukkutíma. Horfði yfir Víkina. Þurfti að míga. Sem og ég síðan gerði. Meig með þetta líka útsýnið fyrir framan mig! Þetta milda, stílhreina, útsýni yfir Vöðlavík sem römmuð er inn af tveimur austfirskum fjöllum. Múlinn til hægri og hitt sem ég man ekki hvað heitir til vinstri. Frá þessu sjónarhorni virðast þau ekki jafn hrikaleg og þau sum hver eru hér eystra. Þau eru eiginlega bara frekar settleg frá þessu sjónarhorni, úr þessari fjarlægð. Með mjúkar línur. Soldið curvy og glæsileg.

Lífið svo dásamlegt þegar maður léttir á sér, hugsaði ég og sprændi. Ég er svo glaður að vera hér. Hér og nú. 27unda eða 28unda júlí. Það er allavega árið 2025 og það er hásumar. Ég spræni án sársauka. Það er ekki sjálfgefið fyrir karl á mínum aldri.

Og ég veit, kæra dagbók, að þetta móment verður eftirminnilegt. Svokölluð „kjarnaminning“. Nýtt orð sem Esther kenndi mér í gær. Í öðru samhengi samt. 

(Teygði mig svo í minnisbókina til að tryggja að ég myndi þetta. Þetta gæti virkað sem niðurlag.)

 

Dagbók frá Vöðlavík – 27072025

Kl. 7:00

Sunnudagur runninn upp. Það er grenjandi rigning í Víkinni. Við EO sváfum saman í trússarahúsinu. Úrið gaf mér sex komma fimm í svefneinkunn.

EO fannst spennandi að sofa í kofanum með mér og svo var örugglega líka spennandi að sofa með Hnotu, hrjótandi í búri á gólfinu. Kannski spennandi að sofa með pabba líka. Veit ekki. Hann vildi allavega endilega sofa með mér í trússarahúsinu. Sem þýddi að ég gat ekki lesið áður en ég sofnaði. Það er mikill talþrýstingur hjá syni mínum. Og börnunum báðum raunar. Engir vinir. Engir skjáir. Bara foreldrarnir eftir. Back to basics. Við verðum að duga í bili.

Ég ætla ekki að ljúga að þér, kæra dagbók, en stundum fæ ég kvíðaeinkenni þegar þau byrja að mala og mala og mala. Þurfa áheyrn. Eru ekki að leita að samtali. Bara hrein og klár tjáningarþörf. Iðunn teiknaði fyrstu dagana en það hefur minnkað. Eirðarleysi sækir á. Of mikill tími aflögu.

Skil þetta mjög vel. Mig langar aldrei meira til að skrifa eða tromma eða lesa þegar mikið er að gera. Þá langar mig til að yfirgefa heimilið eða vinnustaðinn. Ganga upp með ánni. Setjast einhvers staðar niður upp í fjalli og lesa. Punkta í bók. Láta mig hverfa. Týna mér í bók og finnast aldrei, eins og skáldið sagði. Hafi ég aftur á móti nægan tíma gerist ekkert. Opna símann og doom-scrolla út í eitt.

Man allt í einu að ég vaknaði í nótt. Um tvöleytið. Ég hafði litið á klukkuna og hleypt frá mér djúpu andvarpi þegar ég sá hvað tímanum leið. Þvílík vonbrigði. Reyndi að aftengja mig hugsunum um að ég væri útsofinn – vissi að svo var ekki – og reyndi að sofna aftur. Heima hefði ég teygt mig í símann. Heima hefði ég ekki sofnað aftur en hér myndi ég nú sennilega sofna aftur, fyrr eða síðar. Það var ekkert annað að gera. 

Í svefnpoka, sveittur. Renndi honum niður og breytti í sæng. Fannst allt í einu að ég þyrfti að fara á klósettið. Er að verða eins og gamall maður. Sípissandi. Bældi þessa hugsun niður.

Þú þarft ekki að pissa.
Þú þarft ekki að pissa.
Þú þarft ekki að pissa.

Teygði úr mér. Stirður. Og stirðleikinn ýtti undir tilfinninguna um að ég væri að verða gamall.

Gamall og sípissandi.

Er ég í alvörunni að fara birta þessa þvælu á blogginu mínu?

Fann fyrir stirðleika í gærkvöldi líka. Höfðum skroppið út á sandinn og ég sat í skjóli af klettum og horfði á börnin eltast við öldurnar. Allt eins og barnabók, myndskreyttri af Norman „fuckin“ Rockwell. Eða Halldóri Péturssyni. Esther horfin. Að taka myndir einhvers staðar.

Og svo bara þyrmdi yfir mig. Fór að hugsa um aldurinn. Að ég væri búinn að toppa, hvernig sem á það er litið. Heilsu og kyngetu mun hraka héðan í frá. Ég nenni ekki lengur að skrifa ljóð. Mun ég einhvern tímann komast í viðtal hjá Agli Helga aftur og baða mig í svæðisbundinni frægð, með egóið í súrrandi botni?

Nenni ekki að tromma lengur. Nenni ekki að vera í hljómsveit. Nenni engu. Mig langar bara að lesa bækur. Það er það eina sem mig langar að gera. That’s it.

Almáttugur, hvað ég saknaði símans. Þá væri ég ekki að hugsa um þetta, hugsaði ég. Þá væri ég bara að skrolla. Lesandi nýjustu fréttir af dauða Ozzy Osbourne. Var hann dáinn í alvörunni? Overdose? Getur það verið? Nei, hann var hættur að djúsa. Hlýtur að hafa verið aldurinn. Var hann kannski með Parkinson? Las ég það ekki einhvers staðar? Alzheimer? Nei, menn deyja ekki úr Alzheimer er það? Eða var þetta gabb? Var hann að púlla Jim Morrison?

Já, eða skoðandi myndir af fjölskyldum Facebook-vina sem ég tala aldrei við og hef engan áhuga á að tala við.

Og ó mæ godd! Nei, andskotinn! Gömul skólasystkini úr Reykjavík eru á ferðalagi. Þau eru í Ásbyrgi en nálgast Austurland eins og blóðsjúgandi lúsmý.

Munu þau bjóða sér í heimsókn?

Ó sjitt.

Svara ég í símann þegar þau hringja á Fagradal eða sendi ég þeim skilaboð á messenger um að ég hafi verið með slökkt á hringingunni? Eða hafi jafnvel týnt símanum upp í fjalli? Við landsbyggðarliðið jú alltaf upp í fjalli, svo mikil náttúrubörn, svo mikil fökking lífsgæði hérna út um allt. Eða verð ég bara blákaldur og segi þeim að ég hafi greinst með hvítblæði í gær?

Nei, ég myndi alltaf svara, þekki mig nógu vel. Ég er svo fökking næs:

„Nehæ!“

„Hæhæ, við erum á Austurlandinu (alltaf skulu þeir segja „Austurlandinu“ eins og fábjánar). Megum við kíkja? Krakkarnir eru með. Þá langar svo að sjá hundinn!“

„Já, endilega! Við skellum í pönnsur!“

Og svo kvíðinn. Kvíðinn. Gestgjafakvíðinn.

Ó, sjitt.

Nei. Ég ætla ekki að svara.

Fuck them.

FUVKTHEM AKLKLT TO HELL!!!!

Jesús minn. Það var eins og eitthvað eitur væri að yfirgefa líkamann.

Svo reiður.

Svo ljótur í hugsun.

Halló!
Hvar ertu, Jón!?
Halló!
Ertu þarna?!
Er einhver þarna inni?!

Í fráhvörfum.

Akkúrat.

Ég var í bullandi tæknifráhvörfum.

Annað hvort það eða þá að ég var að verða einsetuskrýtinn.

Á fjórða degi! (Þriðja? Man það ekki.)

All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy

Það er öxi í verkfæraskúrnum. Gott að ég tók ekki með mér viskíflösku.