7:00
Það er óhjákvæmilegt að sannleikurinn rati upp á yfirborðið. Hann gerir það alltaf. Maður getur hafnað honum en aðeins tímabundið. Maður getur laumast út úr skápnum stöku sinnum en farið inn í hann jafnóðum. Sagt að þetta hafi allt verið í plati, að þetta hafi verið djók, að maður hafi verið fullur. En semsagt, ég hef aldrei getað svarað þessari spurningu:
Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?
Við afhjúpum okkur með gjörðum. Það er segin saga. Við erum það sem við gerum. Sitji ég hér og skrifa er ég maður sem situr og skrifar. Maður sem sækir í einveru svo hann fái frið. Til að skrifa. Til að gleyma sér. Tapa sér. Týna sér. Maður sem vaknar klukkan fimm á morgnana svo hann geti sest niður, opnað tölvu og skrifað. Maður sem sefur skemur en hann þarf svo hann geti leyft sér þennan munað. Mögulega stytt ævi sína fyrir vikið en þetta er þess virði.
Ég þarf að skrifa smá. Ekkert mikið. Bara pínu. Til að róa taugarnar áður en ég gerist skrifstofumaður á Reyðarfirði. Slá á frelsiskvíðann hans Kierkegaard. Ég hef nefnilega val. Ég þarf ekki að skrifa. Þar deyr enginn þótt ég sleppi því. Gæti setið hér og strokið símanum í sátt við Guð og menn.
Þetta hljómar fremur napurt, kæra dagbók, eins og líf mitt sé eilíft ströggl, að ég þurfi að neita mér um grunnþarfir vegna þess að vinna og fjölskyldulíf sé svo íþyngjandi en ég vil fullvissa þig um að svo er ekki.
Endalaus tími er bölvun. Þá gerist ekkert. Spurðu bara þunglyndu gamalmennin.
Ég hef einn og hálfan tíma, að hámarki, til að gubba einhverju úr mér.
Níutíu mínútur þar sem enginn ætlast til neins af mér. Er utan þjónustusvæðis.
Níutíu mínútur. Þarf ekki meira. Meira væri verra.
…
Ég á minningu úr öðrum bekk, frá árinu 1983/4. Hún er dauf, meira eins og tilfinning, minnisleiftur eða glampi sem ég þarf að barna með ályktunum um það sem gerðist. Það sem ég man, með hundrað prósent vissu, er samviskubit. Vegna þess að ég laug. Ég sagði ósatt þegar Steinunn kennari bað okkur um að svara því hvað ætluðum að verða þegar við yrðum stór. Við sátum á gólfinu, hópurinn myndaði U og Steinunn sat á stól við endann, þar sem hringurinn opnaðist.
„Jæja, Jói minn. Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?“
„Kevin Keagan.“
„Flott hjá þér vinur. En þú, Matthildur, hvað ætlar þú að verða?“
„Hjúkrunarkona.“
„Það líst mér vel á. En þú, Friðjón?“
Og svo framvegis.
Flestir strákarnir ætluðu að verða feður sínir (sjómenn, iðnaðarmenn, kaupmenn) og stelpurnar ætluðu að verða mæður sínar (hárgreiðslukonur, hjúkrunarkonur, leikskólakennarar) en það voru nokkrar undantekningar. Jóhanna sagðist ætla að verða flugfreyja og þegar röðin kom að mér sagði ég, og hljómaði ákveðinn, eins og ég væri að segja satt:
„Ég ætla að verða flugmaður.“
„Já,“ sagði Steinunn og hló. „Ætlið þið Jóhanna að fljúga sömu flugvélinni?“
Hohoho.
Híhíhí.
Þetta fannst bekknum sniðugt. Kannski myndu einhverjir í bekknum halda að við værum kærustupar og það var mér alls ekki á móti skapi. Ég var mjög til í að mér yrði nú einu sinni spyrt saman við stelpu, að ég væri „player“ eins og Halldór og Jói.
En ég gat aftur á móti séð á Fjalari, besta vini mínum sem sat við hliðina á mér, að hann trúði mér ekki. Ég hafði aldrei orðað neitt í líkingu við þetta við hann og við gerðum fátt annað en leika okkur saman í hlutverkaleikjum með pleimókalla. Þetta var áður en við byrjuðum að leika okkur með He-man-kalla og/eða stjörnustríðskalla. Þá fengum við lánaða karaktera eða s.s. þegar ég var Hans Óli, hetjan sem Lilja prinsessa var skotin í, fékk „minn“ alla eiginleikana hans. Ég – eða „minn“ – var þannig mjög hugrakkur – eins og Hans Óli – en í pleimóinu þurftum við alfarið að treysta á ímyndunaraflið.
Náttúrulega, ef svo má að orði komast, ef maður eignaðist „landbúnaðarpleimó“, þú veist, kall og konu og síðan kannski dráttarvél, plóg og fóðurtæki, gat maður, ef maður vildi, sett sig í spor sauðfjárbónda. Það var aftur á móti af þeirri einföldu ástæðu að maður gat það sem meðlimur tegundarinnar homo sapien. Þetta er eitt af því sem við getum. Eitt af því sem aðgreinir okkur frá mörgum öðrum dýrategundum, ekki öllum, en nógu mörgum til að þetta geti talist sérstakt einkenni á mönnum. Mjög snemma á ævinni getum við sett okkur í spor annarra og þar með ímyndað okkur að við séum hitt og þetta. Að við séum t.d. bændur eða sjóræningjar eða kúrekar eða indjánar eða geimfarar eða slökkviliðsmenn.
Þegar við Fjalar losuðum okkur við leikmunina í pleimó sem áttu að tengja okkur við ákveðnar starfsstéttir urðum við, merkilegt nokk, tónlistarmenn. Við fórum í hlutverk tónlistarmanna eins og við ímyndunum okkur þau níu eða tíu ára gamlir. Það var ekki til neitt popparapleimó árið 1984 enda heimurinn annar en hann er í dag. Þýski leikfangaframleiðandinn gerði ekki ráð fyrir því þá að börn vildu verða eitthvað annað en slökkviliðsmenn og/eða bændur. Kannski sjóræningjar eða kúrekar í sínum villtustu fantasíum en við Fjalar breyttum pleimóköllunum okkar í poppara. Notuðum „props“ frá öðrum starfsstéttum þannig að „minn“ var í kúrekabúningi og „hans“ í indjánabúningi. Þetta gat alveg virkað líka fyrir poppara. Svona Village People-væb, get ég sagt núna með allri minni poppvisku rúmum fjörutíu árum síðar.
Við spiluðum Rebel Yell með Billy Idol eða eitthvað með Duran Duran og létum minn og hans halda tónleika inni í herberginu mínu en það sem merkilegast er, hugsa ég núna hér í Vöðlavík, er sú staðreynd að við létum þá sofa hjá pleimókonunum.
„Minn“ var alger graðfoli, reið öllu sem hreyfðist. Og hans líka náttúrulega. Við skiptum þeim á milli okkar, sváfum hjá þeim saman, trekantar, fjórkantar, júneimit. Vorum algerlega óheftir þegar kom að lífstíl rokkarans. Minn var meira að segja oft drukkinn (það fylgdi bikar með einu pleimósettinu mínu). Nutum okkar í botn í díónýsísku stjórnleysi. En allt í pleimó.
Þegar ég hafði frjálsar hendur, í pleimó, ákvað ég að gerast poppstjarna og „ladiesman“. Músíkalskur melludólgur eða eitthvað þvíumlíkt. Og það var í þessu samhengi sem það var óskiljanlegt fyrir besta vin minn þegar ég sagðist ætla að verða flugmaður. Ég hafði engan áhuga á flugmennsku og hann vissi það og hann vissi að ég vissi það.
Pleimófantasíurnar höfðu afhjúpað mig.
En ég vissi líka að það var ekki við hæfi að segja sannleikann. Ekki þarna í U-inu í Nesk nítjánhundruðáttatíuogeitthvað. Því þótt það þyki ekkert tiltökumál í dag þegar börn segja kinnroðalaust að þau ætli sér að verða „YouTubers“ var þetta ekki svona einfalt þá. Ekki þarna í U-inu.
Það hefði kannski sloppið til að segjast vilja verða tónlistarkennari en í mínum huga var ekkert samband á milli tónlistarmanna og kennslu. Þetta voru tveir aðskildir heimar: Tónskólinn var blokkflauta, rykfallið nótnablað og lykt af kaffi. Að verða rokkstjarna var annað: Það voru gigg og kerlingar og vín drukkið úr bikar. Simon Le Bon í Girls on film myndbandinu (þaðan sem innblásturinn kom er ég nokkuð viss um) var mér á einhvern hátt nærri en menn sem bjuggu hér í bænum. Menn af holdi og blóði. Menn í gallabuxum og vinnuskyrtum. Menn með sorgarrendur. Menn sem ilmuðu af koppafeiti.
Ég var of mikill mömmustrákur til að verða fyrir nægilega sterkum áhrifum frá pabba mínum þegar kom að þessari spurningu. Ég lifði í heimi fantasíunnar sem þýddi að ég var lost þegar ég var vakinn til lífsins með þessari spurningu, sitjandi þarna í U-inu, í bláum Henson-galla og skítugum íþróttasokkum. Á meðan, í raunveruleikanum; kallarnir að bræða síld innfrá, veidd af öðrum köllum sem vinna á skipum sem aðrir kallar sinna viðgerðum á. Bræðslulykt berst inn um glugga á steinsteyptu húsi þar sem kona kennir börnum lestur, skrift og stærðfræði og spyr nemendur sína um framtíðaráform.
„Ég ætla að verða flugmaður,“ laug ég.
Blákalt. En ég vissi að þetta myndi falla í kramið. Þetta slyppi til. Er mest hissa á því núna að ég hafi ekki sagst ætla að verða kennari en ég var ekki enn orðinn almennileg kennarasleikja.