Er kominn í trússarahúsið og er einsamall. Elías vildi sofa hjá mömmu sinni og systur fremur en pabba sínum. Ég er svo vanur því að vera „seinni kostur“ barnanna minna að ég tek þessu ekki persónulega.
A kid should be with his mother
Everybody knows that
What can a father do but baby-sit sometimes?
… söng Sting einu sinni. Ég er ekki bitur eins og Sting samt. Við Iðunn og Hnota stukkum í hyl áðan og ég var um tíma aðaltöffarinn. Súper-pabbi. Esther átti ekki breik.
…
Kamma og Georg komu síðdegis með allskyns dót fyrir skálann, pressukönnur, fægiskóflur og ýmislegt fleira. Mér brá í augnablik þegar þau birtust allt í einu og fann hjá mér þörf til að fara sópa gólfin í skálanum. Ég hafði ómeðvitað yfirfært einhvern yfirmannastatus á Kömmu frænku mína sem er formaður Ferðafélagsins en þessi skömmustutilfinning rann af mér. Kamma var bara í góðum gír og ekki mætt til að taka út störf yfirskálavarðar. Það vildi þannig til að við vorum að græja kaffi og gátum tekið almennilega á móti þeim. Átum svo nýbakaðar pönnsur með rjóma og sultu og spjölluðum.
Og maður er manns gaman, maður minn! Ég þurfti svo á þessu að halda. Þurfti að hitta fólk utan fjölskyldunnar. Láta segja mér eitthvað og segja frá einhverju sjálfur, vera fyndinn og láta hlæja að mér. Er alls ekki eins einrænn og ég þykist vera í þessari dagbók. Get verið „stemmningsmaður“, get sóst eftir athygli og get fílað mig í botn í góðu partíi. Bara eiginlega alveg þangað til einhver dregur fram gítar og fer syngja íslensk útilegulög. Þá deyr eitthvað inn í mér, eitthvað fallegt og náttúrulegt, og ég læt mig hverfa.
Ég gat sagt sögur sem Esther hefur heyrt milljón sinnum. Þau voru nýtt audience fyrir mig. Svo spjölluðum við aðeins um pólitík. Mér fannst eins og við færum öll að hvísla þegar við byrjuðum að tala um jarðgangagerð á Austurlandi. Þau eru „viðkvæmt mál“ fyrir austan og maður veit auðvitað aldrei hvort einhver liggi á hleri. Meira að segja í Vöðlavík. Það eru eyru alls staðar í smábæjunum.
„Við höfum aldrei átt samgönguráðherra,“ sagði Georg til að rökstyðja hvers vegna okkur gengi svona hægt að fá jarðgöng til að hringtengja landshlutann og þess vegna eru vegirnir á Suðurlandi svona helvíti góðir, malbikað upp að öllum sveitabæjum og júneimit. Ég fíla svona háðskar pólitískar greiningar. Það eru ætíð brögð í tafli. „Hvaðan er nýi samgönguráðherrann,“ spurði Kamma en ekkert okkar mundi það. „Bíddu, hvað heitir hann aftur,“ spurði Esther. Ekkert okkar mundi það heldur. „Já, það mætti halda að Suðurland væri í ESB, vegirnir eru svo góðir,“ sagði ég og uppskar hlátur. Vá, hvað það var gott. Fann hvernig ég lyftist allur, stækkaði. Eins og dauðþyrst planta í eyðimörk sem fær yfir sig vatnsskvettu. Skelfing get ég verið átakanlegur stundum.
…
Stukkum í hyl áðan. Það var hressandi og vatnið ekki of kalt. Enda lítið í ánni eftir gott sumar. Hnota stökk á eftir okkur, eins og Seifur í Hvolpasveit, og synti með okkur að bakkanum. Vakti mikla lukku hjá krökkunum. Var svo gíraður eftir þetta að ég tók nokkur Stuðmannadanspor allsber á bakkanum áður en ég klæddi mig í fötin. Börnin veltust um af hlátri. Ég var skora feitt.
Hugsa núna í fletinu, kæra dagbók, að það gæti verið óheppilegt ef þetta stönt mitt ratar í sögur barnanna minna þegar kennarinn spyr í upphafi skólaárs hvernig sumarið hafi verið. Ætli Iðunn teikni þá mynd af pabba sínum dansandi nakinn í Vöðlavík?
Ætli kennarinn hugsi þá: Drukkinn?
Nóterar þetta svo í minnisbók og tekur upp á kennarafundi. Skulum ekki grípa til aðgerða strax, segði skólastjórinn, en fylgjumst með börnunum. Allar transgressjónir í hegðun þeirra yrðu þaðan í frá túlkuð út frá þessum díteil úr sögum barnanna frá dvölinni í Vöðlavík sumarið 2025. Dansandi fimmtugur fjölskyldufaðir. Án fata. Um miðjan dag.
Var hann á einhverju?
Það verður líkast til aldrei hægt að sanna það en efasemdirnar duga. Fræjum hefur verið sáð og tortryggni getur af sér meiri tortryggni. Það er segin saga í smábæjum.
Fökk, ég mun ekki rísa til æðstu metorða í þessum bæ.
…
Esther tók annars skemmtilegar myndir af sundinu sem ég veit að munu ylja þessari fjölskyldu um ókominn ár. Skvamp og brosandi andlit og blautur hundur með lafandi tungu. Fjölskyldulíf í allri sinni sumarlegu dýrð.
Staldraði samt við eina þegar ég fletti í gegnum þær. Myndin var af mér, standandi á bakkanum í stuttbuxum og það leynir sér ekki: Ég er að breytast í Feitan-Elvis. Aftur. Eftir nokkur mögur ár þá leyna þau sér ekki, manboobs-in. Og síðuspikið. Sístækkandi björgunarhringurinn.
Verð að fara í megrun, hugsa ég í fletinu mínu, skrifandi í bókina. Maulandi kremkex frá Frón sem ég borða bara í útilegum. Skolað niður með Appelsíni. Lifi lífinu lifandi í Vöðlavík.