6:00
Sestur niður í Karlsskála eftir stuttan göngutúr með Hnotu. Hún gerði þarfir sínar út í móa. Hægðirnar orðnar linar og illa formaðar sem þýðir að ég hef verið að gauka að henni allskyns mat sem hentar henni ekki. Vegna þess að hún er hreinræktaður labrador. Vegna þess að allir hreinræktaðir hundar verða að vera á rándýru sérfóðri.
En hér í Víkinni eru útlínur allra reglna orðnar máðar. Það gildir um hundahald, barnauppeldi en ekki síst mig sjálfan. Borðandi kex frá Frón í öll mál.
Það rigndi í nótt og ég er blautur í fæturna. Sit við borð og horfi útum glugga: Sé litlu Astrid Lindgren-legu brúna yfir lækinn, trússarahúsið fagurgræna og salernið. Það er enn lágskýjað en útfrá glittir í bjartan himin og þokan orðin þunn fyrir ofan okkur. Fengi ég mér göngu upp í fjall er ekki ósennilegt að ég kæmist upp fyrir þokuna, gæti virt hana fyrir mér að ofanverðu, liggjandi yfir Víkinni eins og valsaður bómull. Hljóðeinangrandi getur þokan breytt fjörðum og víkum í einskonar hljóðver og fuglahljóðið sem þú heyrir gæti verið að berast til eyrna þinna úr mörg hundruð metra fjarlægð.
Það vaknar enginn fyrr en eftir tvo klukkutíma í fyrsta lagi. Mér vitanlega erum við ein í Víkinni og verði þetta eins og í fyrrasumar hittum við engan fyrr en við komum heim á fimmtudag. Þetta gætu orðið bestu dagarnir í þessu úthaldi.
Eða hvað, Johnny boy? Ertu ekki að gleyma því þegar Axel bóndi í Skálateigi kom og tæmdi rotþróna á miðvikudegi!
Hvernig gat ég gleymt því? Það var einn af hápunktum síðasta sumars!
…
Ég er búinn að segja svo oft frá þessu en fæ mig varla til að skrifa þetta niður. Þannig hef ég aldrei sagt þér frá þessu, kæra dagbók, þótt þetta sé ein af „skemmtisögunum“ mínum sem alltaf virðist virka, einkum og sér í lagi ef fólk þekkir til.
En það er ástæða fyrir því auðvitað að maður skrifar ekki allt niður. Sérstaklega þegar maður virðist bara kunna að skrifa blogg, dagbækur og tölvupósta. Þessi skrif hafa á sér áru sannleika þótt þau séu oft á tíðum tóm della. En ég veit af reynslu að ætli ég að skrifa um fólk verð ég annað hvort að skrifa „alveg satt“ – og nota þá rétt nöfn – eða varpa jákvæðu ljósi á það. Draga fram kosti þess. M.ö.o.: Skrifa minningargreinar um lifandi um fólk. Eitthvað sem það getur prentað og geymt.
…
Í þessum skrifum hér í Víkinni næ ég hinu margumtalaða „flæði“ en um leið og ég byrja að skálda meðvitað eða þykjast vera gáfaður fer allt í steik. Textinn minn verður stirður en aðallega tilgerðarlegur. Og þar með leiðinlegur. Það eru líkamleg viðbrögð sem koma upp um þetta fals. Mér fer að finnast leiðinlegt að skrifa, kvíði því jafnvel. Fæ kökk í hálsinn, þurr í munninum. Svitna óeðlilega mikið á bakinu. Bækurnar um skapandi skrif, sem ég hef lesið í bílförmum, segja að þetta sé eðlilegt „í ferlinu“ og að maður verði að komast yfir þetta en það hefur aldrei gerst hjá mér. Þannig skrifaði ég heila skáldsögu fyrr á þessu ári. Enn ein tilraunin til að skrifa „þroskasögu unglings í Neskaupstað“. Lítt dulbúin saga um árin heima í kringum ’90. Um rokkið í Neskaupstað, táningaástir og kannski dass af þunglyndi og sjálfsvígum, svona svo þetta gæti átt séns sem „raunsæ“ lýsing á lífinu út á landi. Það þarf jú að vera allavega einn haglabyssuhvellur svo einhver trúi þessu.
Í augnablikinu man ég ekki hvað aðalsöguhetjan – eða ég sumsé – hét. Karl? Gummi? Eða var það bara Jón? Ketill? Ég man það ekki og það skiptir ekki máli. Ég barðist í gegnum þetta í þrjá mánuði. Settist fyrir framan tölvu klukkan fimm og skrifaði í tvo tíma eða þangað til ég vakti Esther og börnin. Skrifaði lengur um helgar. Stundum fram að hádegi. Markmiðið var að klára söguna, frá A til Ö. Upphaf, miðju og endi. Persónusköpun, söguþráður, átök og lausn. Allar græjur. Öll trixin í bókinni. Mér fannst það mikilvægt. Klára einu sinni eitthvað. En um leið og ég fór að skrifa um táningaástir kom líkaminn upp um mig. Ég roðnaði. Hvurn andskotann veit ég um táningaástir? Maður sem var barn langt fram eftir aldri og yrti ekki á stelpur.
…
Hætti í apríl. Þurrausinn. Þá á ég ekki við að ég hafi „losað“ um nokkurn skapaðan hlut, ég var ekki búinn að klára úr „glasinu“, eða hvaða nafni sem við viljum gefa þessari iðju að skrifa. Ég var bara örmagna sökum leiðinda. Jesús minn, hvað þetta var leiðinlegt. Hver einasta málsgrein skrifuð af vilja. Ekki löngun. Hvað þá þörf! Ég bara gat þetta ekki. Vistaði allt draslið í möppu á Dropbox en tímdi ekki að henda þessu. (Skiptum í nútíð í augnablik því þetta er svo stutt síðan: Ég tími ekki að henda þessu. Drög að þroskasögu Jóns Knúts, aka Kalla eða Gumma eða Sigga, gæti seinna meir orðið fyndin.)
En það er annað með svona skrif eins og ég stunda hér í Víkinni. Einhverskonar dagbók. Skáldað inn á milli en í grófum dráttum er þetta sannleikanum samkvæmt. Í grófum dráttum. Svo það sé undirstrikað, svo ég gefi mér undankomuleið ef einhver gerir athugasemd um sannleiksgildi þess sem hér er skrifað. Sem væri þá helst Esther, börnin eða annað fólk sem ég hef nafngreint í þessari dagbók frá Vöðlavík. Dagbók sem ég hef ákveðið að birta eins og framhaldssögu í haust.
Allt sem ég hef skrifað síðustu daga er ósvikið og ekta en á sama tíma fölsun. Væri hægt að holdgerva þennan texta þá stæðu hér upp úr stílabókinni litlir karlar sem litu út eins og Bruce Springsteen og/eða Bubbi Morthens. Menn í rifnum gallabuxum, snjáðum leðurjökkum. Fabricated authenticity, eins og sagt var í menningarfræðinni í gamla daga.
Sigg á fingurgómum.
Salt jarðar.
Maldonsalt jarðar, eins og Helgi vinur minn segir þegar hann vill vera fyndinn.
…
Gleymi mér. Týni mér. Besta mögulega ástæða til að helga sig einhverju. Hrekk upp þegar vindur feykir upp glugga eða þegar hundurinn stendur upp og hristir sig eða þegar snarkar óvenju hátt í kabyssunni. Eða þegar vélardrunur berast úr fjallinu eða þegar þrír smyrlar hringsóla í kringum Karlsstaði í einhverskonar lífsbaráttu. Eða hvað nú það var sem þeir voru að sýsla í gærkvöldi. Átta mig ekki á því en mórallinn á milli þeirra virtist vera í algjöru fokki. Mikil aggressjón í gangi og við fylgdumst spennt með út um gluggann. Öll fjölskyldan. Skjátími í Vöðlavík.
Og það var ég, af öllum mönnum, sem bar kennsl á þá. Það var ég sem leit út um gluggann í gærkvöldi og sagði:
„Naunau, þetta eru smyrlar!“
Esther hélt að þetta væru fálkar en reynsla mín af gæsaveiðum – vissulega takmörkuð – og meðfylgjandi rúntum upp á Jökuldalssheiði með mági mínum skiluðu sér loksins. Ég var níutíuogníu prósent viss um að þetta væru smyrlar en sagði þetta eins og maður sem var hundrað prósent viss. Talaði eins menn gerðu fyrir tíma Google og ChatGPT, á gullöld besservisserana. Þegar upplýsingar voru á reiki og þekkingaruppsprettan voru háværir karlmenn – alltaf karlmenn – sem hétu nöfnum eins og Siddi eða Lúddi:
OG SVONA ER ÞETTA ER BARA OG HANANÚ!
Þessi tími er liðinn. Alls staðar nema í Vöðlavík. Og þessi kall var ég í gærkvöldi. Það var engin leið fyrir neinn til að rengja það sem ég sagði. Á þessu augnabliki – á þess mómenti í Vöðlavík – var ég – af öllum mönnum – það klárasta sem stóð á tveimur fótum. Eða já, mér vitanlega erum við ein í Vöðlavík.