14 eitthvað.
Þessi hugmynd um að við séum leikarar lifnar við þegar maður byrjar í nýrri vinnu. Eða þegar maður gengur inn í nýtt hlutverk. Verður foreldri. Ljóðskáld. Já, eða skálavörður.
Múnderingin mín er fín. Ef út í það er farið er ég mjög skálavarðalega vaxinn, ef svo mætti segja: Karlmaður á miðjum aldri. Rétt innan við einn og níutíu á hæð. Tíu kílóum yfir kjörþyngd. Rauðbirkinn með sæmilega þétta skeggrót. Þú treystir svona manni, ekki satt? Svona lumberjack-týpu ef ég má gerast svo djarfur að lýsa mér þannig. Svona maður kann að gefa gott start. Gæti kannski orðið gay-icon á Instagram þ.e. ef hann væri með góðan umboðsmann og stílista. Kurteis og viðræðugóður. Lausnamiðaður. Hjálplegur. Með ríka þjónustulund. Get bætt upp botnlausa vankunnáttu á flestum sviðum með sýndarmennsku. Er sem hannaður fyrir daginn í dag þar sem allt gengur út á vörumerkingu. Branding. Réttur maður á réttum stað, á réttum tíma. A professional imposter. Ungur í anda og óræður í aldri. Eins og Gísli Marteinn. Það veit enginn hvað hann er gamall heldur. Mér finnst það kúl og mig langar til að verða eins og hann.
Svo finnst mér eins og ég eigi meira sameiginlegt með yngra fólki. Konan mín tíu árum yngri náttúrulega, finnst jafnaldrar mínir sumir hverjir orðnir svo gamlir og gráir. Eitthvað svo lúnir og búnir á því. Ég sá t.d. Gústa, gamlan félaga minn úr háskólanum, í Krónunni í síðustu viku. Örugglega í sumarfríi fyrir austan. Hafði ekki séð hann lengi enda býr hann fyrir vestan held ég. Tálknafirði? Var hann ekki kennari? Var hann kannski kominn norður? Var hann ekki dauður, var inntakið í einni hugsun sem flaug þarna í gegnum huga minn á þessu sekúndubroti. Enn einu sinni væri gott að geta komist á Feisið.
Allavega, ég passaði mig svo hann sæi mig ekki. Faldi mig í eðnísku deildinni, á bak við hilluna með indversku sósunum. Fannst hann aldrei skemmtilegur. Svo var hann líka svona tilgerðarlegt gáfumenni í vísindaferðunum. Sagði hluti sem voru spaugilegir en ekki drepfyndnir. Gat aldrei hlegið eins og maður. Eins og alvöru karlmaður að austan. Hló eins og einhver fjandans MR-ingur.
En ég öfundaði hann líka. Vegna þess að hann var vinsæll. Átti marga vini og stelpurnar voru skotnar í honum. Svo horfði ég á hann þarna, í skjóli eðnísku deildarinnar, akfeitan með þunnt hár og rautt nef, og hugsaði:
Það hefur aldeilis fallið á silfrið! Hahahaha!
Og ég að æfa fyrir Reykjavíkurmaraþon! Stefndi á góðan tíma og allt!
Taflið hefur snúist við, Gústi minn. Ég er með öll spil á hendi. Fökk jú, Gústi. Fökk jú tú hell.
…
Þegar ég kom heim fannst mér ég svo hallærislegur að hugsa svona að ég játaði þetta allt saman fyrir Esther. Lýsti þessu fyrir henni, hvern ég hafði séð, rifjaði upp þessa gömlu minnimáttarkennd og hvernig ég væri að tækla hana núna með hroka en ekki með samkennd eða væntumþykju. Hafði gleymt öllu sem ég hafði tileinkað að mér í sjálfsvinnunni póst-alkóhól. Hafði gleymt öllu sem ég hafði lesið í Markúsi Árelíusi, Seneca og Epiktetosi.
Sem betur fer gátum við hlegið að þessu og ég velti fyrir mér að senda Gústa vinabeiðni á Feis en hætti við þegar ég sá prófílmyndina. Það var eitthvað Trump-væb í gangi og ég vildi ekki taka sénsinn.
Allavega. Hvert var ég kominn?
…
16 eitthvað.
Í morgun hætti ég ekki að skrifa fyrr en ég sá Elías labba frá skálanum okkar yfir á klósettið. Hann var í stígvélunum mínum, sem eru númer fjörutíu og átta, og þetta var óneitanlega soldið fyndið. Þau sækja bæði í að ganga í skóm af mér. Þeim hlýtur að finnast það fyndið, eins og að vera með snjóþrúgur. Það þarf svo lítið hér í Vöðlavík til að skemmta börnum. Kannski finnst þeim þetta notalegt líka. Elli Steini frændi minn sagði einu sinni við mig að honum hefði alltaf þótt svitalyktin af föður sínum góð. Ég skildi við hvað hann átti og mér fannst þetta alveg brilljant observasjón þótt ég hefði ekki tekið eftir þessu sjálfur þ.e. að mér fyndist svitalykt af nákomnum ættingjum betri en önnur.
Ég leit á klukkuna og sá að hún var að verða hálf níu. Ég hafði drukkið tvo lítra af kaffi og skrifað stanslaust í tæpa þrjá tíma. Hvarf inn í stílabókina. Gleymdi stað og stund og fattaði ekki að ég var að pissa á mig. Stóð upp en ég nennti ekki að labba yfir brúna og ákvað að láta bara vaða í grasið fyrir ofan skálann, eins og Georg Lárusson og landhelgisgæslan í fyrra.
Ég horfði á dökkgulan pissustrenginn og fór að hugsa um leiðinlega hluti. Fékk skyndilegan kvíðahnút í magann og ég vissi að ég yrði þá að skrifa um þá. Kannski í kvöld. En brosti við tilhugsunina að einhver kæmi að mér og skammaði mig fyrir að vera pissa í grasið. Svo sá ég Elías liggjandi í grasinu aðeins fyrir ofan. Ég hafði ekki tekið eftir honum. Hnota hafði ekki einu sinni tekið eftir honum.
Var hann að fylgjast með mér? Föður sínum, mígandi í gras? Yrði þetta ein af þessum margumtöluðu kjarnaminningum barnsins sem hann gæti skrifað um í skáldævisögunni sinni eftir þrjátíu og fimm ár – þegar ég verð dauður eða heilabilaður?
Standandi þarna mígandi mundi ég eftir einu agalegu fylleríi fyrir nokkrum árum. Nokkuð mörgum árum, held ég. Vonandi tuttugu ár. Var samt byrjaður með Esther. Ekki nógu langt síðan þá, hugsaði ég. Lá brennivínsdauður við Arnarhól, vaknaði til lífsins í þvölum buxum. Bjór eða hland? Ég var ekki viss og það var ömurleg tilhugsun.
Mér hefði þótt þetta kúl einhvern tímann, kannski þegar ég var átján eða nítján ára. Alveg fram undir tvítugt.
…
Man eftir einum í Nesk sem kúkaði á sig á fylleríi. Ekki heill kúkur kannski, eins og hjá bleiubarni, en vel umfram venjulegt bremsufar. Og hann skammaðist sín ekkert fyrir það. Þetta varð ein af sögunum hans. Eitthvað sem henti karla í krapinu. Menn drukku, slógust, riðu og einstaka sinnum misstu menn stjórn á líkamanum. Kannski nafngreini ég hann á seinni stigum en ég veit ekki hvort hann hefði einhvern húmor fyrir þessu núna. Gott ef hann vinnur ekki í embættismannakerfinu. Kannski ekki viðeigandi lengur, að eiga svona „fortíð“ fyrir austan.
Hvað um það. Menn drápust stundum í lystigarðinum eða fyrir ofan Egilsbúð. Utandyra. Vöknuðu stundum með ælu, allavega eitthvað illa lyktandi gums í andliti og/eða á bringu og í vonlausri stöðu var þeirra helsta von að þetta væri þó að minnsta kosti þeirra eigin æla. Eins með hlandið. Það var eins gott að þetta væri þeirra eigið hland. Vonandi hafði ekki verið migið á þá í einhverju úrkynjuðu eftirdansleiksdjóki.
Man eftir einum sem var jarðsunginn, lá dauður í blómabeðinu, fyrir neðan Egilsbúð. Það var farið með minningarorð! Og sungið! Það var myndaður kór á staðnum með norðfirskum drykkjuboltum! Er ekki að djóka! Á sama augnabliki, annar hópur á bryggjunni við gömlu netagerðina, á síbjartri sumarnótt, að fylgjast með hnúfubak sem synt hafði inn í fjörðinn og strauk sér makindalega upp við bryggjukantinn, hans framlag til þessarar minningar sem mögulega/mögulega ekki er uppspuni frá rótum. Langdrukknir ballgestir klappandi í hvert sinn sem hann sýndi sig og spúði strók upp í loftið eins og okkar eigin norðfirski andskotans Trevíbrunnur.
Þvílíkar minningafjársjóður sem ég á. Þvílíkur efniviður í þroskasögu sem ég kem mér ekki af stað til að skrifa. Vegna þess að ég er ekki þannig skáld.
En samt. Þvílíkt djöfulsins gúmmelaði:
Brennivínsdauður maður jarðsunginn á meðan hnúfubakur skemmtir langdrukknum ballgestum klukkan hálf fimm að morgni, sumarið næntífæv er langt og bjart með brilljant sumarauka í vændum. Suð í eyrum og ómurinn af einhverju lagi með Sálinni situr sem fastast í framheilanum eða gagnaugablaðinu eða í limbíska kerfinu. Man ekki líffræðina mína. Þarf að gúggla. Þarf að komast í sleik árið næntífæv. Það er bara hálftími eftir og að honum loknum – hafi ekkert gerst – enda ég í partíi í innbænum. Þar sem draumar um sleik hverfa í kannabisreyk og umræðum um toghleraskipti á Barða NK.
…
Tvö minnisleiftur um dauða og ælu:
• Einu sinni þóttist ég drepast brennivínsdauða í baðkarinu heima hjá Dadda í Ásgarði. Pabbi hans var ekki heima og hann bauð öllum í partí. Ég vissi ekki hvernig ég átti að vera í partíi, ég var fimmtán ára, þannig að ég þykjustudrapst í baðkari svo ég þyrfti ekki að tala við neinn. Það gæti líka verið – á sinn hátt – upphefjandi. Það var eitthvað hrikalega töff við að liggja dauður í baðkari. Það var reisn yfir því, fannst mér. Þegar einhverjir komu á klósettið lá ég þarna hreyfingarlaus og þóttist vera dauður. Dauður og töff. Og ég ákvað að liggja þarna þar til partíið væri búið en Daddi tók það ekki í mál. Ég yrði að vera „gestgjafi“ í þessu partíi með honum og hann vissi alveg að ég var ekki dauður. Ég hafði ekki drukkið neitt að ráði.
• Annar vinur minn, sem nýtur nafnleyndar vegna þess að þetta er svo fjarri manninum sem hann er í dag, drapst einu sinni í einu af þessum ömurlega sjabbí næntís eftirpartíum í tvílyftu húsi með bárujárnsklæðningu, einhvers staðar í innbænum (þar sem öll svona sjabbí næntíspartí fóru fram í minningum mínum). Var færður upp í sófa í læsta hliðarlegu svo hann færi ekki eins og John Bonham eða Bon Scott. Við fylgdumst grannt með honum, tússuðum andlitið náttúrulega með einhverjum ferlega hallærislegum frösum, eins og vera bar, en vorum líka að passa að hann myndi ekki gleypa eigin ælu, góðhjörtuðu skítseiðin sem við vorum.
Drukkum meira, hlustuðum á einhverja ömurlega þunglyndistónlist eins og Pink Floyd eða Jethro Tull og tókum ekki eftir því þegar hann byrjaði að æla yfir sig. Rukum til – því þetta var spennandi – og létum hann æla restinni á gólfið (teppalagt) og klukkan sex að morgni, eða þar um bil, gengu við heim, í leðurjökkum, gallabuxum og mótorhjólaboots, í myrkri og slabbi, og alla leiðina hlustuðum við á hann skamma okkur fyrir að hafa „makað“ jólaköku í hárið sitt.
Hahahaha!
Get enn hlegið að þessu. Almáttugur minn. Ein fyndnasta saga „manndómsáranna“ eða hvað við köllum tímann frá sextán að tvítugu. Hver setti jólaköku í hárið mitt!
Að láta sér detta þetta í hug!
„Ég hefði nú frekar ælt á þig,“ man ég eftir Dána, Fjalari, Jóni Hilmari eða einhverjum okkar segja daginn eftir eða þess vegna vikum eða mánuðum. Þetta var mjólkað út í hið óendanlega. Í sjávarþorpinu fyrir austan, þar sem ekkert gerðist milljón sinnum á dag, voru svona atvik gulls ígildi.
…
Ég er byrjaður að tárast hérna í skálanum, þrjátíu árum síðar. Minningar um ælu og skít og fyllerí fyrir neðan Egilbúð og í innbænum, nítjánhundruðníutíuogeitthvað. Hvernig á ég að deila þessu með nokkrum manni? Hvernig segi ég börnunum mínum frá „gömlu góðu dögunum“ í Nesk þegar það eina sem mér dettur í hug er æla og mannaskítur?
Makalaust. Við finnum fegurðina í öllu – eftir á að hyggja – býst ég við. Það er mannlegt eðli. Gerir okkur fær um að komast yfir alla skapaða hluti. Ein fallegasta skáldsaga sem ég hef lesið fjallar um veruleika útrýmingarbúðanna. Man ekki eftir hvern. Einhvern Ungverja, minnir mig. Eða Pólverja. Skiptir ekki máli en ég grét margoft við lesturinn. Þetta var svo fallegt. Lífið í útrýmingarbúðunum.
Því eins og mér leiddist þarna. Eins og mér fannst – þegar þetta gerðist í raun og veru – ömurlega napurlegt að vera nítján ára í Nesk. Vinnandi í netagerðinni, bíðandi eftir föstudegi, Captain Morgan og kippa af Tuborg grænum. Standa ekki í lappirnar klukkan hálf eitthvað og læðast heim að morgni í myrkrinu og suddanum eins og einhver vampíra. Vampíran í Víðimýri. Blautur í fætur og ólofaður. Ég yrði að ganga út annars ætlaði ég að ganga út og hengja mig.
Og svo gekk ég bara út.
…
Lykilorð: Ólofaður. Það fannst mér verst, veturinn næntífæv. Verra en Treblinka.
Því ég vildi umfram allt verða venjulegur. Sérstaklega eftir helgarnar. Á sunnudögum, mánudögum, þriðjudögum og sirka fram að hádegi á miðvikudögum vildi ég eignast börn og buru. Selja trommusettið. Settlegheit. Það var markmiðið. Fitna kannski smá. Eignast bíl. Volvo eða Saab. Pæla í hversdagslegum hlutum eins og hvernig snjómokstri er háttað í bænum og mynda mér sterkar skoðanir á því. Læra að baka upp sósu með hveiti og smjöri og brúna kartöflur. Eins og venjulegt fólk gerði árið nítjánhundruðníutíuogeitthvað.
Vildi flýja að heiman. Trúlofast einhverri skvísu. Einhverri skvísu sem hugsaði ekki um Karl Marx, Morrissey, Bono eða Michael Stipe. Einhver sem gat horft á Legends of the Fall með Brad Pitt og tárast í hvert skipti. Hlustað á Waterfall með TLC. Einhver sem kunni textann utanað og nokkur „moves“ úr myndbandinu. Einhver sem æfði íþróttir.
En þetta lét bíða eftir sér. Almáttugur, hvað þetta lét bíða eftir sér. Ég hélt ég myndi aldrei ganga út. Að það væri eitthvað að mér. Ekki útlitslega. Það slapp til, þannig lagað. Ég var ekki frámunalega myndarlegur og alls ekki sætur. Var of líkur pabba mínum til að geta nokkurn tímann talist sætur, með þessi ættarkinnbein, stórbeinóttur og náttúrulega rautt hár. En ég var duglegur í ræktinni, „pumpaði“ daglega, hafði ekkert betra að gera.
Nesk var eins og fangelsi. Allir þessir bæir voru eins og fangelsi þegar maður er nítján. Við gerðum ekkert annað en að pumpa. Var kominn með fínan „kassa“ og Dáni sagði að einhver vinkona (því hann átti vinkonur – fullt af þeim) sín hefði sagt að ég væri „sexí“. Ég varð nærri því and- og heilastopp við þessa tilhugsun. Að einhver stelpa hefði sagt að ég væri sexí! I could just die and go to heaven – right now. Ég yrði að nýta þetta forskot sem var að skapast og ég fór aftur í ræktina. Pumpaði og pumpaði. Bekkpressa var upphalds æfingin því hún stækkaði kassann og kassi og handleggir voru það eina sem skipti máli. Ég varð að stækka. Hætti að lesa bækur því stórir heilar voru ekki sexí. Stór kassi var sexí.
Svo gufa á eftir. Horfði á svitadropana renna niður brjóstkassann, niður á maga og stöðvast við nafla í smá stund áður en þeir duttu á gólfið. Við bárum meira að segja saman bækur hvað þetta snerti, við félagarnir. Hver svitnaði flottast? Vorum sammála um að Atli svitnaði flottast. Það bókstaflega perlaði af honum svitinn. Minn sviti var alveg ómögulegur miðað við svitann hans Atla. Rann niður kroppinn eins og einhver aurskriða úr fjallinu. Á Atla mynduðust hinsvegar perlur. Það sem ég gat öfundað fólk. Öfundaði alla í bænum. Fannst allir hafa eitthvað sem mig skorti.
En það var fleira sem hindraði sigurgöngu mína í Nesk veturinn næntífæv-næntísix.
Það sem ég hélt að væri að mér var staðan heima. Veikindin á Kela.
Nei. Ég ætla ekki þangað. Afsakaðu cliffhangerinn, kæra dagbók.
Ég get þetta ekki núna. Ég meika ekki að vera nítján ára lengur.
Hvar var ég aftur? Jú, ég var fjörutíu og níu ára gamall skálavörður í Vöðlavík og menn voru að fara skiptast á veiðisögum. Ég ætlaði að segja frá því.
…
Þvílík játningasúpa og ritræpa. Og ég er að drepast í rassinum. Skriftastóllinn í Karlsskála verður svo harður eftir langar setur. Er komið kvöld? Hvar eru Esther og börnin? Vindinn hefur lægt. Vá, hvað þetta er skrýtið sumar. Hvessir á kvöldin, rignir á nóttinni, lægir með morgni. Það er eitthvað útlandalegt við þetta og þar með heimsendalegt.
Hundurinn hrýtur og það er enn líf í glæðum.
Heyri ég í bíl?
Fökk.
Nei. Þetta var vindurinn. Guði sé lof.