Dagbók frá Vöðlavík – 30072025

(Það vantar einn dag, 29. júlí. Ekki vegna þess að hann sé ekki til. Hann er til. Í minninu og í stílabókinni en þetta blogg lifir sjálfstæðri tilvist. Hér gilda engar reglur um tímalínu. Ég geri það sem mér sýnist.)

Kl. 6:00

Humlurnar suðandi, spóarnir vellandi. Hvað er í andskotanum er einlægara en fimmtugur karl, með óþolinmóða þvagblöðru, mígandi í júlígrænt gras? Koffínmettað hland sígur í jörðina og verður hluti af hinni endalausu hringrás. Beiska regn, komdu fagnandi!

Þvílíkur léttir. Eins og að fara á trúnó. Þegar ég segi eitthvað berskjaldandi, eins og þetta með Gústa gamla vinnufélaga eða skólabróðir eða hverju sem ég laug að dagbókinni í gærkvöldi [Ath: sjá óskrifaða færslu frá 29. júlí], segi henni hvað ég geti verið mikið smásál, segi þetta upphátt og biðst svo vægðar. Að ég sé ekki svona eða hinsegin í raun og veru. Að ég sé góður gaur. „Ég veit það,“ segir hún þá. Og allt verður betra. Önnur hringrás hefst og ég er umburðarlyndur og hófsamur í skoðunum í nokkrar vikur.

Svo vex spennan, dvel löngum stundum á Facebook. Fyllist gremju og óþoli.

Fjöllin …

… þau þrengja að mér!

BÚMM!

O.s.frv.

Mér fannst eins og ég sæi bíl koma að utan en það reyndust ofsjónir. Skelfing hefði það orðið vandræðalegt. Mér hefði aldrei tekist að hætta að míga.

„Bíddu, hvað ertu að gera? Það er klósett hinumegin við lækinn. Ertu eitthvað verri? “

Þessi tegund afhjúpunar er samt best. Sú eina sem hefur mannbætandi áhrif. Skandall er ekki skandall nema hann komist upp. Þú lærir ekkert af þeim nema þú sért gripinn glóðvolgur. Með allt niðrum þig. Bókstaflega.

Ætla að skrifa smá áður en ég vek liðið. Ég skrifaði svo lítið um gærdaginn. Var bara að hugsa um eitthvað sem gerðist fyrir löngu. Um þetta samtal við Esther. Ég sagði t.d. ekkert frá því að við skruppum yfir á Reyðarfjörð í Krónuna og keyptum vistir fyrir síðustu tvo dagana. Hittum fólk og það var gott. Förum heim á morgun. Þá er þetta búið.

Veit að þetta hljómar eins og ég hafi verið í burtu í margar vikur en þegar tíminn er svona lengi að líða finnst manni þetta vera lengri tími en þetta er í raun og veru. Mig langaði að hitta fólk. Mig langaði að ræða um eitthvað hundómerkilegt við einhvern í búðinni. Þurfti að láta einhvern segja mér að útvarpspistlarnir hefðu glatt hann, að ég væri nú meiri helvítis snillingurinn.  

Þegar við komum upp á heiðina ruddust inn tilkynningar í símann minn. Ding, ding, ding. Samband! Freistingin að opna Facebook bar mig ofurliði og við stoppuðum í fimm mínútur á efsta punkti. Notuðum það sem afsökun að börnin hefðu gott af því að leyfa Hnotu að hreyfa sig aðeins eftir bíltúrinn upp á heiðina en þannig fengum við bæði næði til að skrolla óáreitt án þess að svara því í fimmtánda skipti hvort við værum ekki alveg að verða komin.

Ég sá að ég hafði fengið talsverð viðbrögð á pistilinn sem ég skrifaði áður en við lögðum í hann. Pistillinn um útvarpspistlana. Ég hafði skrifað að ég hefði ekki „nennt“ að skrifa þessa pistla fyrir RÚV, að mér hafi einfaldlega borið skylda til þess …

Almáttugur, ef þetta er ekki það sem kallast „humble brag“ þá veit ég ekki hvað það er. Það hvarflaði að mér að henda þessu af feisinu mínu en ákvað að gera það ekki. Ég reyni að láta sem flest standa svo ég geti flett upp í þessu seinna meir. Svo ég get flett upp í sjálfum mér eftir nokkur ár. Vil sjá hvernig ég sýni mig í rauntíma. Má ekki ritstýra þessu of. Hvatvísin verður að vera með í för annars verður ekkert varið í þetta.  

„Flottur pistill þarna um veiðigjöldin og landsbyggð vs. höfuðborg,“ skrifaði einhver sem ég þekkti ekki. Það kitlaði egóið. Ó, hvað það kitlaði egóið. Þá líður mér eins og ég sé að verða frægur. Málsmetandi maður. Ég er rödd sem mark er takandi á. Eina rödd landsbyggðarinnar sem mark er takandi á. Gáfumannaseleb. Sem býr út á landi!

Ég setti hjarta við kommentið. Ó, hvað ég setti stórt hjarta við kommentið.

Enda var þetta geggjaður pistill hjá mér, hugsaði ég. Í dópamínrússí með dass af serótóníni og oxýtósíni og skyndilega var ég mættur í viðtal til einhvers, segjum bara hjá Agli Helga, þar sem við vorum að tala um mig. Og ekkert annað. Ég var einn í þættinum. Til umfjöllunar var ég. Ég og þær aðferðir sem ég styðst við þegar ég sest niður og skrifa útvarpspistil:

„Þetta var sá eini sem ég þurfti að skrifa í sumar,“ sagði ég og kveikti mér í sígarettu í beinni. Af því að ég er svo mikill cynic guru. Austfirskur Díogenes. „Hinir voru skrifaðir af fagmanni. En þessi eini þarna, um veiðigjöldin, hann kom frá hjartanu.“

„Núnú,“ sagði Egill. „Segðu frá.“

„Já, takk. Enda var ég fyrir áhrifum frá þér. Hefði ekki getað skrifað þetta nema vegna pistlanna sem þú skrifaðir á Strikið í gamla daga.“

„Í alvöru? Merkilegt. Takk.“

„Nei, þakka þér.“

„Takk en við skulum ekki láta þetta snúast um mig. Haltu áfram.“

„Ég reyni líka að vera leikrænn í lestrinum. Gef mig allan í þetta.“

„Það heyrist, Jón. Það heyrist.“

„Takk. En svo er það alltaf lang besti mælikvarðinn á gæði pistla ef maður fer á bömmer þegar búið er að útvarpa þeim. Þá hefur maður tekið áhættu. Það tekur enginn áhættu í dag. Það vantar allt rokk og ról í þetta.“

„Einmitt. Ég skil hvað þú átt við. Vel orðað,“ sagði Egill og pírði augun eins og hann gerir stundum.

„Þegar ég var ritstjóri Austurgluggans tók ég áhættu í hverju blaði.“

„Blaðið varð aldrei betra. Hvorki fyrr né síðar. Bransinn hefur ekki gleymt þessu. Við tókum alveg eftir ykkur hér fyrir sunnan,“ endurtók hann.

„Takk en við vorum semsagt með það sem markmið að í hverju tölublaði þyrfti að vera allavega einn pistill eða ein frétt sem væri algerlega „outrageous“. Eitthvað sem gæti stuðað eða hneykslað. Já, og náttúrulega glatt. Okkur tókst alltaf best upp ef við vorum að skrifa um eitthvað mjög lókal. Eitthvað sem flestum þætti smávægilegt. Við skrifuðum t.d. einu sinni frétt upp úr samtali Helga við Jón Lofts, skógræktarstjóra, sem hann átti við hann út á bílastæði fyrir utan ríkið á Egilsstöðum. Pældu í því! Bara út á bílastæði! Jón var að fjargviðrast yfir því hvað súpukjötið í kaupfélaginu væri feitt og þar með var komin frétt með fyrirsögninni:

„Skógræktarstjóri ríkisins ósáttur við feita kjetið í kaupfélaginu.“

Svo skrifuðum við fréttir um deilur norðfirks veitingamanns við kvenfélagið á Reyðarfirði. Breyttum því í hasarfrétt um hrepparíg. Svo skrifaði Björgvin Valur frétt um fanga á skilorði sem opnaði verslun á Stöðvarfirði og við römmuðum fréttina inn þannig að þetta væri eini frumkvöðullinn í bænum í háa herrans tíð. Ég gat ekki sofið á nóttinni daginn fyrir útgáfudag þegar svona fréttir voru í blaðinu. Ég var spenntur því mér fannst gaman að hneyksla fólk en ég var líka kvíðinn því mér fannst ég vera orðinn stjórnlaus. Að ég réði ekki við sjálfan mig. Svona svipað eins og ég er að gera núna. Skrifa ímyndað samtal við þig, Egill Helgason, því mér finnst það virka sem lýsandi dæmi um innra líf mitt þegar egóið er í botni.“

„Merkilegt. Þvílík sjálfsvitund. Þetta er hérumbil óhugnarlegt en ég meina það nú vel. Þú ert greinilega gæddur snilligáfu.“ 

„Takk. Og þannig var þessi veiðigjaldapistill. Ég lagði allt í sölurnar. Hitt var bara fagmennska. Textagerð.“

„Ótrúlegt.“

„Ég veit.“

Ég hitti nokkra í túrnum. Hitti Karitas í bakaríinu. Hún var með krakkana og spurði okkur út í dvölina. Fannst þetta spennandi og við hvöttum hana til að koma með fjölskylduna til okkar. Krakkaranir hefðu gaman af að hitta þau. Börnin mín eru orðnir sérfræðingar í Vöðlavík og gætu sýnt nýjum börnum flotta takta. Þau hafa stundum verið eins og fiskar á þurru landi hérna, lömuð af aðgerðaleysi, þannig að það væri sennilega bara fínt að fá önnur börn í Víkina. Þá gætu þau líka skákað í skjóli reynslu. Verið reynslubúnt og sýnt öðrum börnum hvernig hlutirnir virka hér í Víkinni. Já, ég nánast bað Karitas að koma með Aron og börnin í Vöðlavík. Vona að ég hafi ekki hljómað of needy. Held samt að ég hafi gert það.  

Ég sá Magga tilsýndar á bílastæðinu við Krónuna. Hann var að fara á mótorhjólið sitt og tók ekki eftir mér. Mig langaði til að heilsa upp á hann en Elías var með mér og ég vissi að ef ég myndi byrja að spjalla myndum við spjalla í korter og ég ætlaði ekki að vera svona lengi frá Vöðlavík. Var í Vöðlavíkurham. Vildi ekki fara í minn hversdagslega ham.

Mér er hlýtt til Magga og mig dauðlangði til að kasta á hann kveðju en ég gerði það ekki. Ég var strax byrjaður að sjá eftir því.

Maggi, Maggi, Maggi. Hann reyndist manni nú stundum erfiður í Stúkunni í gamla, hugsaði ég.

„Hvað segirðu gott, Maggi,“ sagði maður kannski og ætlaði að skála við hann á barnum.

„Hvað segi ég gott?“ sagði hann þá, ekkert nema önugheitin. „Hvað áttu við? „Hvað segi ég gott?“ hermdi hann eftir manni nema hvað hann var auðvitað ekkert að herma eftir manni. Hann var bara að láta mann hljóma eins og maður væri hálfviti.

„Æi, Maggi, láttu ekki svona,“ sagði maður þá og þá hermdi hann eftir manni aftur: „Æi, Maggi, láttu ekki svona.“ Gerði sig rangeygan og þá sagði maður:

„Magnús, er ekki allt í lagi með þig?“

Og þá róaðist þetta nú hægt og rólega og við gátum farið að tala um eitthvað sem skipti máli. Um trommuleikara stundum en Maggi var meira en liðtækur á trommunum í gamla daga.

En svona breyttist Stúkan í Egilsbúð alltaf í borðsal í einhverju skipi út á rúmsjó eftir klukkan eitt nítjánhundruðníutíuogeitthvað. Fíflafley. 

Mér líkaði bara vel við Magga þrátt fyrir alla hans augljósu galla. Ég var ekki gallalaus sjálfur. Bara öðruvísi gallaður.  

Og svo tuðaði hann ekki eins og aðrir tuðuðu í Stúkunni. Það var eitthvað leikrænt við þetta tuð. Einhver írónía. Það var líf og hrynjandi í þessu hjá honum. Eitthvað paunk. Hann var ekki tuðari, beinlínis. Hann var stuðari. Svona svo ég gerist sniðugur einu sinni og rími.

Eníveis. Ég hafði ekki tíma til að spjalla við Magga þótt mig langaði til þess. Ég þurfti að versla.

Sjáumst síðar, Maggi minn.

Sá mann við grænmetið sem lamdi mig í frímínútum í öðrum eða þriðja bekk. Hann var með kúl gleraugu sem gerðu hann svolítið skrifstofulegan. Snyrtilega klæddur og hér um bil allt í hans fasi benti til þess að hann hefði einhvern tímann farið í sjálfsvinnu. Mögulega gluggað í einhverja niðursoðna stóuspeki á milli þess sem hann hefur legið í AA-bókinni. Kannski býr hann um rúmið sitt á hverjum degi. Segir við konuna að það sé til marks um sjálfsaga og sjálfsstjórn. Gleymi hann því er næsta víst að hann verður dottinn í það fyrir kaffi.

Hann sagði „hæhæ“ þegar ég fór að fletta í appelsínum við hliðina á honum og það kom mér svo skemmtilega á óvart að ég kom engu upp úr mér fyrr en ég var hættur í appelsínunum og farinn að fletta í avokadóinu. Þá sagði ég eitthvað sem hljómaði örugglega eins og eitthvað rugl. Mikið var þetta hallærislegt, hugsaði ég. Eitthvað í honum hefur örugglega langað til að lemja mig aftur. Maður getur aldrei almennilega grafið barnið í sér sérstaklega ef sársauki er til staðar. Það lúrir þarna, barnið, eins og opið svöðusár, á sálinni. Já, ég meina það. Á sálinni. Og það þarf bara rétt að reka sig utan í svo barnið rumski. Jú, hann hefur örugglega langað að elta mig ofan í gil, króa mig af og hóta mér lífláti fyrir einhvern andskotann. Minnir að á sínum tíma hafi hann sagt að ég væri kattamorðingi. Það voru nú ýkjur. Ef ekki helber lygi. Það eina sem ég hafði gert var að setja kött nágrannans í plastpoka með Sambandsmerkinu. Ég veit ekki af hverju ég gerði það. Sennilega af sömu ástæðu og Elías ætlaði í vatnsblöðrustríð með vinum sínum inni í stofu hjá okkur í síðustu viku. Það meikaði náttúrulega engan sens. Ekki frekar en það meikar sens að setja kött í plastpoka. Ég hef alltaf elskað ketti. Mig langaði bara að setja þennan kött í poka. Það var allt og sumt. En einhver hafði séð til mín og þetta fréttist auðvitað. Að sonur Ása og Hildar væri dýraníðingur. Því fór sem fór. Hann kaffærði mig í snjó í frímínútum og henti mér niður skólabrekkuna. Og þar með var það mál úr sögunni. Minnir mig. Hef samt alltaf verið pínu smeykur við hann og þess vegna nýtur hann nafnleyndar í þessari frásögn.

Og til að toppa þetta sá ég Tedda Alfreðs og Þór eða Þröst, þekki þá aldrei í sundur, mestu gangstera skólalóðarinnar í Nesskóla á níunda áratugnum að spjalla saman fyrir framan mjólkurkælinn. Kumpánlegir og hressir og Teddi kinkaði meira að segja kolli til mín. Ég gleypti með húð og hári fjörutíu ára gamla skelfingu og sagði:

„Komdu blessaður.“

Þetta augnablik lifði í innan við einn tíunda úr sekúndu: Ég þekkti töffara á skólalóðinni. Hann sagði: Komdu sæll og blessaður.

Eins og í Stuðmannalaginu.

En núna vildi ég drífa þetta af. Ég mátti ekki vera að þessu. Yrði að drífa af þessi innkaup og fara aftur í Vöðlavík. Ég var enn í Vöðlavíkurham, algerlega ofnæmur eftir fimm daga dvöl í óbyggðum. Þoldi þetta ekki. Ég var ekki tilbúinn fyrir allt þetta áreiti. Tók allt inn. Eins og svampur. Eins og ég væri átta ára. Opinn upp á gátt á allskyns orku og víbra úr fortíð, nútíð og framtíð.

Ég henti mjólkurvörum í körfuna (svo við fengjum prótín en það kláraðist strax á laugardaginn), ávöxtum og grænmeti. Esther sagði mér að kaupa „ferskvörur“ og núna veit ég af hverju það skiptir máli. Í fyrra keypti ég alltof mikið af ferskvörum af því ég reiknaði bara með því að þær myndu lifa að eilífu sem þær gerðu ekki. Allt nema eplin það er að segja. Pink Lady deyr aldrei og í hvert sinn sem ég fæ mér bita af sífersku Pink Lady hugsa ég:

„Af hverju byrjar þú ekki bara að reykja vindla aftur?“ Þeir eru allavega í alvörunni lífrænir.

Ég keypti slatta af nammi. Tvö box af einhverju sem kallast Rísbitar en ég kalla Lindu-buff og mun alltaf gera. Þetta er ekki uppáhaldsnammið mitt en þetta er eitthvað gúmmulaði sem við getum sameinast um í fjölskyldunni. Uppáhaldssúkkulaðið mitt er Kaffisúkkulaði frá Lindu og ég henti einum „three pack“ í körfuna. Ég tæki þetta framhjá vigt, utan kvóta. Þetta færi í handtöskuna mína án þess að nokkur fengi að vita. Svo ætlaði í minn síðasta göngutúr í Vöðlavík í fyrramálið, æja við einhvern foss í ánni og éta þau öll, hvert á fætur öðru. Graðga er rétta orðið. Svo kæmi ég heim í skálann og fengi minn skammt af Rísbuffinu. Djöfull get ég verið lúmskur andskoti. Svo hefst bara megrun á laugardag.

Keypti harðfisk og íslenskt smjör. Prótín og fita sem börnin elska. Keypti rútur af gosi, Oreokex og grillkjöt. Kartöflusalat, hrásalat, grillsósur. Það yrði sukkað hressilega þetta síðasta kvöld í Vöðlavík. Væri ég enn í bjórnum hefði ég keypt rútu af Thule eða Hollandia eða einhverju svona sulli. Drukkið allt sjálfur, farið með síðustu fjóra bjórana upp í fjall og svolgrað þeim í mig við efsta foss.   

Við renndum framhjá húsinu okkar áður en við fórum frá Rey. Leigðum það einhverjum amerískum ferðamönnum. Það var enginn heima. Höfum gert þetta nokkrum sinnum og tökum aldrei eftir því að nokkur hafi verið í húsinu. Sumum finnst við full glannaleg að leigja ókunnugum húsið okkar en fuck that shit. Langflestir – og þá meina á jörðinni – eru bara helvíti fínir og fullkomlega treystandi. Við notum hinsvegar þetta agnarbrot af siðleysingjum, sem búa með okkur hinum á jörðinni, sem innblástur í endalausar fréttir, bíómyndir og bækur. Þess vegna erum við alltaf svona hrædd. Minn fimm aur í tíðarandagreiningu. Í huganum er ég byrjaður að byggja upp útvarpspistil. Með byrjun, miðju og endi.

Djöfulsins.

Fagmaður.

Er.

Ég.

„Jón, ætluðum við ekki í sund?“ heyrði ég allt í einu sagt en ég var ekki byrjaður að hægja á mér við beygjuna.

„Jú, alveg rétt,“ sagði ég og tók snögga beygju til vinstri og ég heyrði hamingju- og spennuhlátur aftur í því börn á öllum aldri elska snöggar beygjur.

Það voru eintómir erlendir túristar í sundi og ég talaði ekki við neinn í pottinum. Vil ekki vera trufla þá með „how do you like Iceland-spurningunni“ sem er eina spurningin sem mér dettur í hug þegar ég sit í heitum potti með útlendingum. Þetta voru Englendingar þannig að ég hefði nú kannski geta talað um eitthvað vitrænt við þá – hafandi verið búsettur í Englandi í eitt ár – en ég bara nennti því ekki.

Synti nokkra metra, fór í gufu og kalt bað til skiptis. Örugglega tíu sinnum. Í eitt skiptið voru eskfirsk hjón á besta aldri í klefanum sem sögðu mér að passa mig á bleytunni á gólfinu.

„Þetta er stórhættulegt,“ sagði karlinn.

„Alveg stórhættulegt,“ tók konan undir.

„Já, nákvæmlega,“ sagði ég. „Þetta er ekki gott.“

„Ég lét krakkana í afgreiðslunni vita og veistu hvað þau sögðu?“ sagði karlinn.

„Nei,“ sagði ég í spurnartón sem var auðvitað ekkert nema sýndarmennskan. Mér var svo fullkomlega drullusama um þetta. Mér fannst þessi bleyta ekkert hættuleg en hún er það kannski ef maður er á áttræðisaldri og stirður. En ég er bara fjörutíu og níu ára og hef aldrei – ALDREI – verið í jafn ógeðslega sexí.

„Nei, hvað sögðu krakkarnir í afgreiðslunni?“

„Þau sögðust ætla að láta vita!“

„Láta vita?“ Aftur í spurnartón sem aftur var auðvitað fullkomin sýndarmennska því auðvitað vissi ég hvert var verið að fara með þessu rausi.

„Já, þau sögðust ætla að láta vita!“ sagði karlinn. „Af hverju moppa þau ekki bara gufuklefann sjálf?! Af hverju þarf alltaf einhver annar að gera hlutina!“

Konan hnussaði manni sínum til samlætis.

„Nei, hættu nú alveg,“ heyrði ég mig segja. „Jæja, best að skella sér í kalda karið.“ Til að þóknast þeim þóttist ég passa mig alveg sérstaklega á bleytunni á gólfinu, svo ég myndi nú ekki detta og lærbrjóta mig. Breytti göngulaginu mínu, bara fyrir fyrir þessi gömlu brýni frá Eskifirði. Ef þau voru þá frá Eskifirði. Veit auðvitað ekkert um það. Þau virkuðu bara heimarík. Eins og þau ættu helvítis sundlaugina með gufuklefanum og öllu. Hljóta því að vera heimamenn. Eða fastagestir frá Reyðarfirði. Held samt ekki. Ég er farinn að þekkja flesta Reyðfirðinga þótt ég tengi ekki endilega saman nöfn og andlit. 

Þú hugsar ekki um neitt í kalda karinu. Þess vegna ánetjast fólk kalda karinu. Þú færð loksins hvíld frá þessu eilífa tuði í kalda karinu. Tuðinu að innan og tuðinu að utan. Hugsar ekki um verki í kalda karinu. Hugsar ekki um kvíða í kalda karinu. Þú saknar einskis í kalda karinu.

Sat þarna í örugglega tvær mínútur en eins og alltaf þegar ég sit í kalda karinu í meira en þrjátíu sekúndur fór ég að hugsa um Guðlaug Friðþórsson, sundkappa. Ég held að karlmenn á mínum aldri séu forritaðir til að hugsa um hann þegar þeir sitja köldu kari lengur en þeir eru vanir. Og þeir hugsa allir það sama: Hvað hefðu þeir meikað langt sund í íslenskum sjó að vetri? Þeir hafa örugglega tilhneigingu – sitjandi í kalda karinu – til að halda að þeir hefðu meikað nokkra kílómetra. Kannski ekki sex en kannski tvo eða þrjá. 

Ég kleip í síðuspikið. Það hefur aukist síðustu mánuði. Fjórir kílómetrar, hugsaði ég. Ég myndi treysta mér að synda fjóra. 

Egóið getur greinilega farið í hæstu hæðir í kalda karinu.

 

jonknutur