Kl. 6:00
Kuldalegt úti og lágskýjað. Rigndi í nótt og það blæs að austan. Eða ég held það. Miði ég við fánann sem ég er nýbúinn að draga við hún. Hann teygir sig útbreiddur inneftir. Samt er einhvern veginn ómögulegt að segja til um vindáttir í þessum fjörðum og víkum fyrir austan. Veðrið kastast á milli fjalla og ómögulegt að segja hvaða átt sé ríkjandi í raun og veru. Hvaða átt sé í háloftunum.
Ég er nýsestur. Skrapp upp í fjall með Hnotu um klukkan fimm og gekk upp með ánni. Leiðin stikuð af Einari Sveinsbjörns, veðurfræðingi, í fyrrasumar. Hann hafði verið vikuna á undan okkur. Skildi eftir minnisblað þar sem hann listaði upp allt sem hann hafði gert, varaði okkur við litlu rennsli í klósettinu og óskaði okkur góðs gengis. Ég var byrjaður að reita lúpínu stuttu síðar. Ætlaði að vera jafn duglegur og Einar.
Ég kallaði á Hnotu áðan. Ég var annars hugar og nafnið sem ég heyrði mig hrópa var ekki Hnota heldur „Pétur“!
Mér fannst það fyndið og hló upphátt.
…
Ég er enn með hugann við sumt af því sem ég skrifaði gærkvöldi enda skrifaði ég fram yfir miðnætti og ég er meira en hálfnaður með minnisbókina. Hef skrifað meira á fjórum dögum en ég hef gert síðustu fjóra/fimm mánuði. Mig langar til að segja að ég sé feginn því mér hefur fundist upp á síðkastið eins og ég hafi voðalega lítið að segja. Staðreyndin er samt sú að mér er eiginlega alveg sama og tel mig vita núorðið að hverfi þörfin til að skrifa þá er ekkert við því að gera. Þá geri ég bara eitthvað annað. Æfi fyrir maraþon eða eitthvað þvíumlíkt.
Ég veit að það er mjög óþroskað að tala svona, kæra dagbók, en sem betur fer hef ég þroskast aðeins. Eða æðruleysið hlýtur að benda til þess. Tjáningarþörfin, hún kemur og fer.
En það koma engin ljóð. Það er staðreynd. Hef ekki ort ljóð í marga mánuði. Þessi dagbók er það ærlegasta sem ég hef skrifað lengi. Ekki mjög falleg „textagerð“ kannski, svo ég beiti fagmáli, en þetta kemur þó frá hjartanu.
…
„Hvernig viltu láta titla þig,“ spurði pródúsentinn í Kiljunni í vor.
„Ég veit það ekki,“ sagði ég. Mig langaði til að vera fyndinn og biðja hana um að kalla mig „skrifstofumann á Reyðarfirði“ en sleppti því á síðustu stundu.
„Viltu að ég titli þig sem ljóðskáld?“
„Já, ætli það ekki bara.“
„Ertu búinn að gefa út margar ljóðabækur?“
„Tvær,“ sagði ég, „og mér var boðið í þáttinn til að tala um þær.“
„Ókei þá,“ sagði hún en mér fannst hún hálf efins. Sem var sennilega bara ég að vera ég. Fullur af komplexum. Skrýtið spjall, hugsaði ég samt. Hvers vegna ætti ég að vera kallaður eitthvað annað en ljóðskáld þegar ég mæti viðtal í Kiljuna til að tala um ljóðabækur sem ég skrifaði og við hjónin gáfum út?
Ég þurfti að HAM-a mig áður en upptakan hófst. Talaði sjálfan mig til:
„Þú ert ljóðskáld. Þú ert ljóðskáld. Þú ert ljóðskáld. Þú ert tungl í nærbuxum. Þú ert ljóðskáld“
„Ertu tilbúinn?“ spurði þáttastjórnandinn Egill.
Ég kinkaði kolli. Hafði umbreytt mér í ljóðskáld með hugrænni atferlismeðferð.
„Hingað er kominn Jón Knútur Ásmundsson, alla leið að austan. Hann segist vera ljóðskáld og …,“ heyrðist mér hann segja.
…
En maður er bara það sem maður gerir, eins og Purrkur sagði. Og núna yrki ég ekki. Hef ekki ort í marga mánuði og hef enga löngun til að skrifa einhverjar svona settlegar ljóðlínur. Ég vil bara kasta upp. Æla. Engin miskunn. Sýndu fólki hvað þú ert ógeðslega vain og fullur af komplexum. Út með þetta! Út með þetta allt saman! Út! Út! Út! Það er eina leiðin. Amor fati! Áfram með þig!
Og núna hugsa ég um leikaraskap. Mér líður ekki kjánalega þótt einhver kalli mig skáld. Það er stundum gert í alvöru en oftar í djóki. „Og hvað segir skáldið svo gott í dag? Einhverjar rímur að fæðast?“ Hohoho.
I don’t give a fuck, eins og sagt er, en ég kynni mig ekki sem skáld nema ég standi fyrir framan hóp fólki og sé um það bil að fara lesa ljóð sem eru sannarlega mín. Lagði vinnu í þau. Bókstaflega svitnaði og fékk niðurgang við skrifin og endurskrifin. Ærðist af kvíða, af yfirgripsmikilli vantrú á sjálfum mér. Hver í andskotanum þykistu vera? Hvaða helvítis erindi átt þú upp á dekk?! Miðaldra karl utan af landi? Hverjum er ekki sama um þig og þína reynslu? Þinn tími er liðinn! Öllum er sama! Fökkaðu þér! Farðu aftur í sjónvarpshellinn þinn, drullusokkurinn þinn! Eða í Dressmann! Og drullastu inn í kjörklefann, læstu að þér, hentu lyklinum og settu x-ið við M-ið eins og þið gerið allir! Fökk, fökk, fökk! Í dag viljum við lesa ljóðabækur eftir flóttafólk, transfólk, homma og lesbíur! Og horað fólk úr hundrað og einum! Áhugavert fólk! Og þú ert ekki áhugaverður! Snáfaðu heim til þín í tvöhundruð og tuttugu fermetra einbýlishúsið þitt!
Að komast sæmilega heill í gegnum svona niðurrifstal hlýtur að veita manni ákveðin réttindi. Eins og t.d. að kalla sig skáld þegar tilefnið býður upp á það.
…
En núna yrki ég ekki og það sem furðulegra er að núna eru engar alvarlegar niðurrifshugsanir í gangi. Nema þær sem tengjast botnlausri vankunnáttu í skálavörslu en ég tek þær nú bara svona hæfilega alvarlega enda hefur skálavarslan ekkert með sjálfsmynd mína að gera.
Kannski er ég kominn yfir þetta? Kannski er ég að verða fullorðinn?
O, ætli það, Johnny boy. Enn dreymir þig um að einhver útgefandinn hafi samband og gefi þig út, segi þér að þú sért „falin landsbyggðarperla“, óuppgötvaður útnárahöfundur, og þá fyrst máttu kalla þig rithöfund eða skáld. Og mögulega bara „útkjálkaskáld“ eða eitthvað álíka. Þangað til ertu sjálfsútgefinn amatör. Skrifstofumaður á Reyðarfirði sem skrifar í frístundum. Landsbyggðin er full af svona köllum eins og þér, veistu það ekki? Menn sem skrifa. Fyrst í laumi en svo sýna þeir konunni sinni og hún var yfir sig hrifinn, ekki satt? Því hún átti ekki von á þessu frá þér. Þú sem virtist ekki hafa áhuga á neinu nema á Downtown Abbey, indverskri eldamennku og Steely Dan. Gafst út indíhljómplötu með vinum þínum sem þig hafði dreymt um að gera í þrjátíu og fimm ár. Svo átakanlegt! Svo aumkunarvert! Svo ömurlegt! En fyrst og fremst bara eitthvað svo, eitthvað svo, eitthvað svo, sorglegt!
Nei, elsku dagbók, þú veist ekki hvað minnimáttarkennd er fyrr en almættið hefur breytt þér í hálfdrættings listaspíru út á landi. Ég hef sent handritin mín á útgefendur. Þeir sem svara bjóða upp á kurteisislega höfnun og þá er ég feginn að vera ekki tuttugu og fimm ára. Bara fimmtugur karl, byrjaður að grána, tíu kílóum of þungur, herðabreiður og stórbeinóttur, í skóstærð 47-48 eða sumsé, ekki beinlínis skáldlega vaxinn. Hef engu að tapa lengur. Nema kannski kúlinu og andlitinu stöku sinnum en ég veit ekki einu sinni hvort ég kann lengur að skammast mín almennilega. Ekki til fulls. Ekki þannig að ég verði eldrauður í framan og sveittur á enninu. Það vantar orðið alla ákefð í skömmina mína. Hún er orðin svo settleg. Orðin sífellt íronískari í seinni tíð. Póstmódernísk skömm? Ætli einhver hafi skrifað um hana?
Er þetta afleiðingin af því að afhjúpa sig? Eru þetta launin?
Frelsi.
Það skyldi þó ekki vera.
Segirðu núna.
Það kemur kannski í ljós á næsta þorrablóti. Þessi dagbókarskrif eru toppefni fyrir annálinn.