21:30
Kominn í trússarahúsið. Setti Hnotu yfir í Karlsskála. Hún hrýtur orðið svo hátt, hærra en ég segir Esther, og okkur líst eiginlega ekki orðið á blikuna. Meira vesenið á þessum hundum alltaf hreint.
Er einn, krakkarnir hjá mömmu sinni. Voru að skrifa nöfnin á vinunum sínum niður á blað. Einskonar „þakklætisdagbók“ eins og er í tísku að halda. Ég ætti kannski gera það líka en mér virðist auðveldara að halda svona „vanþakklætisdagbók“ eins og ég geri þessa dagana. Iðunn fyllti heilt blað, skilyrðin fyrir vinskap ekkert mjög ströng, en Elías var bara með nokkur nöfn á listanum sínum. Hann virtist pínu skúffaður og þetta snerti aðeins við mér. Það er svo dapurlegt að eiga fáa vini. Ég asnaðist til að fara „leiðrétta“ hann, segja honum að hinn eða þessi væru nú líka vinir hans og svo ætti hann aukinheldur nokkrar vinkonur. Hann mætti ekki gleyma því.
En hann er bara einmana. Saknar vina. Það tekur á að vera í Vöðlavík. Tíminn svo lengi að líða, svo margar klukkustundir sem þarf að fylla. Það þarf að liggja fyrir „aðgerðaráætlun“, eins og vér embættismenn segjum. Við þyrftum kannski að undirbúa þau betur næst þ.e. ef það verður næst. Kannski fæ ég ekki að verða skálavörður aftur út af þessum dagbókarskrifum. Ég skrifa svo lítið um húsverkin. Skrifa bara um hugsanir. Um hugsanir sem fjalla um hugsanir. Hvaða gagn er af svona hugsuði í skálagæslu ef eitthvað kæmi upp á?
En ég geri samt hitt og þetta. Held húsinu hreinu, tala við gesti, segi þeim til eftir bestu getur og svo framvegis. Mér finnst þetta bara ekki í frásögur færandi. Kannski vegna þess að ég er liðtækur og rúmlega það í heimilisverkunum. Kann að elda mat. Kann að þrífa klósett. Kann að skrúbba og skúra. Þessi verk eru mér ekki framandi og stundum stend ég mig að því að öfunda karla á mínum aldri sem hafa aldrei þeytt rjóma. Karlana sem neituðu að skipta um bleiur því það vó að karlmennsku þeirra. Þá hefði ég kannski getað skrifað um hversdagslífið af einhverri ástríðu. Allavega af nákvæmni.
Það eru aðrir hlutir sem koma mér í opna skjöldu. Úrið segir mér að hvíldarpúlsinn sé kringum sextíu og sex að jafnaði. Nokkuð gott hefði ég haldið. Horfi ég á línuritið sé ég smá topp í morgun. Þá stressaðist ég aðeins upp því tetrastöðin í skálanum fór að blikka og ljósið var rautt. Það veit auðvitað aldrei á gott. Vakti hjá mér ugg, ef svo mætti segja, því ég kann ekkert á svona græjur og þótt líkurnar séu hverfandi þá getur auðvitað komið upp sú staða hér í einskismannslandi að það þurfi að ná sambandi við umheiminn án tafar. Það gæti komið ísbjörn, ekki satt? Kæra dagbók?
Ég prófaði að ýta á einhverja takka, kveikti og slökkti en það breytti engu. Þetta var ekki alveg nógu gott, hugsaði ég, og velti fyrir mér hvort ég ætti að láta vita af þessu. Ákvað að sjá til og gefa þessu séns á að reddast af sjálfu sér. Reynslan hefur kennt mér að stundum er eins og græjur lækni sig sjálfar. Eina sem maður þarf að gera er að gleyma þeim, hætta að veita þeim athygli og vandamálið hverfur af sjálfu sér.
…
Í gærkvöldi komu nokkrir hreindýrakarlar í heimsókn. Snorri mágur minn og nokkrir félagar hans. Þeir voru á sexhjóli, með allar græjur, hátæknisjónauka og ég veit hvað og hvað. Höfðu litið við fyrr um daginn, horft á fjallið, kortlagt atlöguna og svo fóru þeir á stjá. Komu svo aftur þegar við vorum nýbúin að þrífa eftir kvöldmatinn. Gáfum þeim kaffi og spjölluðum við þá frameftir kvöldi. Með þeim var leiðsögumaður sem Esther sagði mér, eftir að þeir voru farnir, að væri sonur Magnúsar Stef ljóðaútgefanda á Fásk. Það fannst mér áhugavert, einhverra hluta vegna.
Þetta var soldið fyndið. Ég hafði ekki þessar upplýsingar á meðan ég var að spjalla við hann og ein furðuleg hugsun hvarflaði að mér á meðan hann var hjá okkur: Mér fannst eins og hann beindi öllum spurningum sínum að Esther, leitaði eftir augnkontakti við hana. Og já, ég var örlítið hissa. Ekki hvumsa, alls ekki, en pínu hissa því ég hef tekið eftir því að gestirnir okkar beina yfirleitt öllum spurningum að mér, einkum og sér í lagi ef þær snúast um praktíska hluti, hvort það sé hægt að komast yfir ánna, hvernig veðurspáin sé o.s.frv. Vegna kyns er reiknað með að ég sé „yfirskálavörður“ og að Esther sé trygglynd eiginkona yfirskálavarðar. Eða eitthvað svoleiðis. En Frosti beindi máli sínu til hennar og á meðan var minn innri díalógur einhvern veginn svona:
„Hann sér í gegnum mig. Hann skynjar matríarkíuna á Karlsstöðum í Vöðlavík.“
En svo ávarpaði Esther hann með nafni og þá skildi ég að þau þekktust. Hann hlaut að vera Fáskrúðsfirðingur. Varla gamall skólabróðir því hann hlaut að vera talsvert eldri en konan mín en þó veit maður aldrei nú til dags með aldur. Aldur flestra á reiki þegar allir kaupa fötin sín í Dressman og H&M. Þetta er ekki eins og áður fyrr þegar menn skiptu yfir í fataverslun Guðsteins eftir þrítugt og klæddu sig eftir aldri. Núna getur maður séð sjötuga karla í eins fötum og einhver tuttugu og fimm ára og ef ekki væri fyrir gráa hárið og hrukkurnar (og Parkinson-skjálftann) væri auðvelt að fara í aldursvillt.
Hvað um það. Hann beindi orðum sínum að Esther vegna fyrri kynna. Þau voru sveitungar einsog ég komst að eftir að þeir voru farnir. Það er ástæðan fyrir því að ég skammast mín örlítið fyrir þessar hugsanir og einmitt þess vegna ætla ég að skrifa um þær hér, kæra dagbók. Ég er að nota þig eins og hugræna atferlismeðferð. Er þér sama?
Semsagt: Hvaða helvítis minnimáttarkennd er þetta alltaf hreint?
Ég veit að ég er með „imposter syndrome“ og það er náttúrulega eðlilegt. Ég er ekki skálavörður dags daglega. Ákvað bara að ganga inn í þetta hlutverk. Hefði alveg eins geta keypt mér hvítan slopp og þóst vera skurðlæknir.
En – hugsaði ég – af hverju ég á nálum en Esther svona kúl á því?
Af hverju tekur hún þessu ekki jafn alvarlega og ég?
Vegna þess að hún veit, hugsaði ég, að ábyrgðin liggur hjá mér, karlinum. Það reikna allir með að ég sé með allt á hreinu. Hún – konan – er stikkfrí og hún veit það. Ég snöggreiddist og ákvað að tala við hana við fyrsta tækifæri. Spyrja hana hvort hún ætlaði alltaf að vera einhver freerider hér í Vöðlavík og láta mig sjá um allt. Ætlaði hún bara að hlusta á hljóðbækur og prjóna í heila viku? Átti ég að sjá um rest? Plús eldamennsku og að hafa ofan af fyrir börnunum? Hvenær ætlaði hún að stökkva í hylinn? Af hverju getur hún ekki haldið gestum upp á snakki eins og ég geri? Ætlar hún bara að tala við gesti ef þeir eru sveitungar og ættingjar? Veit hún ekki hvað það útheimtir mikla orku fyrir intróvert eins og mig að tala við ókunnuga?
Allt í einu var ég farinn að gnísta tönnum en það veitti því enginn athygli. Þau voru að tala um einhverja andskotans Fáskrúðsfirðinga sem ég hafði aldrei hitt og aldrei heyrt talað um og ég hafði ekkert til málanna að leggja.
Ég afsakaði mig og fór yfir í skálann okkar og tók einn leik í Nintendo. Kom svo til baka talsvert skárri af gremjunni.
„Hvert fórstu?“ spurði Esther.
„Bara, hjó eldivið og svona,“ svaraði ég.
…
Seinna um kvöldið sagði Esther mér að Frosti væri sonur Magnúsar ljóðamanns og þetta varð kveikjan að síðasta spjalli dagsins.
Mér fannst þeir eins og svart og hvítt. Mér fannst það jafnvel þótt ég þekkti hvorugan mikið. Þetta voru yfirborðssamanburðarrannsóknir á feðgum en það er nú bara eins og það er. Við erum endalaust að fella dóma yfir fólki með afskaplega fábrotnum upplýsingum. Ég var að hitta Frosta í fyrsta sinn og svo þekki ég Magnús eingöngu sem ljóðamann. Kynntist honum fyrir tuttugu árum síðan þegar ég bað hann um að sjá um „vísnahornið“ í Austurglugganum, héraðsfréttablaðinu sem ég ritstýrði upp úr aldamótum. Hann tók verkefnið alvarlega og sendi mér engan leirburð eða klámfengnar vísur. Þetta var „hardcore“ stöff, mjög vandað og útpælt. Já og eiginlega of hátimbrað fyrir blaðið mitt. Blað sem ég hafði ákveðið að gera að fyrsta „tabloid“ blaði landsbyggðarinnar.
Magnús hefur verið mér mjög vinveittur og hrósað mér fyrir bækurnar mínar. Jafnvel fyrir framan annað fólk og þá hef ég gírast allur upp og þá endurgjaldað hrósið náttúrulega og hrósað Magnúsi í hástert fyrir bókaútgáfuna. Sem hann á auðvitað skilið en skjall kallar fram meira skjall. Það er bara lógískt.
Einn fyndinn útúrdúr áður en ég held áfram: Í fyrra bað Magnús mig um að sjá um ljóðahornið í austfirska átthagablaðinu Glettingi sem hann hefur tekið þátt í að ritstýra í nokkur ár. Ég sagði strax já. Sagði það mikinn heiður.
„Heiður?“ sagði Magnús þá í símann og ræskti sig. „Ég veit nú ekkert um það.“
Mér fannst þetta brilliant tilsvar. Hef haft þetta eftir honum hundrað sinnum, notað þetta til að gera mig fyndinn.
…
En ég spurði Esther út í Frosta um kvöldið, af hverju var hann ekki „kúlturbarn“, eins og sagt er, með hálsklút og allar græjur. Hún svaraði eftir bestu getu. Þekkti hann ekki persónulega, þekkti hann bara eins og Fáskrúðsfirðingur þekkir Fáskrúðsfirðing og Norðfirðingur þekkir Norðfirðing. Gaf honum toppmeðmæli og ég gerði það líka eftir þessi stuttu kynni.
Hann spurði mikið, var forvitinn um okkur (innan eðlilegra marka) og margþakkaði fyrir veitingarnar. Hann spurði mig hvers vegna ég drykki ekki kaffi á kvöldin sem reyndist fínt sprek á samræðubálið og allir tjáðu sig um kaffivenjur sínar. Frosti var alveg með þetta.
Ég þekki suma hreindýraleiðsögumenn sem eru hálfgerðir leikarar. Performa fyrir þetta lið sem kemur austur að skjóta hreindýr eða gæs. Bjóða upp „an authentic hunting experience“ þar sem þeir pósa sem svona „göfuga villimannatýpan“ sem við sjáum í annarri hverri íslenskri bíómynd, oftast leikin af Ingvari Sig. „An authentic hunting experience“ sem endar á ljósmynd af veiðimanni á hnjánum með fórnarlambinu, blóðrauðu og steindauðu. Fá hana svo senda í tölvupósti og þá búið að skala fyrir allar gerðir samfélagsmiðla.
Nei, Frosti var ekki sú týpa. Eða mér fannst ekki. Svaraði öllum mínum heimskulegu spurningum án þess að það vottaði fyrir hroka eða neinni þörf til að gera sig breiðan. Ég kann að meta það. Það virðist sem lögmál í mannlegum samskiptum að þeir sem hafa ekkert að sanna eru alltaf næs. Stjörnustælar og mannalæti plaga eingöngu þá sem eru fullir af efasemdum um sig. Þessu hef ég tekið eftir. Ekki bara hjá öðrum. Líka hjá sjálfum mér. Ég var einu sinni poppari í fjórðu deild og gat verið leiðinlegur við poppara í fimmtu deild en ekkert nema smeðjan þegar kom að poppurum í efri deildum.
Kræst, hræðilegt að hugsa um þetta. Man eftir sjálfum mér, blindfullum fyrir neðan Egilsbúð, að smjaðra fyrir Gumma Jóns í Sálinni (og ég þoli ekki Sálina hans Jóns míns!) eða, God forbid, Grétari Örvars í Stjórninni. Tíu mínútum síðar hreytti ég einhverjum ónotum í Jón Hafliða og Orra og þurfti svo að biðja þá afsökunar í þynnkunni.
Ég gæti ælt núna. Sem hlýtur að þýða að ég á einmitt að rifja þetta upp og skrifa um. Í smæstu smáatriðum.
Note to self!
…
Ég tók einn séns í samtalinu við hreindýrakallana og spurði hvort þetta væri ekki fyrir löngu orðið „ríkramannasport“ en mér fannst þeir allir taka undir það. Eða þeir sem voru að taka þátt í spjallinu gerðu það. Aðrir höfðu dregið sig í hlé og það heyrðust margfaldar hrotur berast úr herberginu við hlið borðsalarins. Þetta er dýrt sport, kostar nokkur hundruð þúsund krónur, allur pakkinn, og kostnaðurinn fljótur að hækka þegar menn þurfa að bíða þokuna af sér, drekkandi kaffi í Karlsskála, haldandi skálaverði upp á snakki.
„Það er lítið mál að láta svona túr nálgast milljónina,“ sagði einn þeirra sem ég hafði ekki náð nafninu á. Ég hlustaði á þá tala og dró mína eigin ályktun: Hið svokallaða „venjulega fólk“ gerir ráðstafanir. Það sameinast um eina skepnu og skiptir með sér kostnaði. En það breytir því ekki að þetta er enginn öreigamatur sem menn sækja hingað austur á land. Öreigarnir verða að gera sér að góðu grísahakk í frauðbakka á sérstöku tilboði í Bónus. Þetta er hvorki nýtt né frumlegt félagsfræðilegt innsæi en svona tekur misskipting á sig ýmsar myndir. Við getum ekki öll borðað hreindýrabollur.
Áður en félagarnir fóru spurði ég hvort þeir hefðu eitthvað vit á tetrastöðvum, að það væri rautt blikkandi ljós sem benti til þess að ekki væri allt með felldu. Ég lýg því ekki en þeir réttu allir upp hönd. Ég fékk Snorra til að skoða tækin með mér og hann prófaði að ýta á einhverja takka, að mér sýndist handahófskennt.
„Hvað ertu að gera?“ spurði ég.
„Ég veit það ekki,“ sagði hann. „Varstu búinn að prófa að kveikja og slökkva?“
„Já.“
„Ókei,“ sagði hann og tók kerfið úr sambandi. Stakk því svo aftur í samband og hálfri mínútu síðar var komið grænt ljós.
„Takk, Snorri minn.“
„Lítið.“