Dagbók frá Vöðlavík – 28072025, kl. sirka 17.

17:00 eða eitthvað.

Ég leit ekki á klukkuna þegar ég settist niður en það hefur verið gestkvæmt í dag. Hreindýrakallar. Þar á meðal Hreinn Sigmars, gamall kunningi og vinur vinar. Spjölluðum heillengi saman í skálanum en hann var þarna með hópi manna og Frosta leiðsögumanni sem Esther sagði mér að væri sonur Magnúsar ljóðamanns Stefánssonar á Fáskrúðsfirði. Voðalega fannst mér það merkilegar upplýsingar. Ég punktaði heilmargt niður eftir heimsóknina þeirra en ég verð að koma þessu frá mér með minningarathöfnina og haugsuguna.

Ég þarf að rifja upp laugardaginn 17. ágúst árið 2024 þegar Víkin fylltist af fólki.

Jóna hafði stoppað mig í Krónunni og spurt hvort við værum í alvörunni að fara gerast skálaverðir í Vöðlavík. Sagði að það væri sniðugt og að börnin myndu örugglega hafa gaman af að vera þarna. Hún sagði mér að hún og Siggi ætluðu einmitt að koma á laugardeginum vegna minningarathafnar um björgunarafrekin sem unnin voru þarna ’92 eða 3. Hún sá að ég kom af fjöllum og útskýrði fyrir mér hvað stæði til. Þetta var ekki alveg það sem ég hafði „signed up for“, eins og sagt er. Hugmyndin var fremur sú að þetta yrði tjaldútilega í húsi með öllum þægindum. Leið fyrir okkur Esther til að slá á samviskubitið gagnvart börnunum sem við höfum neitað um tjaldútilegu vegna þess að okkur finnst báðum óþægilegt að sofa í tjaldi. Þegar hún nefndi að Berglind og Sævar yrðu þarna að sjá um veitingar varð ég aðeins rólegri. Ég hvaddi Jónu og bað að heilsa Sigga. Spurði hvort hann væri enn að stunda köld böð. Hún sagði svo vera. Sagði að hann væri líka byrjaður að ganga í fjallinu í einhverskonar „tásuskóm“ sem eiga víst að auka ánægjuna af fjallgöngum. „Magnað,“ sagði ég og varð óvart litið á smokkarekkann í Krónunni. Þar voru einmitt til sölu örþunnir og latexfríir smokkar sem áttu líka að auka ánægju fólks. Í framhaldinu fór ég að hugsa um alla „filterarana“ sem við notum, eiginlega og óeiginlega, milli skynfæra og veruleika. Það getur ekki verið hollt fyrir okkur og var þá að hugsa um mannkynið í heild sinni.

Þegar ég sagði Esther frá þessu partíi virtist hún hafa þetta allt á tæru:

„Ég var búin að segja þér frá þessu,“ sagði hún. „Kamma lét okkur vita fyrir löngu.“

„Nú?“

„Já.“

„Varstu í alvörunni búin að segja mér frá þessu?“

„Já, að minnsta kosti tvisvar.“

„Sorrí, ég var búinn að gleyma þessu.“

„Jebb.“

Þetta „jebb“ sagði eftirfarandi: Ég, Esther Ösp, á ekki að þurfa að vera móðir þín, Jón Knútur. Viltu gera svo vel að fullorðnast og bera ábyrgð á lífi þínu.

Um tíuleytið á laugardagsmorgni stóðum við á pallinum við skálann, með Berglindi og móður hennar, og horfðum á strolluna keyra niður í Víkina. Bíll við bíl alla leiðina niður og ef þetta var ekki nægilega yfirþyrmandi þá birtist allt í einu þyrla sem flaug yfir hæðina og sveimaði yfir Víkinni nokkra hringi áður en hún lenti í nokkur hundruð metra fjarlægð frá Karlsskála. Yfir mig kom óraunveruleikatilfinning af þeirri tegund sem fólki tekst aldrei að lýsa öðruvísi en að aðstæðurnar séu eins og að vera staddur í einhverri bíómynd. Það var smá „Platoon“ fílingur í þessum aðstæðum.

„Snúðu þér við,“ kallaði Esther í gegnum þyrlugnýinn og tók af mér mynd með símanum sínum. Ég brá á leik og fórnaði höndum sem segir mér núna, kæra dagbók, að ég hafði að minnsta smá húmor fyrir stöðunni.

„Við þurfum allavega ekki að hafa neinar áhyggjur af öryggi fólks,“ sagði Esther.

„Hvað áttu við?“ Var hún búin að gleyma því að við vorum skálaverðir? Að við bárum ábyrgð á þessari eign Ferðafélags Fjarðamanna í heila viku?

„Bara, það eru hundrað og fimmtíu björgunarsveitarmenn á staðnum, reiðubúnir til þjónustu.“

Ég hafði ekki áttað mig á þessu og varð barnslega kátur í fáeinar sekúndur. Ég hafði aldrei skipt jafn litlu máli og það var góð tilfinning sem entist því miður stutt því það var komið upp vesen í Vöðlavík. Ég hafði ekki enn nefnt það við Berglindi sem var í þann veginn að fara rigga upp veislu fyrir allt þetta fólk. Ég leit til hennar, hún hafði staðið þarna við hliðina á mér og horft á þyrluna lenda og þrátt fyrir að henni hafi fundist þetta tilkomumikið, það getur ekki annað verið, er það mér til efs að hún hafi verið stödd í Platoon eins og ég.

„Berglind,“ sagði ég þegar þyrlan var þögnuð. „We’ve got a problem.“ Sagði þetta á ensku, mögulega til að gera vandamálið aðeins léttvægara.

„Hmmm …?“ sagði hún, spyrjandi en fremur áhugalaus að mér fannst.

„Klósettin eru stífluð og hafa verið síðan við komum í fyrradag. Ég hef verið að sturta niður með því að bera vatn í fötum í þau en ástandið hefur eiginlega bara versnað. Það er nánast ekkert rennerí lengur og klósettskálarnar eru orðnar barmafullar af vatni. Og núna eru tvö hundruð manns að fara drekka fimmtíu lítra af kaffi eða eitthvað. Skilurðu mig?“

„Jájá, bíðum bara eftir Sævari. Hann hlýtur að kunna á þetta,“ sagði hún, fór inn og ég heyrði hana gefa syni sínum og móður skipanir.

Ég var ánægður með þetta svar. Bíðum bara eftir Sævari.

Ráðagott fólk. Landsbyggðin er full af þannig fólki. Ekki bara körlum. Það eru til ráðagóðar konur líka. Berglind er þannig kona. Marsibil á Dalatanga. Já, og Esther er þannig kona.

Og svo er Sævar þannig karl. Maður sem deyr ekki ráðalaus. Gæti bjargað sér á eyðieyju með vasahníf og einn faðm af snæri. Þannig gæti hann byggt sér hús með salerni sem þrátt fyrir að vera frumstætt væri með prýðilegu vatnsrenneríi. Við erum ágætlega málkunnungir, við Sævar, þótt ekki séum við beinlínis vinir eða félagar. Bróðir hans er giftur Jóhönnu frænku og þannig tengjast hlutirnir bara eins og allt tengist hér fyrir austan því þetta er einn andskotans rembihnútur sem hnýtir okkur öll saman hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan keyrði hann hljómsveitina mína á ball á Hornafjörð í kolvitlausu veðri og erfiðri færð. Síðustu kílómetrana ók hann með höfuðið út um gluggann svo hann sæi hvort við værum nokkuð að húrra niður Almannaskarð sem mögulega hefði þó verið eini séns þessarar hljómsveitar til að rata í fréttirnar. Mögulega heimsfréttirnar. Þannig hefðum við hlotið íslensku útgáfuna af rokkdauða Buddy Holly, Ritchie Valens og The Big Bopper. Hinn íslenski rokkdauði: Að leggja á fjöllin svo halda megi dansleik og gleðja fólkið en verða svo bara úti. Íslenskir popparar eiga ekki að drekka sig í hel, segi ég. Þeir eiga, með réttu, að frjósa í hel. Í einhverju skarði sem enginn hefur einu sinni nennt að gefa nafn.  

En þetta var ástæðulaus ótti. Sævar var með allt á hreinu, kom okkur á leiðarenda og svo héldum við vel sótt ball í Sindrabæ. Fremur óeftirminnilegt ef frá er talið morðtilræði sem okkur var veitt rétt fyrir hlé þegar einhver reyndi að henda öskubakka í Hálfdan, eða ég reikna með að hann hafi verið skotmarkið því auðvitað var ekki sá karlmaður í Sindrabæ sem ekki stóð ógn af okkar fjallmyndarlega söngvara. Dáni, svellkaldur, tók náttúrulega ekki eftir þessu, alltaf með lokuð augu í góðum fíling, en öskubakkinn hélt leið sinni áfram í átt að mér, saklausum trommaranum sem engum stóð ógn af. Ég kom mér fimlega undan án þess að missa slag og það eina sem glöggur ballgestur hefði heyrt var örlítil áherslutilfærsla í lokaversi Long Train Running.

Í hvert sinn sem ég hitti Sævar man ég eftir þessari ballferð. Sé hann fyrir mér úr aftursætinu, við félagarnir fölir í framan með hjartslátt er við fylgdumst með þessum ráðagóða Eskfirðingi keyra í gegnum hríðina og skafrenningin á sunnanverðum Austfjörðum, með aðra hönd á stýri og höfuðið útum gluggann – ósýnilegt í sortanum. Leit aftur í til okkar af og til, andlitið freðið, og huggaði okkur:

„Eru ekki bara allir slakir?“

Já, bíðum bara eftir Sævari. Djöfull var það góð hugmynd. Ég elti Berglindi inn í skálann og reyndi að hljóma afslappaður þegar ég spurði hvort það væri langt í hann.

„Hann kemur bara á eftir,“ sagði hún, soldið ónákvæm að mér fannst. „Athöfnin niðrá strönd verður aldrei styttri en tveir tímar.“

Hún hélt sér að verki. Smurði flatbrauð með hangikjöti fyrir stærsta partí Vöðlavíkur, hitaði kaffi og kakó. Stífluð klósett voru kannski bara minniháttar vandamál í hennar huga. Og kannski var þetta minniháttar vandamál, hugsaði ég, og fór yfir í skálavarðahúsið, heilsaði upp á börnin sem höfðu örugglega skynjað óróleikann í höfði föðursins og forðað sér inn. Ég teygði mig í kojuna hans Elíasar og náði í gamla Nintendo-tölvuspilið, hlammaði mér í hornstólinn og spilaði. Náði fullkomnum fókus og sló metið mitt frá því í ágúst 1988. Esther kom inn á eftir mér og settist niður og tók upp prjónana sína. Hún vissi af áhyggjum mínum og hafði áhyggjur af því hvað ég hafði miklar áhyggjur.

Þegar Sævar kom – loksins! – dró ég hann með mér inn á klósett en það vildi svo heppilega til að stór kúkur flaut í vatninu sem var næstum því komið á yfirfall. Heppilega segi ég því ég var viss um að þessi sjón yrði til þess að hann tæki málið föstum tökum.

„Ó, sjitt,“ sagði hann. Ég vissi ekki hvort hann var að grínast. Ég missi alltaf skopskynið í erfiðum aðstæðum. Kúkurinn haggaðist ekki. Flaut bara þarna, hreyfingarlaus, í hrópandi mótsögn við hamaganginn í Vöðlavík. Hamaganginn í hjarta mínu. Staðföst áminning um að þetta vandamál hyrfi ekki af sjálfu sér.

„Heyrðu, það er ekkert sem við getum gert í þessu núna,“ sagði hann eftir drjúga stund en mér fannst eins og við hefðum staðið þarna saman í tíu mínútur, Sævar horfandi á kúkinn og ég horfandi á Sævar.

„Rotþróin hlýtur bara að vera full.“

„En hvað eigum við að gera? Við getum ekki leyft fólki að nota klósettin er það?“

„Neinei, þú verður bara að banna fólki að kúka. Getur kannski leyft konunum að nota klósettið en sagt þeim hver staðan sé. Aðrir gera bara þarfir sínar upp í fjalli. Einfalt mál.“

„Roger,“ sagði ég og fór rakleitt til Estherar til að tilkynna henni niðurstöðuna, að ég myndi sjá um að vísa körlunum upp í fjall en að hún yrði að sjá um konur og börn.

„Fyrirgefðu,“ heyrði ég kallað á eftir mér. „Ert þú ekki skálavörðurinn?“

Ég sneri mér við. Þetta var einn af hreindýraköllunum sem hafði verið í húsinu síðan við komum.

„Jú,“ sagði ég en mig langaði til að svara neitandi og segjast vera eiginmaður skálavarðarins. Þetta var einn af þessum eldri í hópnum sem þó var örugglega yngri en ég. Þannig líður mér þegar ég hef ekki fullkomna stjórn á hlutunum. Þá finnst mér allir vera eldri, lífsreyndari og á allan hátt betri en ég.

„Sko,“ sagði hann og nuddaði hökuna, hugsi. Ég leit yfir öxl hans og sá að fólk var farið að streyma til okkar og tínast inn í skálann. Partíið var að byrja. „Ég vil ekki vera með smámunasemi,“ hélt hann áfram, „en þegar svona flottir gestir eru væntanlegir, þú veist, Georg Lárusson og svona lið, þá máttu ekki vefja fánastrenginn svona í kringum stöngina. Strengurinn á að vera strekktur, alveg stífur.“

„Viltu ekki bara snáfa úr Vöðlavík, drullusokkurinn þinn, áður en ég drep þig með skóflu og gref þig í grunnri gröf við hliðina á hinum lífræna úrganginum?“ sagði ég náttúrulega ekki en sagði aftur á móti, eins vinsamlega og mér var unnt:

„Nú? Geturðu aðstoðað mig? Ég kann þetta ekki.“

„Ekkert mál.“

Og svo gengum við bara saman, við félagarnir, að flaggstönginni og fáninn var kominn í hátíðarskap á no time. Hann kenndi mér nýjan hnút meira að segja, sagðist hafa verið skáti í gamla daga. Ó, hvað mig langaði að kyssa hann.

Ég sé ekki ástæðu að hafa þetta neitt lengra, kæra dagbók. Það væri rembingur að teygja lopann meira en ég hef nú þegar gert, einhversslags „kúkogpiss-húmor“ sem er ekki minn stíll. En þetta verður minningin mín frá þessum annasamadegi í Vöðlavík, sú sem mun fylgja mér til dauðadags:

Það eru svartklæddir landhelgisgæslumenn í Vöðlavík að gera þarfir sínar; axlaskúfar, heiðursmerki, kaskeytur, hvítir hanskar. Þeir standa hlið við hlið í guðsgrænu berjalynginu og þeir snúa í mig baki, með hendur fyrir framan sig. Íslenski fáninn í forgrunni, blaktandi fallega í sunnangolunni, strengurinn pinnréttur að hætti skáta.

Já, og haldiði ekki bara að mófuglarnir séu að syngja öll sín frægustu lög!

 

jonknutur