Kl. 22:30
Kominn í kofann minn. Þreyttur. Höfum verið að brasa í allan í dag. Hef ekki brasað svona mikið með börnunum mínum síðan ég man ekki hvenær. Jú, þegar ég var síðast í Vöðlavík, reikna ég með. Þetta eru bæjarbörn og við þurfum að hafa fyrir því að koma þeim út til að leika sér. Þetta er þeim ekki náttúrulegt. Þau sækja í inniveru, vilja vera nálægt okkur. Það er svosem hið besta mál en þetta er líka erfitt. Ætlaði að skrifa „áskorun“ í staðinn fyrir „erfitt“ en almáttugur minn! Má maður aldrei vera bara þreyttur og pirraður? Það er kveikt á mér í marga klukkutíma, ég er fyrir framan fólk og það skiptir engu hver það er:
Samskipti eru alltaf performatív.
Sum hlutverk eru bara léttari en önnur en eru hlutverk engu að síður. Því maðurinn er einn. Og símalaus. Það er hið sanna ástand.
Því fylgir þreyta að vera á sviði. Eirðarleysi og innilokunarkennd. Og núna er ég algerlega úrvinda. Mig langar heim. Í rúmið mitt. Mig langar að skokka með strákunum. Elda á almennilega eldavél. Drekka espressó úr espressóvél. Horfa á fréttir. Liggja í sófanum og doom-skrolla. Borða prótínstykki.
Já, svei mér þá að mig langi ekki bara í bjór. Allavega í vindil.
…
Það var gestagangur eftir klukkan þrjú. Nokkrir hreindýrakallar komu, þeir höfðu litið við í gærmorgun líka en núna voru þeir komnir aftur og þurftu að bíða af sér veðrið. Það var skýjahula yfir fjöllunum að sunnanverðu og þar höfðu þeir haft fregnir af hjörð og þurftu að vera tilbúnir að fara við fyrsta mögulega tækifæri. Við buðum þeim inn í Karlsskála í kaffi og Esther steikti pönnukökur. Ég bað hana um að láta það eiga sig, spurði hvort hún vildi ekki bara setjast niður og spjalla aðeins við kallana en hún sagði nei. Þvert nei. Mér fannst vera attitút í þessu „nei-i“ hennar. Ég yrði s.s. í aðalhlutverki. Það var ljóst. Esther ætlaði að vera eldabuska. Ég yrði að leika gestgjafa. Halda mönnum upp á snakki.
Hvað í andskotanum erum við að gera hérna, hugsaði ég, og hellti kaffi í bollann hjá Frosta leiðsögumanni.
Tveir intróvertar í skálavarðaleik. Gimmíafökkingbreik.
…
Neinei. Slakaðu á. Það var gaman að fá þessa kalla í heimsókn. Það er heilagur sannleikur. Þarna var t.d. Frosti leiðsögumaður sem ég var búinn að gera að vini mínum þótt hann vissi það ekki sjálfur. Ég var ekki búinn að taka hann undir húsvegg og tilkynna honum að við værum orðnir vinir, að hann gæti haft samband hvenær sem var, að ég stæði með honum en ekki Sævari eða öðrum hreindýraleiðsögumönnum á svæðinu, að ég skyldi ljúga fyrir hann hvenær sem væri. Frosti, þú ert minn maður. Ég er í þínu liði. Treystu mér.
En þarna í hópnum var líka Hreinn S. Gamall kunningi frá aldamótunum. Við þekkjumst kannski fyrst og fremst vegna þess að við eigum sameiginlega vini sem allir voru á einn eða annan hátt tengdir Samfó í denn. Þegar Össur Skarp var King. Ég var flokksbundinn, meira að segja á launum á tímabili, en ég man ekki hvað Hreinn gerði. Sennilega bara í hulduhernum. Leynifélaginu. Lykilmaður í bakherberginu. Vinstrimaður með peningavit. Tony Blair hefðið ráðið hann í vinnu frekar en mann eins og mig.
…
Ég þekkti hann ekki strax enda skartaði hann myndarlegri mottu en það var svolítið eins og að yngjast um nokkur ár að hitta hann. Hann kom einhvern tímann í heimsókn til okkar Estherar þegar við vorum nýflutt á Reyðarfjörð. Duttum í það saman. Þar á undan hitti ég hann á þorrablóti í Neskaupstað með öðrum vinum. Kalla, Helga og einhverjum öðrum. Man það ekki. Man bara að við vorum allir hraustir enn þá. Hlógum, reyktum og drukkum.
Og núna hellist yfir mig tilfinning um að ég sé tuttugu og fimm ára gamall. Nýútskrifaður. Þetta eru töfrar. Þetta getur gerst þegar maður sest niður og skrifar. Þú sveigir tímann. Stjórnar honum. Gerir það sem þú vilt með hann.
Ég er tuttugu og fimm ára og ég lít svo upp til þessara manna. Aðallega Kalla.
Fannst hann flottasta týpa sem ég hafði nokkurn tímann kynnst. Svo orðheppinn alltaf og svo flinkur penni. „Flinkur penni“ hafði enga merkingu áður en ég kynntist honum. Man eftir honum að afvopna einhvern dela í Egilsbúð með hnyttni og hæðni þegar aðrir hefðu gripið til handalögmála. Alltaf með sígarettuna, hann Kalli. Alltaf svo flottur í tauinu. Klæddist fötum frá Kormáki og Skildi áður en plebbarnir fóru að klæðast þeim. Alltaf grannur. Svona kúlgrannur. Ekki skokkgrannur. Horaður og áhugaverður, eins og Vilborg D sagði víst einhvern tímann um eitthvað ljóðskáld í Vesturbænum.
Kalli var svo júník. Allavega hér fyrir austan. Þegar ég gekk með honum frá Brennu, ritstjórnarskrifstofu Austurlands, og yfir í Kaupfélagið tók ég eftir því að bæjarbúar horfðu á Kalla en heilsuðu mér. Þeir þorðu ekki að heilsa honum. Allt við hann öskraði „Reykjavík“!
101 Reykjavík.
Við þoldum ekki þessa týpu en sýndum henni lotningu engu að síður. Við vissum ekki hvers vegna tilfinningar okkar voru svona blendnar og það skapaði óróa. Streitu.
Ég skil þetta núna náttúrulega. Þetta er ekkert flókið svosem. Þetta var einfaldlega vegna þess að hann var ekki einn af okkur þótt hann ætti ættir að rekja á Suðurfirðina. Við gætum aldrei stjórnað svona manni. Hann myndi aldrei leyfa það. Hann var sjálfstæður. Þurfti ekki á okkur að halda.
Staða mín var önnur og Kalli skildi það ekki. Hann gat ekki skilið það. Hann var ekki smábæjarmaður eins og ég. Hann skildi ekki hvers vegna ég gat verið svona linur í blaðamennskunni. Hvers vegna ég var svona feginn að skrifa stundum um kökubasara hjá kvenfélaginu, um íþróttamót hjá börnum, hvers vegna ég saup kveljur í hvert skipti sem ég við kláruðum blaðið. Hvað myndi fólk eiginlega segja þegar það læsi það sem ég skrifaði um þennan eða hinn, það eða hitt?
Kalli hlýtur að hafa hugsað hvernig ég nennti þessu, hvað var eiginlega að mér?
Jú. Ég var ennþá svo mikið „við“. Ég var ekki orðinn að „ég“.
Ég var einn af okkur. Einn af hópnum. Ættbálknum. Átti mér stöðu í þessu bæ. Stöðu sem mótuð var af forfeðrum mínum, tengslum þeirra við annað fólk sem mótuð var af allskyns hlutum, sýnilegum og ósýnlegum: Stéttarstöðu, skoðunum, líkamlegum eiginleikum, hefðum, sögu, orðróm. Hvaðeina.
Við vorum ekki elíta. Ekki einu sinni millistétt. Verkafólk og sjómenn í öllum hornum og kvenfólk sem rak stór heimili. Talað um okkur sem hóp eins og gjarnan er gert með lágstéttina. Þegar við reistum minnisvarðann um „okkar menn“, þá Lúðvík, Bjarna og Jóhannes, hina heilögu þrenningu, varð fyrir valinu afstrakt verk. Það var ekki tilviljun. Hið frjálslynda hægri hefði reist brjóstmyndir af hetjunum sínum. En ekki við. Alls ekki við. Hetjurnar okkar voru tákn um eitthvað annað og meira. Um hreyfingu. Um stefnu. Enda heitir verkið „Stefnir“ eða „Stefna“ eða eitthvað svoleiðis, minnir mig. Laglegasta verk sem minnti mig samt lengi vel á gálga. En það er nú bara ég.
…
Ég var sonur Ása sem var sonur Siggu og Steina sem var sonur Jóns og Kristjönu í Naustahvammi. Bláfátækt, heiðarlegt og vinnusamt alþýðufólk. Þetta var ég og ég var við og við? Hverjir vorum við? Við vorum Norðfirðingar.
Hvað ertu, spyr einhver og ég svara:
„Ég? Ég er bara Norðfirðingur.“
Kalla fannst þetta áhugavert og náttúrulega drepfyndið. Fannst fyndið hvað naflastrengurinn við bæinn og fjörðinn var svakalega seigur. Fannst fyndið að ég skyldi bera föðurlega virðingu fyrir Smára Geirs, Alþýðubandalaginu í Neskaupstað, íþróttafélaginu Þrótti og Síldarvinnslunni. Einhvern tímann skrifaði ég fyrir hann bókadóm eða eitthvað í tímarit sem hann gaf út og hann titlaði mig sem Norðfirðing. Óumbeðinn.
…
En ég var líka sonur mömmu. Reykvíkings úr Austurbænum. Hildar ljósmóður.
Sem var einstaklingur. Sá mesti sem ég þekki.
Hún var alltaf ég en aldrei við. Við-ið hennar var ég og bræður mínir. Og stundum pabbi. En ekki alltaf. Fór ekki á þorrablótin. Fannst gamansögur af einhverjum drykkfelldum Norðfirðingum ekki fyndnar. Dýrkaði ekki Lúðvík eins og við hin.
Og kaus blátt.
Og hún kaus blátt!
Litla leyndarmálið hennar. Litla leyndarmálið mitt. Ekki að ég hafi ekki vitað þetta innst inni. Auðvitað kaus hún ekki rautt. Dóttir atvinnurekanda í Reykjavík. Ekki séns. Ekki séns.
Og ég var mömmustrákur út í gegn. Sá gegnheilasti sem fyrirfinnst í þessari veröld.
Þetta er í hnotskurn eðli persónuleika míns, kæra dagbók, og ég held að þarna sé rótin að ýmsu í fari mínu sem er mér ennþá óskiljanlegt eða hulið. Til dæmis hvers vegna ég þarf að skrifa. Þarf að segja eitthvað. Þarf að láta rödd mína heyrast einhvers staðar. Þó það sé bara á Facebook. Hvers vegna ég þori, gjarnan eftir dúk og disk samt því ég er ennþá svo mikið við, að hafa sjálfstæða skoðun. Hvers vegna ég þori að skálda.
Án mömmu og Kalla ritstjóra væri ég sennilega ennþá bara við.
Aldrei ég.
Einn af okkur.
…
Síðan eru liðin mörg ár, eins og gamlir kallar segja. Ég bý ekki lengur á Norðfirði nema í ljóðunum mínum. Það eru samt meiri líkur á að ég verði jarðaður á Reyðarfirði og þá fyrst hætti ég kannski að vera Norðfirðingur. Verð Reyðfirðingur og fjölskyldan mín reyðfirsk.
En já, hvar var ég aftur?
Jú, menn voru að skiptast á veiðisögum í Karlsskála og klukkan var að ganga þrjú.