Dagbók frá Vöðlavík – 28072025

Innskot frá deginum í dag, 30. ágúst, kl. 5:30:

Ég póstaði síðustu færslu í fyrradag. Fékk svona fremur „tempruð“ viðbrögð ef við metum þau í lækum. Innan við tuttugu, sem er rúmlega helmingi minna en fyrstu færslurnar fengu. Ég veit að þetta eru langir textar, svona hlutfallslega séð, þ.e. miðað við það sem fólk er vant að lesa á samfélagsmiðlum. Það krefst skuldbindingar af hálfu lesanda að fara í gegnum þúsund til fimmtán hundruð orð eftir einhvern eins og mig. Lesandinn veit ekki hvort hann uppskeri nokkurn skapaðan hlut. Hvort hann fái eitthvað fyrir sinn snúð. Ég er bara ekki þannig skríbent. Sorrí. 

Og svo veit ég ekki einu sinni hvort þetta er skemmtilegt. Vangaveltur um „listsköpun“ eða hvað sem þetta var. Átta mig ekki á því. Ég er bara að reyna að vera ærlegur í þessum skrifum. Set niður á blað það sem mér dettur í hug. Þetta var og er enn æfing í „frjálsum“ skrifum. Sjáum bara hvað gerist. Það er hið eiginlega raison d’etre.

En ég hafði semsagt neimdroppað persónu í síðustu dagbókarfærslu sem kallaðist „Axel í Skálateigi“. Ég gerði það snemma í kaflanum (já, köllum þetta kafla – það er bókmenntalegra). Það var óvart samt. Ég hafði ætlað mér að skrifa um það þegar persónan „Axel í Skálateigi“ kom niður í Vöðlavík í rigningu á miðvikudegi síðasta sumar, með haugsugu, og bjargaði málunum í Karlsskála. Bjargvættur með derhúfu, í bláum vinnugalla og svörtum stígvélum. Eða voru þau græn? Svo var hann líka með sígó (rauður Winston). Kveikti sér í nokkrum á meðan hann – eða græjurnar hans náttúrulega – sugu upp gumsið (gott val á orði þótt ég segi sjálfur frá!) úr rotþrónni, svo full að hún var við að bresta. Sjúgandi sígó á meðan gumsið var sogið upp! Fullkomið! Þvílíkt stöff sem ég er með í höndunum!

Svo hætti ég bara að hugsa um „Axel í Skálateigi“ og fór að hugsa um skáldsöguna sem ég skrifaði í byrjun árs og ákvað bara að segja frá þeim misheppanaða leiðangri í staðinn. Þetta er orðið mjög „meta“ allt saman. Sögur um sögu um sögu um sögu um sögu um sögu. 

Auðvitað vekur persónan „Axel í Skálateigi“ forvitni hjá sveitungum mínum sem taka sér kannski stund á kvöldin og lesa það sem ég hef skrifað. Ég hefði getað sagt mér það sjálfur og Gunnar vinur minn á Norðfirði Þorsteins skrifaði athugasemd við færsluna seint í fyrrakvöld:

„Axel bóndi í Skálateigi?“

Ég vissi ekki alveg hvert Gunni var að fara með þessari athugasemd en allavega tvær tilgátur urðu strax til í huga mínum þar sem ég lá í sófanum í Sunnugerði, með poppskál á maganum, að skrolla í gegnum feisið. Sú fyrsta var fremur beisik: Var ég að fara í nafnavillt? Er ekki til neinn maður sem heitir „Axel í Skálateigi?“ Var hann hann að benda mér á það? Nei, andskotinn. Ég er þá að verða heilabilaður ef það er ekki til „Axel í Skálateigi“. Ég man alveg eftir þessum manni. Man eftir honum sem lykilmanni í knattspyrnuliði Egils rauða snemma á níunda áratugnum, man eftir honum að smíða hús við Víðimýri 4 árið 1981. Ég man eftir honum haldandi á hamri! Man eftir því hvernig hvellirnir bárust um allt hverfið þegar hann negldi niður þakið á húsinu með pabba mínum. Man eftir honum með kúbein. Man eftir honum með sög.

Hann heitir þá að minnsta kosti „Alex í Skálateigi“ ef ekki „Axel í Skálateigi.“ Það er nær ómögulegt að það skeiki mikið umfram það.

Svo var það hin tilgátan, að þetta væri svona „smjattsmjattsmjatt“ hjá Gunna vini mínum. Semsagt, svona einskonar „Úúúú! Ertu með eitthvað djúsí um hann Axel í Skálateigi! Komdu með það, kallinn! Ég poppa og hringi í vini mína. Þetta verður veisla!“

Og svo fattaði ég þetta bara allt í einu. Bara akkúrat núna. Á meðan ég var að skrifa þetta, nákvæmlega þetta. Axel er frá Skorrastað. Ekki Skálateigi. Gunni var að leiðrétta mig.

[Er hann ekki örugglega frá Skorrastað? Á ég að fletta því upp? Hafa þetta rétt? Nei, það væri ekki heiðarlegt í þessu samhengi.]

Mér til varnar hef ég aldrei verið minnugur á nöfn. Sérstaklega þegar menn eru kenndir við eitthvað, staði eða foreldra. Ég vissi t.d. aldrei hver Nonni Sigga Hall var. Maðurinn hét bara Nonni í mínum huga og var pabbi vinar míns. Eins með Stjána Villa Brans. Hann hét bara Kristján hjá mér. Var líka pabbi vinar míns. Og Smelli? Hann hét Emil. 

Ég ætla aftur til Vöðlavíkur: Klukkan var sennilega að byrja að ganga átta. Ég sat enn í skálanum. Það var enginn vaknaður. Kaffið í bollanum mínum orðið kalt enda hafði ég ekki lyft pennanum frá blaðinu í klukkutíma. Hnota hraut og gjólan í víkinni smaug sér inn um glugga einhvers staðar með tilheyrandi blístri, draugalega ef það væri myrkur sem það var ekki. Það var hásumar. 28undi júlí. Snemma að morgni.

Ég var búinn að skrifa það sem ég birti síðast (þetta með misheppnuðu skáldsöguna sem ég skrifaði fyrr á árinu) og ég var að fara taka upp þráðinn með rótþróna og haugsuguna og þá þessa persónu sem kallaðist „Axel í Skálateigi“ og vegna þess að þetta á að vera ærlegt ætla ég ekki að breyta þessu. Þessi persóna hét „Axel“ og var frá Skálateigi, bæ innarlega í Norðfjarðarsveit. Sé þetta allt fyrir mér. 

Ég stóð upp og gerði einu jógaæfinguna sem ég kunni, held að hún heiti „sólarhyllingin“ eða eitthvað svoleiðis. Ég var orðinn þreyttur í rassinum á þessari setu en þau voru enn sofandi og ég stóðst ekki freistinguna að halda aðeins áfram og þetta var það sem ég skrifaði næst og þarna er ég s.s. um það bil að fara rifja upp þessa „senu“ með haugsuguna og þetta gerðst í fyrrasumar, í lok ágúst. Ég var – svo ég útskýri þetta nákvæmlega – að skrifa að morgni 28unda júlí 2025 um eitthvað sem gerðist í lok júlí 2024:

„Það var rigning. Við lágum í einni kös í stóra rúminu og lásum söguna um Rebba og Héru. Það hafði rignt meira og minna síðan á mánudag og lítil traffík niður í Víkina. Lægð yfir öllu, lægð yfir okkur – vorum sem dofin sökum skorts á áreiti. Ég las af lítilli athygli, var að sofna, farinn að þrugla, sleppa setningum, sleppa hljóðum í orðum. Dóttur minni fannst þetta fyndið og hvatti mig áfram. Henni hefur alltaf fundist gaman að hlusta á mig lesa í svefnrofunum.

„Heyriði þetta?“ sagði Esther allt í einu.

Ég hætti að lesa, hresstist aðeins (loksins gerðist eitthvað!) og lagði við hlustir. Það leyndi sér ekki. Það heyrðust einhverskonar drunur fyrir ofan okkur. Þetta var farartæki. Ég lagði frá mér bókina, klæddi mig í stígvélin, teygði mig í eina 7 Up, opnaði (tizz!) og fór út. Gleraugnalaus sá ég ekki neitt þannig að ég fór aftur inn í skálann.

„Hvað er í gangi?“ spurði Esther.

„Sé það ekki. Er ekki með gleraugun. Hvar eru þau? Hver tók þau?“ Elías var með útrétta hönd. „Takk, kallinn minn,“ sagði ég og fór aftur út. Horfði upp í fjallið, fylgdi veginum eftir með augunum þar til hann hvarf inn í þokuna. Þarna efst við þokubrúnina sá ég eitthvað. Eitthvað gult! Eitthvað rosalega gult! Og allt sem er gult í þessu landslagi, í svona sudda, verður svo ógeðslega gult. Og það gula hreyfðist. Ég pírði augun en gat ekki greint þetta. Hvað var þetta eiginlega? Tjaldvagn? Gulur? Það væri óvenjulegt!

„Hvað nú?“ tautaði ég, pínu þreytulega. Þótt það væri hressandi að fara út þá nennti ég ekki að fara gera eitthvað. Allavega ekki eitthvað sem var ekki á mínu styrkleikasviði sem var flest á verkefnalista skálavarðar í Vöðlavík. Fékk mér stóran sopa af 7 Up-inu en ég elska hvernig kolsýran springur í munninum og hvernig hún heldur áfram að springa niður vélindað og alla leið í maga. Þetta er svo hressandi. Á sama tíma hugsaði ég um Jón Hafliða vin minn sem er líka tannlæknirinn minn. Hann segir að ég drekki of mikið af gosi og að það skipti ekki máli þótt það sé sykurlaust. Það sé einhver sýra í því sem étur upp glerunginn. Hreinlega bara éti hann upp! 

Ég fór aftur inn. EO, þá sjö ára, var sá eini sem hafði vit á að taka með sér kíki.

„Jón, hvað er í gangi?“ spurði konan mín. Hún var farin að ókyrrast vegna þess að það komið stress í fasið mitt.

„Ég veit það ekki. Mig vantar kíkinn.“ Ég lék mann sem leitaði að kíki, lyfti púðum og bókum og lék mann sem horfði stíft í kringum sig í leit að einhverjum hlut sem hann þurfti nauðsynlega á að halda. Ég er góður leikari þótt ég segi sjálfur frá. Aftur var Elías með útrétta hönd. „Takk vinur, “ sagði ég og enn og aftur óð ég út í rigninguna. Nei, höfum það: „Ég strunsaði út.“ Það er betra.

Mér gekk illa að ná fókus, fiktaði eitthvað í stillingunum en farartækið var horfið á bakvið lúpínubreiðu. Ég heyrði bara hljóð í vél og þau færðust sífellt nær, drunndrunndrunnDRUNNDRUNNDRUNN, en þegar farartækið birtist loksins var það komið nokkuð nálægt okkur, var bara í síðustu beygjunum, og með þessum auknu skynrænu upplýsingum gat svefndrukkið heilabúið dregið betri ályktanir. Spálíkönin urðu nákvæmari, svo að segja, og allt í einu small eitthvað í höfðinu á mér. Ég skildi samhengið. Auðvitað. Þetta var maðurinn með haugsuguna.

Ég vissi að Kamma frænka – eða Georg – hafði pantað haugsugu eftir fíaskóið um helgina. Fíaskóið þegar við fengum tvö hundruð manns í heimsókn vegna minningarathafnar um Goðann, björgunarskipið sem strandaði hér í janúar ’93. Víkin hafði fyllst af björgunarsveitarmönnum, bæjarfulltrúum, landhelgisgæslumönnum í hátíðarbúningi, mökum, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Þetta var stærsta partí í Vöðlavík frá upphafi. Svona partí voru ekki einu sinni haldin þegar Vöðlavík var í byggð.“

Og þarna þurfti ég að standa upp. Rassinn var að drepa mig. Ég varð að koma með kodda úr trússarahúsinu og setja undir hann í næsta sessjóni. Þetta eru eins og kirkjubekkir hérna, grjóthart helvíti.

Svo var ég líka þreyttur í höndinni eftir skrifin enda óvanur því að skrifa með penna á blað. Þá vissi ég líka að áður en ég skrifaði um komu „Axels í Skálateigi“ yrði ég að segja frá þessari minningarathöfn, þegar allur þessi mannfjöldi kom til Vöðlavíkur. Mannfjöldi sem bjóða átti upp á flatbrauð með hangikjöti og kaffi. Svona fólk drekkur mikið kaffi, þarf mikið að pissa og klósettin voru stífluð. Þetta er djúsí stöff! Ég mátti ekki flýta mér og ég nennti þ.a.l. ekki að byrja á þessu. Langaði upp í fjall með hundinn. Sem og ég gerði.

 

jonknutur