Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 11

Kl. 11:00

Þetta sem ég skrifaði í morgun var einskonar hugarleikfimi. Hvað gerist í lífi manns, símafíkils, þegar hann lendir í aðstæðum sem þessum?

Í óbyggðum. Í mínu eigin Overlook Hotel. Hér ætti ég að skrifa skáldsögu einhvern tímann sem væri í sjálfu sér bara dagbók. Hugsanir mínar eru alveg nógu hræðilegar til að bera uppi svona Blair Witch prójekt í Vöðlavík.

Tíminn hreyfist svo hægt í Víkinni. Iðunn spurði áðan hvað klukkan væri. Ég sagði að hún væri að byrja að ganga níu.

„Í alvöru?“ sagði hún. „Ég hélt að það væri að koma hádegi.“

Ég sagðist hafa haldið það líka.

Hér er ekkert sem gleypir tímann. Ekkert Facebook. Ekkert Netflix. Engar ferðir í búðina. Ef það vantar ost þá bara vantar ost. Ef það vantar pestó þá bara vantar pestó. Við erum eins og vitaverðir á Dalatanga. Engar vinaheimsóknir. Bara túristaheimsóknir. Enginn sem hringir. Ekkert hópspjall milli vina á messenger.

Það eru bara nokkur einföld verkefni skálavarðar sem bíða mín (ætla að reita lúpínu í dag – ég ÆTLA að reita lúpínu í dag) og löng, löng, löng bók eftir þunglyndan norskan rithöfund. Það gerist ekkert í henni heldur.

Þegar ég var laus úr viðjum hræðslunnar, eða hvað sem þetta nú var sem kom yfir mig í gærkvöldi á ströndinni, stóð ég upp, stirður, og fór að leika við Hnotu. Eða, ég hugsa raunar að þetta hafi gerst í öfugri röð. Það bráði af mér þegar ég fór að leika við hundinn. Fór að hugsa um eitthvað annað. Það er lógískt. Færði til þungamiðjuna og voilà!

Nýr og betri maður!

Þess vegna eru nýjustu sjálfshjálparbækurnar uppfullar af þeirri hugmynd að maður eigi að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Þegar maður hjálpar öðrum hjálpar maður sjálfum sér, segja þær. En alltaf skal þetta vera spurning um mann sjálfan. Ég hjálpa öðrum því þá hjálpa ég MÉR, MÉR, MÉR.

Kannski samviskujöfnun sé hugtak eins og kolefnisjöfnun. Ó, mér líður svo illa! Ég hefði ekki átt að ræna hússjóðinn! Ég hefði ekki átt að daðra við barnapíuna!

Ekkert mál, vinur. Taktu að þér ABC-barn og samviskujafnaðu þig.

Ég myndi gúggla þetta orð ef ég gæti.

Krakkarnir voru í stuði, í eigin heimi, alveg eins og þau áttu að vera í Vöðlavík, í eltingarleik við öldur. Ó, hvað þetta er heilbrigt allt saman! Eitthvað svo, eitthvað svo, norskt!

Hnota hljóp til mín, sannur labrador, ofandandi með lafandi tungu, drullug upp fyrir haus. Ég hafði rifið upp hvönn þar sem ég hímdi áhyggjurfullur undir kletti nokkrum mínútum áður sem ég kastaði í brimið. Hundurinn lóðbeint á eftir. Beint í brimið. Fékk yfir sig sjó og hvarf í nokkur andartök. Iðunn fór að skellihlæja, loksins stuð, en svo varð mér litið á son minn. Sá skelfingu. Hann hélt að síðasta stund Hnotu væri að renna upp.

Ég þekki þennan svip.

Ó, hvað ég þekki þennan svip.

Ég þurfti að hugga strákinn minn. Segja honum að ég hefði farið út í brimið og sótt Hnotu hefði hún lent í vandræðum og ég meinti það. Ég hefði gert það. Við gerðum málið upp og ég lofaði að kasta ekki fleiri sprekum í ölduna. 

Drengurinn minn er viðkvæm týpa. Hefur verið það frá degi eitt. Minnir á föður sín sennilega. Ætli það séu ekki pínu sensítívar týpur sem halda dagbók í óbyggðum og skrifa um börnin sín. Sitja á steini upp í fjalli og skrifa um hvað þeir séu sensítívar týpur.

Þetta kom fljótt í ljós og allir sem umgangast EO taka eftir þessu. Hann er sensítív týpa. Finnur til með fólki og dýrum. Skammar vini sem drepa grasmaðka. Sem hann hefur gefið nöfn. 

Og hvað get ég sagt?

Ég er stoltur af þessu. Stoltur af því að strákurinn minn finni til. Hafi samkennd. Geti sett sig í spor annarra en svo ég sé heiðarlegur, kæra dagbók, þá hef ég stundum áhyggjur af þessu. Því samfélagið er ekki alltaf hannað fyrir okkur sensítívu týpurnar. Sem fara á bömmer eftir erfiða fréttatíma. Taka gagnrýni illa, einkum þegar hún snýr að persónu manns. Því ekki þykir þetta alltaf mikill mannkostur, að vera sensítívur. Eða hvað ætli börn fái oft að heyra frá fullorðnu fólki að þau séu „grenjuskjóður“?

Þegar maður horfir á svona uppákomur, t.d. sem hlutlaus observant á leikvöllum, sér maður það sem þetta er í raun og veru. Barnið hagar sér eins og barn. Stundum grætur það. What else is new? En það er sá fullorðni sem fer á taugum og þá þarf að beita öllum brögðum til að stöðva „helvítis vælið“ og áhrifaríkast og fljótlegast er auðvitað að smána barnið til hlýðni:

„Hva, ertu að skæla?“

„Hættu þessu væli!“

„Ertu smástelpa!“

Og svona búum við til harðhausana. Pabbana sem geta ekki grátið.

Ég á minningu af pabba mínum að tala við einhvern í síma daginn sem mamma hans, amma mín, dó. Ég held að þetta hafi verið Dóri bróðir hans. Þeir voru að gera erfiðan dag upp og pabbi var að segja hluti sem ég hafði aldrei heyrt hann segja. Hann var á persónulegu nótunum en hann var nú eiginlega bara skólabókardæmi um mann sem bar harm sinn í hljóði, hugsa ég.

„Jájá, og svo fór ég bara grenja eins og aumingi. Ég verð bara að viðurkenna það,“ sagði hann allt í einu.

Þetta var svo óvænt að ég gat ekki gleymt þessu en ég vissi ekki hvers vegna mér fannst þetta merkilegt fyrr ég varð nokkrum árum eldri. Lengi vel fannst mér þetta til marks um hörkuna, að það væri aðfinnsluvert að gráta „eins og aumingi“ þegar mamma manns deyr en núna finnst mér merkilegt að hann skuli hafa sagt þetta upphátt. Það var soldið sensítívt hjá manni sem kunni ekki að gráta var það ekki?

Hann var kannski mýkri en ég hélt en hann þurfti smá skjól og kallaði þetta „aumingjaskap“.

Töffarar sem gráta ekki klæðast allskonar leðurjökkum. 

Ég man eftir einni vökunótt fyrir nokkrum árum. Þegar Esther var gengin nokkra mánuði með E og við vissum ekki hvort við áttum von á stelpu eða strák. Við höfðum átt samtal um kvöldið þar sem við vorum að fabúlera um þetta, pældum í mögulegum nöfnum og svo framvegis. Ég var alveg viss um að þetta yrði stelpa en ég komst að því þessa svefnlausu nótt að þetta var óskhyggja. Ég VILDI eignast aðra stelpu. Ég ímyndaði mér að það væri léttara fyrir barnið. Því ég taldi mig vita að ef við eignuðumst dreng þá væri líklegra en ekki að hann líktist mér og þá væri eins gott að hann fyndi sér einhvern tilgang með lífinu því hann myndi ekki að öllu leyti falla inn í normið.

Að vera sensítív stelpa, hugsaði ég, er ekki það sama og að vera sensítívur strákur.

Ég var hræddur. Var með hugann í öðrum tíma. Mínum tíma. Í mínu „í denn“. Mundi eftir sensítívu strákunum sem meikuðu þetta ekki. Létu sig hverfa áður en þeir urðu almennilega fullorðnir.

Ég fór að ímynda mér samtöl við þá, þessa svefnlausu nótt. Ímyndaði mér að ég gæti farið til baka í tímavél og talað við þá. Hefði sagt þeim að slaka á. Allir bömmerar, hefði ég sagt, þeir fjara út. Allir. Allir sem einn.

Sagt eins og pabbi sagði við mig þegar ég ætlaði, í minni fyrstu alvöru ástarsorg, að henda trúlofunarhring í klósettið heima í Víðimýri. Hann kom að mér og ég var bókstaflega á hnjánum fyrir framan skálina. Hann sá hvað ég hafði hugsað mér að gera enda hélt ég á hringnum og sló honum taktfast í postulínið.  

„Ekki gera þetta, Jón minn,“ sagði hann. „Eftir nokkur ár finnst þér þetta fyndið.“

Pabbi missti þetta út úr sér og það er eins og mig minni að hann hafi beðist afsökunar fyrir ónærgætnina.

Ég held núna, í alvöru talað, að þetta séu bestu ráð sem ég hef fengið.

En hefðu unglingarnir í fantasíunni tekið mark á manni eins og mér? Sitjandi fyrir framan þau, með aðra rasskinn á kennaraborði. Sjálfumglaður fimmtugur karl með góð ráð. Eins og fökking Bono í U2. Eins og Bubbi Morthens. 

Og já, munu börnin mín hlusta á svona „pepptalk“? 

Kannski ekki. Kannski meðtaka þau bara það sem þeim var ekki ætlað. Hlera án minnar vitundar og draga sínar eigin ályktanir. 

Stóð upp. Var búinn að skrifa í klukkutíma. Horfði yfir Víkina. Þurfti að míga. Sem og ég síðan gerði. Meig með þetta líka útsýnið fyrir framan mig! Þetta milda, stílhreina, útsýni yfir Vöðlavík sem römmuð er inn af tveimur austfirskum fjöllum. Múlinn til hægri og hitt sem ég man ekki hvað heitir til vinstri. Frá þessu sjónarhorni virðast þau ekki jafn hrikaleg og þau sum hver eru hér eystra. Þau eru eiginlega bara frekar settleg frá þessu sjónarhorni, úr þessari fjarlægð. Með mjúkar línur. Soldið curvy og glæsileg.

Lífið svo dásamlegt þegar maður léttir á sér, hugsaði ég og sprændi. Ég er svo glaður að vera hér. Hér og nú. 27unda eða 28unda júlí. Það er allavega árið 2025 og það er hásumar. Ég spræni án sársauka. Það er ekki sjálfgefið fyrir karl á mínum aldri.

Og ég veit, kæra dagbók, að þetta móment verður eftirminnilegt. Svokölluð „kjarnaminning“. Nýtt orð sem Esther kenndi mér í gær. Í öðru samhengi samt. 

(Teygði mig svo í minnisbókina til að tryggja að ég myndi þetta. Þetta gæti virkað sem niðurlag.)

 

jonknutur