Dagbók frá Vöðlavík – 25072025

Kl. 6:15

Veður: Rigndi í nótt en hefur birt til. Spáir sól og blíðu.

Komum í Víkina síðdegis í gær. Hætti að líta á klukkuna um leið og við lögðum af stað þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvenær við komum. Sennilega um þrjú leytið. Hætti líka að líta á símann. Þetta gerist strax og sambandið rofnar. Allt í einu breytist tíminn í leir og allt líður hægar. Ég hef tíma til að sökkva mér ofan í þunglyndan norskan rithöfund og les hundrað blaðsíður á dag. Fimm sinnum meira en ég næði að gera heima.

Töfrum líkast.

Það var smá stress að koma sér af stað. Leigjum húsið á meðan dvöl okkar stendur í Vöðlavík svo við þurftum að pakka og þrífa samtímis. Þrífa almennilega. Jólahreingerning í júlí. Ég fór líka á Facebook-fyllerí. Skrifaði þrjá statusa á meðan ég pakkaði og tékkaði á viðbrögðum á tveggja mínútna fresti. Fyndni-Jón í essinu sínu. Skrifaði:

Ég er ekki að fara bjarga lífi þínu í Vöðlavík. Ekki vegna þess að ég vilji það ekki. Ég er bara ekki þannig týpa. En ég skal halda þér uppi á snakki. Á meðan við bíðum eftir prestinum.

Ég gæti mögulega breytt þessu í ljóð einhvern tímann en þetta var bara in the heat of the moment Facebook-glens. Ég er gíraður. Spenntur. Stressaður. Í stuði. Og þá kemur oft svona sprell. Fullt af lækum og athugasemdum. Fólk í stuði. Egóið mitt að springa. Gaman, gaman. Fölskvalaus Facebook-gleði. Svo hafði ég skrifað einhvern pistil á feisið fyrr um morguninn sem eftir á að hyggja var eins og réttlæting á því að lesa pistla í útvarpið í sumar.

Þessi pistlalestur var alveg að fara með mig. Vissi að ég myndi taka þessu alltof alvarlega. Vissi að ég hefði átt að segja nei við Helga. Benda honum á einhvern annan. Ásgrím Inga eða Ingunni Snædal. Þórunni Ólafs. Urði Gunnars. Bara einhvern annan. Fékk þráhyggju gagnvart mögulegum viðbrögðum alveg eins og ég fékk þegar ég var í fréttamennskunni.

Maður er nefnilega alltaf einn í þessum bransa út á landi. Ert ekki með hóp af fólki í kringum þig sem segir að þú sért æðislegur. Stappar í þig stálinu. Fólk segir ekki neitt. Bara eitthvað eins og: „Bíddu, ertu farinn að vinna hjá Rúv?“

Var aðallega að hugsa um pistilinn um veiðigjöldin. Hitamálið í sumar. Myndu góðir vinir fara í fýlu? Geta menn aðgreint félaga frá pistlahöfundi? Ræddi þetta á fílósófískum nótum við gervigreindina. Hún sagði ólíklegt að menn myndu hafna mér sem manneskju þótt ég viðri skoðanir sem eru á skjön við ríkjandi viðhorf.

Gerði þetta svo upp í einni færslu. Sagði eitthvað um að ég þyrfti að vera heiðarlegur við sjálfan mig. Engu logið þar. Leið aðeins betur. Svo hvíli ég þetta bara í viku. Pæli ekki í þessu. Þá verða allir orðnir góðir aftur. Nema þeir allra hörðustu auðvitað en mér er sama um það fólk. Það má fokka sér. Meiri áhyggjur af góða fólkinu. Góðu fólki sem sér fleiri en eina hlið á málinu en er samt á móti því. Reiknaði það með að ég hefði aðra skoðun á þessu? Var ég að valda þessu fólki vonbrigðum? Rúv réttir mér gjallarhorn og ég nýti það svona? Hver þykist ég eiginlega vera?

Smábæjarlíf. Smábæjarkvíði og sjálfsvorkunn. Stundum er ég mörkum þess að meika þetta. Hvernig ætli sé að búa í Kópavogi? Ætli það sé gott?

En ég er nógu mikill egóisti til að halda að ég eigi einmitt hvergi betur heima en fyrir austan. Að það sé gott fyrir Austurland að hafa líka fólk eins og mig hérna.

Esther segir að ég sé að ofmeta viðbrögðin. Pistlarnir hafi verið fínir og að fólk geti verið ósammála manni án þess að hata mann.

„Manstu ekki hvernig við töluðum um Ómar Ragnarsson fyrir tuttugu árum síðan?“ spurði ég og ók næstum því út af, stutt í geðhræringuna.

„Róa sig. Horfðu á veginn. Og þú ert ekki Ómar Ragnarsson.“

„Nei, ég veit það alveg en ég er einn af okkur. Það er verra. Það er miklu verra. Ég er föðurlandssvikari. Landráðamaður.“

Svo mætti ég bíl frá Vegagerðinni, þurfti að beygja út í kant. Vinkaði bílstjóranum sem ég þekkti. Gleymdi þessu spjalli og sagði við Esther að ég hefði verið að fatta að við myndum missa af úrslitaleiknum á Evrópumótinu.

Það er eitthvað við malarvegi sem er notalegt. Maður hægir á sér. Fer að horfa í kringum sig. Á mosann og lyngið. EO talaði mikið á leiðinni yfir. Það er trendið í dag. Segir ekki neitt í hálftíma og talar svo non-stop í annað eins. Um allt milli himins og jarðar en aðallega um Minecraft. Gaman en getur líka verið býsna intense. Einu sinni, þegar ég var á aldri við EO núna, talaði ég svo mikið – og af svo miklum ákafa – um hljómsveitina Kiss við pabba minn að hann bað mig um að hætta. Vinsamlega en líka af föðurlegri festu. Og var hann seinþreyttur til vandræða, blessaður karlinn.

Ég ætla ekki að gera syni mínum það. Hef aldrei gleymt þessu sussi hans pabba heitins. Ég heyri EO tala en hlusta kannski ekki alltaf af mikilli athygli.

Fer byr beggja.

Allt leit vel út í húsinu. Hreint og fínt eftir Bobbu og Kalla sem voru hérna á undan okkur. Nóg af eldivið. Hingað er mættur Jón Knútur, skálavörður, sem ætlar að reynast þér verri en enginn when the shit hits the fan.

Ég á ekki að vera tala sjálfan mig svona niður en græjur eru ekki minn styrkleiki og handlaginn er ég ekki. Get hanglangað og spjallað við handlagið fólk. Sótt verkfæri fyrir það. Haldið undir. Borið þung tæki á bakinu. Í gær fór ég t.d. að hugsa um gasofna og af hverju þeir virka aldrei. Af hverju það þarf alltaf að hafa „lag á þeim“ eins og menn segja.

Af hverju geta þeir ekki bara virkað? Þú ýtir á takka og það kemur notaleg hlýja? Er það til of mikils ætlast?

Ég prófaði síðan. Ýtti á takka og enginn þeirra virkaði.

Klikk, klikk, klikk, klikk.

Ekkert suð í gasi. Engin hlýja.

„Nei, sko, auðvitað virkar hann ekki,“ sagði ég þegar ég var búinn að snúa takkanum á ofninum í skálavarðarhúsinu. Esther stóð upp og ýtti á takkann. Og viti menn! Það kom hiti. „Ég skal kíkja á hina ofnana á eftir,“ sagði hún en ég sagði ekki neitt.

Svona er þetta. Af og til höfum við kynjaskipti.

Ég náði í bókina mína og las. Datt hratt inn í söguna og brá þegar Esther kom aftur inn í kofann okkar. Tók ekki eftir því þegar hún fór út. Hún hafði skroppið yfir í Karlsskála.

„Þeir virka. Þú þarft bara að skrúfa frá gasinu.“

„Ég gerði það.“

„Þá hefur sennilega verið skrúfað frá en þú hefur óvart skrúfað fyrir.“

„Nei,“ sagði ég. „Ég er skrúfaði frá.“

„Það er ólíklegt því þeir virka.“

„Ég man hvað ég gerði.“

„Ég er ekki að meina neitt með þessu, Jón.“

„Esther? Í alvöru?“

Ég var farinn að efast engu að síður. Skrúfaði ég í alvörunni fyrir? Er ég í alvörunni svona vitlaus? Eða er þetta það sem kallað er gaslýsing? Aldrei almennilega skilið það orð.

En ofnarnir virka. Get hætt að hafa áhyggjur af þeim.

Þá eru klósettin næst á dagskrá. Óþarfi að hafa ekki áhyggjur af þeim. Virka þau? Síðasta sumar var rotþróin full sem skapaði allskyns vandamál. Ég lagði frá mér bókina og fór á klósettið. Sturtaði niður. Gott og kraftmikið rennsli. Fann fyrir létti. Svona hlutir gleðja skálavörð í óbyggðum.

Því Vöðlavík er paradís. Um það leikur enginn vafi en það eru svona hlutir, grundvallarhlutir – sjálfir innviðirnir, sem geta gert veruna hérna erfiða séu þeir ekki í lagi. Þetta er annað árið mitt sem skálavörður og ég tala af reynslu. Og sem skálavörður finn ég til ábyrgðar. Stíflist klósettið munu gestir Karlsskála koma til mín, biðjandi á svip, og reikna með að ég sé með svör og góð ráð. Þeir munu koma biðjandi til mín og ég mun afsaka mig og fara biðjandi til Estherar. 

Vaknaði fimm í morgun. Hundurinn hristi sig. Vissi að ég myndi ekki sofna aftur og fór á fætur. Kveikti upp í Karlsskála, lagaði kaffi á „gamla mátann“, las í bókinni minni, næstsíðasta My struggle bókin eftir Karl Ove Knausgård. Sennilega bestu bækur sem ég hef lesið sem er soldið sérstök niðurstaða því þær eru ótrúlega leiðinlegar á köflum. Erfitt að útskýra galdurinn við þær og ég nenni því svo sannarlega ekki núna.

Las í klukkutíma og svo tók ég þig fram, kæra dagbók, og skrifa núna og skrifa og skrifa. Hnota hrýtur á gólfinu. Allt er undir kontról. Mér gæti ekki liðið betur. Klukkan sjö ætla ég að flagga fánanum og fylgja fánalögum í hvívetna. Hann mun ekki snerta jörð. Ég heiti því.

Jón Knútur Ásmundsson, yfirskálavörður í Vöðlavík, er mættur til skyldustarfa.

Reporting for duty.

Skálagæsla er líka show business og þar er ég sannarlega betri en enginn. 

Maður er fljótur að fá Víkina í sig. Í gærkvöldi hitaði ég kakó handa okkur á gashellu, spilaði svo sjóorrustu við börnin, Esther hlustaði á hljóðbók og prjónaði. Þegar ég lagðist upp í horfði ég á liðið mitt og yfir mig steyptist hamingjualda. Þau að spila spil. Venjuleg spil. Spil sem við höfum spilað um aldir (þá á ég við Ólsen, Ólsen). Klikk, klakk í prjónum og peysa verður smám saman til.

Mikið er þetta heimilislegt, hugsaði ég. Við ættum að eignast tvö börn til viðbótar. Að minnsta kosti. Kannski ættleiða þau.

„Hvað er svona fyndið?“ spurði Iðunn. Hún heyrði mig flissa.

„Ekkert,“ sagði pabbi hennar. Það gæti orðið flókið að útskýra þetta. 

 

 

jonknutur