Dagbók frá Vöðlavík – 26072025

Kl. 6:45

Vaknaði sex. Dreifðum okkur á milli húsa. Iðunn fór í trússarahúsið ásamt Hnotu. Við hin í skálavarðarhúsinu. Hljótum öll að hafa sofið betur. Ég svaf að minnsta kosti betur.

Skrifa í bókina mína, sitjandi á sléttu gróti í sandinum útfrá. Þetta er hálftímagöngutúr frá Karlsskála og alveg upplagður til að koma sér í gang. Horfi á brimið, mig langar að vaða út í eins og ástralskur hippi en kaldur íslenskur sjór býður ekki upp á svoleiðis. Nema maður sé heljarmenni. Íslenskur sjór er fyrst og síðast augnaprýði.

Horfði á Hnotu leika sér á ströndinni, grafandi í sandinn, róta honum upp á milli afturlappa. Af og til lítur hún til mín eins og hún sé að spyrja hvort þetta sé ekki örugglega í lagi. Þetta er hið besta mál, fröken Hnota. Grafðu eins og þig lystir. Sjórinn bætir fyrir umhverfisslysið sem þú ert, elsku dýr. 

Milt veður. Hægur vindur, skýjað en hlýtt. Við sjóndeildarhringinn birtir til. Einhver eyja þarna fyrir sunnan og viti sýnist mér en ég er ekki með gleraugun. Hvað heitir hún aftur? Þessi eyja?

Ég man það ekki.

Gunnar sendi mér veðurskeyti í sms í gær. Útlitið gott næstu daga. Milt en hlýtt. Rignir á nóttinni.

Fantastic!!!

Fengum gesti í gær. Sigurbjörn hennar Díönu Mjallar kom með tvo túrista úr bænum. Þau voru að rúnta þessa vegi hérna, voru að spá í að fara í Viðfjörð og svo komu hjón frá Álftanesi líka. Spurðu mig talsvert út í svæðið og ég svaraði af bestu getu sem er nú ekki harla mikil. Ég þarf að endurlesa kaflann eftir Hjölla Gutt í Ferðafélagsbókinni. Minnir að ég hafi séð hana í skálavarðarhúsinu. Ég verð að virka aðeins gáfulegri þegar spurula gesti ber að garði.

Er ekki alveg í fíling. Nenni ekki að skrifa. Vantar kaffi. Og kex.

Kl. 11:00

Held ég hafi tekið ákvörðun um að birta þessa dagbók á blogginu mínu. Þeim ruslahaug sem ég er löngu hættur að sinna. Kíkti á síðuna um daginn og hún er öll í rugli. Sé að einhver drög eru farin að birtast án þess að ég hafi gefið skipun um það. Samhengislaus þvæla. Vona að þarna sé ekkert meiðandi. Þarf að laga þetta við tækifæri.

Ég henti út einhverjum færslum í vor eftir að grískur skólabróðir minn hafði samband við mig. Hafði séð einhver skrif um sig á síðunni minni og með hjálp gervigreindar fengið þau þýdd. Þetta var ljóðrænn texti um þennan gamla vin sem bjó með vinkonu minni. Skemmtilegur strákur, kúltíveraður, klár og fyndinn en glímdi við allskonar áhyggjur og kvíða. Doktorsnámið reyndist honum þungt og svo beið hans herskylda heima og sitthvað fleira. Kvennamálin flókin og þannig lagað. Ég skrifaði um þetta í þeirri vissu að hann sæi þetta aldrei. Núna er það bara gúggl og ChatGPT. Maður skrifar ekki í skjóli íslenskunnar lengur.

Hann sagðist hafa haft gaman af að lesa þetta og bað mig um að hafa ekki áhyggjur af þessu. Fannst þetta bara fyndið. Ég roðnaði samt af skömm og lokaði á færsluna. Renndi svo yfir fleiri færslur og henti einhverju út. T.d. textum um gamlar kærustur. Jesús minn. Sumt af þessu skrifað þegar ég var með Bukowski/Hunter Thompson-delluna. Lét vaða. Engin miskunn sýnd.

Johnny boy, þú ert nú meiri kallinn. Eins gott að þú farir ekki framboð. 

Síðasti pistillinn fór út á Rúv í gær. Eini pistillinn sem ég skrifaði eins og „fagmaður“. Hafði ekkert að segja. Fann eitthvað efni og breiddi úr því í tæpar átta mínútur. Kallaði hann „Kvíðastillandi fyrir fólkið í landinu.“ Pistill þar sem ég rakti tillögur að umbótum í byggðamálum – geisp. Þreytir mig að segja þér frá þessu, kæra dagbók.

Ég lagði hjarta og sál í hina pistlana sem voru lengri en um var beðið þannig að ég var ekki með samviskubit að skila einum „hundi“ með fullri virðingu fyrir þeirri dýrategund.

Vegna sambandsleysis hef ég ekki fengið nein viðbrögð nema frá Hjalta Stefáns sem rötuðu einhvern veginn hingað í Víkina. Þau voru jákvæð og það kom ekki á óvart enda lagði ég til að Rúv yrði eflt út á landi.

Við Hjalti syrgjum gamla vinnustaðinn okkar, RúvAust, sem lagt var niður fyrir allmörgum árum. Hjalti heldur sér í bransanum með allskyns verktöku enda getur hann ekki annað. Fæddur myndatökumaður. Að skjalfesta tilveruna með myndavél er erindi hans í þessu lífi. Ég gat hinsvegar farið í upplýsingagjöfina eins og hinir atvinnulausu blaðamennirnir.

Hjalti hefur eflaust oft verið spurður hvers vegna hann geri ekki bara eitthvað annað en þú gætir alveg eins skipað ketti að fljúga. Grimm bjartsýni er þetta víst kallað. Hvers vegna borða þau ekki bara kökur?

Ég var stundum spurður hvers vegna ég gerði ekki bara útvarpsþætti þegar búið var að segja mér upp. Ég lét á það reyna. Gerði nokkra þætti um hitt og þetta. Vann á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á daginn, tók viðtöl síðdegis, skrifaði handrit og klippti þætti á kvöldin. Stundum fram á nótt. Fyrir smáaura náttúrulega. Gat ekki réttlætt þetta þegar börnin komu til sögunnar. Hefði verið hugsjónavinna en stundum hefur maður ekki tíma fyrir þannig vinnu. Sem er synd og skömm því það er gjarnan það skemmtilegasta sem maður tekur sér fyrir hendur. Reynslan hefur kennt mér að ólaunuð – eða illa launuð vinna – er best.

Dagskrárgerð fyrir hagsmunasamtök er sennilega framtíðin í íslenskri fjölmiðlun. Mini-docs fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi: „Dagur í lífi skæruliðadeildar Samherja“ – feel-good efni um ofsóknir gagnvart blaðamönnum.

I can do that!!!

Göngugarpar komu síðdegis, já eða í gærkvöldi, réttara sagt. Vissi af komu þeirra en hélt að þeir myndu skila sér fyrr. Voru að ganga frá Sandvík. Það var komin þoka útfrá um kvöldmatarleytið og við létum Kömmu vita með sms-i. Tíu mínútum síðar sáum við þá koma arkandi. Þeir voru þreyttir en sprækir. Ánægðir með daginn. Geyma bílinn sinn einhvers staðar nálægt dysinni uppfrá og ætla að sækja hann í fyrramálið. Soldið labb og ég bauðst til að skutla þeim. Fann samt að ég sá strax eftir því.

Dæmigert fyrir mig. Alltaf að reyna að vera næs þótt ég nenni því ekki.

Meðvirknin á eftir að fara með mig í gröfina.

Róa sig.

Anda inn. Halda. Anda út.

Tæklaði EO soldið hressilega í fótbolta. Hann var svekktur út í mig.

Sá eftir því líka.

Eitthvað gerlavesen á vatninu og það þarf að sjóða það. Kamma frænka segir að það sé sennilega búið að redda þessu en að sýnatökufólkið sé í sumarfríi. Ég drakk soðna vatnið bara einu sinni en mér fannst það bragðvont. Soðið í pottum sem hafa verið notaðir tuttugu þúsund sinnum í kjötsúpugerð. Nei, þetta var ekki gott vatn, þetta soðna vatn. Eins og bragðdauft kjötsoð.

Drekk ískalt gerlamengað vatn úr krananum frekar og tek sénsinn. Set allt mitt traust meltingarkerfið. Veit ekki betur en að það sé í tipptopp-standi og auk þess minnugur þess sem Nietzche sagði:

Það sem ekki drepur mann o.s.frv.

En það sem drepur mann, tja, það drepur mann náttúrulega.

Hvað um það. Gerlavatn í glasið mitt. Já, takk. Berglind á Mjóeyri sagði auk þess í fyrradag að Sævar væri að drekka kranavatnið með bestu lyst og hún vissi ekki annað en að hann væri við hestaheilsu.

„Hann hefur allavega ekki hringt í mig enn og sagst vera dauður,“ sagði hún og Sævar er þyrstur þessa dagana, með hreindýrakalla í eftirdragi, sprangandi um brött austfirsk fjöll. 

En ég geng upp í á og sæki vatn í flösku fyrir konuna og börnin. Það er lágmark. Gekk upp á efstu klöpp meira að segja. Hefði geta sótt það neðar en sagan er betri ef ég segist hafa sótt það við uppsprettuna. Betra „sell“ fyrir börn og eiginkonu.

Og þar – upp á klöpp með útsýni yfir Víkina – sit ég einmitt og skrifa í dagbókina. Með nefið fullt af fjallailmi. Love it. 

Kl. 17:00

„Drifum okkur í fjöruferð áður en þið biðjið okkur um að gera eitthvað.“

Mér datt í hug að skilja þessa orðsendingu til göngugarpanna eftir í glugganum okkar og fara svo í fjöruferð með familíuna. Sagði Esther frá þessu, liggjandi í fletinu mínu, og henni fannst það fyndið. Ég teygði mig í dagbókina og punktaði þetta hjá mér s.s. að ég hefði sagt eitthvað og að konunni minni hefði þótt það fyndið.

Sit á sólpallinum. Konungur í ríki mínu. Hnota liggur í grasinu fyrir framan mig og hrýtur. Hún er sæt og fín enda alltaf í baði hér í Víkinni, þessi elska. Mér finnst hún svo flottur hundur en svo vaknar hún skyndilega og byrjar að sleikja sig. Þá vakna ég líka. Til meðvitundar um hina raunverulegu stöðu málanna:

Ég er maður. Hún er hundur.

Hún hætti ekki. Bara hætti ekki! Sleikti sig alla. Sleppti engu. Einkapartarnir alveg sérstaklega sleiktir. Þegar ég sá annan göngugarpinn koma arkandi til mín, biðjandi á svipinn, var ég næstum því búinn að biðja hana Hnotu mína um að hætta þessu eins og skot og haga sér.

Ég skammaðist mín fyrir hana.

Og ég skammaðist mín fyrir að skammast mín fyrir hana.

Nei, hættu nú alveg!

 

jonknutur