Kl. 7:00
Sunnudagur runninn upp. Það er grenjandi rigning í Víkinni. Við EO sváfum saman í trússarahúsinu. Úrið gaf mér sex komma fimm í svefneinkunn.
EO fannst spennandi að sofa í kofanum með mér og svo var örugglega líka spennandi að sofa með Hnotu, hrjótandi í búri á gólfinu. Kannski spennandi að sofa með pabba líka. Veit ekki. Hann vildi allavega endilega sofa með mér í trússarahúsinu. Sem þýddi að ég gat ekki lesið áður en ég sofnaði. Það er mikill talþrýstingur hjá syni mínum. Og börnunum báðum raunar. Engir vinir. Engir skjáir. Bara foreldrarnir eftir. Back to basics. Við verðum að duga í bili.
Ég ætla ekki að ljúga að þér, kæra dagbók, en stundum fæ ég kvíðaeinkenni þegar þau byrja að mala og mala og mala. Þurfa áheyrn. Eru ekki að leita að samtali. Bara hrein og klár tjáningarþörf. Iðunn teiknaði fyrstu dagana en það hefur minnkað. Eirðarleysi sækir á. Of mikill tími aflögu.
Skil þetta mjög vel. Mig langar aldrei meira til að skrifa eða tromma eða lesa þegar mikið er að gera. Þá langar mig til að yfirgefa heimilið eða vinnustaðinn. Ganga upp með ánni. Setjast einhvers staðar niður upp í fjalli og lesa. Punkta í bók. Láta mig hverfa. Týna mér í bók og finnast aldrei, eins og skáldið sagði. Hafi ég aftur á móti nægan tíma gerist ekkert. Opna símann og doom-scrolla út í eitt.
Man allt í einu að ég vaknaði í nótt. Um tvöleytið. Ég hafði litið á klukkuna og hleypt frá mér djúpu andvarpi þegar ég sá hvað tímanum leið. Þvílík vonbrigði. Reyndi að aftengja mig hugsunum um að ég væri útsofinn – vissi að svo var ekki – og reyndi að sofna aftur. Heima hefði ég teygt mig í símann. Heima hefði ég ekki sofnað aftur en hér myndi ég nú sennilega sofna aftur, fyrr eða síðar. Það var ekkert annað að gera.
Í svefnpoka, sveittur. Renndi honum niður og breytti í sæng. Fannst allt í einu að ég þyrfti að fara á klósettið. Er að verða eins og gamall maður. Sípissandi. Bældi þessa hugsun niður.
Þú þarft ekki að pissa.
Þú þarft ekki að pissa.
Þú þarft ekki að pissa.
Teygði úr mér. Stirður. Og stirðleikinn ýtti undir tilfinninguna um að ég væri að verða gamall.
Gamall og sípissandi.
Er ég í alvörunni að fara birta þessa þvælu á blogginu mínu?
…
Fann fyrir stirðleika í gærkvöldi líka. Höfðum skroppið út á sandinn og ég sat í skjóli af klettum og horfði á börnin eltast við öldurnar. Allt eins og barnabók, myndskreyttri af Norman „fuckin“ Rockwell. Eða Halldóri Péturssyni. Esther horfin. Að taka myndir einhvers staðar.
…
Og svo bara þyrmdi yfir mig. Fór að hugsa um aldurinn. Að ég væri búinn að toppa, hvernig sem á það er litið. Heilsu og kyngetu mun hraka héðan í frá. Ég nenni ekki lengur að skrifa ljóð. Mun ég einhvern tímann komast í viðtal hjá Agli Helga aftur og baða mig í svæðisbundinni frægð, með egóið í súrrandi botni?
Nenni ekki að tromma lengur. Nenni ekki að vera í hljómsveit. Nenni engu. Mig langar bara að lesa bækur. Það er það eina sem mig langar að gera. That’s it.
Almáttugur, hvað ég saknaði símans. Þá væri ég ekki að hugsa um þetta, hugsaði ég. Þá væri ég bara að skrolla. Lesandi nýjustu fréttir af dauða Ozzy Osbourne. Var hann dáinn í alvörunni? Overdose? Getur það verið? Nei, hann var hættur að djúsa. Hlýtur að hafa verið aldurinn. Var hann kannski með Parkinson? Las ég það ekki einhvers staðar? Alzheimer? Nei, menn deyja ekki úr Alzheimer er það? Eða var þetta gabb? Var hann að púlla Jim Morrison?
Já, eða skoðandi myndir af fjölskyldum Facebook-vina sem ég tala aldrei við og hef engan áhuga á að tala við.
Og ó mæ godd! Nei, andskotinn! Gömul skólasystkini úr Reykjavík eru á ferðalagi. Þau eru í Ásbyrgi en nálgast Austurland eins og blóðsjúgandi lúsmý.
Munu þau bjóða sér í heimsókn?
Ó sjitt.
Svara ég í símann þegar þau hringja á Fagradal eða sendi ég þeim skilaboð á messenger um að ég hafi verið með slökkt á hringingunni? Eða hafi jafnvel týnt símanum upp í fjalli? Við landsbyggðarliðið jú alltaf upp í fjalli, svo mikil náttúrubörn, svo mikil fökking lífsgæði hérna út um allt. Eða verð ég bara blákaldur og segi þeim að ég hafi greinst með hvítblæði í gær?
Nei, ég myndi alltaf svara, þekki mig nógu vel. Ég er svo fökking næs:
„Nehæ!“
„Hæhæ, við erum á Austurlandinu (alltaf skulu þeir segja „Austurlandinu“ eins og fábjánar). Megum við kíkja? Krakkarnir eru með. Þá langar svo að sjá hundinn!“
„Já, endilega! Við skellum í pönnsur!“
Og svo kvíðinn. Kvíðinn. Gestgjafakvíðinn.
Ó, sjitt.
Nei. Ég ætla ekki að svara.
Fuck them.
FUVKTHEM AKLKLT TO HELL!!!!
…
Jesús minn. Það var eins og eitthvað eitur væri að yfirgefa líkamann.
Svo reiður.
Svo ljótur í hugsun.
Halló!
Hvar ertu, Jón!?
Halló!
Ertu þarna?!
Er einhver þarna inni?!
Í fráhvörfum.
Akkúrat.
Ég var í bullandi tæknifráhvörfum.
Annað hvort það eða þá að ég var að verða einsetuskrýtinn.
Á fjórða degi! (Þriðja? Man það ekki.)
All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy All work and no play makes Jack a dull boy
Það er öxi í verkfæraskúrnum. Gott að ég tók ekki með mér viskíflösku.