Dagbók frá Vöðlavík – 27072025 – kl. 15

Kl. 15:00

Sit uppréttur í fletinu mínu í skálavarðakofanum og skrifa. Esther prjónar, Elías spilar í Nintendo-spilinu sem mamma og pabbi gáfu mér í ágúst 1988 á leiðinni til Parísar. Kofinn fullur af retró digital-hljóðum, þetta er skjátíminn okkar og ég á metið. Til marks um breytt eðli þessara tækja þá nennir enginn að spila lengur en í tuttugu mínútur/hálffíma.

Iðunn teiknar. Mér finnst gaman að horfa á hana teikna. Hún er svo flink. Gerir mig stoltan. Eins og þetta sé á einhvern hátt mér að þakka sem það er ekki. Stend mig oft að því að langa til að sýna fólki myndirnar hennar. „Sjáðu, hún er bara ellefu ára. Hvernig myndir teiknar barnið þitt? Ó, er hún enn í tvívíðum myndum. Úbbs. Þetta kemur hjá henni/honum. Eða ekki.“

Það pælir enginn í því lengur þótt ég taki upp minnisbók og fari að skrifa. Ég held að ég hafi byrjað á þessu vorið 2001. Ég á allavega minningu af sjálfum mér með minnisbók bíðandi eftir lest í London. Þetta var ein af þessum úthverfastöðvum, fáir á ferli, og ég lá á bekk, með tölvutöskuna undir höfðinu, lesandi The Great Shark Hunt eftir Hunter S. og punktaði í minnisbók. Það var aldrei neitt skipulag. Ætlaði alltaf að gera eitthvað við nóteringarnar en ég fyllti bara bækurnar, gekk frá þeim einhvers staðar og týndi svo. Nema Moleskine-bókin sem Esther gaf mér í afmælisgjöf einu sinni. Ég tímdi ekki að skrifa í hana. Eða, það yrði þá að vera fullkomið því hún var svo dýr.

Börnin eru þ.a.l. alin upp við að pabbi þeirra punkti hjá sér og konan mín er löngu hætt að taka eftir þessu. Þetta er bara ég. Maðurinn hennar, hann punktar hjá sér. Ég þarf ekki að læsa minnisbækurnar mínar í skáp, það kíkir enginn í þær. Ekki mér vitanlega allavega.

Og jafnvel þótt ég kæmi að einhverjum að skoða þær – og þetta eru í raun einhversslags dagbækur, mjög persónulegar á köflum – þá væri mér bara slétt sama. Kannski bara soldið upp með mér. Sennilega myndi ég yfirheyra viðkomandi: „Hérna, hvernig fannst þér þetta sem ég skrifaði um kvöldið sem ég missti sveindóminn? Hefði ég kannski átt að fara úr fyrstu persónu yfir í aðra persónu, svona eins og Jay McInerney í Bright Lights? Súmma út, skapa fjarlægð við sjálfið? Hefurðu lesið hana? Ekki? Séð myndina þá? Með Michael J. Fox? Hvernig fannst þér paragraphusinn (myndi segja paragraphus) um sáðlátið? Too much?“

Tæki viðkomandi á taugum. Myndi drekkja honum í viðbragðaþörf hins skrifandi manns. Myndi gera kröfur til hans. „Heyrðu, engin pressa sko, en værir þú til í að renna yfir handrit sem ég er að vinna að? Mátt alveg segja nei (en ég fyrirgef þér aldrei).“

Hann – þessi svonefndi „viðkomandi“ – myndi gera þessi mistök einu sinni og bara einu sinni. Hann þyrði aldrei að opna þessa bók framar. Tæki ekki sénsinn.

Ég hef auðvitað verið spurður, þegar ég sit og skrifa í minnisbók, um hvað ég sé að skrifa. Átti til að taka það nærri mér, fannst þetta truflun, varð sjálfsmeðvitaður og það er einmitt það sem maður vill alls ekki þegar maður situr einhvers staðar og párar: Hér situr hann á Mokka, hann Jón Knútur Ásmundsson, og skrifar í minnisbók.

Hver í andskotanum þykist ég vera? Steinn Steinarr?

Ég hafði áhyggjur af því að fólk hefði skoðun á þessu. Fyndist ég tilgerðarlegur. Því hver skrifar eiginlega í minnisbók á ofanverðri 21. öld?!

Ég fór einu sinni í ferðalag með manni sem tók eftir því að ég skrifaði í minnisbók. Hann sagðist líka skrifa í minnisbók, teygði sig í innanávasann og rétti mér bókina sína. Og já, var það ekki bara Moleskine! Rándýr andskotans Moleskine. Hann sagðist vera með fulla tösku af þeim. Skrifaði víst svo mikið á ferðalögum. „Strax í fríhöfninni kemur frelsið yfir mig,“ sagði hann. „Þá fyrst losna ég úr viðjum vanans.“ Ég varð vandræðalegur þegar hann sagði þetta því þetta var ætlað mér persónulega. Hann var að reyna að tengjast en mér fannst þetta bara tilgerðarlegt. Sagði samt: „Já, ég veit nákvæmlega hvað þú meinar.“ Helvítis meðvirknin alltaf hreint.

Ég keypti mínar minnisbækur í Tiger og já, ég var pínu öfundsjúkur því mig langaði líka í Moleskine. Bókin hans var myntugræn sem mér fannst svolítið skrýtið val á lit. Óvenju kvenlegt eða eitthvað. Hefði sjálfur valið svarta eða brúna. Eins og Hemmingway. En ókei. Whatever. Ég tímdi sumsé ekki að kaupa Moleskine. Alltaf blankur. Eyddi öllum peningunum mínum í geisladiska, kiljur, smávindla, bjór, núðlur og örbylgjumat. Neyslan svo einföld og fyrirsjáanleg að einn vinur minn kallaði mig „geimfarann“ sem mér fannst soldið fyndið. En ég sannfærði mig um að það væri kannski bara skáldlegt að kaupa minnisbækur í Tiger og að ég þyrfti ekki á Moleskine að halda. Það væru bara hinir nýríku í vesturbænum sem keyptu Moleskine hvorteðer og þá ekki til að skrifa í þær nema náttúrulega uppskriftir að grænkeraréttum og/eða innkaupalista í Farmer’s Market.

Þessi maður hafði aukinheldur mikla þörf til að segja mér frá öllu sem hann skrifaði í bókina. Þetta voru allskonar punktar og drög, hendingar, myndlíkingar, hugmyndir að útvarpspistlum, hugmyndir að kvikmyndahandritum. Oft eitthvað svona „ljóðrænt“ stöff. Hann las upphátt og horfði svo á mig. Hvernig leist mér á? Vildi viðbrögð, svo að segja jafnóðum. Líktist þetta einhverju? Tók ég eftir þessum díteil um hvernig rykið settist á silfrið í kvöldsólinni? („Þetta er metafóra, skilurðu.“)

Eftir nokkra daga á ferðalagi leið mér eins og ég væri í vinnu hjá honum. Var farinn að forðast hann og vildi alls ekki vera einn með honum því þá var hann hvað ákafastur. Man t.d. eftir mér einn morguninn að fylgjast með útum hótelgluggann. Beið eftir því að ég sæi hann fara út en þá fyrst treysti ég mér til að fara niður í morgunmat.

Hann hafði sumsé fengið þá flugu í höfuðið að við værum „bandamenn í ljóðinu“ eins og hann sagði. Værum eitt og hið sama. Þetta slapp til við þriðja mann. Þá hélt hann sig á mottunni því þá gat hann náttúrulega ekki farið á trúnó, blessaður maðurinn. Tough luck.

Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ástæðan fyrir því að hann fór í taugarnar á mér – sem er vægt til orða tekið – var sú að sumt af því sem hann skrifaði var mjög flott. Hann var miklu liprari penni en ég. Gat leikið sér með orð, tvöfaldar merkingar, vel tímasettar klifanir og svo framvegis. Með stílbrögðin upp á tíu. Þetta var ljóðrænt – hvað sem það nú þýðir – en ég var bara að skrifa dagbækur í blaðamannastíl enda kann ég ekkert annað. Sæi ég fallegt ský á himni punktaði ég hjá mér:

„Ég sá fallegt ský á himni.“

Engar flottar líkingar, engin tækni, beisíklí engin ritlist í gangi. Bara hversdagslegar athuganir og svo ályktanir:

Maðurinn Konan með síða gráa metalíska (það er kúl) hárið sem situr við borðið hægra vinstramegin við barinn, snýr baki í mig, var að panta þriðja fjórða bjórinn á korteri hálftíma. Sennilega Pottþétt alki.“

Einu sinni, þegar við sátum tveir saman í morgunmat, ákvað ég að sýna honum bókina mína. Ég ætlaði að opna mig. Sýna honum „inn í mig“.

„Minnsta málið,“ sagði hann og opnaði minnisbókina mína. Tók svo upp pennann sinn, pírði augun og virti textann fyrir sér í nokkur augnablik, stakk honum svo inn á sig aftur og sótti annan. Rauðan. Og síðan las þessi drullusokkur dagbókina mína og lagfærði stafsetningu. Hann breytti t.d. „tína“ í „týna“ og skrifaði á spássíuna: „Þetta er ekki sama sögnin. Að tína er eins og að tína ber. Týna, eins og þú notar það í þessari setningu, er með ufsiloni, sögnin dregin af nafnorðinu tjón.“

Ég skalf af bræði þegar ég fór upp á herbergi aftur og hugsaði um allt sem mig langaði að gera honum og fjölskyldunni hans. Hvernig ég gæti hrint honum niður stiga, hent honum fyrir leigubíl, eitrað fyrir honum, eitrað fyrir börnunum hans. Kúkað á hann sofandi, kólumbískt hálstau o.s.frv. M.ö.o.: Die motherfucker, die!

Og svo var ég barasta bænheyrður í lok ferðalagsins. Á fremur skáldlegan hátt verður að segjast, svona eftir á að hyggja.

Á heimleiðinni, í þrjátíu og fimm þúsund feta hæð, fór penninn hans, væntanlega sökum loftþrýstings, allt í einu að freyða. Það var blek útum allt. Blek á gólfinu, á skyrtunni, á fingrum, andliti og hári. Blek í buxum og símanum og matnum. Blek, blek, blek. Og mikill vandræðagangur náttúrulega, þrjár flugfreyjur komnar til að hjálpa, hann fórnandi höndum, skildi ekki hvað í ósköpunum var eiginlega að gerast og eiginkonan hans orðin óróleg enda erfitt að ná svörtu bleki úr fatnaði. Hvað þá rauðu.

Ég sat aftur á móti pollrólegur í bekkjarröðinni fyrir aftan hann. Eins og konungur í sæti mínu og glotti lymskulega við tönn. Fannst ég bera ábyrgð á þessu einhvern veginn með mínum illgjörnu og smásálarlegu þönkum. Var Óðinn almáttugur, sá síplottandi leikjahönnuður. Sjaldan liðið betur.

Ja, hérna. Magnað hvað maður man í þessum dagbókarskrifum. Hafði ekki hugsað um þetta ferðalag í mörg ár.

Hvað ætli hafi orðið um þennan kall? Ætli hann sé orðinn útgefinn höfundur? Altso, ekki sjálfsútgefinn eins og ég? Það kæmi mér ekki á óvart.

Hvað hét hann aftur?

Ögmundur? Örlygur?

Eða var það Ófeigur?

Nei, eitthvað með Ö-i minnir mig.

Finn úr út því og sendi honum vinabeiðni á feis þegar við komum heim.

 

jonknutur