Ég var ekki fyrr sestur út á veröndina til að hugleiða hér í morgun en einn starfsmaðurinn var mættur með öskubakka handa mér og í beinu framhaldi byrjaði hann að ryksuga fyrir aftan mig. Eðlishvötin sagði mér að gera eitthvað. Svona eins og þegar nágrannar manns byrja að slá grasið, þrífa bílinn o.þ.h. þannig að hálft í hvoru langaði mig til að hjálpa honum. Í það minnsta bjóðast til að fara í uppvaskið á eftir. Samviskustreitan yfirtók líkamann og ég þurfti að beita mig hörku til loka augunun, draga andann djúpt og hverfa á vit hinnar tæru vitundar. Og viti menn: hljóðin í ryksugunni hurfu smám saman.
Ég fór bara með möntruna mína eins og forréttindaplebbinn sem ég er og vaknaði ekki til meðvitundar fyrr en ég heyrði einhvern einkennilegan slátt fyrir aftan og ofan mig. Hélt fyrst að dúfurnar væru að halda veislu í þakrennunum, eins og í einhverju ljóði sem ég las, en þetta var eitthvað annað. Eins og taktur, framkallaður með burstum og mér datt strax í hug eitthvað lag með Björk og fór að telja í huganum eins og trommara er háttur. En það var auðvitað engin glóra í þessu svo ég freistaðist til að gá:
Starfsmaðurinn var að sópa flóttastigann.
Ég þurfti andartak til að meðtaka þetta. Ljá þessu einhverskonar merkingu.
Hvers konar manneskja tæki eftir því, á öskrandi flóttanum, með eldtungurnar sleikjandi hnakkann, hvort stiginn væri ekki örugglega fullkomlega skínandi hreinn?
Mér datt í hug ein eða tvær.