Kanarí C

Ég sit hér í lobbíinu á meðan ég skrifa. Ég er eini gesturinn. Eini morgunhaninn eins og venjulega. Starfsfólkið er auðvitað glaðvaknað og mér finnst stundum eins og það byrji að ryksuga um leið og það sér mig. Eins og mamma gerði í gamla daga.

Kannski eru eyjaskeggjar ekki vanir því að gestirnir séu morgunfólk og skilur ekki þennan mann – jafnvel tortryggir – sem sest hér í lobbíið og lokar augunum í tuttugu mínútur áður en hann tekur upp tölvuna sína og byrjar að skrifa. Ætli hann sé einhverskonar úttektaraðili?

Í gærmorgun sat ég hér og hugleiddi þegar einn byrjaði að ryksuga í kringum mig. Sennilega haldið að ég væri bara sofandi. Já, eða kannski bara brennivínsdauður.

Hefði hann bara vitað. Stundum held ég að ég ætti bara að taka upp símann minn, strjúka honum með vísifingri og haga mér eins og maður. 

Í gær hitti ég fólk frá Belgíu á leikvellinum. Maður um sjötugt, kona um fertugt, barn á aldri við dóttur mína. Ég hélt á plastboltanum hans Elíasar og var í bláum íþróttabol og stuttbuxum. Sá sjötugi dró samstundis þá ályktun að ég væri „allur í boltanum“ en sonur minn, fimm ára, var hvergi nærri til að bjarga mér úr klípunni.

Sá gamli var ekki sleipur í enskunni og sökum meðfædds fæðingargalla tekur færni mín í ensku alltaf mið af enskufærni þess sem ég tala við. Þannig gæti ég sennilega bjargað mér í spjalli um póststrúkúralisma við enskan háskólaprófessor en við Belginn þurftum að nota táknmál og þegar hann áttaði sig á því að ég var Íslendingur veðraðist hann upp og fór að tala um „Arnór“ og „Eið“ og ég brosti og tók undir eins og um gamla vini mína væri að ræða.

Hefði hann bara vitað! Fótbolti fyrir syni mínum er bræðingur af handbolta og einhverjum stjörnustríðsleik sem hann spinnur jafnóðum og það eina sem ég hefði mögulega getað rætt við hann af einhverri þekkingu væri #metoo hreinsunin á íslenska karlalandsliðinu og helvítis fylleríið á honum Eið. Semsagt, eitthvað eins og „did you hear about, Gylfi?“

Dagarnir eru byrjaðir renna saman hér á hótelinu. Tölvan segir mér að það sé nítjándi febrúar en ekki hvaða vikudagur. Með örlítilli einbeitingu get ég áttað mig: Ég er á hóteli á Kanaríeyjum og það er sunnudagur. Ég ímynda mér að svona gæti þetta orðið á elliheimilinu eftir þrjátíu ár eða svo. Jafnvel fyrr. Fer eftir því hversu lengi ég nenni að hreyfa mig og passa mataræðið. Þá mun þessi elliversjón af mér einmitt hugsa: Hvar er ég? Hvert er árið? Who cares? Færið mér graut! Þykkan!

Ég sofnaði við óminn af laugardagsskemmtuninni en á kvöldin setja starfsmennirnir upp karíókípartí fyrir gráa herinn. Í fyrrakvöld komum við heim úr mínigolfi og rákum inn nefið á kvöldvökuna. Uppi á sviði var ungur maður í rauðum bol merktum hótelinu að syngja Proud Mary í útgáfu Tinu Turner. Hann söng textann af skjá og á honum var líka mynd af Tinu í 80s-múnderingunni sinni með þetta stóra og eftirminnilega 80s-hár, sveiflandi míkrafón með snúru. Tek fram þetta með „snúruna“ því dóttir mín, níu ára, spurði okkur hvers vegna það væri mynd af „kúreka“ uppi á sviði og ég, eins og fífl, fór að útskýra fyrirbærið Tinu Turner eins og dóttir mín væri geimvera frá annarri vetrarbraut, nýlent: „Tina Turner var sú alflottasta í mínu ungdæmi,“ ýkti ég og tók svo danssveifluna hennar í Proud Mary af bestu getu. Allt í einu varð ég áttræður og fyrirbærið Tina Turner jafnvel óskiljanlegra í huga níu ára barns.  

En ég þekki þessa útgáfu af laginu vel. Spilaði hana þúsund sinnum á dansleikjunum í gamla daga og þetta var bara nokkuð frambærilegur söngur hjá drengnum. Allskyns fléttur og flækjur í lok hverrar sönglínu eins og hátturinn er hjá fólki sem elst upp við þætti eins og Idol-ið og Voice, já, og svo virtist hann bara hafa gaman af þessu. Kannski besta giggið á hótelinu? Skemmtilegra en að ryksuga í kringum úttektaraðila eins og mig á morgnana?  

Þegar stuðið loksins byrjaði og lagið fór á fullt klöppuðu áhorfendur með á einum og þremur eins og vera ber og héldu út fram yfir fyrsta viðlag. Þessir kokteilar drekka sig jú ekki sjálfir og athyglin fór eitthvert allt annað.

Jamm. Svona er þetta. Lífið er lag og við klöppum með á einum og þremur fram yfir fyrsta viðlag. Svo vöxum við upp úr þessu. Því það þarf að borga þessar skuldir og skipta um þessar kransæðar.   

Segisona.  

 

jonknutur