Kanarí B

Áður en ég segi ykkur frá nakta manninum sem ég sá teygja úr sér á svölunum skáhallt á móti mér langar mig til að koma öðru að fyrst. Nefnilega að fyrsta fólkið sem ég hitti í lobbíi hótelsins voru sveitungar mínir frá Norðfirði. Þau eru tengdaforeldrar vinar míns og eins gamalgrónir Nobbarar og fólk getur orðið, kunningjar foreldra minna. Og auðvitað hitti ég þau strax á fyrsta hálftímanum okkar á eyjunni syðra!

Við segjum þetta stundum, við Íslendingar, að við séum alls staðar og stundum held ég að það sé rétt. Skrýtnast fannst mér að rekast á íslenska stelpu á einhverri pínulítilli eyju í Halong-flóa í Víetnam fyrir þrettán árum síðan. Við Esther vorum á ferðalagi, höfðum verið á Indlandi nokkrum dögum fyrr og leið á allan hátt eins og einu Íslendingunum í heiminum en svo var okkur bara heilsað á ströndinni eins og við værum stödd á Stöðvarfirði! Sem er kannski ekki vel orðað því maður heilsar sjaldnast ókunnugum á heimaslóðum svona bara afþvíbara. Við viðurkennum tilvist fólks með augngotu. Kinkum kannski kolli, ekkert sérstaklega kumpánlega, en ekki dónalega heldur. Jafnvel dulbúum við hreyfinguna þannig að hún geti þýtt nánast hvað sem er. Við getum jú ekki verið viss um að viðkomandi taki undir kveðjuna og þá getum við orðið vandræðaleg og við viljum fyrir alla muni komast hjá því. Þá getum við bjargað andlitinu með því að þykjast hafa verið að gera eitthvað allt annað, liðka hálsinn, jafnvel gerum við okkur upp væg tourette-einkenni eða bara eitthvað. Við notum ímyndunaraflið.

En hann stóð þarna, bísperrtur, með grjótharða og vel sólbakaða ístru, húðin svo brún, sjötug og bökuð að hún minnti á gamla snjáða leðurjakkann sem ég átti á blaðamannaárunum mínum. Hann var með hvítt sítt hár, þykkt yfirvaraskegg og skeggstubb undir neðri vörinni, svona eins og Frank heitinn Zappa. Heilabúið gat móttekið þessar sjónrænu upplýsingar hratt og örugglega því ég kannast við gamla hippa þegar ég sé þá. Hann var – ég endurtek – nakinn svo ég gat séð restina en góndi ekki á hana þannig að ég gæti lýst öðrum líkamshlutum jafn nákvæmlega, þið vitið, líkt þeim við útlitseinkenni annarra dauðra rokkstjarna og þess háttar. 

Og svo leit ég auðvitað hratt undan. Blygðunarkenndin var ekki særð eða neitt slíkt. Mér er alveg sama hvernig fólk vill vera. Það má vera berrassað ef það vill – ég er umburðarlyndið holdi klætt. Þetta voru meira svona ósjálfráð viðbrögð, svona eins og mér fyndist ég vera trufla hann. Svo ég leit undan, fór aftur inn og sagði krökkunum og eiginkonunni að ég hefði séð allsberan kall. Dóttir mín, níu ára, vildi gjarnan fá að sjá líka, svona eins og ég hefði sagt henni að ég hefði séð stórfenglega kanaríska eðlu þarna úti en hann var horfinn og þetta hljómaði í hennar eyrum eins og hvert annað pabbagabb.

En hann var þarna. Nódjók. Kannski sá hann mig og varð vandræðalegur fyrir mína hönd en ég held ekki. Allt í fari hans benti til mikils sjálfsöryggis. Hvernig hann stóð þarna gleiður og teygði út handleggina, einn í heiminum, vitandi fullvel að fólk eins og ég kemur og fer. Ég verð horfinn að eilífu eftir nokkra daga. Já, eða bara samstundis. Ég var aldrei til í hans augum. Ég var ekkert.

Þetta var borgarbúi. Fullyrði það. Þeir haga sér stundum eins og strandaglópar á eyðieyju jafn öfugsnúið og það hljómar. Í mannmergðinni er borgarfólkið ósýnilegt og það getur, sé það sæmilega illa uppalið, hagað sér að vild. Ekki í smábænum. Vér smábæjarmenn erum hinir einu sönnu diplómatar. Við erum upptekin af náunganum sýknt og heilagt og getum aldrei um frjálst höfuð strokið.

Maður velur sér ekki vini í smásamfélögum nema að litlu leyti. Þú fæðist í litlum firði fyrir austan og ef þú ákveður að setjast að verður þú að finna þér vini. Sameiginleg áhugamál, stjórnmálaskoðanir, kyngervi og svo framvegis verða aukaatriði. Það er bara ofgnótt, sem ég geri ekki lengur ráð fyrir, að hitta vinstrikrata niður í bæ sem fílar Sykurmolana. Smábærinn er ekki morgunverðarhlaðborð á hóteli við miðbaug þar sem þú getur á hverjum morgni sett saman hinn fullkomna dögurð eins og þú sért að púsla saman listsýningu í Metrópólítan NYC! Smábærinn er múslí og AB-mjólk! Sættu þig við það, maður!

Í smábænum finnur þú leiðir til að láta þér lynda við náungann því þú munt hitta hann fyrr eða síðar í eigin persónu. Þú getur ekkert blammerað manninn á Facebook bara sísona og reiknað með því að þú þurfir ekki að horfast í augu við hann framar. Þú munt gera það klukkustund síðar við mjólkurkælinn í Krónunni! Þurfir þú að fá útrás fyrir gremjuna þarftu að læra að tala undir rós og dulbúa meiningarnar. Felulita þær og vega úr launsátri.    

Hvað um það. Ég bara get ekki farið allsber út á svalir, hér suður við miðbaug, jafnvel þótt ég gjarnan vilji. Það er útilokað því ég er ekkert búinn að gleyma tengdaforeldrum vinar míns frá því í gærmorgun. Ég vil ekki gera þeim þetta, hitta þau svo bara í morgunmatnum, slafrandi í mig hráskinku og spældu eggi, eins og ekkert hafi í skorist. 

Eins og þeir segja:

Þótt þú farir úr firðinum fer fjörðurinn ekki úr þér.

 

jonknutur