Furðulegt hvernig hugurinn virkar, hugsa ég.
Rútan er full af gráu hári á leið sinni á „all you can eat/drink“ einhvers staðar á Kanarí og svo okkur Esther og börnunum, tengdamömmu og Margréti, vinkonu okkar.
Við sitjum aftast. Ég horfi yfir hópinn. Fólk af sömu kynslóð og gerði stjórnlausan hárvöxt vinsælan fyrir 1970. Grátt hár og skallar. Ágætis hreyfigeta en hjarta- og æðakerfið mögulega ekki í toppstandi ef marka má gönguna frá flugvél að farangursfæribandinu. Tíu mínútna spölur og tvisvar sinnum sé ég eiginkonu stumra yfir eiginmanni. „Svonasvona, Eyjólfur minn,“ gætu þær hafa sagt til að hressa þá við, klappandi þeim létt á bakið. Margrét er menntaður læknir og ég sé á augnaráði hennar að hún á von á hverju sem er.
Fararstjórinn réttir mér umslag. Ég opna það og það fyrsta sem ég dreg upp er blað með símanúmeri heilsugæslunnar. Right.
…
„Þeir voru að hleypa úlföldunum út í Sahara,“ segir fararstjórinn. Þannig útskýrir hún mistrið á eyjunni og í rútu fullri af eldri borgunum gerir enginn athugasemd. Enginn hlær. Kannski er hún að segja satt, hugsa ég, og fólk er bara búið að heyra þennan brandara of oft. Því þetta er fólk í sinni tíundu ferð til Kanarí. Þegar fólk hættir að vinna kemur það aftur og aftur og aftur til eyjunnar og svona ferðalag er bara eins og hver önnur hjartaþræðing. Fararstjórinn nefnir nokkra með nafni í kallkerfið í rútunni: „Jón og Gunna? Þið eruð á Turboclub eins og venjulega er það ekki?“
Esther horfir á mig og ég les upphrópunarmerkið á vörum hennar. „Turboclub!“. Við hugsum það sama: Enn hvað þetta er skrýtið val hjá eldri borgunum og ég gúggla hótelið, eða klúbbinn, strax. Túrbóclub fær toppeinkunn á TripAdvisor og þess er sérstaklega getið hversu þrifið starfsfólkið er. Ég er engu nær um þessa nafngift og hún virðist jafn tilviljanakennd og útíhött og þetta með úlfaldana.
´
Það er svo merkilegt að eftir því sem maður eldist fer maður að kunna meta svona hluti. Ég þekki það sjálfur. Maður kann orðið betur að meta vel þrifið anddyri á hóteli en „all you can drink“ barinn aðeins innar. Maður strýkur vaskinn á hótelherberginu og tekur út fingurgóminn, virðir hann fyrir sér, rannsakar hann með pírðum augum. Hvers konar skán er þetta sem ég greini? Storkið hreinsiefni eða hvur fjandinn? Ég vil ekki vita það og hringi í móttökuna. Ég vil aukaþrif á herbergið mitt á meðan ég fer í kvöldmat. Takk.
Svolitlar ýkjur en ekki miklar. Ég á t.d. einn félaga, aðeins fjórum árum eldri en ég, sem fullyrðir að fólk sem býr ekki um rúmið sitt sé í raun og veru „lifandi dautt“. Hann er ekkert að grínast. Hann segir það „lifandi dautt“ og ég veit að honum er alvara því þegar ég spyr hvort hann meini þetta svarar hann: „Já, ég meina þetta.“
Það hlýtur að vera erfitt að vera aldraður maður og eiga þennan félaga minn fyrir son. Hvernig haldiði að það sé að fá hann í heimsókn? Þú ert kannski í gúddí fíling, búinn að sofa út til hálf ellefu, situr við eldhúsborðið með kaffibollann þinn og lest blaðið. Þetta eru laun erfiðisins en allt í einu er hann mættur út á mitt gólf því auðvitað krefst hann þess að vera með lykla að húsinu þínu, strunsar beint inn í herbergi og sjá: Gamli kall! Þú hefur gleymt að búa um rúmið þitt!
Þú lítur sakbitinn undan augnaráði hans. Lifandi dauður. Þú ert ekki lengur eldri maður að livva og njódda með engum kvöðum eða skuldbindingum. Þú ert gamall og roskinn kall. Sötrandi þitt lapþunna kaffisull með sleftauminn útum hægra munnvikið. Varla sjálfbjarga. Lifandi dauður.
…
Ég horfi út um gluggann. Við keyrum framhjá vindmyllugarði. Sumar eru nálægt okkur og þá loksins áttar maður sig á því hvað þetta drasl er risavaxið. Ekki frekar en maður gerði sér grein fyrir því hvað álverið á Reyðarfirði var stórt fyrr en maður ók í fyrsta sinn fram hjá því. Það tók dágóða stund minnir mig.
Ég horfi á þær. Vindmyllurnar. Sumar eru á hægri hreyfingu en aðrar eru stopp og þær standa þarna eins og uppgefnar og minna mig á einhvern fjandann. Ég þarf hugsa til að átta mig. Einn spaðinn vísar upp á meðan hinir standa út á hlið og síga örlítið. Lafa líkt og handleggir. Á hvað minnir þetta mig eiginlega?
Jú, svei mér þá. Þær minna mig á frægustu ljósmyndina frá Abu Ghraib-fangelsinu. Þessari af fanganum með hettuna.
Vindmyllur – orkuframleiðsla – íslenskt álver – amerísk heimsvaldastefna
Furðulegt hvernig hugurinn virkar.