Við erum farin til Kanarí.
Stutt stopp í Reykjavík og við fórum með börnin og tengdamömmu rakleitt í IKEA. Ekki til að versla heldur til að fara út að borða. Á matseðlinum var hægt að fá kjúklingahamborgara, ýsu í orly, veganbollur, kjötbollur og plokkfisk. Já, ég man þetta. Við fengum okkur ýsuna, plokkfiskinn, brauð með hangikjöti fyrir tengdó og kjötbollur fyrir börnin, tvær rjómabollur og kladdköku, gos og kaffi til skiptana. Fyrir þetta borgaði ég rétt rúmar 5400 kr. og mér til undrunar varð ég gripinn einhvers konar ofsakæti. Ég bara réð ekki við mig, hló að öllu og lék á alls oddi. Sagði m.a. söguna af manninum sem ég kallaði afa sem var svo þrjóskur að þegar hann fékk kíghósta sem barn neitaði hann að hósta og náði fullri heilsu á undraskömmum tíma.
Svona er ég svag fyrir góðum díl. Eða kannski er ég bara nískur. Það gæti allt eins verið. Nískutaugina má alveg finna í fjölskyldunni minni. Ætla ekkert að neita því.
Það verður auðvelt að gera mér til geðs. Gemmér bara góðan díl á kjötbollum og ég verð ljúfur sem lamb.
Jess! Við erum farin til Kanarí.