Ég hef ákveðið að leita aftur á náðir ritstíflustokksins sem konan mín gaf mér í jólagjöf í hittiðfyrra. Hann spyr:
What career advice would you give to your 16-year-old self?
Hvaða starfsráðgjöf hefði ég veitt sextán ára útgáfunni af sjálfum mér?
Right.
Sko…
Við hjónin erum auðvitað að reyna ala börnin okkar þannig upp að þau hafi sjálfstraustið til að taka svona ákvarðanir sjálf og þau þori að fylgja hjartanu. Ef sonur minn vill verða ljósmóðir vona ég að hann láti engar fyrirframgefnar hugmyndir um starfið (svosem eins og að konur eigi að sinna því) hindra sig. Og sömuleiðis vilji dóttir mín verða vörubílstjóri þá bara go for it. Ef það er það sem þú vilt, ástin mín.
Ég vona að þau verði hugrökk. Að óttinn stjórni þeim ekki.
Og þetta er beisíklí það sem ég myndi segja við sextán ára útgáfuna af sjálfum mér.
…
Ég var að vísu svo barnalegur að ég spáði ekkert í svona hluti þegar ég var sextán ára. Í minningunni lifði maður bara í núinu og fylgdi vinunum. Ég fór í menntaskóla vegna þess að þeir fóru í menntaskóla.
Síðustu önnina mína þurfti ég að leiða hugann að þessu og sótti um í FÍH. Alvaran á bak við ákvörðunina var samt ekki meiri en sú að ég fór ekki suður í inntökupróf. Sendi þeim þess í stað kassettu með trommusólói! Veit ekki hvort það var ofmat á sjálfum mér eða bara hrein leti. Sittlítið af hvoru hugsa ég en whatever…ég komst ekki inn.
Í minningunni finnst mér eins og foreldrum mínum hafi ekkert litist á þetta. Pabbi minn rennismiðurinn var eins og biluð plata að því leyti að hann var sífellt að benda mér á rafeindavirkjun. Það væri framtíð í henni og ég þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Auðvitað hafði hann rétt fyrir sér en ég var aldrei týpan sem fílaði Legó. Ég fór nú samt í rafvirkjun hjá Hjalla en vegna verkfalls kennara hætti ég eftir sex vikur og fór lóðbeint í netagerðina. Því atvinnuleysi var ekki option á mínu heimili. Vinnan gerir okkur frjáls.
Og mömmu minni ljósmóðurinni hugnaðist vel að ég lærði eitthvað sem tryggði vinnu hjá hinu opinbera. Lífeyrisréttindin sjáiði til.
Það sem þau voru í raun að segja var þetta: Gerðu eins og við og þér mun allavega ekki farnast mikið verr.
…
Þriðja manneskjan til að hafa skoðun á þessu var svo námsráðgjafinn í menntaskólanum sem lagði fyrir mig áhugasviðspróf og sagði augljóst að ég yrði flottur enskukennari.
Ég er sennilega ekki mjög ráðþægur því ég fór ekki eftir neinum ráðum. Í háskólanum lærði ég bara eitthvað. Skráði mig í sálfræði, svo í hagfræði en endaði í sagnfræði. Skipti í miðjum klíðum yfir í félagsfræði vegna þess að besti vinurinn var í henni.
Það var ekki fyrr en ég hóf störf sem blaðamaður hjá Austurlandi að ég ákvað að blaðamennska væri sennilega sniðug fyrir mann eins og mig. Sem hún var að mörgu leyti og í dag er ég upplýsingafulltrúi hjá opinberri stofnun.
Ég meikaði það, mútta mín.
…
Ef börnin verða eins og ég og vita ekkert í sinn haus mun ég segja þeim að það sé ekkert að óttast. Ég veit ekki enn hvað mig langar að verða þegar ég verð stór og það er líka til vinna fyrir þannig fólk. Og þess utan segði ég þeim að vinna sé ekki allt. Að lífið utan vinnu sé það sem gefur því gildi.
Sumsé, finnið ykkur góðan maka og eignist börn. Ef einhver tími er aflögu, lesið heimspeki og bakið brauð.
Möo: Gerið eins og ég.