Tilfinningarakur

Ritstíflustokkurinn biður mig um að segja frá hvenær eitthvað kom mér „ánægjulega“ á óvart.

Það hætti að rigna í síðustu viku, skýin voru dregin frá og tunglið elti okkur Elías heim úr skólanum á föstudaginn. Þetta fyllti mig fölskvalausri og nánast klisjukenndri gleði sem entist fram á kvöld. Og það út af fyrir sig kom mér nokkuð ánægjulega á óvart. Sumsé, viðbrögð mín en ekki veðurfarsbreytingarnar sjálfar. Veðrinu er sama hvað mér finnst. En mér er greinilega ekki sama um veðrið. 

Veit ekki hvort þetta var svar. Ertu með eitthvað fleira, kæri stokkur?

What are the three major emotions that you’re carrying right now?

Í fyrsta lagi: Í augnablikinu einkennist lund mín af kvíðablandinni eftirvæntingu. Það er viðburður í dag á vegum vinnunnar þar sem ég á að sjá til þess að hlutirnir gangi sæmilega snuðrulaust fyrir sig. Þetta er eðlilegur sviðsskrekkur, tilfinning sem ég reyni ekki að ýta frá mér. Reynslan hefur kennt mér að hún heldur mér á tánum. Gæti líka verið áhrif koffíns en ég er búinn að drekka þrjá tvöfalda espresso síðan ég vaknaði. Jú, sennilega eru þetta áhrif koffíns. Svo margar samviskusamar konur að vinna með mér í dag að það getur ekkert klikkað.

Í öðru lagi: Við erum nýbúin að koma krökkunum í skólann. Þessi klukkustund milli sjö og átta er tími sem snýst um að gleyma engu. Ég er með þennan tékklista nokkurn veginn lærðan utanbókar hafandi átt börn í leikskóla í níu ár. Þið vitið: koma þeim á fætur, ýta og nuddast þar til þau eru burstuð, klædd og komin á ról. Þó gleymist alltaf eitthvað. Ein tónskólabók, ullarsokkar, heimaverkefnið etc. en aðallega gleymi ég einhverju sjálfur. Mæti ógreiddur í vinnuna, í mislitum sokkum, peysan á röngunni etc. Og á þessum níu árum hafa orðið nokkuð meltdown eins og þetta er kallað í dag (kallaðist brjálæðiskast í mínu ungdæmi). Þótt langt sé síðan síðast býst ég alltaf við því að einhver byrji að öskra á mig eða leggist í gólfið og fari svo að öskra á mig. Líklega er þetta einhversslags áfallastreituröskun. Þarf ég að fara í þerapíu eins og hver annar fyrrum hermaður í Írak? Veit ekki. Kannski ég prófi fyrst að draga úr kaffidrykkjunni.  

Í þriðja lagi: Ég upplifi stundum reiði sem foreldri. Þetta gerist t.d. þegar ég fer með yngra barnið í fimleika. Mér er skítsama um æfingarnar, hvort drengurinn geri þær réttar eða ekki. Who cares? Hann er ekki að fara á Ólympíuleika en ég fylgist með hvernig hann kemur fram við önnur börn og hvernig önnur börn koma fram við hann. Finnist mér hann órétti beittur langar mig til að ganga að sökudólgnum, öskra á hann og trámatísera for life. Fara svo til foreldranna og húðstrýkja þau með svipu sem ég geng að sjálfsögðu ekki með. Ég ranka samt alltaf við mér áður en ég læt til skara skríða.

Þetta eru allt saman eðlilegar tilfinningar. Ekki reyna að halda öðru fram en jú, ég er ekki frá því, drekk sennilega aðeins of mikið kaffi. 

That’s it í bili. 

 

 

jonknutur