i
Eftir bankahrunið ´08
keypti ég haglabyssu
ekki til að skjóta bankamenn
og þaðan af síður
sjálfan mig
ég ætlaði að gerast
veiðimaður
eins og forfeður mínir
og héðan í frá yrðu
teknir upp nýir siðir
í nýrri
og sjálfbærri veröld
án
peningamarkaðssjóða
ii
Ég var léleg gæsaskytta
og í þau fáu skipti
sem ég hæfði
skaut ég
af þessum greyjum
væng
annan fótinn
eða framan af goggi
og þurfti að elta þær uppi
limlestar
og snúa úr hálslið
með berum
blóðugum
höndum
og það brást ekki
að í hvert skipti
horfðumst við í augu
fórnarlambið og ég
og mér leið eins og
morðingja
en ekki veiðimanni
á þessu er munur
skilurðu það?
Gísli Marteinn
iii
Svo ég hætti þessu
bersýnilega
of mjúk
týpa
en hafði
gaman af gæsaflautunni
enda allur í mússíkinni
og þegar ég gekk
meðfram ánni
inn við Grænafell
spilaði ég hvern
flautukonsertinn
á fætur öðrum
og smám saman
tók ég eftir
að „tónlistin“ mín
hafði áhrif
og það er
skal ég segja þér
óuppfylltur draumur hjá
langflestum tónlistarmönnum
og einn daginn tókst mér
svo vel upp
að ég ruglaði flugtaktinn hjá
einni
svo hún
flaug beint á rafmagnsvír
og féll
vinaleg til augnanna
en þung eins og blý
steindauð
til jarðar